23.10.1960
Neðri deild: 8. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (1965)

31. mál, efnahagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim almennu umræðum um vaxtamálin eða efnahagsmálin, sem átt hafa sér stað nú í tvö skipti, þegar þetta frv. hefur verið til umræðu. Til þess mun án efa gefast annað tilefni síðar, þar sem þær umræður gætu orðið á nokkru breiðari grundvelli. En það var eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ), þar sem honum missagðist svo hrapallega, að ég get ekki látið vera að leiðrétta þau ummæli hans. Hann bar saman tölur, sem hann sagði að nýlega væru komnar út í Fjármálatíðindum um greiðsluhallann, eins og hann orðaði það, 1958, bar þessar tölur saman við áætlanir, sem ríkisstj. hefði birt með frv. sínu um efnahagsmál, þegar það var lagt fram á síðasta þingi, og sagði, að þar skakkaði sannarlega miklu. Hann viðhafði allstór orð um þetta, sagði, að þetta væri eitt dæmi af mörgum um það, að valt væri að treysta þeim útreikningum, sem ríkisstj. birti, og þeir sérfræðingar, sem hún hefði í þjónustu sinni, væru vægast sagt harla varhugaverðir menn. Þessu til sönnunar nefndi hann, að sjálfur Seðlabankinn hefði nú gert upp gjaldeyrishallann 1958 og talið hann vera 42.3 millj. kr., en sérfræðingar ríkisstj. og ríkisstj. hefði í fyrra skýrt frá því, að greiðsluhallinn hefði verið um 200 millj. kr.

Ég hef aflað mér og hef hér fyrir framan mig þau gögn, sem hv. þm. vitnar til, og skal nú gera svolítinn samanburð á þeim tölum, sem hann ber saman og notar til þess að leggja út af á þann hátt, að hann fellir harðan áfellisdóm yfir ríkisstj. og hennar sérfræðingum. Þó að ég geri mér ljóst, að ekki sé þægilegt fyrir hv. þm. að átta sig nákvæmlega á því, sem hér er um að ræða, nema þeir hafi tölurnar fyrir framan sig, þá skal ég samt gera tilraun til þess að gera þetta mál eins ljóst og unnt er, og niðurstaðan mun svo reynast sú, að hv. þm. geri sig hér af mjög vítaverðu gáleysi sekan um að bera saman tölur, sem ekkert eiga sammerkt, — tölur, sem þær skýringar eru birtar með í textum í báðum plöggunum, sem taka af öll tvímæli um, að þær má ekki bera saman, og hefur aldrei verið ætlazt til, að nokkrum dytti í hug að bera þær saman.

Í Fjármálatíðindum, á bls. 57, er birt tafla um gjaldeyrisviðskipti bankanna, og þar er sagt, að greiðslujöfnuðurinn á árinu 1958 hafi verið neikvæður um 42.3 millj. kr. Ef lesinn er textinn, þá er tekið alveg skýrt fram, hvað þetta sé. Þetta er mismunur á innkomnum og útlátnum gjaldeyri gjaldeyrisbankanna. Útlátni gjaldeyririnn hefur reynzt 42.3 millj. kr. meiri en innkomni gjaldeyririnn.

Nú vita það allir og án efa enginn betur en hv. þm., að þegar rætt er um halla eða afgang á vörum og þjónustu og vöruviðskiptum og þjónustu í viðskiptum landsins, þá fara ekki öll gjaldeyrisviðskipti, sem lúta að vörum og þjónustu, í gegnum bankana. Það eru ýmis gjaldeyrisviðskipti, sem hafa áhrif á það, hvort halli telst verða á vöruviðskiptum og þjónustuviðskiptum þjóðarinnar út á við eða afgangur. Ýmis stór fyrirtæki hafa heimildir til þess að ráðstafa gjaldeyri á eigin spýtur, og á þeim gjaldeyrisviðskiptum getur annaðhvort verið halli eða afgangur. Til þessa verður auðvitað að taka tillit, þegar rætt er um halla eða afgang á vöruviðskiptum og þjónustuviðskiptum þjóðarinnar.

