10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það er víst hægt að deila um flest hér á Alþ., ef hægt er að hefja langvarandi deilur um, hvernig ber að skilja ákvæði laganna um breyt. á tekjuskatti og eignarskatti frá 12. maí 1959.

Í 1. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá tekjum skal draga, áður en skattur er á þær lagður:

a) Atvinnutekjur þær, sem skattþegn hefur aflað sér með eftir-, nætur- og helgidagavinnu við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar og ekki eru orlofsskyldar. Atvinnurekendum skal skylt að láta skattyfirvöldunum í té vinnuskýrslur, er sýni glögglega, hver hluti af greiðslum til starfsmanna þeirra falli undir þetta ákvæði. Einnig skulu launþegar gera grein fyrir því á skattframtali sínu, hvort einhver hluti tekna þeirra og þá hvað mikill eigi að falla undir þetta ákvæði. Ráðherra ákveður í reglugerð, hver störf falli undir þetta ákvæði, og skal þá við það miðað, að það verði einungis bein störf við framleiðsluna sjálfa.“ Og svo kemur: „Ákvæði þessi skulu koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1960.“

Mér finnst, að þessi ákvæði og þessi lagagrein séu mjög skýr og það sé mjög erfitt og þurfi alveg sérstaka lagni til að geta misskilið þetta. Að hæstv. fjmrh. geti tekið sér fyrir hendur að fresta framkvæmd l. að eigin geðþótta, er að mínum dómi hrein fjarstæða. Hæstv. ráðh. ber að sjálfsögðu að fara að lögum í þessum málum sem öðrum. Hæstv. ráðh. getur svo náttúrlega, hvenær sem er, flutt breyt. við l., en á meðan þau eru í gildi, ber hæstv. ráðh. að láta lögin koma til framkvæmda. Að deila um það, hvenær þetta ákvæði l. skuli koma til framkvæmda, er hrein fjarstæða. Í 1. gr. stendur: „Ákvæði þessi skulu koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1960.“ Að sjálfsögðu ber því að láta skattafrádragið, sem lögin gera ráð fyrir, koma til framkvæmda við skatt af tekjum 1959. Um þetta er ekki hægt að deila með neinum rökum. Það, að samin hafi verið reglugerð af embættismanni ríkisins, sem gengur alveg í berhögg við anda laganna, eftir því sem hér hefur verið upplýst, verður að teljast mjög fráleitt og vítavert, og er ekki annað hægt en mótmæla slíkum vinnubrögðum.