06.04.1960
Efri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Fyrir síðustu kosningar lýstu báðir núverandi stjórnarflokkar því yfir, að það væri eindregin stefna þeirra að afnema að mestu eða jafnvel öllu leyti beina skatta til ríkisþarfa, og létu jafnvel liggja að því, að stefna bæri að hinu sama varðandi gjöld til sveitarfélaganna. M. a. lýsti núverandi hæstv. viðskmrh. því yfir sem sinni skoðun, að afnema bæri útsvör með öllu. Í öllum þeim áróðri, sem þessir flokkar hafa haft uppi um þetta, hefur öll áherzlan verið lögð á þá hlið málsins, sem að því snýr, hvað burt skuli numið, en minna verið á það minnzt, hvað við verði látið taka í staðinn, nema þá helzt, að það hafi verið talað um á lágum nótum, óljóst og loðið, að álögur yrðu settar á eyðslu, skattlagning yrði framkvæmd meiri en áður á lúxusvörur og hvers konar óhóf þeirra sem hefðu fjárráð meiri en allur almenningur. Helzt hefur mátt skilja, að fyrir allan almenning væri hér um að ræða einhliða afnám óréttlátrar skattpíningar og hina mestu hagsbót, sérstaklega til handa láglaunamönnum, enda hefur sá hluti stjórnarliðsins, sem kennir sig við alþýðuna, gengið öllu harðar fram í áróðrinum en hinn hlutinn.

Á þeim tíma, sem liðinn er af valdaferli núverandi stjórnarflokka, hefur það verið að smáskýrast, hvað við á að taka í skattamálunum og í efnahagsmálunum yfirleitt, og með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er myndin af því, sem koma skal, orðin svo skýr, að hverjum manni ættu meginþættirnir að geta verið ljósir á örskömmum tíma hafa stjórnarflokkarnir hækkað tolla og skatta til ríkissjóðs um meira en hálfan milljarð króna. Gengið hefur verið fellt og með því hrundið af stað óstöðvandi skriðu almennra verðhækkana. Vextir hafa verið hækkaðir meira en nokkur fordæmi eru til um. Og jafnhliða þessum aðgerðum hefur svo verið lögþannað að greiða launamönnum verðlagsuppbætur á laun. Allur meginþungi þeirrar gífurlegu álagaaukningar, sem þessar aðgerðir fela í sér, leggst á almenna neyzlu landsmanna og kemur því að sjálfsögðu af mestu afli niður á hinum almennu launamönnum, ,sem áður börðust í bökkum með launatekjur frá 50 þús. til 70 þús. kr. á ári almennt. Meginhluta af hinum auknu sköttum í ríkissjóð er aflað með almennum söluskatti á því nær allar nauðþurftavörur almennings jafnt sem lúxusvarning og enginn munur þar á gerður og með hækkun söluskatts í tolli, sem kemur jafnt á erlendar nauðsynjar sem óþarfari varning. Gengisfellingin hækkar ýmsar brýnustu nauðsynjar vinnandi manns meira en flestar eða allar aðrar innfluttar vörur. Má þar t.d. tilgreina hlífðarföt verkafólks, skófatnað verkamanna og sjómanna o.fl. o.fl., sem nær tvöfaldast í verði, meðan lúxusvarningur hækkar jafnvel allt að því þrisvar sinnum minna. Vaxtahækkunin kemur að verulegu leyti beint niður almenning,. en verður að hinu leytinu velt yfir á hann smám saman með hækkuðu verðlagi. Hvergi örlar á því, að þeir, sem breiðust hafa bökin, séu látnir axla byrðar umfram aðra. Sérstök skattlagning lúxusvara og óhófseyðslu, sem koma átti í stað hinna beinu skatta, hefur gleymzt með öllu.

