31.10.1960
Efri deild: 13. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í C-deild Alþingistíðinda. (2232)

60. mál, framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt hér á síðasta þingi og þá mælt fyrir því, og fylgdi því þá eins og nú ýtarleg grg.

Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir að stofna sjóð, sem nefnist framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóður, og hlutverk sjóðsins á að vera að stuðla að framleiðslu- og atvinnuaukningu og jafnvægi í byggð landsins. Er gert ráð fyrir, að stofnfé sjóðsins sé 20 millj. kr. framlag úr ríkissjóði 1961, en var gert ráð fyrir því, þegar frv. var seinast flutt, að það yrðu 15 millj. Þessi hækkun stafar af breyttu gengi peninganna. Það er enn fremur gert ráð fyrir því, að stofnfé sjóðsins sé fé, sem ríkissjóður hefur lánað til þess að bæta úr atvinnumöguleikum í landinu. Og í þriðja lagi er inneign ríkissjóðs hjá lántakendum ríkisábyrgðarlána vegna afborgana og vaxta, sem ríkissjóður hefur greitt af þessum lánum fyrir gildistöku þessara laga. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að tekjur framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóðs verði vaxtatekjur, árlegt framlag ríkissjóðs á árunum 1962–71, 20 millj. kr. á ári, og skuldir, sem ríkissjóður eignast samkv. 2. gr. eftir gildistöku laga þessara. Síðan er gerð grein fyrir því í 4. gr., hverjum megi veita lán úr sjóðnum, og er gert ráð fyrir því að veita lán til að koma upp atvinnutækjum eða aðstöðu til hvers konar framleiðslu- og atvinnuaukningar. Stjórn sjóðsins á að vera þannig skipuð, að 4 af 5 stjórnendum eru kosnir af Alþ., en fimmti maðurinn á að vera frá Framkvæmdabankanum, og síðan er gert ráð fyrir því í 6. gr., að ríkisstj, sé heimilt að fela framleiðslu- og atvinnuaukningarsjóði að gera árlega skýrslu um atvinnuástand og aðstöðu í atvinnurekstri í einstökum byggðarlögum, eftir því sem ástæða þykir til. Þetta er í stytztu máli efni þessa lagafrv.

Það hefur verið mikið rætt um það á undanförnum árum að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Til þess að vinna að því hefur verið varið svonefndu atvinnuaukningarfé, misjafnlega miklu hvert ár, en ég held, að flestir ættu að geta verið sammála um, að þessu fé hafi yfirleitt verið vel varið. Það var flutt hér á Alþ. frv. 1956 af hálfu ríkisstj., og var það samið af alþm. Gísla Guðmundssyni og Gísla Jónssyni. Þetta frv. sem hér liggur fyrir, er að mörgu leyti svipað, án þess að ég sjái ástæðu til að gera grein fyrir því, hver er efnismunurinn á þessum tveimur frumvörpum. En jafnhliða var skipuð nefnd manna, svokölluð atvinnutækjanefnd, til þess að rannsaka atvinnuástandið víðs vegar um landið og þarfirnar fyrir nýjar framkvæmdir. Niðurstöðurnar, sem þessi n. komst að, birtust í skýrsluformi, sem þm. fengu í hendur, ef ég man rétt, 1958 og 1959. Og ég held, sannast að segja, að þessi skýrslugerð sé ein fullkomlegasta sönnun fyrir því, að það er nauðsynlegt að vinna skipulega að því að halda áfram þessari uppbyggingu. Skýrslan sannar, að þörfin fyrir uppbyggingu víðs vegar úti um landið og aðstoð til hennar hefur verið aðkallandi og er mjög aðkallandi. Það hefur að vísu, eins og ég sagði áðan, verið varið til þessa ákveðnum upphæðum, misjafnlega miklum, á fjárlögum á hverju ári, en það, sem farið er fram á með þessu frv., er, að komið verði á þetta sem fullkomnustu skipulagi og framkvæmdir gerðar í samræmi við nokkra áætlun og rannsókn á ástandinu, eins og gert er ráð fyrir í 6. gr. frv., eins og ég gat um áðan. Ég tel, að það skipti verulegu máli, að þessu starfi, að byggja upp úti um landið, sé haldið áfram og það sé gert á skipulegan hátt, eins og mundi verða fremur en áður hefur verið, ef þetta frv. verður að lögum.

