04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. beindi hér til mín þrem fsp. Sú fyrsta var á þá leið, hvort ég vilji og ætli nú, áður en þingið fer heim, að gefa Alþingi yfirlit um ástand ríkissjóðs og útflutningssjóðs, eins og venja hafi verið til við 1. umr. fjárlaga. Þessari fsp. hef ég svarað áður á þá leið, að 1. umr. fjárlaga mun fara fram á fyrstu dögum, eftir að þing kemur saman að loknu hléi, og þá verður að sjálfsögðu haldin hin venjulega fjárlagaræða og þá gefnar þær upplýsingar, sem hv. þm. talar um. Það er ekki venja að gefa slíkt yfirlit nema í sambandi við 1. umr. fjárlaga.

Önnur spurningin var sú, ef hinni yrði svarað neitandi, hve mikið fé vantar á næsta ári í ríkissjóð og útflutningssjóð til að standa undir útgjöldum að óbreyttu skipulagi. Þessu hef ég einnig svarað áður, og var því óþarfi að bera þessa fsp. fram nú eða á síðasta fundi.

Ég hef svarað því áður, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, sem því miður eru ekki nákvæmar enn, muni að óbreyttu skipulagi vanta milli 2 og 3 hundruð millj, kr. handa ríkissjóði og útflutningssjóði á næsta ári.

Hv. þm. gefur það í skyn, eins og raunar hver framsóknarþingmaðurinn tyggur hér upp eftir öðrum, að ósamræmi sé milli þessara upplýsinga og þeirra, sem ráðh. úr fyrrv. hæstv. ríkisstj. gáfu í haust um, að greiðslujöfnuður mundi væntanlega verða á ríkissjóði í ár. Hér er auðvitað verið að blanda saman af hálfu hv. 3. þm. Reykv. og hv. framsóknarmanna tveimur hlutum, því að hvorar tveggja yfirlýsingarnar standast fyllilega. Það eru allar líkur til þess, að greiðslujöfnuður verði á ríkisreikningi eða fjárlögum á þessu ári. Þó að ekki sé hægt að fullyrða um það, þá verður annaðhvort hagstæður greiðslujöfnuður eða greiðsluhalli sáralítill, þannig að upplýsingar ráðh. úr hæstv. fyrrv. stjórn um þetta efni eru réttar. Hitt er svo jafnrétt, að með áframhaldandi sama fyrirkomulagi eru allar líkur til, að halli á ríkissjóði og útflutningssjóði nemi þessum upphæðum, sem ég hér nefndi, á árinu 1960. Hér er enginn árekstur milli þessara yfirlýsinga.

Þriðja spurning hv. þm. var sú, hvert sé það nýja efnahagskerfi, sem ég hafi talað um að yrði upp tekið. Ég heyri á þessu, að yfirlýsing sú, sem hæstv. forsrh. flutti hér við stjórnarmyndunina 20. nóv., hefur farið fram hjá hv. 3. þm. Reykv., og vildi ég því rifja það upp, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftír að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþingi till. um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla og erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið. Munu till. ríkisstj. miðast við að ráðast að þessum kjarna vandamálanna, þar eð það er meginstefna ríkisstj. að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöll, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi. Í því sambandi leggur ríkisstj. áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.“

Þessi var yfirlýsing hæstv. forsrh. við stjórnarmyndunina fyrir hönd ríkisstj., og það er að sjálfsögðu með tilvísun til þessa, sem ég talaði hér um, að vitanlega yrði og það væri stefna stjórnarinnar að taka upp nýtt kerfi í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar. Hvernig því verður háttað í einstökum atriðum, kemur að sjálfsögðu fram eftir þingfrestunina, þegar ríkisstj. leggur fram sínar tillögur.

Einn hv. þm., og ég held, að hann sé einn um það, þeirra sem talað hafa um þetta mál í Ed. eða Nd., virtist vilja gagnrýna það, að fjárlög yrðu ekki afgreidd fyrir áramót. Þetta var hv. 7. þm. Reykv. Og var það með nokkrum eindæmum, eins og margt fleira í hans ræðu, sem vænta mátti, því að allir aðrir þm. hafa viðurkennt það sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut, að vegna þess að tvennar kosningar fóru fram og þing kom ekki saman fyrr en 20. nóv. og ríkisstj. var mynduð sama dag, þá væri það eðlilegt og óhjákvæmilegt, að eigi væri unnt að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Þetta ætla ég, að allir hafi viðurkennt aðrir en hann. En í sambandi við þetta kom hann með spakleg ummæli og umvandanir um það, að vitanlega ætti það að vera sjálfsögð regla, eins og verið hefði að undanförnu, að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Ég vil aðeins minna þennan hv. þm. á það, að þau undanfarin 8 eða 9 ár, sem foringi hans og flokksbróðir, hv. 1. þm. Austf., var fjmrh., þá tókst það nú svo til fyrsta árið, eftir að hann komst aftur í þann sess, að fjárlög voru ekki afgreidd undir hans forustu fyrr en í miðjum maímánuði. Tveim árum seinna dregst það fram í janúarlok að afgreiða fjárlög. Þriðja árið dróst það fram í febrúar. Og árið þar næst á eftir voru komin febrúarlok, áður en honum tókst að ljúka fjárlögum. Ég held, að þessi hv. þm. ætti því fremur að beina umvöndunarorðum sínum til leiðtoga síns, hv. 1. þm. Austf.

