13.03.1961
Sameinað þing: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (2726)

206. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Mikill meiri hl. þjóðarinnar hefur í dag ríka ástæðu til að lýsa vantrausti sínu á hæstv. ríkisstj. og stefnu hennar. En enginn hópur manna hefur þó ríkari ástæðu til þess en launþegarnir og þá sérstaklega hinir lægst launuðu. Fyrir þá og þeirra framtíð er það beinlínis fyrir öllu, að stjórnin verði knúin til að breyta um stefnu eða fari frá völdum ella. Svo grátt hefur viðreisnarstefna hennar leikið þetta fólk. Ofan á kaupránið 1959 var skellt nýju dýrtíðarflóði með gengislækkunarlögunum í fyrravetur. Allt verðlag snarhækkaði og hækkaði meira í einum áfanga en nokkur dæmi eru til um áður. En þó voru settar rammar skorður fyrir hækkun á einu sviði. Kaupgjald mátti ekki hækka, hvað sem verðlaginu leið. Samningafrelsi verkalýðshreyfingarinnar var skert. Með lagaboði voru afnumin úr frjálsum samningum verkalýðsfélaganna þau ákvæði, að kaup skyldi greitt eftir vísitölu á þennan hátt hefur verið framkvæmd stórfelld kauplækkun, — kauplækkun, sem nemur kr. 3.50 á klst. fyrir verkamann á lágmarkskaupi Dagsbrúnar eða 730 kr. á mánuði, og er þá aðeins miðað við, hvað vísitalan segir um hækkanir á vöruverði, og ekki reiknað með kaupráninu 1959. Svo getur hver og einn lagt niður fyrir sér, hvað hann muni fá til baka á mánuði í auknum fjölskyldubótum eða skattalækkunum. sem fyrst og fremst voru gerðar fyrir hátekjumenn og atvinnurekendur. Þessu til viðbótar hefur svo viðreisnarstefna ríkisstj. leitt til samdráttar í atvinnu- og viðskiptalífinu, og af þeim sökum hafa atvinnutekjur margra manna stórlækkað, t.d. vegna þess, að eftirvinna hefur verið lögð niður, og hér í Reykjavík hafa verkamenn í vetur kynnzt atvinnuleysinu á ný í fyrsta sinn um mörg ár.

Allt þetta hefur leitt til þess, að kaupgeta almennings hefur minnkað til mikilla muna. En minnkandi kaupmáttur leiðir svo aftur af sér aukinn samdrátt, og ætti þá að vera fullljóst, hvert stefnir, verði ekki að gert.

Það er deginum ljósara, að slík stjórnarstefna þjónar ekki hagsmunum hins almenna manns í landi okkar, enda forskriftin gefin af erlendu fjármálavaldi. Til að framkvæma þessa stefnu sína verður ríkisstj. að halda fullan frið við þetta útlenda vald, og hún verður að eiga greiðan aðgang að miklu erlendu fjármagni. Þegar við höfum þetta í huga, eru svikin í landhelgismálinu ekki neinum ráðgáta. Uppgjöfin fyrir ofbeldisaðgerðum Breta og afsal á sjálfsákvörðunarrétti okkar um frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar í hendur erlends valds, þetta síðasta afrek hæstv. ríkisstj. hlaut að koma. Það er rökrétt og óhjákvæmileg afleiðing sjálfrar stjórnarstefnunnar. Og þannig mun halda áfram að siga á ógæfuhliðina, verði ekki snúið við í tíma.

Kaupgjald má ekki hækka. þá er viðreisnin búin að vera, segir ríkisstj., og þetta virðist orðin eins konar trúarjátning hennar. En það er hægt að fullvissa ríkisstj. um, að þessi stefna hennar fær ekki staðizt, og ætti henni raunar þegar að vera það fullljóst. Verði þessari stefnu haldið til streitu, leiðir hún til nýrra stórátaka milli stéttanna. Á þessum vetri hafa þegar orðið framleiðslutafir og stöðvanir af þessum sökum, og það eru ekki aðeins sjómenn og verkafólk, sem hefur viljað fá hlut sinn bættan, heldur hafa bátaútvegsmenn einnig fundið sig til knúna að beita stöðvun til að rétta sinn hag.

Að sjálfsögðu hefur verkalýðshreyfingin mótmælt þessari kauplækkunarstefnu og sett fram kröfur sínar um bætt kjör. Og það eru ekki aðeins verkalýðsfélög undir stjórn vinstri manna, sem þetta hafa gert, heldur einnig félög, sem lúta stjórn manna úr ríkisstjórnarflokkunum. Má þar til nefna Iðju í Reykjavík, Verkakvennafélagið Framsókn o.fl. Öll hafa þessi félög gert kröfur um hækkað kaup, styttan vinnutíma og annað fólki sínu til handa. Ég fæ ekki séð, að ríkisstj. hafi neina ástæðu til að ætla, að stjórnum þessara félaga sé ekki full alvara, þegar þær bera fram þessar kröfur. Eða heldur hún kannske, að hér sé um sýndarleik að ræða? Nei, auðvitað ekki. Fólkið í verkalýðsfélögunum er til knúið að bera fram kröfur sínar og fylgja þeim eftir. Kröfur þessara félaga sem annarra eru auðvitað fullkomið vantraust á gerðir og stefnu ríkisstj. Það er vantraust fólksins í landinu, sem nú er flutt hér inn í þingsalina.

