01.02.1961
Sameinað þing: 35. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (2509)

132. mál, rannsókn á magni smásíldar

Flm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Ég flyt tillögu þessa á þskj. 193 ásamt hv. 5. landsk. þm. Tillagan fjallar um það að fela ríkisstj. að láta rannsaka eftir föngum magn smásíldar hér við land og hversu mikið megi af henni veiða án þess að rýra heildarafrakstur íslenzku síldarstofnanna. Jafnframt verði athugað, á hvaða stöðum og hvaða árstímum sé unnt að hagnýta smásíldina til niðursuðu.

Eins og kunnugt er, hafa síldveiðar verið einn af megnþáttum íslenzks sjávarútvegs. Vegna aflabrests á síðari árum. eða allt frá 1945, hefur hlutur síldarafurðanna í þjóðartekjunum heldur farið minnkandi. En þrátt fyrir þá staðreynd gefa síldveiðarnar þó þjóðarbúinu drjúgar tekjur, og miklar vonir starfandi manna um land allt eru við það bundnar, að þær eigi eftir að aukast.

Að undanförnu hefur athygli útgerðarmanna og sjómanna beinzt að því í ríkara mæli en áður, að finna þurfi leiðir til betri hagnýtingar síldaraflans og þá sérstaklega með aukinni niðursuðu. Þá hefur verið að því unnið að afla markaða erlendis fyrir hraðfrysta síld.

Hér á hv. Alþ. hefur nokkrum sinnum verið vikið að þessum málum, og leyfi ég mér sérstaklega að minna á ályktun Alþ. um niðursuðu sjávarafurða, sem samþykkt var að tilhlutan fjvn. á árinu 1955. í grg. fyrir till. fjvn. kemur fram, að sérstaklega er átt við niðursuðu síldar. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi hv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að kveðja til þess sérfróða menn að athuga gaumgæfilega, með hverjum hætti verði komið upp hér á landi fullkominni niðursuðu á sjávarafurðum til útflutnings. Ríkisstj. rannsaki jafnframt, hvernig ríkið geti greitt götu þeirra aðila, einstaklinga, eða félaga, sem stofna vilja til slíks iðnaðar. Þess er vænzt, að ríkisstj. hraði, svo sem unnt er, athugunum og framkvæmd í máli þessu. Kostnaður af athugunum þeim, sem í Þál. felast, greiðist úr ríkissjóði.“

Meðal annars í samræmi við þessa ályktun Alþ. hafa nokkrar athuganir farið fram á því, hvernig unnt væri að efla niðursuðuiðnaðinn. Er skemmst að minnast komu norska verkfræðingsins hingað til lands á s.l. sumri. sem hér starfaði á vegum Iðnaðarmálastofnunarinnar. Gerði hann athuganir á ástandi og framtíðarhorfum niðursuðuiðnaðarins, jafnframt því sem hann leiðbeindi einstökum verksmiðjum varðandi tæknileg vandamál í niðursuðu. Verkfræðingurinn skilaði allýtarlegu áliti, sem hv. alþm. hafa meðal annars átt kost á að kynna sér.

Margt virðist benda til þess, að niðursuða síldar eigi eftir að aukast til stórra muna hér á landi. Að sjálfsögðu mun Þróunin fara eftir því, hvernig tekst til um fjáröflun í því skyni, og markaðshorfum á hverjum tíma. Á þessu sviði atvinnulífsins höfum við Íslendingar bezta hráefnið, sem fáanlegt er, og smám saman mun íslenzkur niðursuðuiðnaður afla sér þeirrar þekkingar og tækni, sem nauðsynleg er til þess að framleiða úrvalsvöru.

