26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Þingdeildin hefur nú tekið þann kostinn, sem verri var, að samþykkja frv. um breyt. á lögum um Seðlabankann, og þeir, sem það gerðu, ætlast sjáanlega til þess, að þetta fylgifrv. verði einnig samþykkt. Ég skýrði frá því í dag, þegar ég frestaði minni framsöguræðu, að ég mundi, ef ekki yrði á það fallizt að samþykkja mína till. um að fella frv., síðar leggja fram við það brtt., en tími hefur verið mjög lítill til að ganga frá brtt., því að hér hafa verið fundir stöðugt í dag, svo að ég verð að leggja þær fram skriflega.

Í 1. gr. frv. eru ákvæði um það, að sú hækkun, sem verður á skuld ríkissjóðs við Greiðslubandalag Evrópu og Evrópusjóðinn vegna breytingarinnar á genginu, skuli færð á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þetta ákvæði er alveg samhljóða fyrirmælum, sem sett voru í lögin um efnahagsmál í febrúar 1960, þegar stóra gengisbreytingin var gerð. Ég óskaði upplýsinga um það í fjhn., þegar þetta mál lá þar fyrir, hvað hefði verið fært á þennan reikning ríkissjóðs í Seðlabankanum, bæði samkv. efnahagsfrv. frá 1960 og samkv. þessum brbl. frá s.l. ári. Af þeirri skýrslu, sem nefndin fékk frá Seðlabankanum, kemur fram, að hallinn á þessum reikningi hefur orðið um 190 millj. kr. Er það allt vegna gengisbreytingarinnar í febrúar 1960. Aftur á móti hafa innstæður í erlendum gjaldeyri verið nokkru meiri en skuldirnar, þegar genginu var breytt í sumar; og kom þar fram gengishagnaður um 2 millj., þegar það var upp gert. í ársskýrslu Seðlabankans fyrir s.l. ár er skýrt frá Því, hvernig hafi farið með þessa skuld, þessar 190 millj., sem söfnuðust vegna gengistapsins í sambandi við breytingu á genginu. Til þess að greiða þessa skuld hafa verið teknar innstæður á tveim reikningum í Seðlabankanum, sem voru búnar að vera þar árum saman, innstæður í mótvirðissjóði og á svokölluðum skuldagreiðslureikningi, og nam þetta hvort tveggja 112.5 millj. Síðan hefur bankinn afskrifað 37.6 millj. af tapinu árið sem leið, en fært á gengistapsreikning 40 millj. Eru þær óafskrifaðar um síðustu áramót.

En samkv. efnahagsreikningi Seðlabankans fyrir næstliðið ár hefur myndazt innstæða á árinu sem leið í nýjum mótvirðissjóðsreikningi hjá bankanum, sem nemur 75,3 millj. kr. um það bil. Og um þetta segir svo í ársskýrslu bankans:

„Þar er um að ræða 90% af mótvirði 6 millj. dollara óafturkræfs framlags Bandaríkjastjórnar. í árslok höfðu verið notaðar tæplega 2 millj. dollara af þessari fjárveitingu.“

Samkv. þessu má gera ráð fyrir og er raunar alveg vist, að inn á þennan reikning kemur mikið til viðbótar, þannig að þessi fjárhæð, sem komin var um áramótin, a.m.k. þrefaldast, því að bankinn segir, að það sé tæplega þriðji partur af heildarframlaginu kominn. Það verður því töluvert á þriðja hundrað millj. íslenzkra króna, sem kemur inn á þennan reikning, sennilega áður en langt líður. Einmitt með hliðsjón af því, að þarna er að myndast stór inneign hjá Seðlabankanum í mótvirðissjóði, tel ég rétt að leggja til, að gengistap, sem fram hefur komið vegna gengisbreytinganna síðustu tvö árin hjá þremur lánasjóðum, Ræktunarsjóði Íslands, Byggingarsjóði sveitabæja og fiskveiðasjóði, verði fært á nýjan reikning í Seðlabankanum á nafni ríkissjóðs, og mætti þá síðar nota hið nýja mótvirðisfé, ef ástæða þætti til, til greiðslu á skuld, sem myndast á þeim reikningi. Það er talið, að gengishallinn á lánum ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs í Búnaðarbankanum muni nema alls um 123 millj. Er þá talið gengistapið, sem kom fram við gengisfellinguna 1960 og einnig á s.l. ári. Og ég hef fengið þær upplýsingar viðkomandi Fiskveiðasjóði Íslands, að gengistap í sambandi við gengisfellingarnar á erlendum skuldum sjóðsins muni vera 37–38 millj. kr.