Þegar ríkisstj. hefur beinlínis stofnað til þess, að hér verði stórfelld stéttaátök, sjáum við daglega í blöðum hennar, að verkalýðshreyfingin er sökuð um að vilja stofna til verkfalla, og nú er eftirlætisslagorð þessara sömu blaða: Kjarabætur án verkfalla. Látið er liggja að því, að verkalýðshreyfingin vilji umfram allt fá verkföll og sé á móti kjarabótum án þeirra. Auðvitað er þetta hinn herfilegasti rógur. Verkalýðsfélögin beita aldrei verkfallsvopninu, fyrr en allar aðrar leiðir eru lokaðar, og þessari ríkisstj. hefur verkalýðshreyfingin sýnt alveg eindæma þolinmæði og gefið henni öll tækifæri til að sýna stefnu sína í framkvæmd. Jafnhliða kröfum sínum um hækkað kaup hefur verkalýðshreyfingin gert þá kröfu til ríkisstj., að hún geri ráðstafanir til lækkunar á vöruverði og annað, er mætti verða til þess að auka kaupmátt launanna. Því hefur margsinnis verið lýst yfir að verkalýðshreyfingin muni meta hverja slíka ráðstöfun til jafns við kauphækkun. Í októbermánuði á s.l. hausti óskaði stjórn Alþýðusambandsins eftir að ræða þetta efni við ríkisstj. Viðræður fóru fram 3. nóv. Við fengum þá engin svör, en var lofað framhaldi viðræðnanna og að næsti fundur skyldi boðaður. Röskir fjórir mánuðir eru síðan liðnir og enn hefur ríkisstj. ekki boðað til næsta fundar. Þetta á sjálfsagt að sanna áhuga hennar fyrir kjarabótum án verkfalla.

Nú hefur samninganefnd Dagsbrúnar og nokkurra annarra verkalýðsfélaga annars vegar og samninganefnd Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar óskað sameiginlega eftir viðræðum við ríkisstj. um sama efni, og á sá fundur að verða í fyrramálið, og vonandi stendur nú ekki á svörum.

Stefna ríkisstj. í kaupgjaldsmálunum hefur egnt atvinnurekendur til hatrammrar andstöðu gegn hógværum og sjálfsögðum kröfum verkalýðsfélaganna. Kröfum Dagsbrúnar og annarra félaga um, að kaup verkamanna hækki úr 992 kr. á viku í 1180 kr., svöruðu þeir með því að fullyrða, að kaup gæti ekkert hækkað, og lýstu ábyrgð á hendur þeim, sem til þess hvettu. Kannast menn við siðferðið? Fyrst er hinn saklausi rændur, og þegar hann ber hönd fyrir höfuð sér og leitar réttar síns, lýsir ræninginn ábyrgð á hendur honum. Síðan hafa þeir enn sótt í sig veðrið og boðið samninga, sem fela í sér stórskert kjör frá því, sem nú er. Þeir ættu sjálfir, þessir herrar, og raunar hæstv. ráðh. einnig að reyna að lifa af 990 kr. á viku. Það væri býsna fróðlegt að sjá, hvernig þeim tækist það.

Fyrir nokkrum dögum gat að lesa í leiðara Morgunblaðsins, að 2–3% árleg aukning þjóðarteknanna væri eðlileg og þá ætti verkalýðurinn fullan rétt á kjarabótum. Látið er í það skína, að þessi aukning sé ekki aldeilis til staðar hér. Sannleikurinn er þó sá, að á árunum frá 1948 til 1958 hefur verðmæti þjóðarframleiðslunnar á verðlagi ársins 1954 aukizt á hvern íbúa að meðaltali um 3.5% á ári og sennilega mun meira síðustu fimm árin. Á sama árabili hefur kaup verkamanna lækkað, miðið við verðlag. Hlutdeild þeirra í aukningu þjóðarteknanna er því minni en engin. Þar hafa aðrir fleytt rjómann. Það er því hverju orði sannara, sem Morgunblaðið segir í þessu efni: Verkalýðurinn á fullan rétt á kauphækkun og kjarabótum.

Kjörum verkafólks er nú svo komið, að ekki verður við unað. Þetta vita allir og viðurkenna. og ræður þar litlu um, hvaða stjórnmálaskoðanir menn hafa. Þetta ætti ríkisstj. einnig að gera sér ljóst hið allra fyrsta og beita sér fyrir samningum við verkalýðsfélögin, samningum um kjarabætur án verkfalla. Geri hún þetta ekki, fær hún ekki lengi umflúið endanlegan áfellisdóm þjóðarinnar, því þótt peningavaldið, sem hún styðst við, sé sterkt, eru þó hinir mörgu og smáu sterkasta aflið í þjóðfélagi okkar, þegar þeir fylkja sér saman, og það munu þeir nú gera.