28.11.1960
Efri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

115. mál, réttindi og skyldur hjóna

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þegar við á árunum 1921—23 öðluðumst nýja sifjalöggjöf, þá höfðu íslenzkar konur áður öðlazt pólitísk réttindi til jafns við karla, öðlazt kosningarrétt og kjörgengi, en með hinni nýju sifjalöggjöf var svo stefnt að fullu jafnrétti kvenna og karla innan vébanda fjölskyldu og heimilis, í hjónabandinu og í afstöðu til barna, skilgetinna og óskilgetinna. Það hefur svo mikið verið rætt og ritað um heimt hinna pólitísku réttinda konum til handa, og vissulega eru þau undirstaða þess að hafa áhrif á löggjöfina, — það hefur verið svo mikið um þau rætt og ritað, að manni hefur stundum þótt, að samþykkt hinnar stórmerku sifjalöggjafar hafi í vitund eftirtímans ekki gnæft svo upp úr viðburðum á sviði löggjafarinnar sem efni stóðu þó til. Ég minnist þess t.d., þegar ég hóf laganám, tæpum 10 árum eftir að sifjalögin gengu í gildi, þá var það svo fjarlægt, að manni þótti eiginlega óskiljanlegt, að það væri ekki nema áratugur síðan við hefðum búið við löggjöf, sem mismunaði konum og körlum í mjög veigamiklum atriðum, og löggjöf, sem t.d. refsaði saklausu barni fyrir víxlspor foreldranna með því að svipta það erfðarétti og það jafnvel eftir móður sína.

Þegar litið er yfir Alþingistíðindin frá þessum tíma, kemur það í ljós, að umræður á þingi um hið merka frv. til laga um réttindi og skyldur hjóna eru næsta stuttar. Það má e.t.v. leggja í það þann skilning, að öllum hafi þótt ákvæði laganna svo sjálfsögð og óumdeilanleg, að ekki hafi þótt taka að orðlengja svo mjög um frv. Frv. var lagt fram sem stjfrv. í þessari hv. þd. árið 1922, og þá hét það frv. til laga um lögfylgjur hjónabands. Þetta frv. var, eins og reyndar sifjalagafrumvörpin fjögur, samið af Lárusi H. Bjarnasyni hæstaréttardómara, sem var kennari í sifjarétti við lagadeild háskólans, og frv. var eins og hin önnur sniðið eftir frumvörpum, sem til voru orðin fyrir samvinnu þriggja Norðurlandanna, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, og var íslenzka frv. þó aðallega samið eftir frv. dönsku nefndarinnar, sem að því samstarfi stóð.

Allshn. Ed., sem fékk frv. til athugunar, skilaði áliti, taldi sig hafa haft nauman tíma til að athuga nógu rækilega svo stórt mál, og niðurstaðan var sú, að allshn. taldi ekki ástæðu til þess að flýta þessari lagasetningu þá á þinginu, sérstaklega þar sem slík lög höfðu ekki enn verið sett í Noregi og Danmörku, og taldi nefndin eðlilegast, að við hefðum samflot með Dönum í þessum efnum og sniðum okkar nýju lög eftir eða með hliðsjón af þeirra lögum. Þessu nál. var svo útbýtt, það kom aldrei á dagskrá á því þingi, og málið varð því ekki útrætt.

Næsta ár eða 1923 er frv. enn lagt fram í Ed. og fór til allshn. N. mælti með frv. með óverulegum breytingum, sem voru svo að segja eingöngu orðalagsbreytingar, m.a. á fyrirsögn eða heiti frv., og var það síðan afgreitt sem lög frá þinginu 1923.