Þegar hér er komið sögunni um baráttu. núverandi ríkisstj. gegn skattafarganinu, sem hæstv. fjmrh. talaði um við 1. umr. málsins að hefði ríkt hér fyrir valdatöku stjórnarinnar, að lögfestir hafa verið nýir skattar og tollar, sem nema tvöföldum til þreföldum öllum áður gildandi beinum sköttum til ríkissjóðs, og að auki hefur verið efnt til verðhækkana, sem jafngilda enn stórfelldari óbeinum álögum, þá þykir hæstv. ríkisstj. loks kominn tími til að sýna lit á efndum þeirra fyrirheita sinna að draga úr skattafarganinu og afnema að nokkru tekjuskatt á einstaklinga, sýna þjóðinni þær miklu hagsbætur, sem almenningi hlotnast af hinni nýju stefnu í skattamálum, sem henni hafi verið heitíð, og nú er það frv. fullbúið hér til samþykktar, sem boðað hefur verið sem róttæk ráðstöfun til þess að jafna kjaraskerðingar þær, sem hafa verið lögfestar, og dreifa byrðunum sem réttlátast á þegna þjóðfélagsins, eins og það hefur verið orðað af stjórnarliðinu.

Eins og þetta frv. er úr garði gert, felur það í sér nýjar skattbyrðar tekjuskatts og nýjar reglur um persónufrádrátt. Það tryggir afnám tekjuskatts á 50 þús. kr. tekjur einstaklings, hjóna með 70 þús. kr. tekjur og síðan hækkandi um 10 þús. kr. fyrir hvert barn. Síðan er skattstiginn fyrir þá, sem eru það tekjuháir, að þeir verða ekki skattfrjálsir samkv, þessum frádráttarreglum, lækkaður stórlega og skattgreiðendum tryggð þeim mun meiri lækkun sem þeir hafa hærri tekjur. Þetta er sú meginregla, sem lögleiða á með þessu frv. Hinir tekjulægstu í þjóðfélaginu fá enga eftirgjöf beinna skatta, þar sem þeir hafa ekki borið tekjuskatt, en verða hins vegar að greiða alla nefskatta eins og áður eða jafnvel hærri en áður, svo sem iðgjöld til trygginga, og svo að sjálfsögðu óbeinu álögurnar allar að sínum hluta. Þeir, sem hafa borið tekjuskatt af lágum tekjum, t.d. verkamannalaunum, fá eftirgjöf, sem nemur þá örfáum krónum og upp í nokkur hundruð króna. Skattgreiðendur með lífvænlegar miðlungstekjur fá almennt eftirgjöf, sem numið getur 1–2 og jafnvel 3 þús. kr., og síðan hækkandi upp í 20–30 þús. kr. og jafnvel 40 þús. kr. fyrir tekjuhæstu skattþegna.

Flokkun skattgreiðenda eftir tekjuhæð hreinna tekna, sem birt er sem fskj, með nál. mínu, varpar skýru ljósi á það, hvernig skatteftirgjöfin skiptist á skattgreiðendur. Í þessa flokkun vantar þó alveg fjölda þeirra, sem skipta mörgum þúsundum, sem engan skatt hafa borið og fá því enga eftirgjöf í neinu formi. Samkv. þessari flokkun hljóta 2596 skattgreiðendur í lægstu tekjuflokkum, en það er um tíundi hluti þeirra, sem skatt greiða í Reykjavík, eftirgjöf, sem nemur 76 kr. á mann að meðaltali. 15890 gjaldendur, eða um það bil 60% allra gjaldenda, hljóta meðaltalseftírgjöf, sem nemur 1280 kr. á mann. Á hinn bóginn fá 1924 hæstu gjaldendur eftirgjöf upp á 18.5 millj. kr., eða að meðaltali tæpar 10 þús. kr. á mann. En 229 hæstu gjaldendur fá eftir gefnar 3.7 millj. kr., eða rúmlega 16 þús. kr. á mann að meðaltali.

