17.10.1960
Efri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

9. mál, verkstjóranámskeið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem fram kemur i grg. þessa frv., hafa þrisvar sinnum áður verið lögð fyrir hv. Alþ. frv. til laga um verkstjóranámskeið, og sýnir sá flutningur, að talin hefur verið þörf á því að koma á fastri skipun um menntun til handa verkstjórum, enda er það ljóst, að í nútímaþjóðfélagi, þar sem ætið er krafizt meiri og meiri tæknimenntunar, er brýn þörf á því, að þeir, sem stjórna vinnu annarra, hafi til þess sérstaka þekkingu og æfingu. Að vísu er það svo, að sú þekking og æfing, sem hverju sinni er krafizt, kann að vera nokkuð ólík, og þess vegna er erfitt að fastmóta fyrir fram, hvernig þvílíkri fræðslu á að vera háttað. Verður vafalaust töluvert að prófa sig áfram um það, hvernig henni skuli fyrir komið.

Hingað var fenginn sérfræðingur á vegum Iðnaðarmálastofnunarinnar, maður frá Noregi, til ráðuneytis í þessum efnum, og má segja, að frv. það, sem nú liggur hér til meðferðar, sé samið á grundvelli hans álitsgerðar og að öðru leyti að fengnum till. frá eða umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Verkstjórafélaginu og Iðnaðarmálastofnuninni, en allir þessir aðilar hafa mjög látið þessi mái til sín taka.

Í frv. þessu er ráðgert, að skipuð verði sérstök stjórn þriggja manna til þess að fara með þessi málefni, einn tilnefndur af Vinnuveitendasambandinu, annar af verkstjórasamtökunum og sá þriðji af Iðnaðarmálastofnuninni, en Iðnaðarmálastofnunin eigi hins vegar að hafa daglega meðferð málsins með höndum. Nokkur skoðanamunur var um, hvernig þessu skyldi fyrir komið. Iðnaðarmálastofnunin eða hennar stjórnendur töldu æskilegra, að hún hefði meiri bein áhrif á meðferð málsins en hér er lagt til, en hinir tveir aðilarnir lögðu áherzlu á, að þessi skipan yrði upp tekin, sem hér er lögð til. Í þessu frv. er einnig gerður sá munur frá því, sem var í því frv., sem næst áður lá fyrir Alþ. um þetta efni, að þar var ráðgert, að iðnskólum yrði að verulegu leyti fengin þessi fræðsla í hendur. Hin norska álitsgerð og skoðun verkstjóra- og vinnuveitendasambanda var á þá leið, að ekki væri heppilegt, a.m.k. á þessu stigi, að tengja þetta tvennt saman. Betra væri að efna hér til sérstakrar starfrækslu, en þó þannig, að mjög yrði að prófa sig áfram um það, hvernig henni yrði fyrir komið. Ætlunin er ekki sú, að komið verði upp neinu fræðslubákni, ef svo má segja, heldur verði stuðlað að því, að haldin verði námskeið, fyrst og fremst fyrir Reykjavík, en e.t.v. einnig víðar um landið, og einnig hafður bréfaskóli í þessum efnum og þannig prófi menn sig áfram, áður en fastmótað verði, hvernig þessi starfræksla skuli vera í framtíðinni. Þá er einnig í frv. horfið frá því, sem hefur a.m.k. verið í sumum fyrri frv. um þetta efni, að prófskírteini frá þessum námskeiðum veiti forrétt til vinnu. Það þykir ekki tímabært að kveða svo á, fyrr en sýnt er, að hvaða gagni námskeiðin raunverulega koma. Það er alltaf hægt að bæta þeim forréttindum við á síðara stigi málsins, ef þetta nær tilætluðum árangri, eins og við vonum. En það er ljóst, að hér þarf um svo margt að þreifa sig áfram, að ekki er rétt að veita ákveðin forgangsréttindi fylgjandi prófunum á þessu stigi málsins.

Það er ekki gott að segja, hversu mikill kostnaður verður þessu samfara. Mér þykir sennilegt, að hagkvæmt þyki í fyrstu að senda sérstakan mann til að setja sig inn í meðferð þessara mála, t.d. í Noregi, áður en starfrækslan verður upp tekin. En síðan er, eins og ég segi, ekki ætlunin, að það verði haldinn fastur skóli, heldur einungis námskeið tiltölulega stutt í fyrstu og kostnaði verði haldið innan þess ramma, sem Alþingi veitir fé til hverju sinni, og vona ég, að a.m.k. til að byrja með þurfi það ekki að verða nema nokkur hundruð þús. kr. á hverju ári, en sennilega verður ekki með minna sloppið.

Mér fyndist eðlilegast, að þetta væri í fyrstu ekki ósvipað því, sem hefur átt sér stað með kennslu á vegum Fiskifélagsins fyrir vélstjóra og stýrimennsku á minni bátum, þar sem stutt námskeið hafa verið haldin víðs vegar á landinu án verulegs kostnaðar fyrir þátttakendur og fyrir ríkið. Það yrði byrjunin, og síðan yrði á þeim grundvelli að kveða nánar á, e.t.v. með nýrri löggjöf, ef menn vildu leggja meira fram, en þá væri það eftir að komið væri í ljós, að þetta hefði orðið að því gagni, sem menn að vísu vona að það verði.

Ég leyfi mér að leggja til, að málið gangi til 2. umr. og verði vísað til nefndar. Ég hef ekki athugað, í hvaða nefnd þetta mál hefur verið áður. (Gripið fram í.) Sennilega er eðlilegast, að það verði sent til hv. iðnn. Ég get fallizt á þá tillögu.