Veiði smásíldar hefur til langs tíma verið stunduð hér við land og einkanlega á Eyjafirði. Hefur langmestur hluti aflans farið í bræðslu og þá oftast nær fyrir mjög lágt verð. Veiðar þessar hafa allmikið verið gagnrýndar, en þó sérstaklega nú upp á síðkastið. Tvennt hafa menn fundið þessum veiðum til foráttu. Í fyrsta lagi, að síldarstofninum stafaði af þeim hætta, þar sem um ungviði væri að ræða, oft ekki nema 2–3 ára gamla síld, sem veidd væri á uppeldisstöðvum sínum, en fiskifræðingar telja fullvaxna norðurlandssíld vera 8–12 ára gamla, væri því um fullkomna rányrkju að ræða, sem hlyti að hefna sín fyrr en síðar. Í öðru lagi, að veiði smásíldarinnar einvörðungu til bræðslu gefi svo lítið í aðra hönd, að sjálfsagt sé að hagnýta hana með öðrum hætti, svo sem sjóða hana niður. Hefur í þessu sambandi verið á það bent, að Norðmenn sjóði niður þúsundir lesta af smásíld árlega, sem seldar eru svo á erlendum mörkuðum.

Vorið 1959 skipaði atvmrh. nefnd þriggja manna til að gera áætlanir um stofnkostnað og rekstur hæfilegrar niðursuðuverksmiðju á Akureyri, er einkum vært ætlað að nýta þá smásíld, sem veiddist í Eyjafirði. Nefndarmenn voru þeir Sigurður Pétursson gerlafræðingur, Jakob Jakobsson fiskifræðingur og Albert Sölvason, Akureyrí. Skiluðu þeir mjög ýtarlegu áliti. Um smásíldina í Eyjafirði segir í nefndarálitinu á bls. 2. sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Alls voru tekin til rannsókna 18 sýnishorn smásíldar og í hverju þeirra frá 100–200 síldar. 14 sýnishornanna voru tekin á tímabilinu frá 26, maí 1959 til 10. janúar 1960. Hin höfðu verið tekin á árunum 1958, 1953 og, 1949. Rannsóknir á þessum sýnishornum leiddu í ljós, að smásíld sú, sem veidd var í Eyjafirði vorið og sumarið 1959 og fór þá í niðursuðu, var að langmestu leyti sumargotsíld frá 1957, þ.e.a.s., að hún var tveggja ára á sumrinu 1959. Rannsóknir á sýnishornunum 1949. 1953 og 1957 sýna, að þá var sumargotsíld einnig í meiri hluta, einkum á meðal síldar innan við tveggja ára aldur. Í stærri síldinni ber hins vegar nokkuð meira á vorgotsíld. Þær niðurstöður, sem draga má af þeim gögnum, sem fyrir liggja, benda því eindregið til þess, að smásíldin, sem notuð er til niðursuðu, sé að mestu leyti tveggja ára sumargotsíld. Hrygningarstöðvar sumargotsíldarinnar eru mjög víða við strendur landsins, en meginmagnið mun þó oftast hrygna við Suður- eða Suðvesturland. Sum árin, eins og t.d. 1957, hrygndi síld norður á Húnaflóa í ágústmánuði. Þó verður að gera ráð fyrir, að smásíldarveiðar í Eyjafirði séu aðallega háðar hrygningu sumargotsíldarinnar við Suðurland, og þar með eru þær einnig háðar öllum þeim öðrum þáttum í umhverfi síldarseiðanna, sem hafa úrslitaáhrif á styrkleika árganganna og göngur þeirra fyrsta hluta æviskeiðsins. Er hér einkum átt við strauma og hitastig sjávarins, magn svifdýra og plantna, veðurfar o.fl. Það er því ljóst, að sveiflur í magni smásíldarinnar geta gefið mjög mikilsverða vitneskju um væntanlegar sveiflur í magni hafsíldarinnar nokkrum árum síðar, svo að frekari smásíldarrannsóknir eru ekki einungis nauðsynlegar vegna væntanlegs niðursuðuiðnaðar, heldur einnig vegna allra síldveiða okkar.“