Þessar tölur tala skýrara máli um hina nýju stefnu í skattamálum en miklar orðræður. Þær sanna óvefengjanlega, að höfuðtilgangur hinnar nýju stefnu er sá einn að bæta hag þeirra, sem mest bera úr býtum, bæta þeim að fullu þær álögur, sem lagðar hafa verið á almenna neyzlu, og í ýmsum tilfellum stórhækka raunverulegar launatekjur þeirra frá því, sem þær hafa verið. Með hinum nýju útsvarslögum, sem lögð hafa verið hér fram á hv. Alþ., eru svo þessar hagsbætur til handa hinum ríku um það bil tvöfaldaðar eða jafnvel meira. Samhliða þessum stórfelldu hagsbótum til hátekjumanna eru svo hinum tekjulægri, sem aðeins höfðu til hnífs og skeiðar, áður en ósköpum hinna nýju óbeinu skatta og tolla var dembt yfir almenning, réttar nokkrar krónur til baka, hent í þá hundsbótum, mætti segja, — örlitlum hluta þess, sem þeir hafa áður verið rændir, skila þeir til baka. Þetta er megininntak hinnar nýju stefnu. Hún er vissulega ekki róttæk breyting til þess að jafna byrðar þjóðfélagsþegnanna, eins og boðað hefur verið, heldur felur hún í sér markvíssar aðgerðir til þess að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu þannig, að hinir ríku verði ríkari, en hinir fátæku fátækari.

Með þessu frv. er komið langleiðina að því yfirlýsta marki stjórnarflokkanna að afnema stighækkandi tekjuskatta á einstaklinga, þar sem allur tekjuskattur þeirra, sem enn er eftir skilinn, nemur aðeins 22.4 millj. kr., sem jafnast á 15 þúsund gjaldendur og nemur því 1500 kr. á einstakling til jafnaðar. Það verður vissulega ekki undan því kvartað, að þar sé um þungar álögur að ræða, þar sem þessi gjaldheimta lendir nú á þeim einum, sem hafa mjög lífvænlegar tekjur eða meira. Það, sem eftir er skilið, er því hrein óvera, og þykir mér næsta líklegt, að næsta skrefið verði það að afnema tekjuskatt einstaklinga með öllu, með þeim rökstuðningi, að ekki svari kostnaði að leggja hann á og innheimta. Jafnvel kynni tækifærið þá að verða notað til þess að afnema einnig tekjuskatt félaga, og væri þá það verk fullkomnað, sem nú er hafið, að ríkisvaldið hætti með beinni gjaldheimtu að hafa nokkurn hemil á auðsöfnun í þjóðfélaginu.

Í landinu eru nú starfandi samkv. Hagtíðindum 1287 félög, sem tekjuskatt greiða, og greiddu þau á s.l. ári 29.3 millj. kr. af uppgefnum tekjum, sem námu 115 millj. Nú er það öllum ljóst, að mjög mikill hluti, ef ekki meginhluti allrar auðsöfnunar í landinu, fer fram á vegum hlutafélaganna, og hefur því verið ljóst mjög lengi, að framtöl, sem gefa upp gróða upp á aðeins 115 millj, kr., eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Skattsvikin, sem þar eru framin, eru svo augljós, þegar litið er á hinar hlægilega lágu heildartölur framtala, að engum blandast hugur um, að þar er meginhlutanum skotið undan. Ætla ég, að þetta sé naumast umdeilt meðal þeirra, sem skyn bera á. Skattsvikin hafa dafnað og þrifizt í skjóli þess ástands, að ekkert virkt skattaeftirlit hefur verið til í landinu og þeir aðilar þannig sloppið undan lögmætum greiðslum til ríkisþarfa, sem að réttu lagi ættu að bera þyngstar byrðar vegna ríkisútgjalda.

