09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það, sem öðru fremur virðist hafa einkennt þessar umr., er sú staðreynd, að stjórnarandstaðan hefur lagt á það megináherzlu að rangtúlka og beinlínis fara rangt með þær upplýsingar og gögn, sem fyrir liggja í málinu. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt, að með öllu er sagt ósatt til um ýmis þau atriði, sem þó hver þm. hefur fyrir framan sig og sjálfur getur gengið úr skugga um. Ég ætla ekki að fara að eltast hér við nein einstök atriði í þessu sambandi, en langar þó að víkja aðeins að einu. Það er yfirlýsing sú, sem ég gaf hér á hv. Alþ. þann 6. febr. í tilefni of fsp. út af viðræðum mínum við utanrrh. Breta í London og París í desembermánuði.

Þegar ég fór í þessa ferð, var hún farin í þeim tilgangi að ganga endanlega úr skugga um það, hvort Bretar væru fáanlegir til þess að ganga svo langt til samkomulags, að íslenzku ríkisstj. þætti það aðgengilegt. Til þess tíma hafði þetta ekki legið greinilega fyrir. Ég átti ýtarlegar viðræður við utanrrh. Breta bæði í París og í London. Í þeim viðræðum kom í ljós, að Bretar mundu fáanlegir til þess að teygja sig svo langt til samkomulags, að ég taldi einsætt, að það væri ávinningur fyrir Íslendinga að leysa deiluna á þeim grundvelli. Þetta sagði ég þó ekki í viðræðunum við hinn brezka utanrrh. Ég sagði það eitt, að ég yrði að fara með þær niðurstöður, sem ég hefði fundið út, heim til ríkisstj. Íslands. Ég gæti ekkert um það sagt, hvort þetta væri aðgengilegt eða ekki fyrir okkur. Ég gæti ekkert tilboð gert af Íslands hálfu. Ríkisstj. yrði að athuga málið og gera það upp við sig, hvort hún teldi, að sá grundvöllur, sem hér virtist vera að opnast, væri þess eðlis, að hún vildi mæla með því við Alþingi, að að honum yrði gengið. Frá þessu skýrði ég á hv. Alþ. þann 6. febr. Þar sagði ég svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar viðræður fóru fram í því skyni að reyna að glöggva sig sem bezt á því, með hvaða hætti tök kynnu að vera á því að leysa fiskveiðideiluna, og sérstaklega leita eftir því, hvort hægt væri að finna einhverja lausn, sem við gætum talið aðgengilega fyrir okkur. Í þessum viðræðum kom ekki fram nein tillaga eða neitt tilboð af Íslands hálfu um lausn málsins.“

Þannig sagði ég orðrétt á Alþingi 6. febr., og þetta er sannleikanum samkvæmt. Og þetta, sem ég nú hef sagt, er staðfest í Alþýðublaðsgreininni s.l. sunnudag. Þar segir:

„Og á þessum fundum varð til sú lausn deilunnar, sem nú er fjallað um.“

Þetta segir Alþýðublaðið s.l. sunnudag. Það segir hvergi í þessari grein, að þarna hafi komið fram nein tillaga eða neitt tilboð af Íslands hálfu, heldur hafi sú lausn deilunnar, sem nú er fjallað um, orðið þarna til. Og hún varð þarna til vegna þess, að það varð ljóst, að Bretar vildu í þessu máli ganga svo langt, að einsýnt var að mínum dómi, að Íslendingum mundi hagur að því. En þetta sagði ég ekki. Það eru þess vegna tilhæfulaus ósannindi hjá stjórnarandstöðunni, þegar hún er að halda því fram, að ég hafi skýrt rangt frá um viðræður mínar úti í Bretlandi og París í s.l. desember.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af síðasta hv. ræðumanni, að af hálfu ríkisstj. hafi því verið lýst yfir, að öðrum þjóðum mundi gefinn kostur á að ganga að því samkomulagi, sem hér er í ráði að gera við Breta. Þetta er alrangt. Engin slík yfirlýsing hefur verið gefin af hálfu ríkisstj. eða af hálfu einstakra ráðherra. Af hálfu ríkisstj. hefur verið sagt það eitt, að ef aðrar þjóðir eigi að fá að ganga inn í þetta samkomulag, þá verði þær að fallast á það, sem Bretar fallast á hér, en að öðru leyti muni það athugað, ef tilmæli koma fram frá öðrum þjóðum, hvernig að því skuli staðið. Meira en þetta hefur ríkisstj. ekki sagt, og það væri ekki skynsamlegt af hálfu Íslendinga að vera að gefa um það neinar almennar yfirlýsingar fyrir fram. Og það er áreiðanlega ekki í þágu íslenzkra hagsmuna, þegar stjórnarandstaðan er að reyna að koma því út um allan heim, að yfirlýsing sem þessi hafi verið gefin af hálfu ríkisstj.

