22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (2503)

137. mál, endurskoðun á lögum um vegi

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er ekki litið undrandi yfir þeim undirtektum, sem mín hógværu orð hér áðan hafa fengið hjá hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ). Ég leyfði mér að benda á það, að ákvörðunin um að hefja framkvæmdir á Reykjanesveginum væri gott dæmi þess, hversu nauðsynlegt það væri að skipuleggja þessi mál til langs tíma, afla fullkominna tækja og gera einhverja áætlun, sem byggt væri á í þessum miklu framkvæmdum, sem hér eru fram undan. Þetta vildi hæstv. ráðh. túlka sem árás á vegamálastjóra frá minni hálfu, og auðvitað er ekkert fráleitara. Ég get nefnilega trúað hæstv. ráðh. fyrir því, að mér er fyllilega kunnugt um það, að vegamálastjóri hefur einmitt nákvæmlega sömu skoðanir í þessu efni. Skal ég svo ekki orðlengja það meira.

En í tilefni af ummælum hv. 1. þm. Vestf., sem lét svo ummælt, að mín sjónarmið í þessum málum virtust ekki ná lengra en í kringum minn eigin bústað, þá vil ég segja það, að ég hef alla tíð verið því hlynntur, og mínir flokksmenn hafa gengið fram fyrir skjöldu í því að reyna að koma á bættum samgöngum víða um land. En það þýðir ekki það, að ég vilji loka augunum fyrir þeirri staðreynd, hversu gífurlega það kostar þjóðfélagið mikið fé að hafa vegina svo slæma eins og þeir eru, þar sem þeir eru fjölfarnastir. Ég nefndi nokkrar tölur hér áðan, og ég skal ekki endurtaka þær, en það er alveg ljóst af því, sem ég þá sagði, og menn geta fengið staðfestingu á því með því að líta í ýmis opinber gögn um þau mál. að það kostar okkur tugi milljóna í auknu viðhaldi á farartækjum okkar, hvað vegirnir eru slæmir. Auðvitað er það alvarlegt út af fyrir sig, að þeir skuli vera slæmir, þar sem þeir eru ekki mjög fjölfarnir. En það hljóta þó allir að sjá, að alvarlegast er það, þar sem vegirnir eru fjölfarnastir, og það er ekki sama, hvort það eru þúsund bílar á dag, sem hristir eru í sundur af slæmum vegum, eða hvort það eru 5 eða 10 bílar á dag.

Um það, hvort akfærir vegir séu 6 þús. eða 10 þús. km. skal ég ekki deila við hv. 1. þm. Vestf. Vegamálastjórnin hefur nýlega gefið út skýrslu um það efni, sem er líklega rétt fyrir okkur báða að lita í.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.