28.03.1961
Neðri deild: 87. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

190. mál, síldarútvegsnefnd

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að því nokkrum orðum, að mér finnst, að afgreiðsla þessa máls fari hér fram með nokkuð sérstæðum hætti. Hér er um það að ræða að breyta löggjöf, sem orðin er æði gömul, líklega um 26 ára gömul, — löggjöf, sem óneitanlega er býsna þýðingarmikil. Þannig er að málinu staðið, að flutt er um þessa löggjöf frv. hér af þremur hv. þm. í Ed. Hér er ekki um ríkisstjórnarmál að ræða. Málið hefur því ekki verið undirbúið af ríkisstj., eftir því sem bezt verður séð.

En þrátt fyrir það, þó að málið beri svona að, að hér sé um þingmannafrv. að ræða og það um breyt. á svona gamalli og merkilegri löggjöf, eins og þetta er, þá fá þingnefndir ekki eðlilegan tíma til þess að athuga þær breyt., sem frv. raunverulega felur í sér á gildandi lögum. Mér er kunnugt um það, hvernig nefndarstörfum var háttað hér í þessari hv. d. Sjútvn. hafði rétt aðeins komið saman að nafninu til, en enginn tími fékkst til þess að athuga raunverulega um efni frv. Það kom fljótt í ljós, að sú stofnun, sem hefur haft með framkvæmd á þessari löggjöf að gera, síldarútvegsnefnd, sem raunverulega hefur verið opinber stofnun, ríkisstofnun, hefur ekki lagt fram neina umsögn um efni þessa frv., og nm. gátu því ekki af leiðbeiningum þaðan áttað sig neitt á því, hvaða breytingar raunverulega er um að ræða á þessari löggjöf.

Flm. frv. geta þess í grg., eins og hér hefur komið fram í umr., að ýmsar breytingar felist í þessu frv. á gildandi lögum fleiri en aðalbreytingin, sem er varðandi skipun síldarútvegsnefndar. Ég hygg, að það hafi ekki heldur verið gerð nein grein fyrir því hér af þeim, sem annars vilja afgreiða þetta mál nú, hvaða breytingar er raunverulega um að ræða aðrar en skipun á n. Þingmönnum er því raunverulega gert það að standa hér frammi fyrir því að greiða atkv. um frv., sem þeir hafa ekki fengið neinar upplýsingar að ráði um, hvað raunverulega felur í sér. Þetta eru auðvitað alveg óvenjuleg vinnubrögð, ásamt svo með því að boða hér til fundar um þetta mál, næturfund, að nýafstöðnum útvarpsumræðum. Ég hygg, að það sé nærri því einsdæmi, að boðað sé til fundar undir slíkum kringumstæðum.

Ég hlýt fyrir mitt leyti að mótmæla þessum vinnubrögðum sem alveg óvenjulegum og óeðlilegum í mesta máta. Ég hefði líka talið fulla ástæðu til þess, að hæstv. forseti tæki hér tillit til umkvartana þingmanna í þessum efnum og sæi til þess, að hægt væri að afgreiða þetta mál með eðlilegum og þinglegum hætti, þannig að allar upplýsingar fengju að koma fram á venjulegan hátt í þingnefnd, sem á raunverulega skyldu sinni samkvæmt að kynna sér allar þær breytingar, sem felast raunverulega í frv. En til þess hefur sem sagt ekki gefizt neinn tími, og með þessum vinnubrögðum hér á Alþ., að halda næturfund nú um málið, sýnist mér, að engin aðstaða sé til þess fyrir þdm. að kynna sér svo efni frv. sem þeir ættu raunverulega að gera.

En ég skal nú, af því að það virðist vera ætlunin að reyna að halda hér áfram þingfundi í nótt um þetta mál, víkja að ýmsum efnisatriðum í þessu frv., sem mér eru þegar ljós, þó að ég játi, að ég hef ekki gert mér fyllilega grein fyrir öllum þeim breytingum, sem kunna að felast í þessu frv. frá gildandi lögum. Ég hef alls ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér það.