Þegar ákveðið hafði verið 1958 að færa út fiskveiðilögsöguna við Ísland, lagði brezka ríkisstj. fram mótmæli. Í þeim mótmælum var skýrt tekið fram, að sú reglugerð, sem hér ætti að gefa út um 12 mílna fiskveiðilögsögu, væri brot á alþjóðalögum. Það var sagt, að ekkert ríki gæti einhliða tekið sér slíka fiskveiðilögsögu. Brezka ríkisstj. tók það greinilega fram, að hún mundi vernda brezka togara við veiðar innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar, þegar hún ætti að koma til framkvæmda. Þessum mótmælum fylgdi brezka ríkisstj. eftir síðan með ofbeldi. Við eigum þess kost í dag, að brezka ríkisstj. falli frá öllum þessum mótmælum sínum, taki þau öll saman aftur, til þess aldrei að taka þau upp aftur. Við eigum kost á því í dag, að Bretar víki burt úr 12 mílna fiskveiðilögsögunni eftir þeim reglum, sem í samkomulaginu segir, til þess aldrei að hverfa þangað aftur. Stjórnarandstaðan hér á hv. Alþ. hamast á móti þessu. Hún vili ekki láta Íslendinga gera samkomulag og taka við þessari yfirlýsingu. Því hefur m.a. verið haldið fram, að svona yfirlýsingar af hálfu Breta séu ekki mikils virði, við höfum reynsluna fyrir því, vegna þess að þegar löndunardeilan var leyst 1956, höfðu Bretar fallið frá andmælunum gegn 4 mílunum, en síðar tekið þau andmæli upp aftur, þegar fært var út í 12 mílur. Þetta er algerlega rangt. Þegar löndunardeilan var leyst 1956, féllu Bretar ekki frá andmælunum gegn 4 mílunum. Þeir þvert á móti lýstu því yfir, að þeir héldu fast við öll sín andmæli gegn 4 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland og þeir mundu halda áfram að berjast fyrir því á alþjóðavettvangi, að þriggja mílna reglan yrði staðfest.

Það er fyrst nú í sambandi við þá lausn, sem hér er rætt um, að Bretar eru fáanlegir til þess að falla endanlega frá öllum sínum andmælum gegn ekki aðeins 4 mílunum, heldur einnig 12 mílunum.

Ég ætla ekki að ræða hér þær tilraunir, sem gerðar hafa verið til þess að rangtúlka 1. gr. orðsendingarinnar. Orðalagið er ótvírætt. Fyrir liggur umsögn prófessora lagadeildar Háskóla Íslands. Fyrir liggur ótvíræð umsögn brezku ríkisstj. sjálfrar, gefin bæði í efri og neðri deild brezka parlamentsins. Og auk þess hef ég vitnað hér til yfirlýsingar, sem ríkisstj. hefur í höndum frá brezku ríkisstj. Það hefur verið óskað eftir því, að þessi yfirlýsing væri birt. Hún er ein setning. Ég hef lesið þessa setningu hér upp á hv. Alþingi og þjóðin þekkir hana öll í dag. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera að birta meira. Það er ekki meiningin í sambandi við þetta mál á þessu stigi að birta neitt nema orðsendinguna sjálfa, og ég held sannast að segja, að stjórnarandstaðan ætti að vera þakklát fyrir að fá ekki meira af skjölum. Henni hefur reynzt svo erfitt að skilja það einfaldasta orðalag í orðsendingunni sjálfri, að það er áreiðanlega ekki á erfiðleika hennar bætandi með því að láta hana glíma við fleiri skjöl.