Enn fremur segir á bls. 7 í sama nál. undir fyrirsögninni „Smásíldarmagn og hámarksafli“, en þann kafla leyfi ég mér að lesa, hann er stuttur, með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður eru smásíldarrannsóknir Íslendinga svo skammt á veg komnar, að ekki er unnt að ákvarða með neinni nákvæmni stærð síldarstofnsins. Til þess að gera sér einhverja grein fyrir þeirri hámarksveiði smásíldar, sem ekki geti skaðað stofninn, verður að styðjast við þau gögn, sem til eru, þótt ófullnægjandi séu. Sennilegt er, að íslenzku síldarstofnarnir séu nú ca. 1–5 millj. smálesta, og er sú staðhæfing fyrst og fremst byggð á endurheimtu síldarmerkja miðað við aflamagn. Verður þá að gera ráð fyrir, að hver árgangur vegi á 5–10 ára aldri 200 þús. til 1 millj. smálesta. Tveggja ára gamall mundi slíkur árgangur vega 1/5 þyngdar fullvaxna árgangsins, eða 40 þús. til 200 þús. lestir. Þar eð tölur þessar eru sennilega fremur of lágar en of háar, virðist hættulaust að veiða allt að 300 lestir af smásíld á ári. Þessu til stuðnings skal þess getið, að endurheimtur síldarmerkja þeirra, sem merkt var með á Akureyrarpolli s.l. haust, benda til, að þá hafi verið 10 þús. til 30 þús. lestir af tveggja ára síld í Eyjafirði einum. Er ólíklegt, að þar hafi verið nema lítill hluti allrar ungsíldar við Ísland, þar eð vitað er um ýmsar aðrar mikilvægar uppeldisstöðvar við lundið. Gerlegt væri að fá úr þessu skorið með allsherjarrannsókn á smásíldarmagninu með bergmálsdýptarmælum og veiðitilraunum.

Það, sem að framan hefur verið sagt, á aðeins við um veiðiþol stofnsins. Hins er enn ógetið, hvort smásíldarveiðar eru æskilegar frá hagrænu sjónarmiði. Er því til að svara, að sé miðað við útflutningsverðmæti, eru smásíldarveiðar í þágu niðursuðuiðnaðarins tvímælalaust æskilegar. Hins vegar er mjög vafasamt, hvort æskilegt er að veiða smásíld í bræðslu. Með aukinni veiðitækni er veiði stórsíldar að verða svo örugg, að sennilega verður beint tap af smásíldarveiðinni í bræðslu eftir nokkur ár, enda þótt ekki sé gert ráð fyrir ofveiði. Því er nauðsynlegt, að gefin verði út reglugerð um bann á veiði smásíldar til bræðslu.“

Eins og fram kemur í nefndu áliti kunnáttumanna, eru smásíldarrannsóknir okkar Íslendinga enn skammt á veg komnar. Með þeirri tækni, sem nú er unnt að beita, er hægt að fá nánari upplýsingar um hagi smásíldarinnar og þar með hvers þurfi að gæta í sambandi við veiði hennar. Um þetta hef ég rætt við Jakob Jakobsson fiskfræðing, og telur hann rannsókn nauðsynlegs og auðveit að framkvæma hana, ef fé er fyrir hendi. Við flutningsmenn tillögu þessarar teljum, að hér sé um svo mikið hagsmunamál Íslenzks sjávarútvegs að ræða, að sjálfsagt sé að láta þær athuganir sem fyrst fara fram, sem tillaga þessi fjallar um.

Varðandi síðari mgr. till., að jafnframt verði athugað, á hvaða stöðum og á hvaða árstímum sé unnt að hagnýta smásíldina til niðursuðu, vil ég taka fram, að vitað er um smásíld víðar en í Eyjafirði, eins og t.d. í Ísafirði og Skagafirði. Um þetta þarf að fá upplýsingar, enda bendir norski sérfræðingurinn, sem ég gat um áðan, á það í skýrslu sinni.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því, að umr. verði frestað og till. visað til hv. fjvn.