24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að byrja á að viðurkenna það, sem mér finnst hafa komið fram viðurkenningarvert í þeirri ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér áðan. Hann sagðist taka það alveg sérstaklega fram, að hann teldi, að greiðslubyrðin hafi ekki verið orðin neitt sérlega óhagstæð, eins og hún var á árinu 1958 eða þegar vinstri stjórnin lét af völdum, m.ö.o.: það sé vegna þeirrar aukningar, sem síðar hafi orðið á greiðslubyrðinni og aðrar ríkisstjórnir bera ábyrgð á, hvað hún er orðin hættuleg nú frá hans sjónarmiði. Ég tel þessa viðurkenningu mjög mikilsverða frá hæstv. viðskmrh., vegna þess að þegar verið var að koma viðreisninni fram hér á seinasta þingi, var lögð á það gífurleg áherzla, að hún væri sérstaklega nauðsynleg vegna þess, hve greiðslubyrðin hefði aukizt ískyggilega mikið á árunum 1955–58, og það var ein meginuppistaðan í þeim boðskap, sem Jónas Haralz flutti í ríkisútvarpið 1. des. 1959, hve gífurlega mikil hækkun hefði orðið á greiðslubyrðinni á þessum tíma og hve hún væri stórkostlega hættuleg. Nú hefur hæstv. viðskmrh. hins vegar tekið þetta aftur, sem er alveg rétt hjá honum, og sagt, að hann áliti ekki greiðslubyrðina neitt sérstaklega óhagstæða, eins og hún hafi verið á árinu 1958. Ég vil þá vænta þess, að það verði haldið áfram af hæstv. stjórnarsinnum að viðurkenna þetta, að það, sem þeir telji ískyggilegt við greiðslubyrðina, hafi fyrst og fremst myndazt, eftir að vinstri stjórnin fór frá völdum.

Ég verð hins vegar að segja það, að ég er ekki ánægður yfir því svari, sem hæstv. viðskmrh. gaf við fyrirspurn minni, og ég skil satt að segja ekkert í því, hvað veldur því svari hans, því að það má hæstv. viðskmrh. yfirleitt eiga, að hann er nokkuð fljótur til að svara þeim fyrirspurnum, sem fyrir hann eru lagðar hér á þinginu, og gerir það yfirleitt hógværlega og kurteislega, en það gerði hann ekki að þessu sinni. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvaða erlendir fjármálamenn og erlendar fjármálastofnanir það hefðu verið, sem hefðu gefið þær yfirlýsingar, um það leyti sem eða eftir að vinstri stjórnin fór frá völdum, að lánstraust Íslands væri þrotið og ekki væri unnt að láta Ísland fá lán erlendis, nema hér yrði breytt um fjármálastefnu. Ég hélt, vegna þess að viðskmrh. var svo oft búinn að vitna í þetta hér og halda þessu fram, að það væri ekki neitt erfitt fyrir hann að svara þessari spurningu alveg hreinskilnislega og hógværlega. En í staðinn fyrir að svara spurningunni á þann veg, vísaði hann til annars manns að svara henni. Sá maður hefur svarað fyrir sitt leyti og segist ekki hafa neina vitneskju um það, sem hæstv. viðskmrh. taldi að hann ætti að hafa vitneskju um. Ég vil þess vegna vænta þess, að viðskmrh. breyti hér um vinnubrögð og svari með svipuðum hætti og hann svarar venjulega, hreinskilnislega og kurteislega, og að hann segi það þess vegna hér alveg hiklaust opinberlega, hvaða erlendir fjármálamenn og erlendar fjármálastofnanir það hafi verið, sem hafi gefið þessar yfirlýsingar. Ég treysti hæstv. viðskmrh. það vel og hef það mikið álit á honum, að ég álít, að það ætti ekki að þurfa að vera nein fyrirstaða á því, að hann svaraði þessum fyrirspurnum, svo framarlega sem þessir erlendu fjármálamenn og erlendu fjármálastofnanir eru til og sagan er ekki hreinlega tilbúin.