En það, sem er athyglisverðast í sambandi við andstöðuna gegn því, að við tökum við þessari uppgjöf Breta, er þó afstaða Alþýðubandalagsins. Hv. 4. þm. Austf. (LJós) lýsti því yfir hér fyrir um það bil tveimur nóttum á hv. Alþingi, að hann vildi það eitt samkomulag við Breta gera, að þeir skuldbyndu sig til þess að halda áfram veiðum um 4 ár innan 12 mílnanna upp að 3 mílum í herskipavernd. Þetta er það eina samkomulag, sem hann getur hugsað sér að gera. Þegar Bretar tóku upp á því að stunda veiðar við Ísland með vernd herskipa, fylltist öll íslenzka þjóðin réttlátri reiði. Við mótmæltum þessum aðferðum við Breta. Við notuðum hvert tækifæri. sem við fengum á erlendum vettvangi, til að mótmæla og láta reiði okkar í ljós, og Alþb.-menn voru sízt varfærnastir í þessum efnum. Þeir þvert á móti gengu svo langt, að þeir kröfðust þess, að í mótmælaskyni við ofbeldi Breta kölluðum við sendiherra Íslands í London heim, rækjum sendiherra Breta frá Íslandi og slitum stjórnmálasambandi við Breta. Þeir kröfðust þess, að við rækjum varnarliðið úr landi og færum úr Atlantshafsbandalaginu. Þeir kröfðust þess, að við kærðum þessar aðfarir fyrir öryggisráðinu. En hvað segja þeir í dag, þegar Bretar loksins eru að hopa og láta undan? Jú, þeir lýsa því yfir, að þeir hafi ekki meint nokkurn skapaðan hlut með þessu öllu. Sú lausn, sem þeir helzt, þrátt fyrir allt þetta, kjósi á málinu, sé sú, að Bretar haldi áfram ofbeldisaðgerðum sínum við Ísland, til þess að þessir ægilegu dagar megi endast í 4 ár enn þá. Ég hygg, að ekki þurfi frekari útskýringa við um afstöðu Alþb.

Þá vil ég aðeins minna á það, að í leiðinni vilja Bretar fallast á það, að Íslendingar fækki grunnlínupunktum og færi grunnlínur mjög út við Ísland. Þessi grunnlínuútfærsla á sér stað á þeim stöðum við landið, sem langsamlega mestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga. Þarna eru þýðingarmestu uppeldisstöðar fiskstofna. Þarna heldur ungfiskurinn sig. Á þessum svæðum veiða fleiri íslenzk skip en á nokkrum öðrum stöðum við landið. Það er áreiðanlegt, að þessi útfærsla á grunnlínum á eftir að hafa stórkostlega þýðingu fyrir fiskveiðar og afkomu Íslendinga.

En áður en sjálf grunnlínuútfærslan kemur til framkvæmda, áður en hún fer að hafa áhrif á fiskstofnana og fiskveiðarnar, þá er hún farin að hafa áhrif á mannfólkið og þá fyrst og fremst þá, sem mest hafa verið hikandi í grunnlínumálunum og varlegast hafa viljað fara. Þegar út var fært 1958, hreyfði sjútvmrh. ekki við grunnlínum. Fyrir nokkru bar stjórnarandstaðan fram í hv. Ed. frv. um að lögfesta landhelgisreglugerðina. Hún treysti sér ekki til að hreyfa í neinu við grunnlínunum. Með nál. fyrir nokkrum dögum var n. enn sama sinnis. Hún treysti sér ekki til að hreyfa í neinu við grunnlínum. Þegar þessi þáltill., sem hér er til umr., kemur inn í þingið og stjórnarandstaðan er búin að athuga hana og gera sínar breytingar, þá vill stjórnarandstaðan breyta flestu í samkomulaginu nema grunnlínunum. Hún treystir sér ekki til að leggja í það. En eftir að málið er búið að vera hér til athugunar í nokkra daga, þá er kjarkurinn þó orðinn svo mikill, bjartsýnin orðin svo rík, að nú er lagt til, að grunnlínum sé breytt í mjög ríkum mæli. Grunnlínubreytingin, sem ríkisstj. er þarna búin að tryggja, er þannig þegar farin að hafa mjög þýðingarmikil og góð áhrif.

