03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég þakka þessi svör við fyrirspurnunum, svo langt sem þau ná. Mér sýnist það algerlega upplýst og viðurkennt af hæstv. forsrh., að til efnahagsmrn. hafi verið stofnað án þess, að fyrir hendi hafi verið nokkur sérstök lagaheimild til þess. Eins og ég tók fram áðan, tel ég það enga afsökun í því efni, þó að vísað sé til þess, að áður fyrr hafi það átt sér stað, að ráðuneytisskrifstofur hafi verið settar á stofn, án þess að frá því væri gengið með formlegum hætti. Við vitum það sjálfsagt báðir jafnvel, að á vissum sviðum þýðir ekki að vísa til fordæma einna,

Viðvíkjandi síðari lið fyrirspurnarinnar verð ég að segja, að það var hálfgert goðsvar, sem þar var gefið, en þó skildist mér niðurstaðan vera þar sú, að sérstakt iðnmrn. væri ekki enn þá sett á stofn. Það skildist mér vera niðurstaðan. Ég veit það, að hæstv. dómsmrh., sem svaraði þeirri fsp., hefur fullan skilning á því málefni, sem ég hef hreyft hér, vegna þess að mér er kunnugt um það, að einmitt hann hefur hreyft því hér á Alþingi með þáltill., ef ég man rétt, að nauðsyn bæri til að setja löggjöf um stjórnarráðið, svo að þar léki ekki allt á jafnlausu, eins og þar hefur nú gert. Og viðvíkjandi því, að ekki muni stafa kostnaður af þessu, — ja, maður getur ekki sagt iðnaðarmálaráðuneyti — þessari iðnaðarmáladeild, — þá er það nú svo, að reynslan mun vera sú, að alltaf hafi stafað nokkur kostnaðarauki af stofnun nýrra ráðuneyta. Það getur að sjálfsögðu verið eðlilegt og óhjákvæmilegt, að ný embætti og nýjar stjórnarstofnanir séu settar á stofn, en í þeim efnum verðum vér Íslendingar vissulega að gæta mikillar hófsemi. Annars yfirbyggjum við þjóðarskútuna. Réttmæt varfærni er hér bezt tryggð með því, að Alþ. fjalli um þessi mál, þ.e.a.s., að ekki sé hægt að setja á fót ný embætti og nýjar stjórnarstofnanir án atbeina þess. Þar er fjallað um málin fyrir opnum tjöldum. Hér á Alþingi vissulega að standa á verði. Engri ríkisstj. á að haldast það uppi að sniðganga Alþ. í þessum efnum. Það er hlutverk Alþ., en ekki ríkisstj., að stofna ný embætti. Ég vona, að þessi fsp. mín verði þó til þess að minna á og vekja athygli á þessari sjálfsögðu grundvallarreglu, og ég vona, að þessar litlu umr. verði til þess að girða fyrir það, að slík mistök eigi sér stað framvegis.

Sumir segja e.t.v., að þetta sé ekki stórt mál, að það skipti ekki svo miklu máli, þar eð ríkisstj. mundi auðvelt eftir á, eftir því sem stjórnarháttum er háttað hér á landi, að fá samþykki Alþ. fyrir þeim embættum og stjórnarstofnunum, er hún telur nauðsyn á. En slíkur hugsunarháttur er byggður á miklum misskilningi. Hér er sannarlega ekki um neitt smámál að ræða.

Það er lögbundið stjórnarkerfi og lögskipan þjóðfélagsins, sem hér er um að tefla, ef dýpra er skyggnzt. Landstjórnarmenn eiga sem aðrir að vera bundnir af lögunum og mega ekki taka sér vald, sem þeir ekki hafa, Og ég vil geta þess, að því var ekki andæft af hæstv. forsrh., að það hefðu verið gersamlega brotin lög í sambandi við veitingu þessa ráðuneytisstjóraembættis, og það skiptir engu í því sambandi, hvort hæfur maður hefur valizt eða ekki. Það eru lög í landi hér, að embætti skuli auglýsa, þau embætti, sem lög 38 1954 taka til, öll að undanteknum embættum í utanríkisþjónustunni. Þessa hefur ekki verið gætt. Á því vantar alla skýringu. Og eitt er víst: að sú embættafjölgun, sem hér hefur átt sér stað, og starfsmannaaukning, sem stefnt er að með stofnun hinna nýju ráðuneyta, sem hér er um að ræða, er í litlu samræmi við kjörorð núv. hæstv. ríkisstj. um, að Íslendingar lifi nú um efni fram. Á hinn bóginn er hún alveg í framhaldi af og í ágætum stíl við þá ráðherrafjölgun og þá bílstjórafjölgun, sem átt hefur sér stað hjá núv. ríkisstjórn.