16.12.1960
Neðri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

134. mál, efnahagsmál

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að þessar upplýsingar hefðu verið frá því í febrúar 1960. En það eru ekki þessar tölur, 270 millj., sem skiptust í 150 og 120, þær urðu til í nóvembermánuði 1959, og það var byggt á þeim við áætlun, sem gerð var fyrir áramótin. Breytingin, sem varð á þeirri áætlun, gerir það að verkum, að þessi mismunur er orðinn til. Sömuleiðis, eins og ég hef raunverulega tekið fram í kvöld áður, var fiskurinn til Ameríku, sem seldur er í umboðssölu, greiddur eða verðuppbæturnar á hann úr útflutningssjóði að 75%, um leið og varan fór, en það var alveg ómögulegt, þegar þessi áætlun var gerð, að vita, hvort gjaldeyrisskilin kæmu fyrir eða eftir gengisbreytinguna. Þannig voru þeir óvissu partar í þessari áætlun svo miklir, að þetta er alveg fullkomlega skýranlegt vegna þeirra.