Íslendingar voru bundnir við 3 mílna fiskveiðilögsögu samkvæmt samningi Breta og Dana frá 1901. Þessi samningur var uppsegjanlegur með tveggja ára fyrirvara. Íslenzkum fiskveiðum stafaði mikil hætta af þessari þröngu landhelgi vegna ágengni erlendra fiskiskipa. Það var brýn nauðsyn fyrir Íslendinga að segja þeim samningi upp og færa fiskveiðilögsöguna út sem fyrst. Þrátt fyrir tveggja ára uppsagnarfrestinn treystu Íslendingar sér ekki til að gera þetta í tæp 50 ár, vegna þess að þeir sáu, að þá skorti alþjóðlegan grundvöll til útfærslunnar. Frændur okkar, Norðmenn, bjuggu líka við mjög þrönga fiskveiðilögsögu. Þeim var eins og okkur þörf á útfærslu. En lengi vel lögðu þeir ekki í að breyta sinni fiskveiðilögsögu. Það var um tiltölulega svipað leyti, sem Íslendingar og Norðmenn ákváðu að fara að hefja undirbúning að útfærslunni. Það var um tvær leiðir að velja til þess að skapa grundvöll undir slíka útfærslu. Önnur leiðin var sú að vinna að því á alþjóðavettvangi og á alþjóðaráðstefnum að fá settar almennar reglur, sem heimiluðu útfærsluna. Hin leiðin var sú að færa út og láta alþjóðadómstólinn skera úr um það, hvort útfærslan væri heimil eða ekki. En eins og kunnugt er, dæmir alþjóðadómstóllinn ekki aðeins eftir þeim alþjóðareglum, sem fyrir liggja á hverjum tíma, heldur einnig eftir öðrum aðstæðum, þ. á m. verður að meta þá þörf, sem sú þjóð, sem ætlar að færa út, hefur fyrir útfærsluna, og óhagræði það, sem aðrir hafa af henni. Íslendingar og Norðmenn gerðu upp við sig hvor í sínu lagi, hvort þeir ættu að fara dómstólaleiðina eða þá leið að fá settar almennar alþjóðareglur. Norðmenn völdu þá leið að færa út og leita til alþjóðadómstólsins. Árið 1952 gekk dómur í þeirra máli. Þá unnu þeir sigur. Á grundvelli þess færðum við svo út 1952. Grundvöllur okkar þýðingarmestu útfærslu fiskveiðilögsögunnar er því byggður á þeirri niðurstöðu, sem fékkst vegna þess, að Norðmenn völdu alþjóðadómstólaleiðina.

Við Íslendingar völdum hina leiðina. Við kusum að reyna að fá á alþjóðavettvangi settar almennar reglur, sem við gætum byggt á. Við komum því til leiðar, að hinni alþjóðlegu laganefnd Sameinuðu þjóðanna var falið að semja álit og gera tillögur um málið. Við reyndum árið 1956 að fá Sameinuðu þjóðirnar til að setja almennar reglur. Það tókst ekki. Ráðstefna var haldin 1958. Það tókst ekki að fá reglur settar þar. Hún var aftur haldin 1960. Það tókst enn ekki að fá settar almennar alþjóðlegar reglur. Og nú standa málin þannig, að það eru engar ráðstefnur fram undan og engar líkur til þess, að um fyrirsjáanlega framtíð verði gerðar tilraunir til þess að koma á almennum, alþjóðlegum reglum í sambandi við víðáttu fiskveiðilögsögunnar.

Íslendingar eiga því ekki þess kost eða geta þess vegna ekki, eins og málið stendur nú, gert sér vonir um það, að fram úr þessum málum rakni í alþjóðlegum vettvangi. Þeir eiga því í rauninni ekki um annað að velja en annaðhvort að fara í þær framtíðarútfærslur, sem þeir telja óhjákvæmilegar, og reyna að fylgja þeim eftir án þess að leita stuðnings annars staðar eða reyna að tryggja sér stuðningi alþjódómstólsins.

Það er eftirtektarvert í þeim umr., sem hér hafa farið fram, og kom mjög greinilega fram hjá hv. 2. þm. Vestf. (HermJ), á hverju andstaða stjórnarandstöðunnar gegn því að láta alþjóðadóminn fjalla um þetta mál, byggist. Þessi hv. þm. sagði, að það hefði verið eðlilegt og sjálfsagt 1952 að láta þá alþjóðadómstólinn úrskurða um útfærsluna, vegna þess að við vorum fyrir fram vissir um, að allar okkar aðgerðir þá byggðust á alþjóðareglum og við mundum fá aðgerðirnar staðfestar. M.ö.o.: það er skoðun stjórnarandstöðunnar, að það sé sjálfsagt að láta alþjóðadómstól fjalla um aðgerðir okkar í þessum málum, ef við erum fyrir fram vissir um, að hann staðfesti það, sem við höfum gert.

