19.01.1961
Neðri deild: 46. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var því lýst yfir, þegar hæstv. ríkisstj. lagði fram till. sínar um nýja efnahagsmálastefnu á öndverðu ári 1960, að megintilgangur hinna nýju tillagna ríkisstj. í efnahagsmálum væri að koma aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútveginum, á heilbrigðan grundvöll og sjá svo um, að hægt væri að reka sjávarútveginn án styrkja og uppbóta. Þetta var margsinnis tekið fram í grg. frv. og í málflutningi hæstv. ríkisstj. hér á Alþ. um þessar nýju efnahagsráðstafanir. Aðaltilgangurinn var sem sé sá að tryggja rekstrarafkomu sjávarútvegsins og koma þeim rekstri sem heild á heilbrigðan grundvöll; Þá var ekki minnzt á neitt slíkt sem það, sem þetta frv. nú fjallar um. Þá voru ekki gefnar hér neinar yfirlýsingar um það eða nein orð látin liggja að því, að eftir nokkra mánuði þyrfti að taka öll lánamál sjávarútvegsins til nýrrar athugunar og gerbreytingar frá því, sem áður var. Þá voru menn beinlínis látnir skilja, að hin nýja stefna, sem nú átti að taka upp í efnahagsmálum landsins, ætti að leysa vandann og koma sjávarútveginum á þennan heilbrigða rekstrargrundvöll. Það hlýtur því að hafa vakið undrun, a.m.k. allra þeirra, sem trúnað lögðu á orð hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, að hún skyldi telja sig neydda til þess að rjúka upp nú í jólafríi þingmanna og setja bráðabirgðalög um raunveruleg skuldaskil útgerðarinnar.

Ég óska eindregið eftir því, að hæstv. ríkisstj. gefi hér skýringu á því, hvaða ástæður lágu til þess, að henni þótti nauðsynlegt að grípa til bráðabirgðalagasetningar í þessum efnum. Það var kunnugt, að hæstv. ríkisstj. hafði opinberlega lýst því yfir við samtök útgerðarmanna í landinu, að hún ætlaði sér að setja löggjöf svipaða og þá, sem hér hefur verið sett. Og hún hafði m.a. látið fjármálaráðunaut sinn halda langt og ýtarlegt erindi yfir samtökum útvegsmanna eða útvegsmönnum um það, hvað væri hér raunverulega á ferðinni í sambandi við þessa væntanlegu lagasetningu. Útvegsmenn vissu því fyllilega um það, hvað hér átti að koma. En hvað var það þá, sem gat knúið hæstv. ríkisstj. til þess að þurfa nú að setja brbl. um þetta efni? Lög um skuldaskil útgerðarinnar hafa verið sett hér á Alþingi áður og ekki með bráðabirgðalögum. og framkvæmdin hefur líka orðið sú, síðan brbl. voru sett, að ekkert bendir til þess, að það hafi verið brýn nauðsyn á því að setja brbl. í þinghléinu um þetta mál. Og í þessum umr. hefur ekkert komið fram, sem réttlæti þessa bráðabirgðalagasetningu. En hæstv. ríkisstj. var orðið það ljóst, m.a. vegna yfirlýsinga frá samtökum útvegsmanna, að svo var orðið ástatt með fjárhagsmálefni útgerðarinnar í heild, að þar þurfti ýmislegt að gera, og það voru uppi margar kröfur frá hálfu útvegsmanna til ríkisstj., og svo hefur ríkisstj. í einhverri ofboðslegri hræðslu þotið upp og sett brbl. í þessum efnum, rétt eins og hún væri að gera sinn hag eitthvað betri með slíkri ráðstöfun. Ég á erfitt með að skilja þessa brbl. setningu á annan hátt en þann, að hér hafi komið til eitthvert hræðslukast hæstv. ríkisstj. Mér er ómögulegt að finna, hvaða bein rök hafa legið til þess, að hér voru sett brbl. En væntanlega getur hæstv. ríkisstj. skýrt það atriði nokkru betur en hún hefur gert.

