02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2398)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ísland rís upp af grunnsævishjalla, sem er í lögun svipaður landinu sjálfu, og standast firðir og vikur, sem skerast inn í þennan hjalla, víðast á við firði og víkur, sem skerast inn í landið. Þetta grunnsævi umhverfis landið, landgrunnið, er jarðfræðilega og jarðsögulega óaðskiljanlegur hluti af Íslandi sjálfu, lægsti hluti landsins. Þar eru hin dýrmætustu fiskimið, þar eru hrygningar- og uppeldisstöðvar, þar er gull og silfur hafsins.

Þetta fiskauðga landgrunn kringum landsins vogskornu strendur viljum við Íslendingar einir eiga. Við teljum okkur eiga til þess sögulegan rétt, þjóðlegan rétt og landfræðilegan, auk þess helga réttar, sem lífsnauðsyn heillar þjóðar skapar henni.

Meginmark Íslendinga í landhelgismálum er yfirráð okkar yfir landgrunninu öllu. Það speglast í lögunum frá 1948 um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Það kemur fram í þál. frá 1959, þar sem Alþingi lýsti yfir því, að afla bæri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls.

Undanfarin ár hefur miklu moldviðri verið þyrlað upp um landhelgismálið, svo að truflað hefur dómgreind sumra manna um meginatriði þess, svo og um það, hvaða vinnubrögð væru hyggilegust til að þokast nær þessu marki. Þetta gerningaveður hefur villt svo um fyrir sumum, að þeir eru farnir að trúa því, að talan 12 sé heilög landhelgistala, lokamark og fullnæging óska okkar og þarfa, svo ginnheilög tala, að hvergi megi frá henni hvika, jafnvel um stundarsakir, þótt sannað væri, að slík frávik — tímabundin og svæðisbundin gætu fært þjóðinni margfalt meiri hagsbætur í staðinn. 12 mílur eru ekki takmarkið. Landgrunnið allt er lokatakmarkið. Að því ber að stefna með festu og einurð, með hyggindum og drengskap, sæmandi menningarþjóð, sem virðir lög og rétt annarra þegar af þeirri ástæðu, að hún á sjálf allt sitt líf og tilveru undir lögum og rétti.

Nú eru stjórnarandstæðingar sumir, sem löngum hafa ekki grillt í neitt nema 12 mílur, farnir að elska landgrunnið allt enn þá meira en mílurnar 12. En í því sambandi minnist ég aðdragandan að ályktun Alþingis frá 1959. Leiðtogi framsóknarmanna í landhelgismálum, hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, afhenti þá formanni þingflokks sjálfstæðismanna svo hljóðandi till. Framsfl.:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir, að það mótmælir harðlega ofbeldisaðgerðum brezkra stjórnarvalda á fiskveiðilandhelgi Íslands og að af Íslands hálfu verði haldið fast við 12 mílna fiskveiðilandhelgi og samningar um minni fiskveiðilandhelgi komi því ekki til greina.“

Í till. Framsfl. var aðeins talað um að halda fast við 12 mílna landhelgi, en ekki minnzt á landgrunnið eða nauðsyn á frekari útfærslu landhelginnar. Þingmenn Sjálfstfl. settu það skilyrði fyrir samþykkt slíkrar till. um landhelgismál, að skýrt væri tekið fram í henni, að markmið Íslendinga væri landgrunnið allt. Eftir kröfu sjálfstæðismanna er því sú stefnuyfirlýsing komin í ályktun Alþingis.

Nú er því haldið fram, að samkomulagið við Breta torveldi okkur að vinna að þessu framtíðarmarki, að færa landhelgina út framvegis. Í orðsendingu Íslands er sérstaklega tekið fram, að ríkisstj. muni halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en í þeirri ályktun lýsir Alþingi yfir, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls. Hér er því ekki verið að dylja framtíðarfyrirætlanir okkar, og Bretastjórn er það fyllilega ljóst.

En nú er reynt að fræða okkur um það, að Íslendingar mundu hér eftir ekki geta fært út landhelgi sína nema með samþykki Breta. Þetta er rangt. Við þurfum að sjálfsögðu ekki samþykki Breta né neinnar annarrar þjóðar til að færa út landhelgina í framtíðinni eða breyta grunnlínum. Skuldbinding okkar er sú að tilkynna ríkisstj. Bretlands væntanlega útfærslu með 6 mánaða fyrirvara.