Nú hefði mátt ætla, að ríkisstj., sem hefur talið óhjákvæmilegt að leggja þyngri byrðar á allan almenning en áður fara nokkrar sögur af, hefði litið í þessa áttina, er hún skyggndist um til úrræða vegna þarfa ríkissjóðs, t.d. á þann hátt að stemma að einhverju leyti stigu við augljósum og stórfelldum svikum, sem hafa af hinu opinbera ótalda milljónatugi. En ekkert slíkt hefur gerzt. Stefnan er sú að létta skatta hátekjumannanna sjálfra, en láta félög þeirra halda allri aðstöðu sinni til áframhaldandi undanbragða um lögmætar greiðslur. Og ekki nóg með það, heldur eru skattsvikin notuð sem höfuðröksemd stjórnarflokkanna fyrir því að stefna markvisst að afnámi beinna skatta. Önnur höfuðröksemdin er og hefur verið sú, að álagning og innheimta beinna skatta væri óhæfilega kostnaðarsöm fyrir hið opinbera.

Það er vissulega nokkuð fróðlegt að skoða þessar röksemdir fyrir stefnu stjórnarflokkanna í skattamálum í ljósi framkvæmdarinnar, eins og hún birtist í þessu frv. og í söluskattslögunum, og spyrja í því sambandi tveggja rökréttra spurninga: Í fyrsta lagi: Hver verður sparnaður hins opinbera af þeirri breytingu, sem nú er gerð? — Og í öðru lagi: Eru skattsvik hindruð eða úr þeim dregið með hinni nýju skipan?

Ég ætla, að svörin liggi nokkuð ljós fyrir. Sparnaður við hina breyttu skipan verður enginn, en kostnaður hins vegar mjög vaxandi. Þrátt fyrir það að tekjuskattur einstaklinga lækkar í 22.4 millj. kr., helzt allt álagningarog innheimtukerfið óbreytt með öllu. Skattstofur, undirskattanefndir, yfirskattanefndir og ríkiskattanefnd starfa áfram, eins og verið hefur, og störf þeirra við álagningu hins nú lítilfjörlega skatts verða nákvæmlega jafnumfangsmikil og áður. Hvert einasta framtal, jafnt þeirra sem skattfrjálsir verða sem hinna, sem skatt eiga að greiða, verður að endurskoðast og yfirfarast eins og áður, fyrst af þeirri ástæðu, að útsvarsálagning er byggð á skattaframtölum, og sömuleiðis vegna ýmissa ákvæða bæði í skattalögunum, sem óbreytt standa, mörg í algeru tilgangsleysi, og svo einnig vegna ákvæða tryggingalaga, t.d. vegna ákvæðanna um skerðingu lífeyris vegna tekna, sem stjórnarliðið hefur reynzt ófáanlegt til að breyta, vegna greiðslu sveitarfélaga á tryggingagjöldum o.s.frv. Áfram verður fjölmennu starfsliði, svo að hundruðum skiptir, haldið að tilgangslausri iðju við innfærslu smávægilegra frádráttarliða samkv. skattalögum, sem eftir heildarbreytinguna hafa þó nánast enga hagnýta þýðingu nema til örlítillar frekari lækkunar á tekjuskatti þeirra, sem bezt mega sin. Við hin venjulegu störf skattayfirvalda bætast svo hin víðtækustu umsvif vegna söluskattsins nýja, sem vafalaust eykur allan kostnað um milljónir króna.

Og þá eru það skattsvikin. Orðum þarf ekki að því að eyða, að skattsvik í tekjuskattskerfinu verða ekki minni en áður, þar sem engin minnsta tilraun er gerð til þess að stemma stigu við þeim. Hins vegar er þeim, sem liggja undir þyngstum grun um undanbrögð þar, nú trúað fyrir innheimtu almenna söluskattsins að verulegu leyti og þeim opnað nýtt athafnasvið til iðju sinnar í þeim efnum. Misréttið og ranglætið, sem af þessu leiðir, heldur áfram að vaxa og dafna við meiri skilyrði en áður.