En hvað er það svo, sem hér er raunverulega á ferðinni? Jú, það er sagt, að nú eigi aðallega að breyta stuttum lánum, sem útgerðin hefur fengið í bönkum landsins, í löng lán, og einnig muni útgerðin verða þess aðnjótandi, að vextir á þessum lengdu lánum verði nokkru lægri en vextirnir á stuttu lánunum. Kemur það ekki upp í huga einhverra, sem hér voru viðstaddir afgreiðslu viðreisnarlöggjafarinnar á sínum tíma, að eitt af meginákvæðunum einmitt í viðreisnarlöggjöfinni var það ákvæði, að það þurfti að breyta þeim lögum, sem i gildi voru um stofnlán til útgerðarinnar? Það hafði sem sé verið um alllangan tíma svo, að útgerðin gat fengið sin meginstofnlán frá fiskveiðasjóði til 20 ára og reyndar með heldur hagstæðum vaxtakjörum líka, 4 og 41/2% vöxtum. En einmitt eitt af því, sem viðreisnin boðaði, var, að það varð að breyta þessum lögum og ákveða að stytta stofnlán útgerðarinnar úr 20 árum, eins og hafði verið bundið í lögum, niður i 15 ár, og það varð að hækka vextina á þessum stofnlánum frá því, sem áður var. Svo er nú aftur komið eftir 10 mánuði og sagt: Nei, nú skulum við hafa þetta á hinn veginn. Nú skulum við aftur lengja stuttu lánin, og nú skulum við aftur lækka vextina í staðinn fyrir að hækka þá áður. — Hér er m.ö.o. gersamlega snúið við blaðinu frá því, sem var snemma á árinu. Þá var nauðsynlegt að breyta lögum í þá átt að stytta stofnlán útgerðarinnar. Nú á að lengja þau. Þá var nauðsynlegt að breyta lögum og ákveða að hækka vextina á stofnlánunum. Nú á að lækka vextina, einmitt í þessum mánuði. Ríkisstj. hefur auðvitað í þessum efnum rekið sig á það, að kenningar þær, sem túlkaðar voru fyrir henni um það leyti, sem hún var að setja viðreisnarlöggjöfina, hafa reynzt eintóm vitleysa, og því er það, sem slíkt fum er á hæstv. ríkisstj., að nú boðar hún allt annað en hún boðaði þá.

En svo er mönnum sagt um þessi nýju lán, sem mjög hefur verið talað um að veita eigi útgerðinni í landinu, — talað hefur verið um 300–400 millj. í þessum lánum, — að þessi nýju lán séu með þeim undrum, að það þurfi hvergi að taka peninga á neinn hátt til þess að setja í þessi lán. Engan nýjan pening á að leggja fram, en samt á að veita ný lán. Og rætt er um það, eins og m.a. kom hér fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að það eigi að taka, nokkurn hlutann af þeim afurðalánum, sem útgerðin hefur haft, og breyta þeim afurðalánum í löng lán, og síðan er til þess ætlazt, að eftirleiðis verði afurðalánin ekki hærri en um 70%, í staðinn fyrir það, að afurðalánin hafa nú í mörgum tilfellum verið 100%. Það er ekki mikil bót fyrir útgerðarfyrirtæki að verða þess aðnjótandi, að þau afurðalán, sem fyrirtækið hefur haft um skeið, eigi að lækka, hluta af þessum afurðalánum eigi að taka og breyta í löng lán, en eftirleiðis á fyrirtækið ekki að geta fengið nema 70% af þeim lánum, sem það hefur getað fengið fram til þessa, til þess að standa undir kostnaði af framleiðslu nýrra afurða. Það er auðvitað alveg augljóst; að ef ætti að fylgja þessu fram, þá ræki hér strax til stöðvunar, að ég tali nú ekki um, ef þannig ætti að halda á málunum, eins og hæstv. viðskmrh. túlkaði hér, að með því að taka hluta af afurðalánunum og lengja þau í þessi löngu lán, þá losnar, eins og hæstv. ráðh. sagði, nokkur hluti af andvirði afurðanna. Þegar þær eru nú seldar, þá fær útgerðarfyrirtækið nokkuð af lausum peningum, sem það getur þá, eins og hann sagði, notað til þess að borga aðrar lausaskuldir, sem nú hvíla á rekstrinum. En ef fyrirtækið gerir það, hvernig tekst þá til, þegar fyrirtækið þarf að framleiða á nýjan hátt og fá afurðalán á ný og fær þá ekki nema 70% af framleiðslukostnaði? Hvaðan á þá að taka hinn hlutann af framleiðslukostnaðinum? Nei, um leið og á að ákveða, að afurðalánin eigi eftirleiðis að minnka frá því, sem þau hafa verið, verður vitanlega að taka þann hluta, sem nú losnar af afurðalánunum eða af andvirði afurðanna, og setja í nýja framleiðslu, svo framarlega sem þetta á ekki að leiða til stöðvunar innan skamms.