Ef menn ætla að standa gegn því, að alþjóðadómstóli eigi í framtíðinni að fjalla um þetta mál,. þá virðist það hljóta að byggjast á því, að menn hugsi sér, að við í framtíðinni byggjum ekki okkar útfærslu á alþjóðarétti. En svo er þó ekki, slík er ekki hugsun stjórnarandstöðunnar, því að hún hefur borið hér fram till. um það, að við skulum gera skuldbindandi samning við Breta um að fara eftir alþjóðarétti við útfærslu á fiskveiðilögsögu við Ísland í framtíðinni. Stjórnarandstaðan vill láta okkur gefa Bretum skuldbindandi yfirlýsingu til allrar framtíðar um, að við skulum fara eftir alþjóðareglum í þessum efnum.

Og ég spyr nú og bið nú menn að leggja saman: Stjórnarandstaðan slær því föstu, að ef við erum vissir um að vinna mál fyrir alþjóðadómstóli, þá eigum við ekki að hika við að fara með það þangað. Stjórnarandstaðan vill slá því föstu, að við eigum að skuldbinda okkur til að færa ekki út, nema við séum öruggir um, að við byggjum á alþjóðareglum. Hvers vegna getur þá ekki stjórnarandstaðan hugsað sér að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, að alþjóðadómstóll eigi að fjalla um þessi mál? Er það vegna þess, að hún vill gefa skuldbindandi yfirlýsingar um það að fara að alþjóðalögum, en ætlar sér síðan ekki að fylgja því eftir? Er það ekki tvímælalaust vinningur fyrir okkur að hafa í höndum samning við okkar erfiðasta andstæðing í landhelgismálinu um það, að hann muni í framtíðinni beygja sig undir úrskurð alþjóðadómstóls, en ekki grípa til ofbeldisaðgerða, þegar við færum út fiskveiðilögsöguna við Ísland, úr því að við á annað borð erum staðráðnir í að fara í þessum efnum að alþjóðalögum?

Öll þróun í heiminum hefur nú um nokkurt skeið gengið í þá átt, að alþjóðareglur skuli ráða, deilumál skuli leysa með samkomulagi og úrskurðum á friðsamlegan hátt, en ekki gripið til ofbeldisaðgerða. Á seinustu missirum hefur hinum frjálsu fullvalda þjóðum fjölgað mjög. Þær eru yfirleitt veikar að herstyrk til og eiga þess ekki kost að fylgja sínum málum eftir með vopnavaldi í viðskiptum við aðrar þjóðir. Það eru fyrst og fremst þeirra hagsmunir, að alþjóðareglur og alþjóðadómstólar, sem skera eiga úr um það, hvað eru alþjóðareglur, fái að hafa sem mest áhrif og sem mest völd í heiminum. Við Íslendingar eigum öðrum fremur heima í hópi þeirra þjóða, sem verða vissulega að leggja á það hina ríkustu áherzlu, að þannig skuli á málunum haldið í framtíðinni.

Mér virðist, að þetta mál liggi afar greinilega og ljóslega fyrir. Það er ljóst, að því er stjórnarandstöðuna varðar, að Alþb. leggur á það áherzlu, að hinir dægilegu dagar ofbeldisins fái að halda áfram og deilan verði ekki leyst. Formaður Framsfl. hefur lýst því yfir og gert um það till. í utanrmn., að við Íslendingar skulum til úrlausnar á þessari deilu við Breta snúa okkur til Bandaríkjanna og biðja þau um að koma með herskip sín hingað til Íslands og reka Breta burt úr landhelginni. Leið Framsfl. er þess vegna sú að biðja Bandaríkin um herstyrk til að binda endi á deiluna. Leið Alþb. hins vegar sú að semja við Breta um að halda deilunni áfram. Ríkisstj. vill hvoruga þessara leiða fara. Hún telur, að landhelgismálið sé Íslendingum svo þýðingarmikið hagsmunamál, að það beri að gera allt, sem unnt er, til að leysa það á friðsamlegan hátt, þannig að hagsmunum þjóðarinnar sé sem bezt borgið. Það er skoðun ríkisstj., að í því uppkasti að orðsendingu, sem hér liggur fyrir, sé ekki aðeins séð fyrir því á öruggan hátt, að 12 mílna fiskveiðilögsagan, sem verið hefur við Ísland síðan 1958, sé tryggð, án þess að nokkru, sem máli skiptir, sé þar til fórnað, heldur þvert á móti, að við séum betur settir en við áður vorum vegna grunnlínubreytingarinnar og vegna alþjóðadómstólsins, ef þessi tillaga verður samþykkt.