24.03.1960
Neðri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

65. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í þessu fjölþætta og stóra máli, sem ég vildi hér minnast á, en það er hið svonefnda skerðingarákvæði í 22. gr. laganna. Út af því atriði hefur okkur þm. Norðurl. v. borizt erindi fyrir nokkru frá félagi fatlaðra manna á Siglufirði. Við fengum þetta í símskeyti 29. febr., og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa það hér upp. Það hljóðar þannig:

„Á fundi vorum í dag var einróma samþ. að senda öllum þm. Norðurlandskjördæmis vestra áskorun að beita sér fyrir á þessu þingi að afnema það ákvæði tryggingalaganna, að réttur til elli- og örorkubóta skerðist eða missist við tekjur elli- og örorkulífeyrisþega. Vísar fundurinn til fyrri röksemda, að óskynsamlegt virðist, að löggjafarvaldið hefti á þann hátt sjálfsbjargarviðleitni þegnanna.“

Undirskriftin er: Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á Siglufirði. Meyvant Rögnvaldsson og Björn Stefánsson.

Ég vildi skýra hv. þingdeild frá þessu erindi. Fleiri slík hafa borizt til þingsins, m.a. erindi frá félaginu Sjálfsbjörg í Reykjavík, og hv. 4. þm. Reykn. (JSk) skýrði frá því í framsöguræðu sinni um þetta mál.

Ég ætla ekki að hafa um þetta efni mörg orð. Þetta ákvæði er öllum kunnugt, og hefur þegar verið mikið um það rætt. Það hefur alla tíð verið sem bráðabirgðaákvæði í lögunum um almannatryggingar, en jafnan fram að þessu endurnýjað, þegar að því var komið, að það átti að falla úr gildi. Ég tel, að mörg rök hnígi að því, að það eigi ekki að framlengja þetta ákvæði lengur og að það eigi að fella það úr lögum nú þegar. Má nefna það m.a., að menn eru nú búnir að borga iðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins um langan tíma og hafa þar með keypt sér þennan rétt til elli- og örorkulífeyrís og því sjálfsagt, að þeir fái að njóta hans. Það má segja, að það hafi verið öðruvísi ástatt að þessu leyti, þegar tryggingalöggjöfin upphaflega var sett, því að þá voru menn ekki farnir að borga fyrir þessa tryggingu, og átti það þá fremur rétt á sér að hafa þessi skerðingarákvæði í bili.

Samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir, á að auka mjög fjölskyldubætur, og svo langt er gengið, að hjón, sem hafa aðeins eitt barn á framfæri, fá fjölskyldubætur. Þetta hefur verið rökstutt með því, að efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem nú er verið að framkvæma, leggjast með þeim þunga á allan almenning, að það sé nauðsynlegt þess vegna að láta fólk hafa þessar bætur. Ég vek athygli á því, að þessar fjölskyldubætur eru engum takmörkunum háðar. Þeir, sem hafa miklar tekjur, fá þær alveg eins og hinir, sem tekjulágir eru. En hví skyldu þá ekki elli- og orkulífeyrisþegar einnig fá sínar bætur án þeirrar skerðingar, sem enn er í lögum? Dýrtíðaraukningin hin mikla, sem nú leggst á alla landsmenn, lendir ekki síður á þeim en öðrum.

Það virðist vera nokkuð óljóst, hvað vakir fyrir hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar, að því er þetta atriði varðar. Eins og við vitum, fellur það úr gildi af sjálfu sér um næstu áramót, ef ekkert er að gert. En eins og ég gat um, þá hefur þetta jafnan verið framlengt áður, þegar það hefur átt að falla niður, og það virðist vera enn óljóst, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir að því er þetta snertir. Ég tel því rétt fyrir þingið að samþ. fram komnar till. um að fella þetta ákvæði nú þegar úr gildi. Má á það minna, að þetta mál var til meðferðar á siðasta þingi og afnám skerðingarinnar var samþ. hér í hv. Nd. Málið var komið til síðustu umr. í Ed., ef ég man rétt, þegar það var skyndilega stöðvað.

Ég vil, um leið og ég kem á framfæri þessu erindi þeirra Siglfirðinganna, mæla hið bezta með því, að brtt. um afnám þessa skerðingarákvæðis verði samþ. í hv. deild.