Í grg. fyrir efnahagsmálatill., sem hv. þm. vitnaði einnig til, er yfirlit á bls. 31 um greiðsluhallann við útlönd, og þar segir: „Halli á vörum og þjónustu er 90.8 millj. kr.“ — ekki 208, eins og hann talaði um. Þetta er eina talan, sem nokkurt vit er í að bera saman við töluna í Fjármálatíðindum Landsbankans, þar sem hallinn er talinn 42.3 millj. kr., og þó eru tölurnar ekki sambærilegar, vegna þess að Fjármálatíðindatalan lýtur eingöngu að gjaldeyrisviðskiptum bankanna í sambandi við vöru og þjónustu, en talan 90.8 millj. kr. í grg. með efnahagsmálafrv. lýtur að öllum gjaldeyrisviðskiptum í sambandi við vöru og þjónustu.

Nú skal ég láta þess getið hér, að þegar þetta yfirlit um greiðsluhallann frá 1955–58 var gert á árinu 1959, voru ekki allar tölur til í endanlegu formi fyrir næstliðið ár á undan, sem engan þarf að undra. Þegar fengizt er við útreikninga á miðju ári um næstliðið ár á undan, er ekki við því að búast, að öll kurl séu komin til grafar. Þessar tölur hafa verið endurskoðaðar rækilega síðan og byggt á algerlega endanlegum tölum, og niðurstaðan hefur orðið sú, að hallinn á vörum og þjónustu 1958, sem talinn var 90.8 millj., hefur reynzt 72 millj., þ.e.a.s. 18 millj. kr. lægri. Þetta er mismunur, sem sjálfsagt er að játa að hefur komið fram við endanlega endurskoðun. Gjaldaliðurinn er 1626.9 millj. kr. og tekjuliðurinn 1536 millj., og þá þarf engan að undra, að við endanleg reikningsskil reynist breyting yfir 18 millj. kr.

Það, sem hv. þm. hefði átt að bera saman, ef hann hefði viljað flytja mál sitt rétt, var á þessa leið: Halli á vörum og þjónustu, sem ríkisstj. áætlaði 90.8 millj. kr., reyndist 42.3 millj. kr. Að vísu hefði þetta ekki verið rétt, vegna þess að í áætlun ríkisstj. er, eins og ég sagði áðan, tekið tillit til gjaldeyrisviðskipta utan bankanna, og að réttu lagi hefur halli á þeim viðskiptum reynzt um 30 millj. kr. Endanlegu tölurnar eru því: 1958 reyndist halli á vörum og þjónustu 72 millj. kr., þar af var halli á gjaldeyrisviðskiptum bankanna 42 millj, kr., halli á öðrum gjaldeyrisviðskiptum 30 millj. kr. Þetta eru endanlegar tölur og fullkomið samræmi á milli talna Seðlabankans um þetta efni og grundvallartalnanna í grg. efnahagsmálafrv. í fyrra.

Það, sem hv. þm. gerði, var að bera saman hluta bankanna af halla á vörum og þjónustu, og allan gjaldeyrishalla alls þjóðarbúsins á því sama ári, sem er svo fullkomlega óviðurkvæmilegur málflutningur, að ég undrast það, að hann skuli heyrast hér.