Á þeirri miklu réttarbót, sem lögin voru, var þó sá annmarki, að samkv. 90 gr. l. skulu efnisákvæði þeirra um skipan fjármála hjónanna innbyrðis og gagnvart þriðja manni ekki gilda um hjón, sem gengið hafa í hjónaband fyrir 1. jan. 1924, en þá öðluðust lögin gildi. Lögin um fjármál hjóna, nr. 3 frá 1900, giltu því áfram um þessi hjón, en samkv. þeim lögum er réttur eiginkonu til umráða yfir félagsbúi og samningsgerðar mjög miklu rýrari en bónda hennar. Rökstuðningur fyrir því, að gömlu lögin voru látin gilda áfram fyrir umrædd hjón, sem vikið er að í grg. fyrir þessu frv., er svo veigalítill, að engum úrslitum hefði átt að ráða. En svo sjálfsögð sem okkur þykja nú lögin um réttindi og skyldur hjóna, þá er ekki því að leyna, að frv. sætti á sínum tíma gagnrýni. Það þótti of langt gengið í því að jafna metin milli eiginkonu og bónda, og í Danmörku stóðu um danska frv. miklar deilur og þar voru í fararbroddi fyrir andstæðingum þess mikilsmetnir og virtir lögfræðingar. Nú þegar Danir settu sér lög um lögfylgjur hjúskapar árið 1925, en íslenzku lögin eru þeim lögum að mestu leyti samhljóða, þá höfðu þeir annan hátt á, þar sem þeir létu lögin ná til allra hjóna, einnig þeirra, sem gengið höfðu að eigast, áður en lögin tóku gildi. Í dönsku lögunum var tímabundin heimild fyrir þessi hjón, sem gengið höfðu að eigast fyrir gildistökuna, til þess að semja sína kaupmála undan nýju lögunum og að fjármál hjónanna skyldu þá áfram lúta eldri lögum, en sú heimild var sáralítið notuð. Í íslenzku lögunum var einnig heimild til þess fyrir hjón, sem gengið höfðu að eigast fyrir gildistöku laganna, að semja sig með kaupmála innan ákveðins tíma undir nýju lögin. Sú heimild var tæpast eða jafnvel ekkert notuð. Annars er varlegra að leggja ekki mikið upp úr slíkum tímabundnum heimildum. Bæði er það, að allur almenningur fylgist ekki svo nákvæmlega með lagabreytingum, jafnvel þeim, sem veigamiklar eru, og svo hitt, að hjón hugsa sjaldnast út í skipan fjármála sinna, fyrr en til einhverra árekstra kemur, annaðhvort innbyrðis eða gagnvart þriðja manni. Það má í því sambandi vitna til orða Jóns heitins Magnússonar, sem hafði framsögu fyrir allshn. á þinginu 1923, þar sem hann segir um lögin: „Ég geri ráð fyrir, að menn finni sáralítið til þessara laga, nema þar sem þess gerist þörf, en þá eru þau jafnnauðsynleg.“

Annars er það meir en líklegt, að ef Danir hefðu orðið fyrri til að setja sín lög um lögfylgjur hjúskapar, þá hefðu ákvæði íslenzku laganna orðið þeim samhljóða, einnig um viðnæmi laganna eða um það, til hvaða hjóna lögin skyldu taka, og þá hefðu okkar lög að öllum líkindum verið látin ná til eldri sem yngri hjónabanda, enda var, að ég ætla, í íslenzka frv. vikið frá danska frv. einmitt um þetta efni.

Við höfum nú búið við ákvæði 90. gr. l. um réttindi og skyldur hjóna hátt á fjórða áratug, og menn kynnu nú að segja sem svo, að það tæki því tæpast að fara að breyta þeim úr þessu, smám saman fækki þeim hjónum, sem þau taka til. En því er til að svara, að það er alltaf tímabært að leiðrétta misrétti, meðan einhver er til, sem það bitnar á, og misrétti 90. gr. laganna um réttindi og skyldur hjóna hefur orðið enn auðsærra á siðari árum með aukinni og almennari velmegun landsmanna. Á síðasta Alþ. höfðum við 8. þm. Reykv., meðfram fyrir áskoranir frá kvennasamtökum, ráðgert að beita okkur fyrir flutningi frv. sem þessa í annarri hvorri d. hv. Alþ., en þar sem nú er unnið að endurskoðun og frekari samræmingu hjúskaparlaga á Norðurlöndum og Íslendingar eiga hlut þar að, þá þótti eðlilegast að ráðgast við fulltrúa Íslands, sem er prófessor Ármann Snævarr, núv. háskólarektor, en hann er kennari í sifjarétti við lagadeild háskólans, og hann taldi þá rétt að bíða eftir niðurstöðum fundar, sem fulltrúar Norðurlandanna við þessar endurskoðun áttu að halda með sér í apríl s.l. Eftir að sá fundur hefur verið haldinn, telur prófessor Ármann, að niðurstöður hans gefi ekki ástæðu til að fresta enn flutningi málsins, en það má segja, að þetta atriði laganna, til hvaða aðila þau ná eða taki, sé í rauninni alveg sérstaks eðlis og þurfi því ekkert að vera við það að athuga að taka það út úr og fá leiðréttingu í því efni strax, þótt allsherjarendurskoðun að öðru leyti sé í gangi.

Við flm. frv. væntum þess, að hv. þm. taki frv. með velvild, og ég leyfi mér að leggja svo til, að því verði vísað til hv. allshn.