Ég ætla því, að ljóst sé, að með þessu frv. sé á engan hátt ráðizt að þeim tvíþætta vanda, sem vissulega hefur verið við að glíma í skattamálunum, annars vegar skattsvikin, hins vegar skriffinnskuna og kostnaðinn, sem af henni leiðir, heldur er vandinn í báðum tilfellum aukinn frá því, sem nú er. Hið eina, sem kann að vinnast að þessu leyti, eru nýjar átyllur til handa stjórnarflokkunum til þess að afnema slitrurnar af þeim eina skatti til ríkisþarfa, sem algerlega er á lagður eftir tekjum og efnahag.

Fullvíst er, að auðveldlega mætti gera hvort tveggja í senn, að gera allt skattakerfið einfaldara í sniðum en það nú er, tryggja samræmda framkvæmd skattalaga um allt land, en á því hefur verið mikill misbrestur, og stemma jafnframt að miklu leyti stigu fyrir skattsvikum og tryggja þannig stórfellt fjármagn til ríkisþarfa, án þess að skattstigar væru hækkaðir. Það er einnig vel rökstudd skoðun margra, sem skyn bera á skattamál, að lækka mætti nokkuð skattstiga, jafnvel alla leið að efstu þrepum, en ná samt í ríkissjóð meiri tekjum en áður. En slíkt getur aðeins gerzt með því að koma upp virku eftirliti, sem aldrei hefur verið til hér á landi, þrátt fyrir óhemju skriffinnsku. Slíkt kerfi þyrfti ekki að hafa neinn aukinn kostnað í för með sér, þar sem jafnframt mætti draga stórlega úr skriffinnskunni, sem að miklu leyti verður nú látin fara fram án alls skynsamlegs tilgangs. Í þessum efnum er einnig unnt að byggja á langri reynslu annarra þjóða, sem að verulegu leyti hefur tekizt að leysa þessi vandamál, t.d. Bandaríkjanna, sem hv. frsm. meiri hl. minntist hér á, ekki kannske að því leyti að koma hér upp því, sem hann áleit verst við eftirlitskerfl þeirra, njósnakerfi með einstaklingum, heldur með því að koma upp skipulögðu kerfi til endurskoðunar á bókhaldi fyrirtækja, sem er aðalatriði í eftirlitskerfl þeirra og er alls ekki tiltölulega umsvifamikið, þar sem fylgt er þeirri höfuðreglu að endurskoða, að ég held, 5% af öllum framtölum, en gera það svo rækilega, að enginn, sem gengur í gegnum þann hreinsunareld, sleppi undan réttmætri fjárhagslegri refsingu, ef hann verður staðinn að svikum. Og þetta kerfi hefur í Bandaríkjunum reynzt þannig, að mönnum dettur ekki frekar í hug að svíkja undan skatti við framtal en þeim dytti í hug að brjótast inn til náungans og stela. En ekkert slíkt vill hæstv. núv. ríkisstj. gera, heldur er það stefna hennar að gefast upp fyrir þessum tveimur vandamálum, enda þótt önnur verri skapist í staðinn. Hið eina, sem hún hefur í huga, er að þjóna hagsmunum þeirra, sem aðstöðuna hafa til mestrar auðsöfnunar í þjóðfélaginu, og tryggja hömlulausan vöxt hennar. Það er sá eini vandi, sem hún hefur áhuga á að leysa í skattamálum og stefnir að með heildaraðgerðum sínum. Ef svo hefði verið, að ríkisstj. hefði verið efst í huga að létta álagabyrðar sínar á almenningi sem jafnast með afnámi beinna skatta, hefði vitanlega verið hendi næst að hefjast handa með því að afnema þá nefskatta, sem enn eru við lýði, og þá sérstaklega gjöldin bæði til Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaganna. Þar var vissulega hægt að afnema beina skatta þannig, að allir, jafnt ríkir sem fátækir, fengju sömu upphæðir eftir gefnar. Látum það vera, þó að hinir efnameiri hefðu fengið sömu eftirgjöf og hinir tekjulágu. En þetta mátti auðvitað ekki gera, vegna þess að það þjónaði ekki höfuðmarkmiðinu, að bæta hag hinna efnameiri sérstaklega. Og nefskattarnir eiga ekki að lækka, heldur að hækka stórlega.