Auðvitað myndast heildarhalli eða heildarafgangur á greiðsluviðskiptum þjóðarbúsins af öðru og meira en halla eða greiðsluafgangi á vöruviðskiptum og þjónustuviðskiptum. Þar þarf að taka tillit til afborgana af erlendum lánum. Ég veit, að hv. þm., sem jafnmikið hefur fengizt við lántökur og hann, er þetta ljósara en okkur öllum hinum. Heildargjaldeyrishallinn verður ekki metinn nema við halla, sem verða kann á vöruviðskiptum og þjónustuviðskiptum, sé bætt nauðsynlegum greiddum afborgunum og vöxtum af erlendum lánum, en sú tala reyndist á árinu 1958 62.5 millj. kr. Enn fremur verður að taka tillit til annarra fjármagnshreyfinga en þessara, afborgana og vaxta af erlendum lánum, og þær reyndust tæpar 55 millj. kr. á árinu 1958, og var þar að langmestu leyti um að ræsa fyrirframgreiðslur upp í erlend skipakaup, en það vænti ég, að engum detti í hug að draga í efa, að fyrirframgreiðslum upp í erlend skipakaup í gjaldeyri verður að bæta við halla á vöru- og þjónustuviðskiptum og við afborganir af erlendum lánum, ef gera á sér almenna grein fyrir því, hver heildargreiðsluhallinn gagnvart útlöndum hefur orðið á ákveðnu ári. Ef þessar tölur eru lagðar saman, hallinn, sem talað Var um á vörum og þjónustu, 90.8 millj., afborganir af erlendum lánum, 62½ millj., og aðrar fjármagnshreyfingar, aðallega fyrirframgreiðslur upp í skipakaup erlendis, 54.9, kemur út talan 208.2 millj. kr., sem heildargreiðsluhalli alls þjóðarbúsins var áætlaður fyrir árið 1958. Þessi tala hefur við endanlega endurskoðun lækkað um 18 millj. kr., eins og ég gat um áðan, þannig að heildarhallinn á árinu 1958 reyndist þannig 190 millj. kr. í staðinn fyrir þær 208, sem hann var talinn í grg. í fyrra. Þessi halli var jafnaður að langmestu leyti með lántökum opinberra aðila og gjafafé, rúmum 200 millj. kr., og með versnandi gjaldeyrisaðstöðu um 31 millj. kr.

Þó að ekki sé kannske auðvelt að átta sig á þessum talnalestri fyrir þá, sem hafa ekki beinlínis tölurnar fyrir framan sig, hygg ég þó, að engum geti blandazt hugur um, að sá samanburður, sem hér var gerður og notaður var sem rökstuðningur fyrir þungum dómum, var algerlega úr lausu lofti gripinn, fyrir honum er enginn fótur.

Í þessu sambandi vil ég líka fara nokkrum orðum um það, sem hv. þm. sagði um, hvað greiðsluhalli væri, og þetta eru röksemdir, sem við höfum oft heyrt áður í sambandi við umr. um efnahagsmálin. Hann segir: Það er rangt að telja greiðsluhallann þannig, því að hann er jafnaður með erlendum lánum, sem varið hefur verið til arðbærra framkvæmda hér innanlands. — Um þetta vildi ég fara fáeinum orðum, þó að ástæða væri raunar til þess að ræða það mál miklu ýtarlegar en hér er tími eða ástæða til.

Við hvað er átt, þegar talað er um greiðsluhalla? Með greiðsluhalla gagnvart útlöndum hjá þjóðarbúi er einfaldlega átt við mismun á þeim greiðslum, sem þjóðin fær erlendis frá, og þeim greiðslum sem hún innir af hendi til útlanda. Mér er ekki kunnugt um nokkra aðra skilgreiningu á þessu hugtaki en þessa: Ég hef aldrei séð hana í nokkurri bók eða nokkru blaði og eiginlega aldrei heyrt nokkurn mann, ekki einu sinni hér, skilgreina hugtakið greiðsluhalla öðruvísi. Það er munurinn á þeim greiðslum, sem þjóðarbúið í heild innir af hendi til útlanda, og þeirri upphæð, sem það fær frá útlöndum. Ef þetta hugtak er skilgreint svona, getur enginn verið í vafa um, að það er rétt reiknað og rétt skilið, að greiðsluhallinn gagnvart útlöndum árið 1958 var þessar 190 millj. kr., svona fengnar, eins og ég hef gert grein fyrir. Mér skilst líka, að hv. þm. í sjálfu sér dragi þetta ekki í efa. En hann bætir við, og það get ég vel skilið, — hann bætir við: Þetta er enginn halli. Þjóðin er ekki að verða fátækari sem þessu nemur, af því að þessi halli er jafnaður með lánum eða á einhvern annan hátt. Lánin hafa verið notuð til þess að koma upp þjóðnytjafyrirtækjum, sem auka eignir þjóðarinnar.

