02.11.1960
Sameinað þing: 9. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í D-deild Alþingistíðinda. (2523)

66. mál, gjaldeyristekjur af ferðamannaþjónustu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja út af þessu máli.

Ég tel, að það sé mjög þakkarvert að hreyfa þessu máli og það sé mikil nauðsyn að sinna því miklu meira á næstunni en gert hefur verið. Það er engum efa bundið, að það eru mjög miklir möguleikar fyrir okkur Íslendinga í sambandi við ferðamannaþjónustu og tekjur af ferðamönnum. Það er nú svo, að ferðalög fara sívaxandi í veröldinni, og það er jafnframt annað atriði, sem er skiljanlegt, að fólk vill gjarnan breyta til, og þau lönd, sem hafa verið mestu ferðamannalöndin, það er líklegt, að margir vilji fremur kjósa að fara í nýjar áttir, leita á ný mið, ef svo má segja, heldur en fara alltaf á sömu staðina. Þótt ekki sé nema þetta eitt, sem til greina kemur, er ljóst, að það eru miklir möguleikar einmitt að laða ferðafólk til Íslands. Það er svo einnig annað veigamikið atriði í þessu, sem hv. fyrri flm. kom hér að, og það er sú breytta aðstaða. sem skapazt hefur fyrir erlenda ferðamenn vegna gengisbreytingarinnar, og má þá segja, að gott sé, að það sé þá á einhverju sviði, sem gengisbreytingin hafi orðið til góðs, og gleðilegt að heyra það frá flm. þessa máls, að hún hafi þó þarna stuðlað að atriði, sem geti orðið mjög þýðingarmikið fyrir þjóðina í framtíðinni. Sannleikurinn er sá, að eins og sakir standa er mjög ódýrt fyrir erlenda ferðamenn hér á Íslandi, sennilega ódýrara en í flestum öðrum löndum. Það, sem er dýrt, má segja, að séu í mörgum tilfellum ferðalögin hingað, en allt uppihald hér, bæði hótel, gisting og fæði, er ódýrt, miðað við það, sem er víðast annars staðar, þannig að það er rétt hjá flm., að þetta skapar að sjálfsögðu ný skilyrði til þess að taka á móti ferðamönnum.

Þau atriði, sem bent er á hér í till., eru vissulega góðra gjalda verð. En mér finnst þó nauðsynlegt. að menn geri sér grein fyrir því, að menn verða að þora að fara inn á nýjar brautir til þess að skapa straumhvörf í þessum efnum. Það má ekki endilega binda sig við það skipulag á ferðamálum, sem hér hefur verið. Ég skal á engan hátt lasta Ferðaskrifstofu ríkisins. Hún hefur átt við mikla erfiðleika að stríða fjárhagslega og oft talað fyrir daufum eyrum. En við skulum þó jafnframt gera okkur grein fyrir því, að slíkt, a.m.k. í vestrænum löndum, mun hvergi þekkjast, að það sé ríkið eða ríkisstofnun, sem hefur einokun á móttöku erlendra ferðamanna.

Það frv., sem hv. fyrri flm. minntist á í sinni ræðu og hér hefur verið flutt fyrir nokkrum árum um ferðamál, byggðist á því að taka upp nýja skipun í þessu efni og í meginefnum á þann hátt að sameina öll þau öfl hér í landi, sem hefðu hagsmuna að gæta af móttöku erlendra ferðamanna, — leggja þetta ekki endilega allt á herðar ríkisins, heldur reyna að fá alla þessa aðila til samstarfs um það að efla ferðamálin og greiða fyrir ferðamannastraum hingað til landsins og leggja einnig sitt lið þá að sjálfsögðu um leið til þess, að hægt væri að taka á móti þessum ferðamönnum.

Ég held, að við verðum að gera okkur fulla grein fyrir því, að ef á að fara að taka hér upp ferðamannaþjónustu í stórum stíl og vinna að þessu máli á miklu breiðari grundvelli en gert hefur verið, þá verðum við að þora að fara inn á þá braut að umskipuleggja þessi mál, reyna að fá hér inn alla þá krafta, sem eðlilegt er að vinni að þessum málum í senn, til þess að létta þunga af ríkinu varðandi útgjöld og til þess jafnframt að fá miklu betri árangur af þessu starfi.

Það er alveg rétt, sem hv. fyrri flm. till. vék að, að hér eru starfandi ýmsar ferðaskrifstofur, sem hafa orðið að helga sig því verkefni einu að reyna að ná Íslendingum til útlanda, vegna þess að þær geta ekki að öðru unnið.