Það er tekið fram í grg. frv., að aðalbreytingin sé fólgin í því að breyta um skipun síldarútvegsnefndar. Nú vitum við það, að síldarútvegsnefnd hefur verið þannig skipuð um langan tíma, að það hafa verið 5 fulltrúar í nefndinni, 3 þeirra hafa verið kosnir af Alþingi, en einn hefur verið tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands og einn tilnefndur eða kosinn af síldarútvegsmönnum þeim, sem gert hafa út á síld það ár, sem kosning hefur farið fram. Það er því alveg ljóst, að skipun n. hefur verið þannig, að Alþingi hefur kosið meiri hl. n., enda hefur n. haft mjög víðtækt vald varðandi sölu á síld, varðandi síldarsöltun í landinu og annað það, sem þar til heyrir. Hún hefur raunverulega starfað sem hver önnur ríkisstofnun. Hún hefur haft ákveðinn tekjustofn, og nokkrar eignir hafa myndazt í sambandi við starfsemi nefndarinnar. Nefndin hefur haft æðsta vald í þessum málum, og eins og ég segi, hún hefur raunverulega starfað eins og einkasölustofnun í öllum aðalatriðum, því að valdið hefur hún haft til þess, og hún hefur raunverulega annazt svo að segja alla sölu á síld nú um margra ára skeið. En nú er lagt til, að skipun nefndarinnar verði breytt þannig, að í nefndinni verði 7 menn í staðinn fyrir 5. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að Alþingi kjósi áfram aðeins 3 eða minni hluta nefndarinnar, en hefur hingað til kosið meiri hluta nefndarinnar, en fjórir verði tilnefndir af þar til greindum stofnunum, einn af Alþýðusamband Íslands eins og áður og einn af Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, sem er nýr aðili og á sýnilega að koma inn fyrir starfandi síldarútvegsmenn, og síðan er lagt til, að síldarsaltendafélag á Norður- og Norðausturlandi tilnefni einn og síldarsaltendafélag á Suðvesturlandi tilnefni einn mann. Með þessari skipan væri sú grundvallarbreyting gerð á þessari nefnd, að Alþingi kysi aðeins 3 menn í nefndina eða minni hluta, en stofnanir utan þingsins tilnefndu meiri hluta nefndarinnar. Hér er raunverulega um grundvallarskipulagsbreytingu að ræða, þar sem þessi nefnd hefur jafnvíðtækt vald og frumvarp þetta ber með sér að henni er ætlað að hafa. Hún á raunverulega, eins og gamla síldarútvegsnefndin hefur enn, að hafa hér fullkomna einkasöluaðstöðu og ákveðinn tekjustofn, sem er visst hundraðsgjald af allri útfluttri síld frá landinu.

Ég tel, að hér sé gerð sú breyting á skipun síldarútvegsnefndar, sem raunverulega fái ekki staðizt, miðað við alla uppbyggingu nefndarinnar. Ég álít, að menn verði að velja á milli tvenns konar skipulags í þessum efnum. Annaðhvort er um það að ræða, að síldarsaltendur hafi með sér sölusamtök, byggð upp t.d. á svipuðum grundvelli og frysihúsaframleiðendur hafa með sér sölusamtök nú. Þá gætu þeir að sjálfsögðu ráðið þessum málum innan þeirra marka, sem ríkið vill heimila þeim það, og þá yrðu framleiðendur að hafa allan veg og vanda af rekstri þeirra samtaka, taka á sig auðvitað allan kostnaðinn við að leita markaða, gera viðskiptasamninga og stjórna síldarsöltunar- og síldarsölumálum sinna meðlima. Slík samtök, byggð upp af framleiðendum sjálfum, koma að mínum dómi fyllilega til greina, en þó þannig, að ríkið hefði að sjálfsögðu sitt almenna eftirlit með framkvæmd þessara mála, eins og ríkið hefur nú áskilið sér rétt gagnvart ýmsum öðrum framleiðendum í landinu. Gildandi lög um síldarútvegsnefnd gera raunverulega ráð fyrir þessari skipan, ef síldarsaltendur sjálfir koma sér saman um þetta skipulag. Ef sá af síldarsaltendum í landinu óska eftir því að mynda með sér slík samtök sem þessi, er raunverulega hægt að veita þeim aðstöðu til þess að reka sitt sölusamlag í meginatriðum á þeim grundvelli, sem lögin gera annars ráð fyrir um síldarútvegsnefnd. En reynslan hefur hins vegar sýnt það, að síldarsaltendur hafa ekki óskað eða viljað taka á sig þann vanda, sem þessu fylgir, þeir hafa ekki komið sér saman um þetta skipulag, þeir hafa ekki farið þessa leið. Hin leiðin er sú, að gildandi sé svipað fyrirkomulag og verið hefur á þessum málum hjá okkur nú um 26 ára tímabil, þ.e.a.s. að þessi mál hafa verið í öllum aðalatriðum í höndum ríkisvaldsins. Alþingi hefur kosið meiri hl. nefndarinnar, og nefndin hefur eðli málsins samkvæmt starfað mjög náið í samráði við atvmrn. eða sjútvmrn, nú síðari árin. Hins vegar hefur síldveiðisjómönnum verið gefinn nokkur kostur á þátttöku í nefndinni, þar sem A.S.Í. mátti tilnefna einn mann, og var þá sýnilega ætlazt til þess, að þar væri í n. fulltrúi frá hálfu sjómanna, þeirra sem síldveiðar stunda, en þeir eru auðvitað stórir aðilar að þessum málum, síldveiðisjómenn, og í öðru lagi var starfandi síldarútvegsmönnum, þ.e.a.s. þeim útvegsmönnum, sem báta gera út á síld, gefinn kostur á því að kjósa einn fulltrúa af sinni hálfu í nefndina. Þannig var síldarframleiðendum gefinn kostur á því að fylgjast með, en Alþingi áskildi sér rétt til þess að kjósa nefndina að meiri hluta til, vegna þess að hún fékk vald sem í rauninni hrein ríkisstofnun.

