30.03.1960
Efri deild: 49. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1856 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. 1. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir í heilbr.- og félmn., að ég fyrir mitt leyti vildi stuðla að því, að frv. þetta gæti fengið svo skjóta afgreiðslu hér í þessari hv. d., að það gæti tekið gildi sem lög, áður en annar ársfjórðungur hefst í starfsemi trygginganna. Augljóst er, að það er haganlegra fyrir starfsemi trygginganna, og ég tel sjálfsagt að styðja að því. Ég mun því ekki flytja hér langa ræðu. Ég get að miklu leyti látið nægja að skírskota til nál. míns á þskj. 252, sem útbýtt hefur verið hér.

Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. og nál. allra hluta n. bera með sér, var ekki ágreiningur um það í n. að mæla með því, að frv. næði fram að ganga í aðalatriðum. Það, sem búið er þegar að gera í efnahagsmálunum til skerðingar á kjörum almennings, gerir það að verkum, að fráleitt væri fyrir andstæðing þeirra aðgerða að vera á móti þeim bótahækkunum, sem felast í þessu tryggingafrv., þó að þær séu með göllum og langt frá því að vera það framfaraspor í tryggingamálum, sem stjórnarflokkarnir auglýsa í ræðum sínum og blöðum að þær séu.

Hæstv. félmrh. sagði, ef ég man rétt, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði í þessari þd., að með frv., ef að lögum yrði, væri stigið stærra skref til framfara í tryggingamálum hér en áður hefði gert verið, síðan tryggingalöggjöfin var sett. Mér duttu í hug, þegar hann sagði þetta, hlaupabrautir, sem sjá má á skemmtistöðum erlendis. Fólk hleypur eftir þeim og hleypur allt hvað af tekur, en brautirnar sjálfar ganga aftur á bak með fólkið, svo að því miðar ekkert áfram, hversu hart sem það hleypur. Hér hefur það átt sér stað, að hæstv, ríkisstj. hefur gert efnahagsgrundvöllinn í landinu að slíkri hlaupabraut. Sú braut ber menn aftur á bak til erfiðari lífskjara og fátæktar, og þó að skref séu stigin í áframátt í þessu tryggingamálafrv., miðar ekki fram. Það dregur bara úr ferðinni aftur á bak hjá sumum bótaþegum, — ég segi: hjá sumum.

Þess er getið í aths., sem fylgja þessu frv., að stjórn Hermanns Jónassonar, vinstri stjórnin svonefnda, skipaði n. 1958 til að endurskoða tryggingalöggjöfina. Það gerði hæstv. félmrh. þáverandi. Sú n. gerði till. um hækkun bóta, sem án efa hefðu náð fram að ganga, ef vinstri stjórnin hefði ekki rofnað um það leyti af allt öðrum ástæðum.

Stjórn Emils Jónssonar skipaði einnig n. til að endurskoða annan þátt laganna, þ.e. þáttinn um slysabætur. Sú n. skilaði áliti í nóv. 1959. Báðar þessar nefndir miðuðu tillögur sínar, eins og líka var lagt fyrir þær, við eðlilega þróun tryggingamálanna, við heilbrigð framfaraskref.

Hvað gerir svo hæstv. núv. ríkisstj.? Hæstv. félmrh. sagði, að almannatryggingarnar væru aðalsmerki þjóðarinnar. Hvernig fer hæstv. núv. ríkisstj. með þetta aðalsmerki þjóðar sinnar? Hún misnotar það herfilega. Hún tekur till. n. tveggja, hækkar þær flestar eitthvað og þó ekki allar, bætir við þær þriggja barna kerfinu og tekur þær svo blátt áfram til sinna þarfa, notar þær sem greiðslur upp í kjaraskerðingu þá, sem hún var búin að brugga almenningi og bótaþegunum auðvitað þar með. Ég skal játa, að hæstv. ríkisstj. var í kröggum, mjög miklum kröggum. Hún hafði fellt gengi krónunnar stórlega, hækkað till. sínar um fjárlög meir en áður eru dæmi til, bætt við innflutningssöluskatt 8.8%, lagt á almennan söluskatt, 3%, hækkað vexti meira en bölsýnustu menn hefðu getað látið sér til hugar koma o.s.frv. Með þessu hafði hún vakið upp dýrtíðardrauga, sem sækja að almenningi úr öllum áttum, setjast að borðum hans og heimta sinn skammt, eins og þjóðsagnadraugarnir sumir gerðu. Og þá greip hæstv. ríkisstj. til aðalsmerkisins, í kröggum sínum. Hún fórnar tillögum nefndanna um eðlilega þróun almannatrygginganna og leggur þær á borð með draugunum heldur en ekki neitt. Hún leggur þær á burð með draugunum, sinum eigin draugum.