Nú hef ég aldrei og mér vitanlega enginn, sem ég hef heyrt tala um þessi mál, haldið því fram, að greiðsluhallinn jafngildi því, að þjóðin sé að verða fátækari sem greiðsluhallanum svarar. Því hef ég aldrei haldið fram, enda væri það fjarstæða. Það þarf ekkert samband að vera á milli greiðsluhallans annars vegar og þess, hvort eignir þjóðarinnar eru að aukast eða minnka hins vegar. Það hefur enginn haldið því fram, að þar þurfi nokkurt samband að vera á milli. Þar fyrir eru það engin rök fyrir því, að óhætt sé að hafa mikinn greiðsluhalla, að lán séu notuð til þess að koma upp þjóðnytjafyrirtækjum. Til þess að gera sér grein fyrir því, er einfaldast að taka dæmi úr innanlandsviðskiptum, sem allir gera sér ljóst, hvað raunverulega þýðir. Dettur nokkrum í hug, að alltaf sé rétt fyrir atvinnurekanda eða einstakling að taka lán, ef hægt er að koma láninu í eitthvert verðmæti, sem talið er jafnmikil eign og láninu nemur? Er nokkur sá atvinnurekandi til í víðri veröld, sem lifir eftir þeirri reglu að taka lán, lán á lán ofan, lán endalaust, einungis ef hann getur keypt eitthvað fyrir lánið, sem hann getur talið jafnmikils virði og svarar til þunga skuldarinnar? Nei, auðvitað ekki. Hvar eru takmörkin þarna? Takmörkin eru auðvitað við það bundin, að atvinnurekandinn eða einstaklingurinn treysti sér til þess að greiða afborganir og vexti af láninu af venjulegum tekjum sínum. Ef hann treystir sér til þess að greiða afborganir og vexti af rekstrartekjum sínum eða launatekjum sínum, eftir að hann tekur lánið, þá eru það a.m.k. ekki rök á móti því að taka lánið, svo að ég segi ekki meira. En ef það er augljóst mál, að rekstrartekjur hans eða launatekjur standa ekki undir greiðslu afborgana og vaxta af láninu, þó að það sé komið í einhverja sæmilega eign, þá á hann ekki að taka lánið. Þetta er regla, sem hver einasti hygginn atvinnurekandi gerir sér ljósa og hver einasti hygginn launþegi gerir sér fullkomlega ljósa. Nákvæmlega sama máli gegnir um þjóðarbúið í heild. Þjóðarbúið í heild á ekki að taka meiri lán erlendis, það á ekki að taka meiri lán í erlendum gjaldeyri en það treystir sér til þess að standa undir afborgunum og vöxtum af með venjulegum tekjum sínum í erlendum gjaldeyri. Þetta er sú einfalda markalína, sem þjóðarbúið má ekki fara yfir um. En það getur hæglega verið, að þessari markalínu sé náð, jafnvel þó að ákveðin lántaka sé skynsamleg, jafnvel þó að hægt sé að verja henni til eignaaukningar hér innanlands. Ef greiðsluhalli er orðinn svo mikill, að þjóð tekur u.þ.b. 200 millj. kr. á ári í lánum erlendis til þess að jafna hallann, en hallinn jafnar sig að sjálfsögðu alltaf upp á einhvern hátt, og þetta er þjóð, sem hefur gjaldeyristekjur eins og við, þá er alveg augljóst mál, að komið er yfir þá markalínu, sem varkárleg eða skynsamleg verður talin, og þá skiptir bókstaflega engu máli, jafnvel þótt verulegur hluti af þessu fé sé notaður til arðbærra fyrirtækja innanlands. Við erum komin yfir mörkin, þunginn af afborgunum og vöxtum verður þá svo mikill, að það truflar heilbrigð gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar í framtíðinni.