En það er rétt, að það hefur borið á því oft á undanförnum árum, að síldarsaltendur, sem hér eiga auðvitað mikilla hagsmuna að gæta, hafa mjög viljað koma sér inn í síldarútvegsnefnd, og því er ekki að leyna, að einstakir síldarsaltendur hafa lagt á þetta mikla áherzlu og alveg greinilega beint hagsmuna sinna vegna. En það hefur talsvert verið um það rætt, að það væri jafnvel eðlilegt undir þeim kringumstæðum, sem nefndi hefur verið rekin, að í nefndinni væri enginn beinn síldarsaltandi, og það er aðeins vegna þess, að það er eflaust erfitt að forðast það, ef einstakir síldarsaltendur eru í slíkri ríkisstofnun eins og þessi nefnd er, með öllu því valdi, sem hún hefur, að þá fái síldarsaltendur nokkra sérstöðu, nokkra sérhagsmuni fram yfir aðra síldarsaltendur, sem standa utan nefndarinnar, í sambandi við alla vitneskju nefndarinnar og ákvarðanir af nefndarinnar hálfu. Þetta hefur iðulega komið fram í framkvæmdinni, að síldarsaltendur af þessum ástæðum legðu allmikið kapp á það að pota sér hver fyrir sig inn í nefndina. Að sjálfsögðu hafa hinir ýmsu saltendur knúið á flokkana, sem hafa aðstöðu til þess að fá menn kjörna í síldarútvegsnefnd gegnum Alþingi, og á þann hátt hafa nokkrir síldarsaltendur komizt inn í nefndina, með þeim afleiðingum, að allmargir aðrir saltendur, sem hafa auðvitað orðið að standa utan nefndarinnar, hafa ekki talið sig hafa fyllilega sömu aðstöðu í samkeppninni og þeir, sem í nefndinni voru.

Mér er alveg ljóst af kunnugleika mínum í þessum efnum, að það, sem er fyrst og fremst á ferðinni í sambandi við þessa tillögu, sem hér liggur fyrir um breytingar á skipun nefndarinnar, er einmitt þessi gamla ásókn. Hér eru tilteknir síldarsaltendur, sem oftsinnis hafa gert tilraun til þess að komast með einhverjum hætti í nefndina, hér eru þeir að brjótast inn eftir þessum sérleiðum. Mér er líka ljóst, að þetta innbrot þeirra í nefndina er síður en svo samkvæmt ósk meiri hluta síldarsaltenda í landinu. Og það er einmitt af þessum sömu ástæðum, sem það kom fram, að mikill meiri hluti síldarsaltenda á þýðingarmesta og stærsta söltunarstað á landinu, á Siglufirði, samþykkti að mótmæla þessu frv., því að þeir vissu mætavel, hvað var raunverulega að gerast í þessum efnum, að það voru tilteknir menn að reyna að brjótast inn í nefndina eftir þessum krókaleiðum. Ég undirstrika það, að ég hef ekkert á móti því, að þau samtök, sem síldarsaltendur hafa með sér, fái aðstöðu til þess að taka að sér þessi mál að fullu og öllu. En þá eiga þau líka að koma fram með samþykktir, sem studdar eru af ¾ starfandi síldarsaltenda í landinu, og óska eftir slíku skipulagi og starfa að þessum málum á almennum félagslegum grundvelli, þar sem þeir mynduðu sitt sölusamlag. Þar gætu síldarsaltendur sjálfir kosið sér sína stjórn árlega og gert upp sín þrætumál, eins og gerist í félögum, skipt um stjórn og borið allan veg og vanda af rekstri þessarar stofnunar innan þeirra marka, sem ríkið að öðru leyti leyfir framleiðendum að hafa í sambandi við framleiðslu- og sölumál. En það ber einmitt að benda á það í þessum efnum, að þetta hefur ekki gerzt nú í hópi síldarsaltenda í landinu. Þeir hafa ekki komið sér saman um það sjálfir að taka upp þetta skipulag, heldur virðist leiðin vera sú, að nokkrir síldarsaltendur, — mér skilst helzt þeir, sem eru í stjórnum þessara tveggja söltunarfélaga á Norður- og Norðausturlandi og Suðvesturlandi, — þeir fáu menn, sem þar eru í stjórn, vilji fá aðstöðu til þess að komast eða senda fulltrúa inn í síldarútvegsnefnd, sem áfram á þó að vera raunveruleg ríkisstofnun, sem áfram á að hafa þá sérstöðu, miðað við önnur sölufélög í landinu, að hafa aðstöðu til þess að skattleggja alla síldarsaltendur í landinu í gegnum útflutning, en slíkt hafa önnur sölusamtök ekki yfirleitt.

Ég er því á þeirri skoðun, að hér eigi síldarsaltendur að gera upp við sig í sínum eigin samtökum þessi mál og að Alþingi eigi líka að marka sína afstöðu í þessum efnum skýrt. Framleiðendur geta valið á milli þess að taka að sér þessi mál sjálfir og hafa veg og vanda af þeim, ef þeir koma sér saman um það. En ef þeir koma sér ekki sama um það og þetta á raunverulega að vera ríkisstofnun með öllum þeim skyldum og réttindum, sem því tilheyra, þá verður líka Alþingi eð kjósa áfram meiri hluta nefndarinnar.