Nei, sú ráðstöfun að ætla að minnka þau lán, sem hafa verið veitt sem afurðalán, og taka hluta af afurðalánum og breyta þeim í löng lán, getur vitanlega ekki orðið til nokkurra bóta fyrir reksturinn. Það er að vísu svo um þessi væntanlegu lán, sem hér er rætt um, að það er margt óljóst í því, hvernig framkvæmd þessara mála verður. En það þykir mér vera alveg sýnt, að svo framarlega sem þetta á að koma sjávarútveginum að einhverju gagni, eins og nú er komið rekstrarmálum sjávarútvegsins, verður hér að vera um beina útlánaaukningu að ræða. Þá verður hér að koma til þess, að þessi nýju lán verði raunverulega ný lán með nýju fjármagni, því að annars hefur þetta sáralitla þýðingu. Ég held líka, að hæstv. ríkisstj. hljóti að gera sér grein fyrir því, að þannig hlýtur þetta að fara. En vegna þess, sem hún hefur sagt áður um útlán bankanna og meginstefnumið viðreisnarinnar að draga úr útlánum, þykir ríkisstj. sennilega handhægara að hafa þetta svona núna, að lýsa því yfir, að hér sé einvörðungu um millifærslu á lánum að ræða, en hér eigi ekki að vera um að ræða útlánaaukningu, þó að hún viti, að þessi ráðstöfun leiðir til þess, að hér verður um útlánaaukningu að ræða innan skamms. Þegar lausaskuldir fyrirtækjanna í bönkunum hafa verið teknar og færðar í aðra stofnun og eiga þar að vera sem löng lán, þá byrjar lántakan á nýjan leik í viðskiptabönkunum og færist fljótt upp að sama marki og hún var áður, því að annars rekur allt í strand.

Menn muna eftir því, að í grg. fyrir viðreisnarfrv. sagði hæstv. ríkisstj. á sínum tíma, að hún mundi hlutast til um það við viðskiptabankana og Seðlabankann, að útlánaaukning á árinu 1960 skyldi ekki verða meiri en 200 millj. kr. Þetta var ætlunin í sambandi við útlánamálin. Nú í lok októbermánaðar sögðu Hagtíðindin það, að útlánaaukningin hjá bönkunum væri ekki orðin 200 millj., heldur 421 millj: og þessi útlánaaukning meiri en helmingi meiri en ráð hafði verið fyrir gert í grg. viðreisnarfrv. Þessi útlánaaukning átti sér stað á þeim tíma, sem mjög gekk á birgðir af útflutningsvörum í landinu, og samkv. eðlilegum hætti hefðu útlánin átt að minnka með minnkandi birgðum í landinu. En jafnhliða því, sem birgðirnar minnkuðu, jukust útlánin helmingi meira en sérfræðingar ríkisstj. höfðu gert ráð fyrir. Og útlánaaukningin var raunverulega enn meiri en þetta, vegna þess að það vita allir, að allverulegur þáttur í auknum útlánum nú á þessu ári hefur verið í formi erlendra vörukaupalána hjá verzluninni, sem áður varð að fá sín lán í gegnum banka landsins eins og aðrir, og ef verzlunin fékk eitthvað aukin lán, þá kom það vitanlega fram í auknum útlánum bankanna almennt séð. Nú gat verzlunin tekið mikið á annað hundrað millj. í sérstökum vörukaupalánum erlendis frá, án þess að þessi nýju lán væru talin með í útlánaaukningunni í landinu. Þannig er auðvitað enginn vafl á því, að útlánaaukningin hefur verið margföld á við það, sem sérfræðingar ríkisstj. gerðu ráð fyrir á sínum tíma. Og útlánaaukningin þurfti að verða enn meiri en þetta. Hún þurfti raunverulega að verða þeim 300–400 millj. meiri, sem þetta frv. nú stefnir að, en það stefnir að því að færa til sjávarútvegsins með einum eða öðrum hætti 300–400 millj. í nýjum lánum, þó að það eigi að heita svo í upphafi, að hér eigi ekki að vera um útlánaaukningu að ræða, heldur tilfærslu á lánum, því að það er vitanlegt mál, að framhaldið af þessu hlýtur að verða það, að hér verður um beina útlánaaukningu að ræða.