Það er enginn efi á því, að þörfin, eins og ég sagði áðan, er aðkallandi. Það sanna þær skýrslur, sem ég minntist á, frá atvinnutækjanefnd. En það er tvímælalaust, að þörfin fyrir uppbyggingu er að ýmsu leyti ekki minni nú en hún var, og sérstaklega er þörfin fyrir aðstoð a.m.k. eins rík og hún hefur verið nokkurn tíma áður. Þeir, sem úthlutuðu atvinnuaukningarfénu s.l. ár, því sem var áætlað á fjárl. þessa árs, munu hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri erfitt að skipta atvinnuaukningarfénu, svo ríkar voru þarfirnar. Á fjöldamörgum stöðum, þar sem þarfirnar fyrir aðstoð voru mjög aðkallandi, var ekki hægt að fullnægja eftirspurninni, þó að bersýnilegt væri, að það væri til stórtjóns fyrir framleiðsluna á þeim stöðum, að ekki var hægt að verða við þeim beiðnum, sem fram komu.

Ég get tekið eitt einasta dæmi, en ég nefni það dæmi sem táknrænt atriði, en undir engum kringumstæðum sem neitt sérstakt, heldur eru mörg hliðstæð dæmi, sem væri hægt að nefna. Það voru keypt skip, sem dreift var víðs vegar út um landið, m.a. var keypt togskip frá Austur-Þýzkalandi, sem gert var ráð fyrir að rekið yrði frá Drangsnesi og Hólmavík og hefur verið gert. Það er erfitt að taka á móti fiski úr þessum skipum nema með því móti að hafa svokallaða bílavigt, og þeir fengu sér lán til að kaupa þessa bílavigt, í þeirri von að fá atvinnuaukningarfé, því að fé heima fyrir er alls ekki til staðar undir neinum kringumstæðum vegna langvarandi aflaleysis á þessum stað eins og sums staðar annars staðar. Það er liðið meira en ár, síðan þeir keyptu þessa bílavigt, og þeir hafa ekki getað komið henni niður enn, og það stendur að hálfu leyti í vegi fyrir því, að þeir geti tekið á móti fiski úr þessu skipi, sem er ætlað að leggja upp á þessum stað. Það varð að skipta þessu í tvennt. Þeir fengu hluta af fénu núna, og gert er ráð fyrir því, að þeir verði að bíða talsvert, þar til næsta atvinnuaukningarfé verður úthlutað, til þess að þeir geti borgað þessa bílavigt og komið henni niður, ef það fé er hægt að fá.

Þetta sýnir okkur, að þegar verið er að byggja upp úti um landið, þá vantar oft herzlumuninn, til þess að það sé hægt að fullkomna verkið, og það er ekki hægt að gera það nema með því móti, að það sé lagt fram fé á sama hátt og hér er gert ráð fyrir eða svipaðan til þess að styðja þetta fólk til atvinnuuppbyggingar. Og það er enginn efi á því, að fyrir þjóðfélagið er það ein allra skynsamlegasta ráðstöfun, sem hægt er að gera, a.m.k. er það þannig frá mínu sjónarmiði, að hjálpa til þessarar uppbyggingar, sem er víða örugg framleiðsluaukning fyrir þjóðfélagið í heild, því að það er vitað mál og liggja fyrir skýrslur um það, m.a. í skýrslu atvinnutækjanefndar, að miklu fleira fólk vinnur hlutfallslega við framleiðsluna úti um landið heldur en sums staðar annars staðar á landinu, m.a. í hinum stærri kaupstöðum.

Ég get satt að segja ekki séð, hvaða mótbárur ættu að vera gegn því að samþykkja þetta frv. Ég geri ráð fyrir því, að Alþ. sé sammála um að halda þessari starfsemi áfram, og þá er spurningin um það, hvort á að halda þessu starfi áfram sem skipulögðu starfi, þar sem er gerð fyrir fram áætlun um framkvæmdirnar, eða gera það á sama hátt og verið hefur.

Ég vil ekki þreyta hv. þd. með því að hafa öllu lengri framsögu fyrir þessu máli, nema tilefni gefist til, og ég geri ráð fyrir, að að lokinni þessari umr. verði rétt að vísa málinu til fjhn. Ég hef þessi orð svo ekki fleiri, en vænti þess, að þessu frv. verði vel tekið, og vil biðja þm. að athuga það með velvild.