20.10.1960
Efri deild: 7. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í C-deild Alþingistíðinda. (2225)

37. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál sem við flytjum hér þrír þm., er kunningi í d. frá því í fyrra, og fylgir því allýtarleg grg. Það var einnig af öðrum flm. frv. gerð mjög nákvæm grein fyrir málinu og nauðsyn þess á síðasta þingi, svo að hv. alþm. hafa bæði í grg. og þeirri framsöguræðu, sem var flutt, þegar málið var reifað hér á síðasta þingi, fengið nokkrar upplýsingar um þetta mál og nauðsyn þess, að það nái fram að ganga.

Það þarf í sjálfu sér enga röksemdafærslu hér frammi fyrir þessari hv. d. um nauðsyn vega. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þau byggðarlög, sem njóta ekki vegasambands á borð við aðra, hljóta að dragast aftur úr í öllum framkvæmdum og atvinnulífið eiga stórum erfiðara uppdráttar á þeim svæðum, sem þannig er háttað, heldur en þar sem vegasambandið er betra.

Því er nú svo háttað, að flestir þm. ferðast talsvert um landið, og það þyrfti naumast annað en vísa til þeirrar reynslu, sem þeir hafa fengið af vegasambandinu á Austfjörðum og einkum þó á Vestfjörðum, að það er algerlega óviðunandi. Þeir, sem hafa farið þarna um, verið þarna í framboði og ferðazt þarna um og kynnt sér ástandið, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, — og sama er um þá aðra, sem þarna hafa ferðazt, — að ástandið eins og er er algerlega óviðunandi. Því er nefnilega svo háttað, að þar sem ekki eru akvegir, þar er stórfelld afturför. Það situr ekki raunverulega við það sama, þar er stórfelld afturför frá því, sem áður var, vegna þess að menn notuðust við hesta, og sú samgönguþjónusta, sem fæst með hestum, er raunverulega lögð til hliðar alls staðar, enda komið annað til, svo sem flutningur verkfæra til jarðvinnslu, flutningur verkfæra til heyskapar o.s.frv., sem er algerlega útilokaður á stórum svæðum á Vestfjörðum vegna þess, hvað vegirnir eru ógreiðfærir.

Það er í sjálfu sér engum sérstökum aðila, nema þá Alþingi í heild, um það að kenna, hvernig þessum málum er komið, sumpart á Austurlandi og einkum á Vestfjörðum. Það hefur nefnilega skapazt sú venja, sem öllum alþm. er kunn, að leggja ár frá ári svipaðar upphæðir til vegagerðar í hinum ýmsu kjördæmum án tillits til þess, hvað það raunverulega kostar á hinum mismunandi svæðum að gera vegi þannig úr garði, að hægt sé að búa á þessum svæðum, svo að viðunandi sé. Þessi venja hefur haft sínar augljósu afleiðingar, eins og gerð er grein fyrir í grg. og gerð var ýtarleg grein fyrir í framsögu fyrir málinu á síðasta Alþingi. Það er ekki farið hér með neitt fleipur, það er óhætt að segja það. Og það þyrfti í sjálfu sér ekki skýrslugerð um þetta mál fyrir þá, sem hafa ferðazt um 1andið, Vestfirði og annars staðar. En þannig er þessu máli háttað, að till. til þál. var samþ. 26. marz 1958, um athugun á ástandi vegakerfisins í landinu. Þá athugun framkvæmdi vegamálastjóri og skilaði fyrri hluta skýrslu sinnar til samgmn. Af þessari skýrslu, sem var rakin hér við framsögu málsins á síðasta Alþingi, kemur í ljós, að Austfirðir og Vestfirðir hafa orðið svo hrapallega út undan á sviði vegamálanna, að furðu gegnir. Í stað þess að tefja tímann með því að lesa upp tölur úr þessari skýrslu vil ég biðja hv. alþm. að kynna sér þessa skýrslugerð. Þar kemur í ljós, að helmingur og meira en það sums staðar af þeim þjóðvegum og sýsluvegum, sem hafa verið samþykktir, eru ólagðir á þessum svæðum, þegar ekki er nema nokkur hundraðshluti veganna ólagður annars staðar.

