25.01.1961
Sameinað þing: 34. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í D-deild Alþingistíðinda. (3128)

954. mál, viðræður varðandi lán til framkvæmda

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég þekki nú hv. 1. þm. Austf. af langri viðkynningu, og mér datt náttúrlega ekki í hug að halda, að ég með einni setningu gæti snúið honum frá villu síns vegar í því máli, sem hér hefur verið deilt um vikum saman á þinginu. Ég hef víst að hans áliti alveg hæfilega mikið og hátt mat á sjálfum mér, en svo hátt hef ég það nú ekki, að ég geti náð úr honum allri þvermóðskunni með einni meinlausri setningu. En ég mætti kannske þó aðeins leiða athygli hans að því, að á seinni stjórnarárum hans sjálfs var Alþjóðarbankinn ekki til viðtals um lánveitingar til Íslendinga, af hverju sem það stafaði, hann veit það eins vel og ég, og að nú hins vegar er Alþjóðabankinn til viðræðna um þetta og hefur sýnt það í verki með því að senda hingað menn, eins og ég áðan gat um.

Þáð er rétt, sem hv. þm. sagði, að hitaveitan er það mál sem hefur fyrst komið til umræðu. Það er rétt, svo langt sem það nær. En það stafar líka af því, að eins og hann réttilega gat um, er hitaveitan mál sem víst flestir eða allir hv. þm. geta sameinazt um, en auk þess er það eina málið, sem var fullundirbúið eða svo fullkomlega undirbúið, að það væri hægt að ræða það á grundvelli þeirra áætlana, sem fyrir liggja.

Ríkisstj. hefur hins vegar fullan hug á að hrinda í framkvæmd sem víðtækustum framfaramálum alþjóð til velfarnaðar. Og okkar fyrirhyggja er sú, að erlendir og innlendir fræðimenn leggi saman þekkingu sína og vitsmuni til þess að búa sem bezt úr garði þá framkvæmdaáætlun, sem svo yrði hafizt handa um að framkvæma. Um þetta hafa farið fram ýmsar viðræður, og ég held, að ég megi segja, að við höfum góðar vonir um, að það þurfi ekki að líða allt of langur tími, þar til betur sést fram á veginn í þessum efnum.

Hv. þm. spurði sérstaklega um, hvaða vegamál við hefðum í hyggju sérstaklega. Ég treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu. Það hefur verið rætt hér á Alþingi oftar en einu sinni um, að nauðsyn bæri til að þeir vegir, sem mest er umferðin um, gætu orðið byggðir úr varanlegra efni en nú er. Ég býst ekki við, að það þurfi að valda ágreiningi.

Þá spurði hv. þm. að lokum um, hvaðan yrði tekið fé til Keflavíkurvegar. Það hefur verið hugsað, að fyrstu byrjunarframkvæmdirnar allverulegar gætu fengizt af PL-peningunum, og svo eru frammi fleiri bollaleggingar um fjáröflun í því skyni, sem ég hygg að sé ekki tímabært að ræða um hér í dag. En það er unnið að því eftir leiðum, sem maður telur farsælastar verða fyrir hagsmuni þjóðarinnar.