21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

180. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þeir hv. þm., sem standa að minnihlutaálitum um mál þetta, hafa nú gert grein fyrir máli sínu. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. verulega, þó að hitt og þetta hafi komið fram í ræðum þessara hv. þm., sem ástæðu gæti gefið til athugasemda. Seðlabankamálið er nú þegar orðið svo mikið rætt, að þess er ekki að vænta, að ný sjónarmið, svo að nokkru nemi, komi þar yfirleitt fram.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) gerði það, að mér skildist, að aðaltillögu sinni, að málinu yrði slegið á frest, en skipuð nefnd til þess að framkvæma heildarendurskoðun bankalöggjafarinnar. Þessari tili. er ég fyrir mitt leyti algerlega andvígur og tel, að þar yrði aðeins um óþarfa drátt og tilkostnað að ræða. Það sanna í þessu máli er, að það munu vera fá mál, sem eins mikið hefur verið starfað að í nefndum og á annan hátt undanfarna áratugi. Má þar t.d. nefna, að samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. skipaði á sínum tíma n. í þetta mál, sumarið 1951. Sú nefnd mun hafa safnað allmiklum gögnum um málið og rætt það ýtarlega. En því miður varð ekki árangur af starfi þeirrar n., þannig að stjórnin gæti komið sér saman um nýja skipan þeirra mála. Út af fyrir sig tel ég það illa farið, að svo tókst til, að ekki varð þannig neinn sýnilegur árangur af starfi þessarar n., en hún mun hafa unnið mjög rækilega að málinu, og ég hef séð ýmis gögn, sem hún safnaði um þetta. Ég álít því, að málið sé svo rækilega athugað frá öllum hliðum, að það mundi aðeins hafa í för með sér óþarfa drátt á því að fara að skipa í það nýja nefnd.

Þeir hv. tveir þm., sem standa að séráliti innan fjhn., hafa lagt fram brtt. á þskj. 563. Með þessum brtt. treysti ég mér ekki til að mæla og vænti þess, að ég tali þar raunar fyrir munn meiri hlutans. Eins og kom fram í framsöguræðu minni, tel ég, að ekki megi slaka á heimildarákvæðunum í 11. og 12. gr., ef Seðlabankinn á að vera fær um að gegna því meginhlutverki sínu, sem ákveðið er í 3. gr. frv. En rétt er að vekja athygli á því, að hér er auðvitað aðeins um heimildarákvæði að ræða, sem ekki er að vænta að stjórn Seðlabankans beiti út i æsar, nema hún telji, að sérstaka nauðsyn beri til þess, og mér finnst, að um afgreiðslu slíkra laga verði að bera nokkurt traust til væntanlegrar stjórnar Seðlabankans, þannig að hún geri ekki slíkar ráðstafanir, sem vitanlega geta haft í för með sér óþægindi fyrir þær stofnanir, sem hér eiga hlut að máli, viðskiptabankana og sparisjóðina, nema nauðsyn beri til. En hitt ætti að vera ljóst, að ástandið í peningamálum getur vel verið þannig, að nauðsyn beri til að nota slíka heimild að fullu, og auðvitað er það þetta, sem haft er í huga og hafa ber í huga, þegar þessi ákvæði eru sett.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) hefur einnig borið fram nokkrar brtt. við þetta frv. Hér er, eins og hann tók fram í framsöguræðu sinni, yfirleitt ekki um mikilvægar efnisbreytingar að ræða, heldur meira um orðalagsbreyt. og fyllri ákvæði í einstökum atriðum. Ég mæltist til þess við hann, að n. fengi tækifæri til að athuga þessar brtt. hans á milli umr., og hefur hann góðfúslega orðið við því, eins og fram kom í því, sem hann sagði. Ég vildi gjarnan sem formaður n. fá tækifæri til þess að bera þetta undir þá sérfræðinga, sem unnið hafa að undirbúningi frv. Í fljótu bragði sýnist mér, a.m.k. hvað snertir sumar þessar brtt., eins og t.d. síðustu tvær brtt., þær 7. og 8., að ekki væri óeðlilegt að setja slík ákvæði eða breyta orðalagi í samræmi við það. En þetta mundi ég óska að bera undir sérfræðingana, hvort sem það verður nú til þess að staðfesta þá skoðun, sem ég hef myndað mér í fljótu bragði, eða fá mig ofan af henni. Ég mun svo sjá til, að það verði athugað fyrir 3. umr. að taka afstöðu til þessara tillagna í einstökum atriðum.

Ég vil taka það fram og get raunar tekið undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), að ég er í rauninni alveg sammála hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) um það, að rekstur stofnlánadeildar er ekki eðlilegt hlutverk seðlabanka. En tæknilegar og aðrar ástæður hafa legið til þess, að gert er ráð fyrir því, að stofnlánadeildin sé áfram, eins og verið hefur í rauninni frá upphafi þeirrar stofnunar, í tengslum við Seðlabankann, og hefur meiri hl. n. því ekki séð sér fært að gera till. til breytinga í því efni.

Að lokum vil ég aðeins minnast á það í sambandi við Framkvæmdabankann og skýrslustarfsemi hans, sem hér hefur borið á góma, einmitt í tilefni af því, að hv. 6. þm. Norðurl. e. gat þess, sem alveg er rétt, að samkv. ályktun Alþingis hefur verið skipuð nefnd til þess að athuga hagskýrslugerð og hagrannsóknir hér á landi og möguleika á því að koma þeim í einfaldara form, koma í veg fyrir tvíverknað og þess háttar, að þessi nefnd var skipuð í samræmi við ályktun frá Alþingi af hv. þáv. fjmrh., Guðmundi Í. Guðmundssyni, sumarið 1959, og hófst nefndin þegar handa um að safna gögnum og annað slíkt. En því miður varð um skeið dráttur á því, að hún gæti fyrir alvöru tekið til starfa, vegna annríkis ýmissa þeirra manna, sem sæti áttu í nefndinni, en þetta annríki stafaði m.a. af undirbúningi efnahagsmálalöggjafarinnar á siðasta vori. Nú mun allt tilbúið, að nefndin geti fyrir alvöru tekið til starfa, og vænti ég þess, að hún geti skilað áliti á sumri komanda, og mun hún þá að sjálfsögðu telja sér skylt að athuga m.a. eðlilega skiptingu verkefna milli Framkvæmdabankans og Seðlabankans. En svo lengi sem slík athugun hefur ekki verið gerð, þá finnst mér eðlilegt, að í lögunum sé gert ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi og nú er. Þetta taldi ég rétt að upplýsa, af því að ég var bæði flm. að þeirri þáltill., sem nefndin hefur verið skipuð samkv., og á auk þess sæti í henni.