Ég held þess vegna, að það beri allt að sama brunni, að við verðum a.m.k. að taka þessa hlið málanna til mjög rækilegrar endurskoðunar og ekki hika við að fara inn á þær brautir, sem að dómi hyggnustu manna í því efni og reyndustu eru líklegastar til þess að skila beztum árangri. Ég hefði því talið, að það sé nokkuð þröngt í þessari till. að miða þessa athugun við, að það skuli í fyrsta lagi haft samráð við Ferðaskrifstofu ríkisins, og í öðru lagi, að fyrsti liðurinn sé í því fólginn að efla starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins, — það þurfi að færast út á breiðari grundvöll. Ég tek það skýrt fram og endurtek það, sem ég áðan sagði, að ég er með þessu ekki á neinn hátt að kasta rýrð á Ferðaskrifstofu ríkisins. En hér eru fjölmargir aðilar, sem að ferðamálum vinna, m.a. þeir aðilar, sem hafa aðalatvinnuna af því að flytja ferðamenn til og frá landinu, bæði skipafélögin og flugfélögin, sem að sjálfsögðu eru hér aðilar, sem hafa mjög mikilla hagsmuna að gæta, og aðilar, sem hafa aflað sér einnig mikillar reynslu. Mér finnst því sjálfsagt, að það verði einnig leitað samstarfs og ráða hjá þessum aðilum og reynt að færa þessa athugun yfir á það breiðan grundvöll að kanna, hvort ekki sé hægt að ná víðtæku samkomulagi og þá að sjálfsögðu einnig með aðild Ferðaskrifstofu ríkisins, í hvaða formi sem hún kynni að starfa, til þess að hefja verulega sókn í þessu efni, því að á því er vissulega mikil þörf.

Ég varpa því nú fram, — það getur vel verið, að menn séu ekki reiðubúnir til þess eða á því séu ýmsir annmarkar, — hvort það sé fjarri lagi, að það verði athugað, hvort hinir stóru hótelhringir mundu ekki vilja byggja hér ferðamannahótel á Íslandi. Það hefur eitthvað komið til athugunar. Ég skal ekki segja um það, af hvaða ástæðum það hefur strandað. En mér finnst, að það sé ekkert fjarri lagi að athuga þessa hlið málsins. Þessir hótelhringir eiga hótel mjög víða um lönd, í sambandi við þá eru einnig stórar ferðaskrifstofur, og þessir aðilar sameiginlega geta orkað ákaflega miklu í þá átt, hvert fólkið ferðast. Hinar stóru ferðaskrifstofur hafa að mjög miklu leyti í sínu valdi, hvort fólkið fer í þessa áttina eða hina, eftir því, fyrir hvaða ferðum þær reka áróður.

Það er svo enn annað, sem við Íslendingar verðum að gera okkur grein fyrir, ef við ætlum að gera Ísland ferðamannaland, að við verðum að vera við því búnir að leggja á okkur ýmsar fórnir einnig í því sambandi. Við verðum að vera reiðubúnir til að bjóða erlendum ferðamönnum það bezta, og við þurfum að laða hingað ferðamenn, ekki aðeins hina almennu borgara, ef svo má segja, heldur einnig ferðamenn, sem gjarnan ferðast til þess að eyða fé sínu á viðkomandi stöðum og vilja þá í staðinn fá góða þjónustu og fullkomna. Og þá kem ég að einu atriði, sem er kannske eitt af því bezta, sem við getum boðið upp á, en er orðið ákaflega takmarkað, vegna þess að Íslendingar sitja yfir því sjálfir, og það er möguleiki til laxveiða, sem hefur geysilega mikla þýðingu og er mikið aðdráttarafl fyrir fjölda ferðamanna víða um heim. Bæði á þessu sviði og ýmsum öðrum verðum við að gera okkur grein fyrir því, að jafnhliða því, sem við erum að óska eftir að gera landið að ferðamannalandi, verðum við að vera við því búnir að veita þá þjónustu við ferðamennina, sem þeir sækjast eftir. Þetta gera allar ferðamannaþjóðir. Þær leggja sig fram um það með öllum hugsanlegum ráðum að laða til sín ferðamennina, og það verðum við einnig að gera.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja um þetta frekar. Ég vildi aðeins skjóta fram þessu tvennu, að ég tel það mikilvægt, að lagður verði grundvöllur að heilsteyptri löggjöf um ferðamál. og hins vegar, að það sé höfuðnauðsyn að færa skipulagningu ferðamálanna og þá athugun, sem þessi till. byggist á, yfir á breiðara svið, breiðari vettvang en hún gerir ráð fyrir, og við verðum að vera við því búnir að gera víðtækar breytingar á öllu skipulagi okkar ferðamála, ef við ætlum að ná þeim árangri, sem hér er að stefnt.