Það er talað hér mikið af hálfu hv. framsóknarmanna um þingvenjur, sem nú sé verið að brjóta, og ósæmileg vinnubrögð. Nú skulum við athuga það.

Það vita allir hv. þm., að ein meginskylda hverrar ríkisstj. er að undirbúa undir Alþingi þau frv., sem snerta efnahag og fjárhag þjóðarinnar. Það er skylda ríkisstj. að hafa, eftir því sem föng eru á, slík frv. og slík mál tilbúin til að leggja þau fyrir í þingbyrjun, svo að þingið fái þá strax færi á að fjalla um þau. Þar sem ríkisstj. er mynduð sama dag og Alþingi kemur saman, var það því skylda hennar, þingræðisleg og stjórnskipuleg skylda hennar, að leggja til, að þinghlé yrði, til þess að hún gæti unnið að þessum frv. og haft þau tilbúin, þegar þing kæmi saman að nýju. En þegar talað er um skynsamleg og eðlileg vinnubrögð, þá er auðvitað allt annað, sem þessir hv. þm. Framsfl. eiga við. Þeir eiga við það, eins og tíðkaðist í tíð vinstri stjórnarinnar, að halda þinginu í sjö til átta mánuði á hverju ári og mikinn hluta þess tíma aðgerðalausu. Á árunum 1956, 1957, 1958, þegar vinstri stjórnin sat að völdum, setti hún í þessu efni eins og öðrum met, þannig að þinghald varð miklu lengra en nokkru sinni hafði verið áður. Og þessi þrjú þing, meðan hún var og hét, var meðalþinghaldið á ári hverju milli sjö og átta mánuðir, en árin næst á undan hafði þinghaldið verið fimm mánuði eða rúma fimm mánuði. Við vitum það líka allir hv. þm., að vinnubrögðin voru með þeim hætti, að meðan vinstri stjórnin var að burðast við að semja einhver frv., bjargráðafrv. eða hvað það nú hét allt saman, þá var þinginu haldið hér óvirku, starfslausu eða starfslitlu mánuðum saman. Nú er talað um að óvirða Alþingi með því, að Alþ. ákveði sjálft að taka sér starfshlé um tíma. Ef talað er um að óvirða Alþ., hvað var þá meiri óvirðing í garð Alþingis en þegar það gerðist hér í tíð vinstri stjórnarinnar, jafnvel ár eftir ár, að þinginu er mánuðum saman haldið hér óvirku og áhrifalausu, meðan ríkisstj. og stjórnarflokkarnir eru að spyrja hina og þessa aðila utan þings um það, hvað megi gera? Það er beðið eftir svari eða samkomulagi í einhverri 19 manna nefnd eða 6 manna nefnd, það er beðið eftir svörum frá einhverjum stjórnum einhverra stéttarfélaga úti á landi. Á meðan situr Alþingi hér óvirkt og aðgerðalaust. Það eru væntanlega þessi vinnubrögð, sem hv. framsóknarmenn vilja endurtaka og þeir sakna.

Í þessu sambandi hefur það komið fram, að það er talinn of skammur tími, sem ætlaður er til afgreiðslu og meðferðar fjárlaga, þar sem ég ræddi um það hér um daginn, að einn mánuður ætti að nægja Alþ., frá því að fjárlögin yrðu lögð fram og til lokaafgreiðslu. Ég stend við það, að ég ætla, að með skynsamlegum vinnubrögðum fjvn. mætti það vel takast. En Framsfl. og samstarfsflokkar hans hafa vissulega haft annan hátt á undir forustu hv. 1. þm. Austf. Þannig hafa verið teknir 2 og upp í 4 mánuði, sem fjvn. er látin hanga yfir fjárlagafrv. T.d. var það þannig, svo að maður taki eitt dæmi, árið 1957, að þá var það frá því í októbermánuði og fram í febrúarmánuð, sem fjvn. var látin dunda við fjárlagafrv. Eru þessi vinnubrögð til fyrirmyndar? Ég segi nei. Þau eru ekki til fyrirmyndar, þau eru einmitt viðvörun, og alþm. eiga að gæta þess að láta slík vinnubrögð ekki verða sér að fordæmi, heldur hafa það í huga, að sporin hræða.