Þá hef ég heyrt því haldið fram, að samkomulagið beri að skilja svo, að eftir 3 árin næstu eigi alþjóðadómstóllinn að fjalla um núverandi 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þetta er misskilningur. 12 mílurnar eru endanlega viðurkenndar af Bretum og koma ekki til úrskurðar afþjóðadómstólsins.

Nú spyrja menn: Felur samkomulagið í sér viðurkenningu Breta? Segir ekki aðeins, að þeir falli frá mótmælum sínum? Þetta orðalag vilja sumir túlka þannig, að það sé ekki viðurkenning og hafi ekki gildi að lögum sem slíkt. Ég vil skýra þetta nokkru nánar.

Ef aðili í málsókn hefur mótmælt einhverju atriði og lýsir því síðan yfir, að hann falli frá mótmælum sínum, þá jafngildir það tvímælalaust að lögum viðurkenningu hans á því atriði, og sama gildir að þessu leyti í þjóðarétti.

Rússar hafa 12 mílna landhelgi. Bretar hafa mótmælt henni og viðurkenna ekki stærri landhelgi þar en 3 mílur. Árið 1956 gerðu Rússar samning við Breta og veittu þeim heimild til þess að stunda fiskveiðar inn að 3 mílum á tilteknum svæðum. En jafnframt tóku Bretar það fram með sérstakri orðsendingu til Rússa, að þeir héldu fast við fyrri mótmæli sín gegn landhelgi þeirra. Hér er þessu á annan veg farið. Hér er skýrt tekið fram, að Bretar falli frá fyrri andstöðu sinni og mótmælum. Ég ætla að það verði ekki vefengt með réttu, að þessi yfirlýsing Breta mundi af Sameinuðu þjóðunum og alþjóðadómstóli metin jafngild viðurkenningu berum orðum.

Rísi ágreiningur um útfærslu landhelginnar síðar, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins. Þessi aðferð er eðlileg í samskiptum siðaðra ríkja. En þetta ákvæði miðar ekki að því fyrst og fremst að binda hendur okkar. Þýðing þess er ekki síður sú að binda hendur Breta, því að með þessu heita þeir því að beita ekki aftur herskipavaldi í sambandi við útfærslu íslenzku landhelginnar síðar, heldur hlíta alþjóðadómi. Það á að vera afsal landsréttinda og þjóðarsmán að fallast á að skjóta ágreiningsefnum til alþjóðadóms. Þeir sömu aðilar, sem gagnrýna nú þetta ákvæði, hafa jafnan talið sjálfsagt, að Íslendingar leituðu ásjár Sameinuðu þjóðanna í landhelgismálinu og tækju m.a. tvívegis þátt í sjóréttarráðstefnum í Genf á þeirra vegum. En við megum ekki bera mál okkar undir alþjóðaðómstólinn, sem er einn hluti Sameinuðu þjóðanna og sá þátturinn, sem er og á að vera óháðastur og óhlutdrægastur og mest til hans vandað.

Í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða, sem Alþingi staðfesti fyrir sitt leyti 1946, eru taldar meðal aðalstofnana Sameinuðu þjóðanna allsherjarþingið, öryggisráðið og alþjóðadómstóllinn. Í 14. kafla sáttmálans segir, að alþjóðadómstóllinn skuli vera aðaldómstóll hinna Sameinuðu þjóða og að allir meðlimir hinna Sameinuðu þjóða séu af sjálfu sér aðilar að dómstólnum. Nú ætla ég, að það sé nokkuð samróma álit ábyrgra manna í lýðræðislöndum, að réttarríki geti ekki skorazt undan því að bera ágreining við annað ríki undir alþjóðadómstólinn, ef það vill njóta trausts og virðingar meðal þjóða. Og það er gengið feti of langt, þegar íslenzkir alþingismenn leyfa sér fyrir fram að vefengja réttdæmi alþjóðadómsins og gefa í skyn, að hann hljóti jafnan að standa með stórveldi gegn smáríki.

