16.02.1960
Neðri deild: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég viðurkenni fyllilega þessa aths. hv. 2.landsk. (EÓS), og þetta kom einmitt nokkuð til tals á milli okkar, sem vorum í landbn., og það var sérstaklega það, sem fyrir mér vakti, ef það væri þá hægt að gefa lögin út í heild á eftir, þegar búið væri að fella þetta inn í. Það er alveg rétt líka, að þetta er eingöngu II. kafli laganna, sem þarna er umsaminn, og það mundi sennilega ekki þurfa að umsemja þetta mjög mikið, til þess að hægt væri að fella þetta saman. Greinaskipun mundi eitthvað breytast, en að öðru leyti er þetta sem sagt II. kafli laganna, sem þarna er endursaminn. Hins vegar kom okkur saman um, að það væri ekki nein þörf á því að gera þetta, vegna þess að eins og venja er í lögum, er það skýrt tekið fram, að þau ákvæði, sem koma í bága við þau lög eða þennan viðauka, falli að sjálfsögðu úr gildi. En það er ekkert í veginum af hendi okkar í landbn. að taka þetta til athugunar nánar, ef Alþingi sýnist betur á því fara.