Það eru ýmis fleiri atriði varðandi skipun nefndarinnar, sem gert er ráð fyrir breytingum á í þessu frv. og mjög orka tvímælis. Eins og ég sagði, hefur sá háttur verið hafður á, að starfandi síldarútgerðarmenn hafa haft rétt til þess að kjósa einn mann í nefndina. Nú er gert ráð fyrir að fella þetta ákvæði niður, en setja annað í staðinn um það, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna hafi rétt til þess að tilnefna einn mann í nefndina. Það er mér alveg ljóst, að þetta þýðir í framkvæmdinni að heimila stjórn L.Í.Ú. að tilnefna þennan fulltrúa. Nú er stjórn L.Í.Ú. þannig skipuð og í rauninni samtökin líka, að togaraeigendur eiga þar hálfan rétt á við bátaeigendur í landinu. Þeir hafa jafnmarga fulltrúa í stjórn samtakanna og bátamenn hafa. Hér er því verið að gefa togaramönnum stóraukinn rétt til þess að tilnefna mann í þessa nefnd. Eins og stjórn landssambandsins er skipuð nú og hefur raunar verið skipuð um nokkurra ára skeið, þá þýðir þetta raunverulega, að það verða togaraeigendur, sem tilnefna þennan mann. En slík breyting frá því, sem verið hefur, er auðvitað í mesta máta óeðlileg. Auk þess er svo það, að auðvitað eru í L.Í.Ú. miklu fleiri aðilar en þeir, sem gera út á síld hverju sinni. Það fyrirkomulag, sem áður gilti í þessum efnum, var því miklu réttlátara, að allir þeir, sem gerðu út skip á síldveiðar, hefðu almennan rétt til þess, allir með jöfnum atkvæðisrétti, að velja þennan fulltrúa. Ég tel því, að þessi breyting sé mjög stórvægileg, hún í raun og veru breyti þessu í grundvallaratriðum, og ég álít, að þessi breyting sé til hins verra, hún sé í eðli sínu ósanngjörn og þetta ákvæði ætti því ekki að vera svona.

Ég veitti því athygli, að flm. frv. leggja á það sérstaka áherzlu í grg. fyrir frv., að eins og ákvæðin eru nú í lögum um skipun síldarútvegsnefndar ráði því hending ein, hvort í n. er nokkur síldarsaltandi eða ekki. Og þeir telja svo mikla nauðsyn á því að tryggja, að fulltrúar séu frá síldarsaltendum sem slíkum, að það sé þörf á því að breyta ákvæðum laganna vegna þess. Ég segi aftur á móti fyrir mitt leyti, eins og ég hef lýst hér nokkuð áður, að ég er á því, að það færi að mörgu leyti langbezt á því, eins og n. hefur verið rekin, að í nefndinni væri enginn starfandi síldarsaltandi, vegna þess að n. hefur í þessum efnum starfað fullkomlega sem ríkisstofnun. Ég fyrir mitt leyti hefði t.d. ekki talið það á neinn hátt til bóta að hafa þau ákvæði í lögum um skipun innflutnings- og gjaldeyrisnefndar, á meðan hún var starfandi, eða innflutningsskrifstofu, að samtök heildsala og samtök Sambands ísl. samvinnufélaga eða annarra innflytjenda ættu rétt á því að skipa beinlínis fulltrúa í þessa nefnd, svo lengi sem nefndin er raunverulega starfandi sem ríkisstofnun og rekin á ábyrgð og kostnað ríkisins, eins og gert var. Hitt skipulagið er svo auðvitað til, eins og talað hefur verið um að gera nú og gert að nafninu til, að leggja innflutningsskrifstofuna niður, hafa enga sérstaka opinbera stofnun, sem fer með þetta vald, en heimila innflytjendum að ráðska með þessi mál sjálfum. En þá verða þeir vitanlega líka að hafa þarna allan veg og vanda af.

Ég tel því, að þessi röksemd, sem fram kemur í grg. með frv., að það þurfi nú að rífa upp þessa gömlu löggjöf af þessum ástæðum, sé raunverulega afar léttvæg og hæpin, enda hefur það þegar komið fram, að mikill meiri hluti síldarsaltenda óskar alls ekki eftir þessu. Þeir eru ekkert ánægðir með það að gera þessa breytingu út af fyrir sig.

Ég skal svo taka það fram, að ég hef verið á þeirri skoðun, að það væri full ástæða til þess að endurskoða þessi lög og þar með að taka til nýrrar athugunar, hvernig heppilegast væri, að n. væri skipuð. Ég vil ekki halda því fram á neinn hátt, að þau ákvæði, sem um þetta gilda nú, séu hin heppilegustu að öllu leyti. En ég held, eð sú breyting, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sé alls ekki til bóta, og ég er næstum viss um það, að verði hún samþykkt hér og n. taki að starfa eftir þessum ákvæðum, verður þess ekki langt að bíða, að það verði að rífa þessa löggjöf upp aftur vegna óánægju síldarsaltenda um þetta form og vegna þess að menn munu komast að raun um, að þetta er í mesta máta óeðlilegt, að nefndin sé rekin á þennan hátt sem opinber stofnun, en þó kosið í hana að minni hluta til af Alþingi.