Alþjóðadómurinn, sem starfar í Haag í Hollandi, er skipaður 15 dómendum, sem kosnir eru af allsherjarþingi og öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Til þessara starfa veljast eingöngu lærðir, viðurkenndir og valinkunnir þjóðréttarfræðingar. Og eftir hvaða reglum dæmir alþjóðadómurinn? Í samþykktum hans, sem Alþingi Íslendinga hefur einnig staðfest, segir: Þá er leysa skal úr ágreiningsmálum, skal dómstóllinn fara eftir: a) milliríkjasamningum, b) milliríkjavenjum, c) almennum grundvallarreglum laga, sem viðurkenndar eru af siðuðum þjóðum, d) dómsúrlausnum og kennisetningum beztu sérfræðinga. Og loks þegar þessar réttarheimlidir þrýtur, þá á dómstóllinn að dæma — ex aequo et bono — eins og það heitir á latnesku lagamáli, þ.e. eftir sanngirni og réttlæti. Þetta stendur skýrum stöfum í samþykktum dómsins.

Íslendingar hafa ekki minnstu átyllu til þess að tortryggja alþjóðadómstólinn. Reynslan sýnir, að dómurinn hefur í starfi sínu ekki síður staðið á verði um hagsmuni smáþjóða en stórvelda. Nærtækasta dæmi og það, sem okkur skiptir mestu, er dómur alþjóðadómstólsins 1951 í landhelgisdeilu Norðmanna og Breta, þar sem dómurinn gekk Norðmönnum algerlega í vil, en Bretar töpuðu málinu.

Við úrlausn dómsmála þurfa dómendur oft að meta þá hagsmuni, sem vegast og leikast á. Í landhelgisdeilu Norðmanna og Breta var sérstaklega á það bent, hversu ríkir væru hagsmunir norskra sjómanna og útvegsmanna og nauðsyn þeirra að njóta fiskimiðanna sér til lífsframfæris. Í dómi alþjóðadómstólsins þá er sérstaklega tekið fram, að taka skuli til greina réttindi reist á lífsnauðsyn landsmanna, eins og dómstóllinn kemst að orði. Og eins mun verða í framtíðinni. Ef útfærsla á íslenzkri landhelgi kemur fyrir alþjóðadóm, munu lífshagsmunir íslenzku þjóðarinnar af fiskveiðum og nauðsynlegri friðun fiskstofna verða áhrifamesta röksemdin fyrir málstað okkar. Og þeim mun sterkari gögnum og rökum sem við styðjum þá lífsnauðsyn þjóðarinnar, að hún eigi ein aðgang og nytjar fiskimiðanna umhverfis landið á landgrunninu öllu, þeim mun meiri líkur eru til þess, að aðrar þjóðir og alþjóðadómur meti slíka þörf og fallist á íslenzk sjónarmið.

Herra forseti. Það eru tvær leiðir, sem Alþingi og íslenzka þjóðin þurfa nú að velja á milli. Önnur er leið stjórnarandstöðunnar um óbreytt ástand, og sú leið felur m.a. í sér eftirfarandi atriði: Deilan við Breta heldur áfram. Brezkir togarar hefja aftur veiðar innan 12 mílna — allt að 3 mílum — sem er sú eina landhelgi sem Bretar hafa hingað til viðurkennt. Brezku togararnir munu biðja um herskipavernd, ef til vill fá hana. Gífurleg hætta verður á árekstrum á íslandsmiðum. Lífi og limum íslenzkra sjómanna og varðskipsmanna verður stefnt í voða. Grunnlínur óbreyttar. Engar af þeim þýðingarmiklu útfærslum, sem nú er völ á, koma þá til greina, enda leggja stjórnarandstæðingar til að lögbinda nú hinar gömlu grunnlínur frá 1952. Löndunarbannið heldur áfram. Brezki markaðurinn fyrir íslenzkan fisk lokaður. Óhugsandi verður að ráðast í nýja friðun fiskimiða á landgrunninu, á meðan deilan heldur áfram. Þessi er leið stjórnarandstöðunnar. Hin leiðin er friðsamleg lausn deilunnar með stórfelldri stækkun landhelginnar nú þegar, lausn, sem hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa gert hér glögga grein fyrir. Alþingi og íslenzk þjóð ættu ekki að vera í vafa, hvora leiðina við eigum að velja, leið skaða og skammsýni eða leið sátta og sigurs.