02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

135. mál, ríkisreikningurinn 1957

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1957. Frv. er komið frá Ed. og hefur þar verið samþykkt óbreytt. Fjhn. hv. d. hefur athugað frv. og borið það tölulega saman við ríkisreikninginn, og eins og nál. ber með sér, voru allir viðstaddir nm. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. 3. þm. Reykv., var fjarstaddur.

Ríkisreikningurinn hefur fengið venjulega endurskoðun yfirskoðunarmanna, og gerðu þeir 38 aths., sem birtar eru í reikningnum á bls. 220–228, en eftir að leitað hafði verið umsagnar og skýringar hlutaðeigandi stofnana og ráðuneyta, telja skoðunarmenn flestar þeirra þó ekki stórvægilegar, og eru aðgerðir þeirra eða tillögur yfirleitt ábendingar til eftirbreytni eða athugunar í framtíðinni.

Tveimur aths. vísa þeir þó til aðgerða Alþingis. Er önnur þeirra um það, að gjöld ríkisútvarpsins hafi farið verulega fram úr ákvæðum fjárlaga. Það er vissulega rétt, þau hafa farið um 10% fram úr áætlun, og er það út af fyrir sig ekki til fyrirmyndar, en það er á það að líta, að tekjur þess hafa líka farið fram úr áætlun og víðar er pottur brotinn í þessu efni, þar sem tekjur ríkisins og gjöld í heild hafa farið mjög verulega fram úr áætlun. Þegar á það er litið, virðist ekki þörf sérstakra aðgerða af hálfu Alþ. gegn þessari stofnun fremur en ýmsum öðrum. Ábendingin á hins vegar almennt rétt á sér, og verður að vænta þess almennt, að ráðuneytin fylgi því betur eftir, að fjárlögum sé fylgt, þó að það kunni að vera nokkrum erfiðleikum bundið á verðbólgutímum, eins og við höfum búið við, ekki sízt hjá stofnunum, sem eru í örum vexti og vaxandi kröfur eru gerðar til.

Hin till. um aðgerðir Alþingis er varðandi miklar útistandandi skuldir eða óinnheimtar tekjur Tryggingastofnunar ríkisins. En þær eiga að verulegu leyti rót sína að rekja til vanskila bæjar- og sveitarfélaga. Kemur það glöggt fram, að þetta á ekki á neinn hátt rót sína að rekja til vanrækslu stofnunarinnar, enda er innheimtan utan Reykjavíkur alls ekki í höndum hennar, heldur innheimtumanna ríkissjóðs. Hefur hlutaðeigandi innheimtumönnum verið skrifað ár eftir ár og skorað á þá að beita öllum lögheimiluðum innheimtuaðgerðum til þess að fá úr þessu bætt; og afrit af þeim bréfum hafa verið send viðkomandi rn., svo að það hefur getað fylgzt með allri framvindu þeirra mála. Yfirskoðunarmenn geta þess líka, að stofnunin hafi svarað með glöggum og greinargóðum skýrslum, en benda á, að hér sé um mikið vandamál að ræða. Er hér vafalaust átt við efnahagsörðugleika ýmissa sveitarfélaga, og er það vissulega í verkahring hv. Alþ. að huga að þeirri hlið málsins, ef um er að ræða lítt viðráðanlega erfiðleika fyrir sveitarfélögin sjálf. Úr því verður þó varla leyst í sambandi við mál það, sem hér liggur fyrir, sjálfa samþykkt ríkisreikningsins. Má einnig á það benda, að á yfirstandandi þingi hefur verið afgreitt hér frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og tekjustofnar sveitarfélaga eru í sérstakri athugun hjá mþn., sem væntanlega skilar áliti í haust.

Ég tel ekki ástæðu til þess að gera þessu máli frekari skil og vísa að öðru leyti til athugasemda yfirskoðunarmanna, sem eru glöggar og greinargóðar. Fjhn. hefur, eins og ég gat um, borið niðurstöður frv. tölulega saman við ríkisreikninginn, og leggur n. til eða þeir nm., sem viðstaddir voru, að frv. verði samþ. óbreytt að lokinni þessari umr. og vísað til 3. umr.