Af því að ég ætla að vera stuttorður, tala ég um frv. almennt og tilgang þess og stefnu. Þó vil ég minnast sérstaklega örfáum orðum á fjölskyldubótahækkunina sem dæmi um handahofslega meðferð fjármuna í frv. Þarna er sett á laggirnar kerfi það, sem hlotið hefur að verðugleikum í háði hjá almenningi heitið „þriggja barna kerfið“. Hæstv. ríkisstj. vitnar mjög mikið í hækkun fjölskyldubótanna sem mikla tillitssemi við þá, sem þyngsta framfærslu hafi. Þetta mun líka vera sá liður bótahækkananna, sem hæstur er að krónutali. Hins vegar hefur verið sýnt fram á það í ræðu hér í þessari hv. d., að ef Dagsbrúnarmaður missi vegna fjárkreppu þeirrar, sem ríkisstj. er að leiða yfir landið, eftirvinnu þá, sem hann hefur haft síðustu ár, — og það er ekki ólíklegt, að svo ;geti farið, — þá þyrfti hann að eiga 47 börn til þess að hækkun fjölskyldubótanna hrykki þar til jöfnunar. Svo mikill hákur er dýrtíðardraugur sá við borð Dagsbrúnarmannsins, sem stjórnin hefur þangað sent, og svo ófullnægjandi er það, sem ríkisstj. leggur á borðið með honum. Sannleikurinn er líka sá, að „þriggja barna kerfið“ er mjög misheppnað og kemur alls ekki að tilætluðum notum. Það hefði í fyrsta lagi ekki verið nauðsynlegt að veita fullar fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni, en til þess skal nú verja um 100 millj. kr., og í öðru lagi er fráleitt, þegar nota á almannatryggingarnar til að bæta kjaraskerðingu, sem jafnframt er gerð, eins og nú, að hækka fjölskyldubætur nálega eingöngu með því að taka upp fullar bætur fyrir fyrsta og annað barn og auka um helming bætur fyrir þriðja barn. Á þann hátt er ekki lagður grundvöllur að því, að bótahækkunin fari í réttu hlutfalli til þeirra, sem þyngstar byrðarnar bera og harðast verða leiknir af kjaraskerðingaraðgerðunum. Þessar bætur hljóta einmitt í mörgum tilfellum að falla þeim í skaut, sem síður þurfa þeirra með.

Útreikningar hæstv. ríkisstj. og talnafræðinga hennar um áhrif fjölskyldubótahækkunarinnar á hag bótaþega til jafnaðar eru mjög ónákvæmir og villandi, af því að hækkunin verður hlutfallslega mest hjá þeim, sem fæst börnin eiga. Er þarna innan flokks þessara bótaþega því um öfughækkun að ræða, það er um öfughækkun að ræða í þeim flokki. Með hækkun fjölskyldubótanna má því með sanni segja að sé heldur ólánlega klórað í bakkann. Og það mætti kannske orða það svo, að með öfughækkuninni sé rjálað nokkuð óvirðulega við aðalsmerkið eða að hið stóra skref á hlaupabrautinni verði að misstigi þarna.

Það hefur greinilega komið í ljós, að stjórnarfl. vilja í engu taka til greina till. frá stjórnarandstöðumönnum. Þeir fella þær hiklaust, hvernig sem þær eru. Það sýndi sig t.d. ákaflega greinilega við afgreiðslu fjárlaga í gær. Það mátti ekkert í gegn komast, hversu sanngjarnt sem það var og hversu lítils sem það mundi hafa orkað til breytinga á niðurstöður fjárlaganna.