Þessir sjóðir eru allt stofnanir, sem ríkið ber ábyrgð á og eru ríkisstofnanir. Það hafa verið tekin lán handa þeim í erlendum gjaldeyri, og þess vegna koma fram þessi gengistöp. Ég tel mjög eðlilegt og raunar alveg sjálfsagt, að það verði farið á sama hátt með gengistöp þessara sjóða og með gengistöp ríkissjóðs og Seðlabankans vegna annarra erlendra lána, sem tekin höfðu verið til að mæta lánsfjárþörf þjóðarinnar. Mér sýnist það svo eðlileg og sanngjörn krafa, að um þetta ætti ekki að geta verið ágreiningur. Þessir sjóðir allir þurfa að losna við þessi töp. Þeir eru allir þannig settir, að þá vantar meira fé til útlána í framtíðinni, og þeir geta ekki borið þennan halla, enda engin sanngirni í því. Og fráleitast af öllu tel ég það, sem till. hefur komið fram um nýlega, að leggja sérstakan skatt á bændastéttina, m.a. til þess að greiða gengistöp hjá sjóðum Búnaðarbankans. Það þótti ekki koma til mála, þegar þessi lán voru tekin handa sjóðunum, að lána féð út aftur til landbúnaðarins með þeim skilyrðum, að lántakendur greiddu gengistöp, ef þau kynnu að koma fram, og það hefur enginn talið, að slíkt hefði verið eðlilegt, fyrr en þá nú, þegar þessi till. kemur fram um að láta bændur borga þetta með þeim hætti að leggja á þá sérstakan launaskatt

Ég flyt því brtt. við 1. gr. frv. um þetta mál. Till. er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að við 1. gr. bætist ný mgr., þannig:

„Hækkun á erlendum skuldum Ræktunarsjóðs Íslands, Byggingarsjóðs sveitabæja og Fiskveiðasjóðs Íslands vegna breytinga, sem orðið hafa á gengi íslenzkrar krónu eftir 1. jan. 1960, skal færð á sérstakan vaxtalausan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Fjmrn. og Seðlabankanum er heimilt að semja um það sín á milli, að fé úr mótvirðissjóði í vörzlum bankans verði varið til greiðslu á þeirri skuld, er myndast samkv. ákvæði 1. málsl. þessarar

Þarna er tekið upp heimildarákvæði efnislega eins og ákvæði til bráðabirgða í lögum um Seðlabanka Íslands frá 1961, og hefur það þegar verið notað og samið á grundvelli þess lagaákvæðis um greiðslu á því gengistapi, sem fram kom árið 1960, eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir.

