30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. (EystT) var að tala um, að ég hefði verið með vífilengjur í svörum mínum hér fyrir viku og svör mín hefðu verið óljós og óskýr og fsp. eiginlega ósvarað. En ég verð að taka það fram, að ég get ekki svarað betur en ég þá gerði og hef engu við að bæta. Áburðarverðið var að vísu ekki þá formlega ákveðið, eins og ég sagði, en það er það nú, og það eru þær tölur, sem gilda, sem ég þá nefndi. Fóðurbætisverðið var þá formlega ákveðið, og þau svör, sem ég gaf þá, eru alveg skýr nú, vegna þess að nú er bæði fóðurbætir og áburður seldur á því verði, sem ég nefndi þá, en þorði þó ekki alveg að fullyrða eða vildi ekki alveg fullyrða að væri nákvæmlega það, þar sem ekki var formlega búið að ganga frá því, þótt það væri að vísu sama sem.

Ég hef þess vegna engu við þetta að bæta, og ég get ekki gert að því, þótt hv. 1. þm. Austf. og fleiri hv. þm., sem hér hafa talað, hafi látið svo sem þeir skildu ekki. Ég veit, að þeir skildu alveg það, sem ég sagði, en þeir sáu hins vegar einhverja ástæðu til að segja það hér í hv. d. og láta það koma í Tímanum daginn eftir, að svörin hefðu verið loðin og ófullnægjandi. En ég hef engu við það að bæta.

Hitt er svo gott, þegar hv. 1. þm. Austf. talar um, að það eigi ekki að ræða um pólitík í sambandi við fsp. Við skulum sleppa því hér, en við gætum víst báðir rifjað ýmislegt upp í því sambandi. Ég býst við, að þessi hv. þm., þegar hann var ráðh., hafi stundum brugðið á leik og ekki alveg svarað hlutlaust öllum fsp., sem til hans var beint. En um mitt svar er allt öðru máli að gegna, því að þar fór ég ekki neitt út í pólitík, heldur gaf hlutlausar upplýsingar og gerði hlutlausan samanburð á því, sem hafði skeð fyrir tveimur árum, og því, sem nú hafði skeð. Og ég leyfði mér að benda á það, að ef bændur hefðu fengið niðurgreiðslu á fóðurbæti og áburði og afurðasölulöggjöfin hefði verið lagfærð 1958 eins og nú hefur verið gert, þá væru bændur ekki nú í sömu úlfakreppu og þeir eru. Það er aðeins þetta, sem ég sagði. Ef hv. þm. kallar þetta pólitík, þá get ég ekki við því gert. Þetta er staðreynd. Þetta er það, sem menn þreifa á, og þýðir ekki fyrir einn eða annan að þræta fyrir.

Hv. 3. þm. Vesturl. (HS) var að tala um, að það væri fagnaðarefni, að ég skyldi viðurkenna, að það væri hollt að taka heima hjá sér það, sem þjóðin þarf að nota. Ég hélt, að hv. þm. vissi það, að þetta var engin ný kenning hjá mér. Ég hef heldur aldrei fordæmt það að taka erlend lán til arðvænlegrar uppbyggingar, svo sem sementsverksmiðju, áburðarverksmiðju, virkjana o.s.frv. Það, sem ég hef átalið, er að taka erlend lán, sem verða að eyðslueyri. Ég hélt satt að segja, að það væri enginn ágreiningur á milli mín og hv. 3. þm. Vesturl. um þetta, og ég held, að það geti ekki skeð, ég held, að við hljótum að vera þarna á sama máli.

Hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) var að tala um, að það væri ekkert á fjárl. til niðurgreiðslu á fóðurbæti og áburði. Þetta er hreinasti misskilningur. Það er undir einum lið og engin ástæða til þess að vera að flokka það á fjárl., hvað fer til niðurgreiðslu á fóðurbæti og áburði eða hvað fer til niðurgreiðslu á mjólk og kjöti. Það er engin ástæða til þess að vera að flokka það. Þetta er undir einum lið, og ríkisstj. hefur heimild til að haga niðurgreiðslum á þann hátt, sem henni sýnist bezt henta hverju sinni, að auka niðurgreiðslu á mjólk og kjöti eða minnka niðurgreiðslu á mjólk og kjöti o.s.frv. En ég veit, að hv. 6. þm. Sunnl. veit, að þetta er ætlað á fjárlögum til niðurgreiðslna, þar sem hann er í fjvn. og er kunnugur fjárlögunum.

Svo var það ein setning, sem hv. þm. sagði hér áðan, að bændur hafi haldið, að niðurgreiðslan ætti að koma til framkvæmda þeim til hagsbóta. Ég geri ráð fyrir því, að bændur séu ekki í neinum vafa um það, að úr því að fóðurbætir og áburður er greiddur niður, þá er það þeim til hagsbóta að því leyti, að þeir þurfa minni peninga að láta fyrir þessar vörur en þeir annars hefðu þurft. Ég býst við, að þegar til lengdar lætur, geti þetta einnig orðið neytendunum til hagsbóta. Þetta er framkvæmdaratriði, sem ég hef haldið að ekki þyrfti að deila um, og satt að segja er ekki hér um að ræða neinar deilur út af þessu, ekki málinu sjálfu, heldur hafa hv. framsóknarmenn hér í d. gert það að gamni sínu að taka til máls og láta sem þeir skildu ekki mælt mál. En ég sé eiginlega ekki, hverjum þeir ætla að skemmta með slíku háttalagi.