Ekki skal ég fullyrða, hvort þetta tillögudráp stjórnarflokkanna hjá andstöðuflokkunum stafar af því, að eining andans í bandi friðarins sé svo fullkomin hjá þessum fyrrum innilega andstæðu flokkum, nema hitt sé þá, að þeir séu svo harðlega agaðir til samstöðu og reyrðir saman, að niðurstaðan verði þessi. En þetta eru staðreyndir, og frá því að ég tók sæti á Alþingi, — það er að vísu ekki langt síðan, um 10 ár, — þá hef ég ekki kynnzt svo tillitslausri meirihlutaframkomu. En þegar litið er á það, að þetta eru staðreyndir, þá sé ég ekki ástæðu til annars en taka tillit til þeirra á þann hátt, þegar um mál er að ræða eins og þetta, sem ég vil alls ekki tefja, að flytja þá ekki við það brtt., sem gætu orðið til verulegrar tafar eða hindrað það, að frv. kæmist fram á þeim eðlilega tíma, sem ég nefndi áðan. Þó hef ég leyft mér samkvæmt nál. að bera fram eina brtt., og einnig hef ég gerzt meðflytjandi að annarri till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) mun gera grein fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess áðan, að eitt af því, sem þyrfti að endurskoða í sambandi við löggjöf um almannatryggingar, væri skipting landsins í verðlagssvæði. Ég er þeirrar skoðunar líka. Ég hygg, að að því muni draga, að landið verði gert að einu verðlagssvæði. Hins vegar er það staðreynd, eins og hann líka gat um, að menn greinir á um þetta, og 1956, þegar fsp, voru gerðar til sveitarfélaga, þá voru mörg sveitarfélög andstæð því að gera landið að einu verðlagssvæði, og þess vegna hygg ég líka, að á því geti orðið dráttur, að það verði framkvæmt, þó að fyrir liggi endurskoðun í þessu efni. Og engin trygging er heldur fyrir því, hve endurskoðuninni verði fljótt lokið. Hins vegar er það vitað mál, að til eru sveitarfélög á 2. verðlagssvæði, sem hafa áhuga á því að komast inn á 1. verðlagssvæði. Í 10. gr. tryggingalaganna er ákvæði, sem heimilar

það, að sveitarfélög séu færð á milli verðlagssvæða. En sá annmarki er á í þessu sambandi, að þau sveitarfélög, sem eru innan tryggingarsvæðis, sem fleiri sveitarfélög eru á, þurfa að sækja um upptöku og hafa það á móti sér, að ef þau fái inngöngu á 1. verðlagssvæði, þá hækka gjöld vitanlega, og þau eiga ekki að borga þau gjöld sérstaklega, heldur er þeim jafnað niður á allt tryggingarumdæmið, öll sveitarfélög í tryggingarumdæminu, og það veldur vitanlega óánægju innan tryggingarumdæmisins, ef þar er ekki samstaða um það, að öll sveitarfélögin samtímis sæki um upptökuna, og stjórn tryggingarmálanna hikar við að heimila tilfærslu milli verðlagssvæða, ef af henni leiðir slíka óánægju.

Hins vegar virðist ekkert vera því til fyrirstöðu, að heil tryggingarsvæði gætu sótt um færslu milli verðlagssvæða, en þá þurfa bara að vera samtök um það, og ef um sýslu er að ræða, þá þarf sýslunefnd að beita sér fyrir því, og ef um bæ er að ræða, sem er nú eitt tryggingarumdæmi, þá er bæjarstjórnin hinn rétti aðili.

Nú er ekki ákvæði um þetta í l. Það er aðeins heimild, eins og ég gat um áðan, að veita sveitarfélögunum upptöku. Það mundi verða heimild til þess líka að veita öllum sveitarfélögum tryggingarumdæmis upptöku, en ég tel eðlilegt, að það væri skylt að gera það, og um það flyt ég tillögu. Ég vil, að löggjöfin sé þannig, eins og hún hefur í raun og veru átt að vera, að það sé í sjálfsvald sett sveitarfélögunum, á hvoru verðlagssvæðinu þau vilja starfa. Og till. mín er í samræmi við það. Ég legg til, að framan við 2. gr. frv., sem fjallar um efni 10. gr., komi þessi viðbót: „Aftan við 1. mgr. 10. gr. l. komi nýr málsl., svo hljóðandi: Skylt er að færa tryggingarumdæmi milli verðlagssvæða, komi fram um það ákveðnar óskir frá hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd.“ Þá yrði löggjöfin á þá leið, að það væri heimilt að flytja sveitarfélögin, ef ekki fyndust á því sérstakir annmarkar, en það væri skylt að færa tryggingarumdæmin. Og þetta tel ég vera til bóta, þangað til þá að landið yrði gert að einu verðlagssvæði.

Eins og ég tók fram í upphafi, þá er ég því meðmæltur, að frv. verði samþykkt. Ég er óánægður með ýmislegt í frv. og hef bent á það. Ég flyt ekki um það brtt., vegna þess að það virðist ekki hafa neina þýðingu fyrir stjórnarandstöðuna að flytja brtt., svo að máli skipti a.m.k. En ég geri aðeins þessa einu brtt., sem er til lagfæringar og mér finnst að allir ættu að geta fallizt á. Hún er enn eitt próf á því, hvað stjórnarandstaðan er tillitssöm. Þetta ætti ekki að tefja málið teljandi, þó að það þyrfti að fara til Nd., þar sem um breyt. er að ræða, sem er jafneinföld og óumdeilanleg og þessi breyt., sem ég legg til að verði gerð.

Svo er ég einnig stuðningsmaður, annar meðflutningsmaður annarrar till., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. mun gera grein fyrir.