Það getur farið svo fyrir þjóð eins og fyrir einstaklingi, sem reisir sér hurðarás um öxl, að því er snertir öflun lánsfjár, að þjóðin verði gjaldþrota, — alveg eins og einstaklingur getur orðið gjaldþrota, jafnvel þótt hann hafi varið lánum sínum til eignaaukningar. Ef hann getur ekki staðið við þá samninga, sem hann hefur gert, ef hann getur ekki staðið við greiðslu afborgana og vaxta, verður hann gjaldþrota, jafnvel þótt eignir hans séu meiri en skuldunum nemur. Þetta getur líka hent þjóð. Það er þetta, sem við, sem stóðum að þeirri stefnubreytingu, sem ákveðin var fyrr á þessu ári, töldum, að væri að henda íslenzku þjóðina, við værum komnir yfir það mark, sem telja yrði varlegt eða skynsamlegt að íþyngja greiðsluviðskiptunum með afborgunum og vöxtum af erlendum lánum.

Þetta, sem ég hef verið að gera að umtalsefni, eru allt saman atriði, sem mér finnst ástæðulaust að deila jafnoft og jafnmikið um og gert er. Þær tölur, sem hér liggja til grundvallar, eru þannig, að þó að það sé oft þreytandi að skoða þær og kannske enn þá meira þreytandi að heyra um það talað, þá eru þær engu að síður, þegar skoðað er ofan í kjölinn, alveg óumdeilanlegar. Það er eingöngu í skjóli þess, að ekki hafa allir áttað sig á því eða ekki haft fyrir því að setja sig inn í málið, sem hægt er að bera fram jafnósambærilega hluti og hv. þm. gerði áðan í sinni ræðu. Að því er snertir greiðsluhallann, þá er það líka svo, að í raun og veru þarf enginn ágreiningur að vera um það, sem blásið er upp sem mikið ágreiningsatriði, þ.e. hver þýðing greiðsluhallans sé, því að um það getur enginn skoðanamunur í raun og veru verið, að greiðsluhallinn á árinu 1958 var tæpar 200 millj. kr., en með greiðsluhalla er átt við mismun á gjaldeyristekjum og gjaldeyrisgreiðslum. Um hitt getum við svo deilt endalaust, að hve miklu leyti þau lán, sem tekin voru til þess að jafna þennan halla, og lánin eru rúmar 200 millj. kr., voru notuð vel eða illa. Um það getum við deilt endalaust. Það er mjög erfitt að gera nákvæmlega upp. Um það getum við deilt. Þá erum við í raun og veru farnir að deila um, hvernig þjóðarbúinu í heild hafi vegnað, hve mikil eignaaukning hafi orðið á þjóðarbúinu 1958 eða hve lítil eignaaukning, en það mál er miklu víðfeðmara en þetta. Þá verður að taka tillit til afleiðinganna af framleiðslustörfunum innanlands, sem líka hafa leitt til eignaaukningar — eða kannske á einhverjum öðrum sviðum til eignarýrnunar, og það má ekki taka út úr þeirri heildarmynd þá eignaaukningu, sem rekja má til útlendu lánanna. Það er að skekkja myndina í raun og veru. Það, sem skiptir meginmáli í þessu sambandi, er, að það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir upphæð greiðsluhallans, reiknaðs eins og ég talaði um áðan, af því að í kjölfar hans hljóta að sigla erlendar lántökur, sem greiðsluhallanum svarar, og afleiðingar af erlendum lántökum eru greiðslur afborgana og vaxta í framtíðinni. Þar er um að ræða ákveðið mark, ákveðinn þröskuld, sem þjóð, sem vill kunna fótum sínum forráð, má ekki fara yfir. Yfir þann þröskuld vorum við þegar stignir, og það er það spor, sem við nú erum að stíga til baka.