16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

113. mál, fjáraukalög 1959

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið hér á fundinum í gær, þegar þetta frv. var hér til umræðu, til þess að hlýða á framsöguræðu hv. 5. þm. Vestf. Vegna þeirra ummæla, sem Alþýðublaðið hefur eftir honum í dag, vil ég taka eftirfarandi fram.

Eins og ég skýrði frá hér í gær í framsöguræðu minni fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir 1958, þá stóð fjvn. óskipt að álitinu bæði árin. Framsögumenn voru valdir með tilliti til þess. Ég leit svo á, að aðild nefndarinnar í heild þýddi það, að framsöguræða okkar framsögumanna ætti nánast að vera endurtekning á því nál., sem við höfðum undirskrifað. Ég taldi þess vegna ekki rétt að fara að telja það til ágætis í fjármálastjórninni 1958, sem ég hefði gert, ef ég hefði talað í umboði míns flokks. Ég leit svo á, að af hálfu hins frsm. mundi slík greinargerð einnig verða. En ég sé það af frásögn Alþýðublaðsins, að svo var ekki, heldur var þar á lofti haldið ágæti fjármálastjórnar Alþfl. 1959. Ég tel, að hér sé ekki rétt að farið, þar sem aðild nefndarinnar í heild var að framsögunni. Þess vegna mótmæli ég þessari vinnuaðferð. Í sambandi við það, sem þessi hv. þm. sagði, vil ég segja það, að ég held, að þjóðin hafi orðið vör við óreiðuvíxlana frá ríkisstjórninni, er ríkti 1959, eða þeirri stefnu, sem upp var tekin með stjórnarsamstarfinu 1959 og síðan, þar sem á þjóðina hafa verið lagðar álögur á annan milljarð, þó að hins vegar tækist að afgreiða greiðsluhallalausan ríkisbúskap árið 1959, vegna þess að eytt var fyrningunum frá 1958.