Í þessum efnum hefur auðvitað farið eins fyrir stefnu ríkisstj. viðvíkjandi þessum atriðum og í öðru. Ekkert af þeim útreikningum hefur staðizt, sem ríkisstj. lagði fram sem rökstuðning fyrir viðreisninni á sínum tíma. Við vitum það, að ein aðalröksemdin fyrir viðreisninni var sú, að skuldir þjóðarinnar við útlönd væru orðnar of miklar, — skuldirnar væru orðnar allt of miklar og þær yrðu að lækka, og að því átti viðreisnin að stefna. Nú fyrir tveimur dögum eða svo skrifaði einn af hagfræðingum Sjálfstfl. allýtarlega grein um þetta efni í Morgunblaðið, Þorvarður J. Júlíusson, starfsmaður Verzlunarráðs Íslands. Hann sagði í sinni grein, að árið 1960, viðreisnarárið, hefði nettó-skuldaaukning við útlönd orðið á milli 4 og 5 hundruð millj. kr., eins og hann orðaði það, — nettó-skuldaaukning við útlönd á árinu 1960 hefði orðið á milli 4 og 5 hundruð millj. kr. Og það er enginn vafi á því, að skuldaaukningin við útlönd varð raunverulega mun meiri en þetta, því að stuttu vörukaupalánin eru ekki þarna talin fram, en þar er sumpart um lán að ræða fyrir vöru, sem er innflutt og uppétin eða notuð í landinu, en skuldin stendur enn þá eftir við útlönd. Síðan viðreisnarlöggjöfin var samþ., hefur því orðið um að ræða stórkostlega nýja skuldasöfnun við útlönd. Það hefur vitanlega farið um koll í áætlunum sérfræðinga ríkisstj. eins og annað.

Eina afsökunin, sem hæstv. ríkisstj. hefur í þessum efnum, er auðvitað sú, að hún bendir á: Menn verða að gæta að því, að það hefur verið flutt svo mikið inn af bátum og skipum á þessu ári, það hefur verið enn þá meira en var árið á undan. — Það er rétt, að það hefur verið nokkru meira af almennum fiskibátum, en líka er rétt að hafa það í huga, að einmitt skuldirnar, sem þeir viðreisnarmenn býsnuðust sem mest yfir, um það leyti sem þeir voru að réttlæta sína viðreisnarstefnu, voru skuldir við útlönd fyrir að byggja nýja Sogsvirkjun, fyrir að byggja sementsverksmiðju og fyrir að kaupa mjög mikinn og voldugan bátaflota inn til landsins. Þá voru slíkar skuldir taldar óguðlegar, og rök voru sett upp um það, að nú yrði að taka upp nýja stefnu i efnahagsmálum landsins vegna þessarar skuldasöfnunar til þess að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun. En hvernig hefur farið?

Þessi sami hv. hagfræðingur, sem ég minntist hér á áðan og skrifaði grein í Morgunblaðið nú fyrir nokkrum dögum, gerði þar líka grein fyrir því, að greiðslujöfnuðurinn við útlönd á árinu, sem var að líða, 1960, er einhver sá óhagstæðasti, sem yfir Ísland hefur komið. Hann gerir samanburð á greiðslujöfnuði fyrir árið 1959 og árið 1960. Hann telur, að greiðsluhallinn við útlönd árið 1959, með alveg sambærilegum tölum, þ.e. sama gengi reiknað allt árið 1959 og var 1960, þá telur hann, að greiðsluhallinn 1959 hafi verið 475 millj. kr., en segir, að hann muni verða 460 millj. 1960. En svo ber bara að hafa það í huga, að opinberar skýrslur sýna líka, að árið 1959, sem var eitt hið óhagstæðasta í greiðslujöfnuði, sem við þekkjum, það ár var þessi óhagstæði greiðslujöfnuður m.a. vegna þess, að þá jukust birgðir i landinu af útflutningsvörum stórkostlega. Um áramótin lágum við með miklu meiri framleiðsluvörur í landinu en við lágum með þá i ársbyrjun. Greiðsluhallinn við útlönd stafaði sumpart af þessu. En núna 1960 er þetta alveg öfugt. Þá liggja miklu minni vörubirgðir í landinu í lok ársins en lágu þar í byrjun ársins. Greiðsluhallinn er því á árinu 1960 raunverulega miklu meiri en á versta árinu áður.

Ef- maður vill svo bæta einnig við greiðsluhallann, sem auðvitað ber að gera, þeim sérstöku skuldum, sem við höfum stofnað til erlendis vegna vöru, sem inn er flutt og búið er að nota, þ.e. vegna hinna stuttu vörukaupalána, þá sjá allir, að greiðsluhallinn á árinu 1960, viðreisnarárinu, er margfalt miklu meiri en við höfum þekkt áður.

