27.03.1961
Sameinað þing: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (2560)

57. mál, slys við akstur dráttarvéla

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og sjá má á þskj. 617, hefur allshn. haft þetta mál til meðferðar, till. til þál. um rannsókn á slysum við akstur dráttarvéla. N. sneri sér til þriggja aðila og leitaði álits hjá þeim um þetta mál. Slysavarnafélag Íslands mælir eindregið með samþykkt till. og bendir jafnframt á ályktanir, sem gerðar voru á 10. landsþingi Slysavarnafélagsins. öryggismálastjóri gaf ýtarlega umsögn, og í bréfi hans kemur í ljós, að hann hefur þegar lagt fyrir iðnmrn. drög að reglum um öryggisráðstafanir við notkun véla í búrekstri. N. sneri sér einnig til Búnaðarfélags Íslands og bað um álit Búnaðarfélagsins. Það baðst undan því að gefa það á þeim tíma, sem n. fór fram á, bað n. um að bíða með afgreiðslu till., unz búnaðarþingi væri lokið. Það kemur í ljós, að Búnaðasfélagið hefur á sínum vegum unnið að því að láta fara fram rannsókn á þessu mikla vandamáli, og það virðast sem sagt vera tveir aðilar, sem hafa farið að vinna raunhæft að úrbótum í þessu máli, bæði Búnaðarfélagið og öryggismálastjóri. Allshn. telur rétt, að einn aðili taki þetta að sér og leggi fram tillögur til úrbóta í þessu máli, eins og felst í sjálfri þáltill., og mæla þess vegna allir nefndarmenn með samþykkt tillögunnar.