Það eru eflaust mörg önnur ákvæði í lögunum um síldarútvegsnefnd, sem þörf er að taka til endurskoðunar. Það er rétt, að það eru þó nokkuð breytt viðhorf í þessum málum öllum frá því, sem var, þegar lögin upphaflega voru sett. Það er líka vafasamt, að rétt sé að gera þá breytingu, sem gerð er með þessu frv. í þá átt að taka undan valdsviði nefndarinnar ýmsar aðrar verkunaraðferðir á síld, en halda einvörðungu eftir saltsíldinni. Þó er það svo, að framkvæmdin mun hafa verið þannig í öllum aðalatriðum, að nefndin hefur lítið sem ekkert skipt sér af hinum öðrum verkunaraðferðum á síld, sem hér hafa þó átt sér stað. En því er þó ekki að neita, að það er svo margt, sem kemur hér saman einmitt varðandi starfssvið nefndarinnar, varðandi reglur um veiði og oft og tíðum um sameiginlega verkun á hinum ýmsu stöðvum, sem með síldarverkunina hafa að gera, að það er nokkur vafi á því, hvort á að skilja svo á milli sem gert er í þessu frv. Enn fremur verð ég að segja það, að það er líka vafasamt að innheimta í sjóð síldarútvegsnefndar 2% gjald af öllu útflutningsverðmæti síldar og þá einnig af þeirri síld, sem getur farið í allt aðra verkun en þá, sem síldarútvegsnefnd lætur sig skipta.

En í sambandi við þetta mál og skipun nefndarinnar þarf að hafa í huga, að verkefni síldarútvegsnefndar hefur verið býsna margþætt. Það hefur verið meira en aðeins um það að ræða að annast síldarsöluna eina saman. Nefndin hefur haft vald til þess að löggilda söltunarstöðvar og hefur átt að hafa eftirlit í þeim efnum. Í þessum efnum hefur æði oft komið upp ágreiningur. Það er t.d. augljóst í þessum efnum, að það er afar hæpið að ætla að láta meirihluta nefndarinnar vera tilkominn eftir tilnefningu utanþingsstofnana, en fá þó það vald að geta ráðið því, hverjir mega koma inn í síldarsöltunina, hverju sinni. Það hefur æði oft komið fyrir, að síldarútvegsnefnd hefur synjað aðilum um leyfi til þess að komast inn í síldarsöltunina. Á meðan meiri hl. n. er kosinn af Alþingi og n. starfar þannig sem opinber stofnun, er ekkert við því að segja, þó að hún hafi svona víðtækt vald. En ég teldi afar hæpið að láta hana hafa slíkt vald, eftir að skipun hennar væri orðin eins og í þessu frv. er gert ráð fyrir.

Þá hefur síldarútvegsnefnd einnig haft samkv. lögunum það verkefni að annast markaðsleit. Það hefur í nokkrum tilfellum, þó að betur hefði í rauninni mátt standa að þeim málum, verið um það að ræða, að síldarútvegsnefnd hefur sent menn til útlanda til þess að leita þar að nýjum mörkuðum og kynna sér möguleika á sölu þar til nýrra aðila. Hér er auðvitað líka um mjög víðtækt og mikið verksvið að ræða, sem að mínum dómi hefur engan veginn verið unnið nægilega vel að af síldarútvegsnefnd á undanförnum árum. Ég er þeirrar skoðunar, eð það þurfi að gera miklu meira í þeim efnum en gert hefur verið að kynna saltsíldina okkar í markaðslöndunum og leita þar uppi nýja möguleika til viðbótar við þá, sem við þekkjum. Komið hefur það fyrir í einstaka tilfellum, að síldarútvegsnefnd hefur heimilað einstökum síldarsaltendum að selja smærri sendingar bæði í tilraunaskyni og á annan hátt, en oft hefur líka staðið hörð deila um það á milli síldarútvegsnefndar og einstakra framleiðenda, hve langt ætti að gagna í þeim efnum. Að þessu leyti hefur síldarútvegsnefnd mjög víðtækt og mikið vald og nokkuð óvenjulegt. A.m.k. yrði það að teljast mjög óvenjulegt, að hún hefði, slíkt vald, ef hún væri að meiri hluta til kosin af aðilum utan Alþingis, því að ég hugsa, að mönnum þætti það allhart, ef síldarútvegsnefnd þannig skipuð utanþingsaðilum, neitaði einstökum saltendum um rétt til þess að selja þá síld úr landi, sem n. tæki ekki að sér sjálf eða treysti sér ekki til að selja. En slíkt hefur komið fyrir í sambandi við þessa ríkisstofnun, sem síldarútvegsnefndin hefur verið. Og menn verða vitanlega að sætta sig við allt annað í þeim efnum, þar sem um opinberar stofnanir er að ræða, heldur en um stofnanir, sem fá slíkt vald af löggjafans hálfu, en eru þó í rauninni ekki lengur opinberar stofnanir.

