07.04.1960
Efri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Alþingi afgr. fyrir skömmu lög um söluskatt. Í þeim var svo ákveðið, að hluti söluskattsins skyldi renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og þaðan úthlutað til sveitarfélaganna. Var svo ákveðið, að þetta skyldi vera 1/5 hluti þess almenna söluskatts, sem ákveðinn var 3%, og enn fremur fimmtungur þess 8% innflutningssöluskatts, sem ákveðinn var til bráðabirgða. Um leið þurfti að sjálfsögðu að endurskoða lög um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þar sem hlutverk hans breyttist að verulegu leyti.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af þeirri hinni sömu n. sem falið hefur verið að endurskoða gildandi lög um tekjustofna sveitarfélaganna og skilað hefur þegar tveimur frv., sem lögð hafa verið fyrir þetta þing, frv. til bráðabirgðabreyt. á útsvarslögum og þessu frv.

Aðalatriði þessa frv. eru þau, að jöfnunarsjóður skuli nú fá það hlutverk að úthluta þessu fé, fimmtungi söluskattsins, og í 2. gr. segir, hvernig sú úthlutun skuli fara fram. Sveitarfélögin eiga að fá hluta af söluskattinum í hlutfalli við íbúatölu hvers sveitarfélags hinn 1. des. árið á undan. Þó er sett sú takmörkun á, að ekkert sveitarfélag fái hærra framlag en nemi 50% af niðurjöfnuðum útsvörum s.l. ár. Eins og kunnugt er, eru fjárþarfir og framkvæmdir sveitarfélaganna ákaflega misjafnar. Í sumum hinum fámennari sveitarfélögum er lítið um framkvæmdir og ekki ýkjamikil fjárþörf, og mundi því svo fara sumum þeirra, að sá hluti af söluskattinum, sem í þeirra hlut félli eftir íbúatölu, mundi nægja eða allt að því nægja fyrir öllum útgjöldum sveitarfélaganna, m.ö.o., að slíkt sveitarfélag gæti þá sloppið að verulegu leyti eða öllu leyti við útsvarsálagningu. Þetta þykir ástæðulaust, og hefur því verið sett þetta ákvæði, sem ég gat hér um, að ekkert sveitarfélag fái þó hærra framlag af söluskattinum en 50% af niðurjöfnuðum útsvörum s.l. ár.

Hins vegar er í ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. ákveðið, að framlag nú á þessu ári megi ekki vera hærra en 35% af álögðum útsvörum 1959, og segir svo um þetta atriði í grg. frv.: „Þar eð slíkt framlag, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu, er nýmæli, svo að sveitarfélög fá nú verulegan tekjuauka, sem lækkar útsvörin í mörgum sveitarfélögum hlutfallslega mjög mikið, yrði lækkunin á útsvörum þeirra nú á fyrsta ári óeðlilega mikil, ef ekki væri í fyrsta skipti miðað við lægri hundraðshluta en gert er ráð fyrir, þegar framlagið hefur valdið lækkun útsvaranna“.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því sem fyrsta hlutverki jöfnunarsjóðs að úthluta fé samkv. 2. gr., eins og ég nú hef gert grein fyrir, hluta af söluskattinum. Í öðru lagi að greiða fram úr fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga, samkv. lögum um eftirlit með sveitarfélögum, og er þetta óbreytt ákvæði frá gildandi lögum. Í þriðja lagi að leggja út greiðslur milli sveitarfélaga, sem ríkissjóður ber ábyrgð á samkv. framfærslulögum o.s.frv., — það er einnig óbreytt frá því, sem nú er. Í fjórða lagi að greiða aukaframlag til sveitarfélaga, sem fá ekki nægileg útsvör á lögð samkv. frv. um bráðabirgðabreyt. á útsvarslögunum og nánar verður skýrt í sambandi við það frv. Og loks að styrkja eftir ákvörðun ráðh. tilraunir til að koma betra skipulagi og meira samræmi í framkvæmdir sveitarmálefna og samstarf sveitarfélaga.

Hér er um að ræða málefni, sem oft hefur verið rætt í samtökum sveitarfélaganna, og gert ráð fyrir, að ráðstöfun þessa fjár yrði í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Um langan aldur hefur það verið mikið kappsmál sveitarfélaganna að fá nýjan tekjustofn til viðbótar útsvörunum, sem að undanförnu og um langan aldur hafa verið svo til eini tekjustofn sveitarfélaganna. Það hefur ekki fengizt. En með þessu frv. og þeim lögum, sem þegar hafa verið sett um söluskatt, er stigið allstórt spor í þá áttina að verða við þessum eðlilegu — ég vil segja sjálfsögðu óskum sveitarfélaganna að fá þeim þarna nýjan tekjustofn.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.