16.02.1961
Efri deild: 61. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

173. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Heilbr: og félmn., sem flutti þetta frv., hefur rætt það á fundi, eftir að 1. umr. fór fram. Þá hafði borizt umsögn um það frá fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, sem haldinn var hér í Reykjavík fyrir skömmu. Umsögn fulltrúaráðsfundarins var jákvæð, og lagði hann til, að frv. verði samþ., en bar jafnframt fram nokkrar brtt. Heilbr.- og félmn. hefur farið gaumgæfilega yfir þessar till. Nokkrar þeirra hefur hún gert að sínum till., og koma þær fram á þskj. 372, en þar getur að líta þær brtt., sem heilbr.- og félmn. flytur við þessa umr.

Fyrstu tvær brtt. á þskj. 372 eru um það, að í stað orðsins „meðlimir“ komi: þegnar. Orðið „meðlimir“ þykir ófagurt orð og auk þess ekki góð íslenzka. N. kom ekki auga á annað heppilegra orð í stað þess en orðið „þegnar“ til þess að tákna þá, sem réttinda njóta og skyldur bera sem einstaklingar í sveitarfélagi. Orðið „íbúi“, sem kom til álita í þessu sambandi, hefur takmarkaðri merkingu og fullnægir því ekki þeirri merkingu, sem hér er um að ræða.

3. brtt. á þskj. 372 þarf ekki skýringar að öðru leyti en því, að til þess er ætlazt, að orðalag verði skýrara, ef sú till. verður samþ.

4. brtt. þarf ekki heldur skýringa við. Hér er einungis um að ræða orðalagsbreytingu, sem betur þykir fara.

5. brtt. er efnisbreyting, borin fram að tilmælum fulltrúaráðsfundar Sambands sveitarfélaganna. Í frv. er gert ráð fyrir, að heimilt sé að ákveða þóknun til sveitarstjórnarmanna fyrir störf þeirra, en brtt. kveður svo á, að þetta skuli skylt.

6. brtt. er einnig efnisbreyting og borin fram eftir tilmælum fulltrúaráðsfundarins. Hún fjallar um það, að í stað 1/10 í 31. gr. komi 1/4, en greinin fjallar um almenna sveitarfundi og hve mikinn fjölda atkvæðisbærra manna í hreppi þurfi til þess, að skylt sé að kveðja saman slíkan fund. Fulltrúaráðsfundinum þótti sem 1/10 hluti væri of lítill hluti atkvæðisbærra manna og lagði til, að þetta yrði nokkuð hækkað, og rökin fyrir því eru þau, að það kunni að vera hætta á, að þetta ákvæði yrði misnotað, ef allt of auðvelt væri að koma því við að heimta, að saman yrðu kvaddir slíkir fundir.

7. brtt. er leiðrétting á orði og þarf ekki skýringa. Sama er að segja um 8. brtt., sem er leiðrétting á tilvitnun.

9. brtt. og 10. eru einnig bornar fram eftir tilmælum fulltrúaráðsfundarins og eru báðar um það, að sama regla skuli gilda fyrir Reykjavík og aðra kaupstaði í sambandi við tímamörk við ársreikningagerð og endurskoðun.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur á þskj. 335 flutt nokkrar brtt. við þetta frv. Hann er því miður ekki viðstaddur í dag, sem æskilegt hefði verið, en heilbr.- og félmn, hefur athugað þessar brtt. á þskj. 335, og ég ætla, að það sé óhætt að segja, að hún sé nokkurn veginn einhuga um afstöðu til þeirra, a.m.k. flestra. Ég vil þó geta þess, að hv. 3. þm. Vestf. sat ekki þennan fund heilbr.- og félmn., þegar þetta mál var til umr. og afgreiðslu hjá nefndinni.

Nefndin mælir með 1. brtt. á þskj. 335. Hún er sammála flm. um, að betur fari á, að fyrirsögn I. kafla sé „Sveitarstjórnarumdæmi“.

Hins vegar voru nm. sammála um, að 2. brtt. væri óæskileg. Í frv. segir, að ríkið skiptist í sveitarfélög. Það er að dómi n. ómótmælanleg staðreynd. Til þess að um ríki sé að ræða, þarf að vera fyrir hendi fólk, land og stjórnskipulag. Ríkið skiptist í stjórnarfarslegar einingar. Hinar minnstu þeirra eru sveitarfélög. Þetta þarf ég vitanlega ekki að segja hv. þdm., því að þetta liggur í augum uppi. Þannig skiptist ríkið í sveitarfélög, og er sveitarfélag þá hugsað sem stjórnarfarsleg eining. Ef átt væri eingöngu við landfræðilega einingu, væri réttara að orða þetta svo, að ríkið skiptist í sveitir og bæi, eða að ríkið skiptist í hreppa og bæi, en ekki í sveitarfélög. Þegar maður talar um sveitarfélag, hefur maður ekki hina landfræðilegu einingu í huga, heldur hina stjórnarfarslegu.