Ég geri mér enga von um, að þetta ástand verði lagfært nema með því að breyta algerlega um stefnu í vegamálunum að þessu leyti: Það er alveg vonlaust verk, það fullyrði ég sem kunnugur maður á þessu svæði, það er alveg útilokað, að á venjulegan hátt fáist þau fjárframlög, sem þarf til þess að kippa þessu í lag, með því móti að alltaf séu lagðar svipaðar upphæðir í hin ýmsu kjördæmi án tillits til þarfanna og án tillits til þess, hvað það kostar að koma þessum landshlutum í vegasamband.

Skýrsla vegamálastjóra sýnir afleiðingarnar af þessari stefnu Alþingis, sem ég minntist á áðan og þar sem engum er sérstaklega um að kenna, nema Alþ. í heild, vegna þeirrar reglu, sem fylgt hefur verið og ég drap á. Þess vegna er lagt til, að gert verði nokkurt átak í þessum tveimur landshlutum og framkvæmdum hagað eftir þörfum og tillögum vegamálastjóra til þess að ráða bót á þessu ástandi.

Ég sagði áðan, að ég þyrfti ekki að lýsa því, hvernig víða er háttað á Vestfjörðum í þessu sambandi, og ég fullyrði, að það er alveg augljóst mál, að ef ekki verður breytt um stefnu í þessu máli og teknar uppsvipaðar vinnuaðferðir og bentir á í þessu frv. þá er það tvímælalaust, að mikill hluti af byggðinni hlýtur að fara í auðn.

Ég hef sannarlega hugleitt það sem stjórnmálamaður almennt, án tillits til hagsmuna þessara kjördæma á Austurlandi og Vesturlandi, hvort það væri raunverulega verjandi að verja stórum fjárhæðum til þess að kippa þessu í lag og gera á þessu sviði nokkurt átak. Ég hef komizt að þeirri niðurstöðu fyrir löngu, og sú sannfæring mín hefur orðið að fullvissu fyrir nána kynningu, að það svarar fullkomlega kostnaði fyrir þjóðfélagið að vinna þetta verk og verja til þess peningum. Á Vestfjörðum er tvímælalaust, — og sama er að sumu leyti um Austfirði, — á Vestfjörðum er betri aðstaða til sauðfjárræktar en víðast á Íslandi, eins og ég veit að flestum hv. alþm. hér í þessari d. er kunnugt. Nú eru rekin þarna á sumum stöðum stórbú, og væri hægt að margfalda þau, ef vegasambandið væri betra, á öðrum stöðum mjög lítil bú, sem takmarkast af því, að ekki er hægt að flytja að sér jarðvinnsluvélar eða vélar til heyskapar. Það er alveg tvímælalaust, að þróunin verður í þá átt, — það leynir sér ekki fyrir þeim, sem hafa ferðazt um þetta svæði, — að litlu býlin leggjast niður og býlin verða margfalt stærri á öðrum stöðum, þar sem aðstæður eru betri. En til þess að hægt sé að halda áfram að nýta gömlu býlin og til þess að hægt sé að hafa stórbú, þar sem möguleikar eru til þess, — ég gæti nefnt marga staði, en geng fram hjá því að sinni, — til þess að það sé hægt, verður að bæta úr vegaástandinu. Það hefur verið sagt frá því hér, að það er áhugi fyrir því, þar sem vegasambandið er, að auka byggðina á þessum svæðum, og væri hægt að nefna mörg dæmi þess, hefur líka verið sagt frá því opinberlega í blöðum, en jafnframt er þar þessi þröskuldur í veginum, að vegakerfi vantar, — og ef vegakerfið verður ekki bætt, þá verður í staðinn fyrir áframhaldandi þróun eyðing, fullkomin eyðing á stórum svæðum. Það fullyrði ég að vofir yfir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt um þetta frv. En ég vil biðja hv. alþm. að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, því að ég fullyrði, að þetta er sanngirnismál gagnvart þessu fólki, sem á þessum svæðum býr, og það er hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að vinna þetta verk. Það fer saman. Ég vil þess vegna biðja þá nefnd, sem fær þetta til meðferðar, að hraða þessu máli, því að ég er alveg viss um, að á því verður ekki löng bið, að sá málstaður, sem hér er borinn fram, vinnur sigur. Það er ekki hægt að taka einstaka landshluta út úr og skammta þeim lífsgæði með allt öðrum hætti en mönnum í öðrum byggðarlögum.

Ég man ekki, í hvaða nefnd málið var síðast, sennilega fjhn. Ég vil þá óska eftir, að þessu máli verði vísað til 2. umr. og fjhn.