19.12.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

1. mál, fjárlög 1961

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þá ræðu, sem hv. 5. þm. Reykv. flutti hér áðan, vil ég aðeins gefa þá skýringu, að hér er ekki um að ræða tilfærslu á milli launaflokka, heldur er það ákvæði í launalögum, að nýir starfsmenn, sem taka til starfa hjá ríkinu, skuli byrja á því að taka laun í ákveðnum launaflokki, þannig að fyrsta starfsárið fái þeir lægst laun, á næsta ári fái þeir örlítið hærri og þannig stighækkandi áfram. Tillagan, sem nú hefur verið vísað frá atkvgr., á við það, að þetta verði framkvæmt með þeim hætti, að tveir fyrstu stigarnir, tvö fyrstu þrepin í aldurshækkun, án tilfærslu á milli launaflokka, falli niður, og það, sem ég vitnaði hér í um framkvæmd, á við um það, að þess munu dæmi nú þegar, að starfsmenn, sem byrja í þjónustu sinni hjá ríkinu og eiga lögum samkv. að taka laun samkv. einhverjum þeim flokki, sem ákveður aldurshækkanir stig af stigi, hafa verið látnir fá hærri laun en þeirra starfsaldur segir til um, í einstökum tilfellum og ekki í öllum tilfellum. Ég endurtek það hins vegar, hvert sem traust hæstv. forseta kann að vera á ríkisstj., að það megi líta svo á, að úrskurður hans sé úrskurður Alþ. um það, að þetta skuli í öllum tilfellum óheimilt, og ég hefði viljað mælast til þess, að það hefði verið sérstaklega um það fjallað. Ég geri ekki kröfu til þess, að forseti felli um það úrskurð á stundinni, en ég beini því til hans, að um það verði fjallað, hvernig fara eigi með þær greiðslur, sem þegar hafa verið á þessu yfirstandandi ári greiddar út úr ríkissjóði, þannig að þær hafa verið hærri en aldursflokkur þess starfsmanns, sem launin tók, segir til um samkv. launalögum.