En svona hefur þetta sem sagt gengið til í öllum greinum. Hæstv. ríkisstj. setti í upphafi ársins löggjöf, sem sagt var, að hefði það meginmarkmið, að hún ætti að koma rekstri sjávarútvegsins á hallalausan grundvöll og heilbrigðan rekstrargrundvöll. Nú í byrjun þessa árs verður að grípa til bráðabirgðalaga til þess að setja ákvæði um skuldauppgjör útgerðarinnar í landinu. Þannig hefur það farið.

Á nákvæmlega sama hátt hafa ráðstafanirnar yfirleitt í efnahagsmálunum farið.

Ég hefði viljað, vegna þess að þetta mál er nú hér til umr. á fyrsta stigi, óska eftir því, að hæstv. ríkisstj. gæfi hér nokkrar frekari upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd á þessu skuldauppgjöri útgerðarinnar. Ég vildi t.d. spyrja um það: Hefur ríkisstj. ákveðið í þessu efni einhverja tiltekna fjárhæð, sem miða skal þessi lán við? Er hér um fasttiltekna fjárhæð að ræða sem heild, 300 millj., 400 millj., eða getur hér orðið um miklum mun hærri upphæð að ræða, þar sem eigi að breyta hinum svonefndu stuttu lánum í lengri lán? Í grg. fyrir frv. kemur ekkert fram um, hvað hér er áætlað um, hvað verja skuli í þetta mikilli fjárhæð.

Þá er hér annað atriði, og það er: Hefur ríkisstj. ákveðið eitthvað um það, hvaða vextir skuli gilda á þessum lánum?

Þá er enn annað atriði, og það er: Hafa verið teknar ákvarðanir um, hvaða tegundir lána af hinum svonefndu stuttu lánum það eru, sem skulu ganga fyrir öðrum með þessa lengingu? Er það sá hluti afurðalánanna, sem er fram yfir 70%? Á hann að færast yfir fyrst og fremst? Eða hvaða önnur lán eru það sérstaklega, sem hér eiga að færast yfir og verða löng lán fremur en önnur? Eru uppi till. um það hjá hæstv. ríkisstj. að gera hér einhverjar sérstakar ráðstafanir fyrir þau útgerðarfyrirtæki, sem þegar hafa lán til langs tíma fram yfir 70% af matsverði eigna viðkomandi fyrirtækis?

Það er kunnugt, að þær reglur hafa verið í gildi um langan tíma varðandi bátaútveginn, að fiskveiðasjóður hefur veitt lán til langs tíma, sem kölluð hafa verið, til þess að kaupa nýja fiskibáta, og þau lán hafa numið 67 og upp í 75% af stofnkostnaði. Ég hygg því, að flestir fiskibátar í landinu hafi þegar fengið lán, sem nema 70%. Er það þá meiningin, að bátaflotinn í landinu sem slíkur geti ekki orðið aðnjótandi þessara lána yfirleitt, þar sem er um að ræða bátana sem slíka, en ekki annan þátt í rekstri bátaeigendanna? Ég hygg, að þeir bátar séu fáir í landinu, sem hafa ekki fengið löng lán, sem nema 70% af stofnkostnaði. Eru þá uppi till. um það hjá hæstv. ríkisstj. að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir fyrir þessa aðila?

Mér hefði þótt vænt um það að fá upplýsingar um þessi atriði.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að mér sýnist vera augljóst mál, að það, sem raunverulega er að gerast með þessari löggjöf, er það, að hæstv. ríkisstj. veit það og hefur fengið upplýsingar um það frá bönkum landsins, frá viðskiptabönkunum eflaust, að útgerðin hefur safnað miklum skuldum á s.l. ári, og nú er því ætlunin að breyta þeim töpum, sem orðið hafa á s.l. ári, rekstrartöpunum, sem stafa m.a. af efnahagsráðstöfunum ríkisstj., í löng lán. En hefur þá ekki hæstv. ríkisstj. gert sér grein fyrir því, að ef hún heldur áfram fast við stefnu sína í efnahagsmálunum, þá gerist nákvæmlega það sama aftur um næstu áramót. Enn kemur ný skuldasúpa sem afleiðingar af þeirri efnahagsmálastefnu, sem ríkisstj. rekur, og þá þarf aftur að bæta við lánalengingarsummuna, ef ekki á allt að reka í strand. Það kann að vera, að það sé óhjákvæmilegt, eins og komið er, að fara þessa leið, að taka þau töp, sem hér hafa myndazt á s.l. ári, leggja þau til hliðar, frysta þessar skuldir, en mér sýnist hitt líka jafnóhjákvæmilegt, að reyna að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig, og það sé aðalatriðið,

Ég vænti, að hæstv. ríkisstj. athugi það atriði líka.

Umr. frestað.