26.03.1962
Neðri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Fram. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar brbl., er út voru gefin 3. ágúst árið sem leið. Þetta er í samhengi við næsta mál á undan á dagskrá Þessa fundur, frv. um breytingu á seðlabankalögunum. Þetta er einn þáttur í gengismálinu. Brbl. um breytingu á seðlabankalögunum, þ.e.a.s. tilfærslu í gengisskráningarvaldinu, voru gefin út 1. ágúst. Ég hef nýlega í nál. um það mál og ræðu um það við 2. umr. þess lýst því, að ég teldi, að það hefði verið heimildarlaust með öllu að gefa út þau brbl. Ég hef einnig sýnt fram á, að gengislækkunin, sem fylgdi í kjölfar þeirra laga, hafi ekki átt rétt á sér. Ég hef því lagt til, að frv. um breyt. á seðlabankalögunum verði fellt, og legg þá að sjálfsögðu einnig til, að Þetta fylgifrv. þess verði fellt.

Ég hef skilað nál. um þetta frv. á þskj. 487, sem nú var verið að útbýta. Verði fallizt á mínar tillögur um að fella þessi frumvörp, sé ég ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta mál. sem hér liggur fyrir. Það hefur þá sinn dóm með sér eins og aðrir dauðir, en eins og segir síðast í nál. mínu, mun ég hins vegar, ef ekki verður fallizt á þessar tillögur mínar og frv. verður látið ganga áfram, flytja brtt. við þetta frv. Þær mundu þá koma fram annaðhvort síðar við þessa umr. eða við 3. umr. málsins.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um málið nú að þessu sinni, en geyma rétt minn til að ræða um mitt nál. og málið yfirleitt, um leið og ég lýsi þeim brtt., sem ég flyt, ef til Þess kemur, að þær verði bornar fram.