Hv. framsóknarmönnum verður tíðrætt um það, að hér sé verið að brjóta einhverjar venjur um 1. umr. fjárlaga. Þetta er allt saman staðlausir stafir. En það sýnir nokkuð hugsunarháttinn og múgsefjunina í Framsfl., að þarna tyggur þetta upp hver eftir öðrum. Ég man eftir því, að sá fyrsti þeirra hafði það væg orð, að það hefði ekki gerzt fyrr, að 1. umr. fjárlaga færi ekki fram fyrr en eftir áramót. Sá næsti kallaði þetta einsdæmi og endemi. Svo var þetta hjá næsta ræðumanni Framsfl. orðið brot á þingvenjum, föstum þingvenjum. Hjá þeim þar næsta var það orðið brot á lögum. Og hjá einum var það orðið þvert brot á stjórnarskránni. Nú vita það allir, að stjórnarskráin ákveður aðeins, að fjárlagafrv. skuli lagt fyrir Alþingi, þegar er það kemur saman. Það hefur verið gert. Það er hvorki í stjórnarskrá né lögum, þingsköpum né öðrum, eða nokkrum venjum neitt um það, að 1. umr. fjárlaga skuli fara fram einhverjum tilteknum tíma eftir útbýtingu frv. eða eftír þingsetningu. Þetta er allt saman tilbúningur. Og ef á að líta á það, hvernig þetta hefur verið framkvæmt, þá kemur í ljós, að stundum hafa liðið nokkrir dagar og stundum nokkrar vikur, frá því að þing hófst og þangað til 1. umr. fjárlaga fór fram. Ég sé t.d. hér eitt árið, sem framsóknarmenn hafa vitnað mjög í, þá liðu fimm vikur af þinghaldinu frá því að þing var sett og þangað til 1. umr. fór fram. Nú standa sakir þannig, eins og ég hef tekið fram áður, að allar líkur eru til þess, að 1. umr. fjárlaga geti farið fram áður en þrjár vikur eru liðnar af þinghaldinu. Það eru nú liðnar tvær vikur af þinghaldinu, og ég geri ráð fyrir því, að á fyrstu dögum, eftir að þing kemur saman að nýju, geti 1. umr. farið fram. Að vísu getur þessi tími eitthvað lengzt, ef það endemis málþóf, sem framsóknarmenn og Alþb.-menn halda hér uppi, heldur áfram. Það er á þeirra valdi, hvort þessi tími verður enn lengri.

Undanfarna daga og einnig hér nú í þessum umræðum hafa komið og dunið ásakanir á mér fyrir það, að ég hafi vanrækt að vera við umr. hér í hv. Nd. við mál, sem undir mig heyrir. Undanfarna daga hafa sumir þm. Alþb. og Framsfl. staðið hér í þessum stól og krafizt þess, að fjmrh. kæmi og jafnvel yrði sóttur, þó að þessir menn vissu, að ég var á sama tíma bundinn við umræður í Ed., sem ég á sæti í, um mál, sem undir mig heyra. Þetta vissu þessir menn. En samt sem áður hafa þeir til þess að svala sínu innræti og reyna að koma fram þessum ásökunum um einhverja vanrækslu í starfi borið þetta blákalt fram gegn betri vitund. Ég hafði ætlað, að þó að maður væri bundinn við umr. í Ed. og vildi gjarnan vera hér með þeim í anda, þá hélt ég, að það væri ómöguleiki fyrir mennskan mann að vera staddur í báðum deildum í einu. Varðandi fundinn í gærkvöld eða í nótt er þess að geta, að ég var hér í gær á fundi á venjulegum tíma milli 1½ og 4 við umræður um þessi mál og lagði fram annað þessara frv., sem um er hér að ræða. En það var mörgum þm. kunnugt, að eftir kl. 5 var ég bundinn við önnur störf og gat því ekki verið hér þá. Ég skal ekki segja, hvort það á að teljast þingskylda ráðh. að hanga alltaf yfir málþófi eins og því, sem þessir hv. þm. hafa leyft sér að viðhafa og er einsdæmi í þingsögunni. Ég velt ekki nokkur dæmi þess, að þm. hafi leyft sér aðra eins herfilega misnotkun á málfrelsi þm. og önnur eins brot á þingsköpum og þm. þessara tveggja flokka hafa að undanförnu gert sér leik að. En þeir hafa líka uppskorið það, að þeir hafa hlotið þá vansæmd og það virðingarleysi hjá þjóðinni, að þeir munu væntanlega finna það, þótt síðar verði.

Það er ekki ástæða til þess að hafa þessi orð fleiri. Ég skal bæta því við, að á þeim tíma síðdegis og í gærkvöld, sem ég gat ekki verið á þessum fundi, voru hér fimm ráðherrar að jafnaði staddir, sem allir voru tilbúnir að svara fsp., og þessi mál, sem hér er um að ræða, heyra undir stjórnina alla, eru mál allrar stjórnarinnar. Þess vegna er þetta gersamlega ástæðulaus áburður og ásakanir, enda er það mála sannast, að hver einasta fsp., sem nú hefur komið fram út af þessu máli, hafði komið fram áður og hafði verið svarað af mér áður.