Ekki verður fyrir það synjað, að ein ljósglæta er í þessu frv. Um leið og hinum tekjuhæstu eru samkv. frv. tryggðar ríflegar bætur, hefur ekki verið hjá því komizt að afnema tekjuskatt af þurftarlaunum og, eins og ég hef áður lýst, skila þannig til baka örlitlum hluta hinna óbeinu álaga, sem á slík laun hafa nú verið lögð. Að þessu leyti og þessu eina leyti erum við Alþýðubandalagsmenn samþykkir þessu frv., eins og það er að heiman búið, enda hefur algert skattfrelsi þurftarlauna ætíð verið eindregin stefna Alþb. í skattamálum. Að sjálfsögðu hefði átt að framkvæma þessa sjálfsögðu breytingu án þess að hrifsa aftur það, sem af hendi er látið, margfalt í formi annarra álaga, verðhækkana og skatta. En hér hefur málatilbúnaður af hendi stjórnarflokkanna verið slíkur, að sú afgerandi hlið málsins hefur verið ráðin, áður en þetta frv. er sýnt hér á hv. Alþingi. Alþingi er að þessu leyti stillt upp gagnvart ráðnum og orðnum hlut, og ber að sjálfsögðu að víta slíka málsmeðferð alla. Þetta frv. hefði auðvitað að réttu lagi átt að afgreiðast jafnhliða söluskattsfrv. og bæði frv. að sjálfsögðu áður en afgreiðsla fjárlaga fór fram þar sem upphæðir þeirra eru við þau miðuð. Að sjálfsögðu eru nú enn ríkari ástæður en nokkru sinni áður fyrir því, að þurftarlaun verði undanþegin tekjuskatti. En ég mótmæli því, að nokkur rök hnígi til þess eða nokkur nauðsyn krefji, að sú sjálfsagða leiðrétting sé fastbundin tugmilljóna króna eftirgjöfum til hátekjumanna, eins og ætlazt er til og ráðgert er í 1. gr. þessa frv.

Svo sem ég hef vikið að, tel ég víðtækar breyt. á framkvæmdarköflum skattalaganna brýna nauðsyn, og hefði það sannarlega ekki verið ofætlun þeirrar n., sem stjórnarflokkarnir hafa nú haft á rökstólum, svo að mánuðum skiptir, og kostað af ríkisfé til þess að semja þetta frv., að sýna einhvern lít á að bæta þar um. Eina ástæðan, sem hún getur haft til þess að láta slíkt með öllu hjá líða, er sú, að stjórnarflokkarnir vilja geta notað áframhaldandi skattsvik og skriffinnsku í hinu allt of flókna skattakerfi sem tylliástæðu fyrir enn frekari breytingum í hag auðfélögum og hátekjumönnum eða jafnvel fyrir algeru afnámi hinna beinu skatta.

Við þm. Alþb. hér í hv. d. höfum þá daga, sem þetta frv. hefur legið hér fyrir, unnið að því að búa til flutnings víðtækar brtt. í samræmi við þær almennu skoðanir, sem ég hef hér lýst nokkuð, á skattakerfinu og framkvæmd skattalaganna. Okkur hefur ekki unnizt tími til að ljúka þessu starfi á þeim stutta tíma, sem til stefnu hefur verið, og flytjum því ekki brtt. í þessa átt nú, en munum hins vegar hafa til athugunar að gera það síðar.