Þá hefur síldarútvegsnefnd einnig haft það verkefni samkvæmt lögunum að hafa með höndum tilraunir með nýjar veiðiaðferðir. N. hefur ekki gert ýkjamikið í þessum efnum. Þó hefur hún átt hér nokkurn hlut að máli. En í þessum efnum hefur þörfin auðvitað verið gífurlega mikil. Það er enginn vafi á því, að það hefði átt að gera í þessum efnum miklu meira en n. hefur gert. Ég óttast mjög, verði skipun n. breytt, eins og gert er ráð fyrir í frv., að þá mundu flest þessi verkefni verða skilin eftir að meira eða minna leyti. Og því er ekki að neita, að það er á margan hátt eðlilegra, að opinber stofnun, ríkisstofnun, hafi með verk eins og þessi að gera, heldur en slík stofnun sem ráðgert er raunverulega að koma upp samkvæmt þessu frv.

Þá er þess einnig að gæta í sambandi við það, að nú er lagt til, að tvö síldarsaltendafélög fái rétt til þess að skipa mann í nefndina, síldarsaltendafélag á Norður- og Norðausturlandi og síldarsaltendafélag á Suðvesturlandi, að þessi félagasamtök munu hafa verið mjög laus í böndunum og ekki haft ýkjamikla starfsemi fram til þessa, og það er rétt, sem hér kom fram í umr. í kvöld, að það hefur allmikið verið rætt um það meðal síldarsaltenda á Austurlandi að stofna sérstakt félag með sér. Þeir hafa verið á margan hátt mjög óánægðir með mörg þau málefni, sem þessi síldarsaltendafélög hafa haft með að gera. Þau hafa talið sinn hlut liggja þar eftir, og mér þætti ekki ósennilegt, að til þess kæmi nú, þegar síldarsaltendum á Austurlandi fjölgar, eins og augljóst er, að þeir mynduðu með sér sérstakt saltendafélag og færu þá að sjálfsögðu fram á að mega tilnefna mann í nefndina. Ég sé þá ekki, hvaða rök gætu verið fyrir því að neita þeim um að fá fulltrúa í nefndina, eftir að gengið hefði verið inn á þessa braut, sem lagt er til í þessu frv.

Þessi atriði öll sýna það auðvitað augljóslega, að hér er verið að vinna að breytingum á síldarútvegsnefnd alveg á röngum grundvelli. Þetta er alveg óeðlileg aðferð, og ég held, að það hefði verið miklu farsælla fyrir alla aðila í þessum efnum að fallast á þá leið, sem við höfum bent á í minni hl. sjútvn. þessarar deildar, að málið yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá að þessu sinni, í fullu trausti þess, að ríkisstj. láti fara fram ýtarlega endurskoðun á þessari löggjöf, og þá yrði að sjálfsögðu hægt að athuga um það, hvaða breytingar þætti tiltækilegt að gera á skipun síldarútvegsnefndar og hvort hægt væri þá með einhverjum skaplegum hætti að mæta óskum síldarsaltenda að einhverju leyti í áttina við það, sem þarna er verið að leita að. Ég teldi t.d., að það hefði verið allmikill munur á því, ef horfið hefði verið inn á þá braut að fjölga í nefndinni ekki aðeins upp í 7 úr 5, heldur upp í 9, þannig að það hefði líka verið bætt við tveimur fulltrúum til viðbótar frá hálfu Alþingis, þannig að Alþingi hefði haldið áfram að kjósa meiri hl. n., ef áfram á að halda því meginskipulagi nefndarinnar, að þetta sé ríkisstofnun með fullkomnu valdi, eins og ríkisstofnanir hafa. Þá hefðu auðvitað þessi söltunarfélög fengið óskum sínum fullnægt í þessum efnum. Þau hefðu fengið aðstöðu til þess að tilnefna tvo fulltrúa í n., en hins vegar hefði grundvallarskipulagi n. ekki verið breytt, þannig að Alþingi hefði haldið áfram að ráða skipun meiri hl. n. Ég er fyrir mitt leyti ekki að mæla beint með slíku skipulagi. Ég hefði fyrir mitt leyti miklu fremur hallazt að þeirri breytingu á skipan nefndarinnar að gefa síldarsaltendum kost á því að mynda með sér sölusamtök, sem náð hefðu yfir allt landið, og allir síldarsaltendur í landinu hefðu haft aðstöðu til þess að vera í þeim samtökum á almennum félagslegum grundvelli og þeim sölusamtökum, sem þannig hefðu lýðræðislega verið upp byggð, hefði verið gefinn kostur á því að taka að sér framkvæmd þessara mála, en þó auðvitað undir eðlilegu eftirliti ríkisvaldsins. Ég fyrir mitt leyti hefði miklu fremur aðhyllzt að breyta þessu í það form og held satt að segja, að sölumál framleiðenda muni a.m.k. á einhverju tímabili einna frekast verða leyst á þeim grundvelli, þannig að hinir ýmsu framleiðendur eigi kost á því að mynda með sér sölusamlög, en ríkisvaldið hins vegar geti haft eftirlit með starfsemi þessara samlaga, sem ríkið telur nauðsynlegt til þess að tryggja, að hagsmunir þjóðarheildarinnar sitji jafnan í fyrirrúmi í sambandi við framkvæmd þessara mála. En sé ekki tekið upp slíkt skipulag, tel ég, að annar möguleikinn sé raunverulega sá, að ríkið hafi aðalábyrgðina á framkvæmd málanna og eigi, til dæmis í gegnum þingkjörna nefnd eða stjórnskipaða nefnd, að hafa með framkvæmd þessara mála að gera. Og það hefur auðvitað verið meginskipulagið á uppbyggingu síldarútvegsnefndar.