Nefndin er einnig andvíg 3. brtt. á þskj. 335. Frv. er þannig úr garði gert, að þar er á fjölmörgum stöðum talað um sveitarfélög, þannig að átt er við hreppsfélög og bæjarfélög. Ef breyta ætti þessu í 2. gr., væri óhjákvæmilegt að plægja frv. upp og breyta ýmsum greinum þess og ég vil segja æði mörgum, til þess að ekki verði um villzt, að reglur um hreppa og bæi eigi ekki einnig við um sýslur. Ég vil í þessu sambandi einungis benda á 10. og 11. gr. frv. Í 10. gr. eru talin upp þau mál, sem sveitarfélagi er skylt að annast. Þar er um að ræða mál, sem sýslum er engan veginn skylt að annast. Sama má segja eða svipað um 11. gr. og vafalaust margar fleiri. Þar að auki er það a.m.k. mín skoðun, að það sé jafnvel rangt og a.m.k. óæskilegt að kalla sýslu sveitarfélag. Þá merkingu hefur orðið ekki í mæltu máli og ekki ástæða til að lögbjóða þá merkingu, enda vafasamt, hve haldgott það yrði. Orðið sveitarfélag kemur fyrst fyrir í prentuðu máli, svo að vitað sé, í Lærdómslistafélagsritum, síðan í Fjölni og þjóðsögum Jóns Árnasonar. Á öllum þeim stöðum er það í merkingunni hreppsfélag. Í gömlum orðabókum fyrirfinnst það ekki, hvorki hjá Birni Halldórssyni né hjá Fritzner, en í orðabók Sigfúsar Blöndals er það þýtt með „Kommune“. Ég ætla, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessa brtt.

Þá er það 4. brtt. N. er einnig andvíg þeirri brtt., en leggur til á þskj. 372. að í stað „meðlimir“ komi: þegnar, og sama er að segja um 5. brtt.

Um 6. brtt. á þskj. 335 er það að segja, að nefndin er henni andvíg af sömu ástæðu og hinni 3., enda er samband þar á milli.

Þá er það 7. brtt. Tillögumaður leggur til, að eitt af kosningarréttarskilyrðunum verði óflekkað mannorð. Í dag er þetta eitt af skilyrðum til kosningarréttar. Þetta ákvæði var einnig í frv., eins og það var borið fram hér í hv. deild á siðasta þingi, en ástæðan til, að nefndin tók það út að þessu sinni, er sú, að hér í hv. deild eru til afgreiðslu ein 12–15 frv., sem öll fela það í sér að nema á brott úr lögum ákvæði um, að óflekkað mannorð skuli vera skilyrði fyrir því, að maður megi njóta ýmissa réttinda, þ. á m. kosningarréttar til sveitarstjórna. Hins vegar heyri ég sagt, að líklegt sé talið, að þessi frv. verði ef til vill ekki afgr. á Alþingi því, sem nú situr, og jafnvel þótt svo yrði, mundi engu að síður haldast í lögum, að óflekkað mannorð yrði skilyrði til þess að njóta kosningarréttar til Alþingis, vegna þess að það ákvæði er stjórnarskrárbundið, því. verður ekki breytt, nema stjórnarskránni yrði breytt. Þess vegna hefur heilbr.- og félmn. að athuguðu máli komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé ef til vill ekki æskilegt eða heppilegt að fella þetta niður úr kosningarréttarskilyrðum að þessu sinni, og munu nefndarmenn því væntanlega greiða atkv. með 7. brtt. á þskj. 335 og mæla með henni.

Um 8. brtt. er það að segja, að nefndin flytur sjálf breytingu við 19. gr. á þskj: 372 og telur það orðalag betra en í brtt. hv. 3. þm. Norðurl. v.

9. brtt. er um, að formaður sveitarstjórnar nefnist oddviti. Nefndin er einnig andvíg þessari till. Hún telur ekki ástæðu til að leggja niður heitið bæjarstjórnarforseti, sem er orðið fast í málinu.

Þá er það 10. brtt. Hún fjallar um það, að sveitarstjórn skuli sjálf setja sér fundarsköp án þess að staðfesta þau. Í frv. er gert ráð fyrir því, að ráðuneyti setji fundarsköp fyrir sveitarstjórnirnar. Nefndin telur þessa breytingu á þskj. 335 ef til vill frekar til bóta, og ég geri ráð fyrir, að nefndarmenn verði henni meðmæltir eða greiði henni atkv., en þeir hafa þó að sjálfsögðu óbundnar hendur þar um, þannig að ég get a.m.k. fullyrt, að nefndin var ekki þessu ákvæði andvíg.

Um 11. brtt. er ekkert að segja. Hún er við 40. gr. og tillögumaður leggur til, að í stað „þegn hreppsins“ komi: hreppsbúa. Nefndin telur ekki ástæðu til að samþykkja þessa breytingu, vegna þess að á ýmsum öðrum stöðum í frv. er talað um þegna hrepps og yrði orðinu því ekki útrýmt úr frv., þótt þessi till. yrði samþykkt, enda telur nefndin ekki æskilegt, að svo yrði gert.

Ég held ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessar brtt. Ég vil segja það aftur, að mér þykir leitt, að hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli ekki vera viðstaddur til þess að mæla fyrir sínum till.