Næsta brtt. mín er við 6. gr. frv. og er um það, að greinin falli niður. Samkv: 6. gr. á að taka eignarnámi hluta af andvirði útfluttra afurða, sem framleiddar eru á tímabilinu frá 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961, ef greiðsla fyrir þessar vörur hefur ekki verið komin fyrir 1. ágúst 1961. Samkv. greininni á þetta að gerast með þeim hætti, að þegar útflytjendur skila til banka gjaldeyri fyrir þessar afurðir, þá fá þeir hann greiddan á því gengi, sem gilti fyrir 4. ágúst 1961. Ég tel mjög óréttmætt að taka þannig af útflytjendum hluta af verði útflutningsvörunnar, og ég tel mjög varhugavert og raunar mjög hæpið, að það sé nokkur heimild til þess samkv. stjórnarskránni að framkvæma slíkt eignarnám, án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Engar tillögur hefur hæstv. stjórn flutt um það að selja þeim mönnum erlendan gjaldeyri á gamla genginu, sem höfðu flutt til landsins vörur, fengið andvirðið lánað, en menn hafa verið mjög hvattir til þess síðustu tvö árin að nota möguleika til að fá vörulán erlendis. Þeir, sem hafa fengið lán erlendis til vörukaupa og skulduðu þess vegna, þegar genginu var breytt í sumar, verða að kaupa gjaldeyri með nýja genginu til greiðslu á þessum skuldum. En ef þessir sömu menn eða sömu fyrirtæki, sem þannig verða fyrir gengistapi, vegna þess að þau skulda erlendis, eiga útflutningsvörur ógreiddar, þá fá þau greiðslu fyrir þær samkv. gamla genginu, þ.e.a.s. það er heimtaður af þeim gjaldeyrir fyrir þessar útflutningsvörur og reiknaður á lægra gengi en nú gildir. Þetta verður þannig í mörgum tilfellum, að sömu mennirnir eða sömu fyrirtækin, sem skulda erlendis og þurfa að borga 43 kr. fyrir dollarinn, þegar þau borga þær skuldir, fá á sama tíma aðeins 38 kr. fyrir hvern þann dollar, sem þau skila fyrir útflutningsvörur. Mér sýnist vera mjög fráleitt að fara þannig að, menn séu þarna miklum rangindum beittir. Þetta bitnar fyrst og fremst á útgerðarmönnum, því að útflutningsvörurnar eru að mestu leyti frá sjávarútveginum. Margir þeirra skulda erlendis fyrir báta eða skip, sem þeir hafa keypt að undanförnu, og þurfa að borga til útlanda bæði vexti og afborganir af þeim skuldum. Þá kemur þetta vitanlega mjög illa við þá og þeir eru Þarna rangindum beittir. Það eru mörg dæmi, sem hægt er að nefna um þetta, hvað þetta er óréttmætt. Þeir, sem framleiddu útflutningsvörur t.d. í júlímánuði í sumar, verða að skila gjaldeyri fyrir þær á gamla genginu, en þeir, sem framleiddu útflutningsvörur í ágústmánuði, eiginlega með alveg nákvæmlega sama kostnaði og var í júlí, því að breyting á kaupgjaldinu varð í júnímánuði, fá aftur hærra verð fyrir sinn gjaldeyri. Náttúrlega er þetta í fullkomnu ósamræmi við það, sem ríkisstj. sagðist ætla að stefna að, þegar hún kom til valda. Nú áttu atvinnuvegirnir að standa á eigin fótum. Það átti að hverfa frá öllum uppbótum. Og það var sagt einnig, að menn yrðu að búa við hið skráða gengi, eins og það væri á hverjum tíma. Þetta framferði er vitanlega í æpandi ósamræmi við þær yfirlýsingar.

Till. mín er því sú, að þessi grein falli niður. Þá flyt ég loks brtt. við 7. gr. Þeirri grein hefur nú verið breytt nokkuð eftir tillögum frá meiri hl, hv. fjhn. Greinin er um það að hækka ákaflega útflutningsgjald af sjávarafurðum, og þessari hækkun er ætlunin að verja þannig, að um það bil helmingur af henni fari til þess að greiða vátryggingargjöld fyrir fiskiskip, en hinn helmingurinn eða því sem næst á að fara í lánsstofnun fyrir sjávarútveginn. Upphaflega var gert ráð fyrir því, að þessi hluti færi til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, en samkv. frv., eins og það er nú eftir 2. umr., á þessi hluti af hækkuninni að fara til stofnlánasjóða sjávarútvegsins eftir nánari ákvörðun ríkisstj. Ég tel alrangt að hækka gjöld á sjávarútveginum í því skyni að afla fjár til lánastofnana. Sjávarútvegurinn á eins og aðrir atvinnuvegir — og ekki síður en aðrir — að fá nauðsynlegt rekstrarfé úr bönkum og lánasjóðum þjóðfélagsins af því sparifé og öðru lausu fé, sem til er til útlána, en það er engin sanngirni í því að leggja á hann sérstaka skatta til þess að afla fjár til lánveitinga. Að vísu hefur það verið svo um alllangan tíma, að nokkurt gjald hefur verið lagt á útfluttar sjávarafurðir og það runnið til fiskveiðasjóðs. En þó að svo hafi verið, tel ég rangt að hækka álögur á sjávarútveginn í þessu skyni. Till. mín er því um það, að síðasti málsl. 4. mgr. 7; gr. verði umorðaður og orðist svo:

„Þegar vátryggingariðgjöldin fyrir þessi ár eru greidd, skal útflutningsgjaldið lækkað um 30% og framlögin til trygginganna minnka sem Því svarar.“

En ákvæðið er þannig nú í frv., að fyrst um sinn eiga 62% af útflutningsgjaldinu að fara til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa árin 1961 og 1962 samkv. reglu, sem sjútvmrn: setur, en síðan segir: „Þegar vátryggingariðgjöldin fyrir þessi ár eru greidd, skal 32% útflutningsgjaldsins renna til trygginga fiskiskipa samkv. ákvörðun sjútvmrn, og 30% til stofnlánasjóða sjávarútvegsins eftir nánari ákvörðun ríkisstj. Samkv. þessu eiga framlögin til trygginganna að lækka úr 62% niður í 32, þegar lokið er greiðslum á vátryggingariðgjöldum fyrir árin 1961 og 1962, en 32% að fara til stofnlánasjóða sjávarútvegsins: Ég legg hina vegar til, að framlögin til trygginganna verði 32%, eins og gert er ráð fyrir í frv., eftir að lokið er greiðslum tryggingariðgjalda fyrir þessi tvö ár, en þá verði útflutningsgjaldið lækkað um 30% í stað þess að láta það haldast óbreytt og greiða þessi 30% til stofnlánasjóðanna. Um þetta er mín brtt.

Það er ýmislegt í þessu frv., sem ástæða hefði verið til að ræða um meira en gert hefur verið, en ég mun þó sleppa því að mestu. Þó eru hér ákvæði í 6. og 7. gr., sem ég vildi leyfa mér að óska upplýsinga um.

Í 1. mgr. 6. gr. segir: ,,Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar afurðir framleiddar á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961, skal hann greiddur útflytjanda á því gengi, er gilti fyrir 4. ágúst 1961.“ Og síðan segir: „Ríkisstj. kveður nánar á um, hvaða afurðir falli undir ákvæði þessarar málsgr., og eru ákvarðanir hennar þar að lútandi fullnaðarúrskurðir.“ Mér sýnist í upphafi greinarinnar, að til þess sé ætlazt, að gjaldeyrir fyrir allar afurðir verði greiddur með þessum hætti. Ég vildi gjarnan fá á þessu nánari skýringar frá hæstv. stjórn, — það er hæstv. forsrh., sem stóð að útgáfu þessara brbl., — hvort gert sé ráð fyrir því, að einhverjar af útfluttum afurðum verði þarna undanþegnar og þá hverjar.

Þá er það 7. gr., en hún er um útflutningsgjaldið af sjávarafurðunum. í 1. og 2. mgr. eru þau ákvæði, að útflutningsgjaldið skuli frá gildistöku laganna nema 6% af fob-verði afurða reiknað á nýju gengi, og síðan segir í 2. mgr. um útflutningsgjald af niðursoðnum sjávarvörum og afurðum frá selveiðum, að það skuli vera 2%. En síðan segir í 3. mgr.: „Ríkisstj. kveður nánar á um, hvaða afurðir falla undir ákvæði 1. og 2. mgr.“ í 1. mgr. segir, að útflutningsgjald af sjávarafurðum, þ. á m. hvalafurðum, skuli vera eins og þar greinir, en í 3. mgr., að ríkisstj. kveði nánar á um, hvaða afurðir falla undir ákvæðin. Getur verið nokkur vafi á því, hvað séu sjávarafurðir? Hvernig ber að skilja þetta í 3. mgr., að ríkisstj. eigi að kveða nánar á um þetta? Ég sé ekki betur en það sé alveg undantekningarlaust, ákvæðið í 1. mgr. um útflutningsgjald af sjávarafurðum, að frátöldum þeim, sem taldar eru í 2. mgr., sem koma Þarna í lægri gjaldstiga. Ég fæ þess vegna ekki skilið, hvernig stendur á þessu ákvæði 3. mgr. um ákvörðunarvald ríkisstj. í þessu efni, og vildi fá á því skýringar.

Ég mun, hæstv. forseti, geta afhent mínar skriflegu brtt. innan mjög lítillar stundar.