Ég hefði mjög gjarnan viljað fá upplýsingar um það í þessum umr. hjá þeim, sem mæla með samþykkt frv., hvort einhverjar samþykktir eru til staðar frá þessum söltunarfélögum um það, að lögunum verði breytt í þessa átt, sem hér er lagt til, eða hvort hér er aðeins um að ræða stjórnarsamþykktir í þessum félögum, þar sem stjórnendurnir eru að fara fram á þessa breyt. Ég hef nefnilega nokkra ástæðu til þess að halda, að óskirnar í þessum efnum séu ekki komnar frá síldarsaltendum almennt, heldur séu þær fyrst og fremst komnar frá stjórnum þessara samtaka. En það vitanlega breytir þessu máli mjög mikið, ef það er þanvíg. Þá sjá menn, að hér er tiltölulega fámennur hópur manna, sem er að reyna að koma frá sér fulltrúum inn í nefndina, en ekki um óskir frá síldarsaltendum almennt í landinu að ræða.

Þá er einnig þess að geta í þessum efnum, að samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir því, að við gildistöku þessara laga, en lögin eiga þegar að öðlast gildi, skuli falla niður umboð þeirra manna, sem nú skipa síldarútvegsnefnd. Ég hygg, að framkvæmdin mundi samkv. þessu verða sú, að nú í aprílmánuði eða svo mundu verða mannaskipti í síldarútvegsnefnd. Ég hygg, að slíkt mundi verða heldur óþægilegt í framkvæmd. Núverandi nefnd er eðlilega búin að gera ýmiss konar ráðstafanir varðandi síldarsöltunarmálefni, og ég veit, að hún hefur hagað störfum sínum þannig, að segja má, að hún sé í miðjum þýðingarmiklum verkefnum. Ég held, að miklu hefði verið eðlilegra að hafa það ákvæði í frv., þó að breyting yrði nú gerð á þessu þingi, að umboð þeirrar stjórnar, sem nú fer með valdsvið síldarútvegsnefndar, skyldi þó vera út þetta ár og hin nýja nefnd tæki ekki við fyrr en um næstu áramót. Slíkt hefði ég talið miklu eðlilegra og vandræðaminna á allan hátt. Mér sýnist alveg augljóst, að afleiðingarnar af samþykkt þessa frv. mundu verða þær, að það kæmi strax fram nýr meiri hl. í síldarútvegsnefnd, og auðvitað er hætt við, að sá nýi meiri hluti kynni að breyta í þýðingarmiklum efnum reglum og störfum nefndarinnar. Ég varð líka var við það, að hv. formaður sjútvn., sem þó mælir með samþykkt þessa frv., virtist einmitt vera á þessari skoðun, það litla sem hægt var að ræða í n. um málið, að það væri á ýmsan hátt miklu eðlilegra að breyta þessu ákvæði frv. og láta núverandi nefnd starfa út þetta ár, en hina nýskipuðu stjórn ekki taka við fyrr en um næstu áramót.

Nú hefði ég gjarnan viljað fá upplýsingar um það í þessum umr., hvort ekki væri hugsanlegt að fá fram þá breyt. á frv. a.m.k., að þessi breyting yrði gerð og skipti á stjórnum ekki framkvæmd fyrr en þá um næstu áramót. En það er nú svo, að þó að maður vilji spyrja hér um einstök atriði eða óska eftir upplýsingum, þá er nánast þannig, að maður sé að tala hér við sjálfan sig, því að ekki sést hér á neinn hátt formaður sjútvn., sem mun vera frsm. meiri hl. n. og mælir hér með frv. Mér hefði samt fundizt vera full ástæða til þess, að hann væri hér á þingfundi og vildi taka þátt í umr. með öðrum þm. og a.m.k. veita þær upplýsingar, sem hann gæti hér veitt í sambandi við þær breytingar, sem stefnt er að með þessu frv.

Þá hefði ég líka viljað fá upplýsingar um það hjá þeim, sem standa að samþykkt frv., hvort gerð hafi verið nokkur tilraun til þess meðal síldarsaltenda í landinu að leita álits þeirra um það, hvort þeir vildu hverfa að því skipulagi, sem ég hef hér nokkuð rætt, sem sagt að mynda með sér sérstakt sölusamlag síldarframleiðenda á þeim samvinnufélagsgrundvelli, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. Það hefði verið ákaflega fróðlegt að fá að vita það, hvort slík tilraun hafi verið gerð eða hvort leitað hafi verið eftir slíku meðal síldarsaltenda í landinu og hver þeirra raunverulega skoðun er í þessum efnum. Ef það er raunverulega vilji síldarsaltenda í landinu, eins og látið er í skína í grg. frv., að þeir fái meiri rétt til þátttöku í þessum málum, þá hlýtur auðvitað að vera eðlilegt að spyrja um það, hvort þeir hafi ekki leitað eftir því að notfæra sér heimild í lögum til þess að taka þessi mál algerlega í sínar hendur. Hefur slíkt verið gert, eða hefur það ekki verið gert? Hin leiðin, að aðeins örfáir aðilar fái aðstöðu til þess að komast inn í þessa ríkisstofnun, sem síldarútvegsnefnd er, það er breyting, sem ég tel síður en svo til bóta, miðað við þá kynningu, sem ég hef fengið við framkvæmd þessara mála. Það gefur líka alveg auga leið, að það er nokkur sérstaða, sem þeir síldarsaltendur fá, sem eru í slíkri nefnd, jafnvaldamikilli nefnd og síldarútvegsnefnd er, sem fjallar um slík deilumál meðal síldarsaltenda eins og menn vita að síldarútvegsnefnd gerir. Það er nokkur sérstaða, sem þeir síldarsaltendur fá meðal annarra síldarsaltenda, að sitja í n. og geta haft áhrif á samþykktir nefndarinnar og allar ákvarðanir, enda er margyfirlýst meðal síldarsaltenda, að þeir eru síður en svo ánægðir með þá sérstöðu, sem þeir síldarsaltendur hafa fengið, sem í nefndinni hafa verið.

Hitt er svo auðvitað alveg augljóslega fyrirsláttur, að segja, að það sé verið að flytja þessa breyt. við þessa löggjöf til að tryggja það, að síldarsaltendur séu jafnan í n., svo að þar geti komið fram sjónarmið saltenda. Þetta hefðu menn getað sagt, ef n. hefði einhvern tíma verið þannig skipuð, að þar hefðu engir síldarsaltendur verið. Hins vegar mun reynslan hafa verið sú, að allan tímann hafa verið starfandi í n. síldarsaltendur, og mestu deilurnar um störf nefndarinnar hafa einmitt verið tengdar við það, að í nefndinni voru ákveðnir síldarsaltendur. Það er sannleikur málsins. Ef nefndin hefði hins vegar verið þannig skipuð nú um langan tíma eða einhvern tíma, að þar hefðu verið einvörðungu þeir, sem höfðu ekki neitt með síldarsöltun beinlínis hagsmunalega að gera, þá hefðu menn auðvitað getað fitjað upp á slíkum röksemdum eins og þessum. En þegar hitt liggur fyrir, að t.d. nú í 5 manna nefnd eru a.m.k. 3, sem verða að teljast að meira eða minna leyti síldarsaltendur, og ef varamenn eru taldir með, þá eru 8 menn af 10, sem taka meiri eða minni þátt í störfum nefndarinnar, beinir síldarsaltendur, þá sjá menn, að hér er raunverulega um tylliástæður að ræða.

Hið rétta er það, sem ég hef nokkuð drepið á, að hér er áframhald af þessari gömlu baráttu á meðal ýmissa síldarsaltenda í landinu, að þeir vilja reyna að pota sínum fæti þarna inn fyrir, tilteknir stórir saltendur, og fá þarna enn bætta aðstöðu fyrir sjálfa sig og sín fyrirtæki, en þetta er ekki samkv. ósk síldarsaltenda almennt í landinu. Óski síldarsaltendur raunverulega eftir því, sem í grg. frumvarpsins segir, að þeir fái að taka sem saltendur virkari þátt í sölumeðferðinni og gæta þannig hagsmuna sinna, þá gera núgildandi lög fyllilega ráð fyrir því, að þeir geti tekið sér þetta vald, og af því hlýtur maður að spyrja: Hefur verið eftir þessu gengið, hefur verið eftir þessu leitað, eða hefur engin athugun farið fram í þessum efnum?

Nú vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta, að hann gerði annað tveggja í sambandi við afgreiðslu þessa máls að fresta umr. hér og halda ekki lengur fram næturfundi um afgreiðslu þessa máls eða þá, ef ekki er hægt að verða við því, að framsögumaður meiri hluta sjávarútvegsnefndar deildarinnar verði hér viðstaddur þessar umr. og taki þátt í að upplýsa sem einn af þeim, sem vilja samþykkja frv., það, sem hér er um spurt í þessum efnum. Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti geri ráðstafanir til þess, annaðhvort að umr. verði nú frestað eða þá að frsm. meiri hl. n. komi hér á þingfund og svari fyrirspurnum þingmanna.