22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

177. mál, málflytjendur

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv. til I. um breyt. á l. um málflytjendur er stjfrv., og í því felast fyrst og fremst þrjár breytingar á þeim lögum.

Í fyrsta lagi er lagt til, að ákvæðum gildandi laga um óflekkað mannorð í lögum um málflytjendur verði breytt til samræmis við lagabreytingar um óflekkað mannorð í öðrum samböndum, sem gerðar hafa verið, bæði á þessu þingi og hinu síðasta, og hv. þdm. munu kannast við.

Í öðru lagi er lagt til, að breytt verði lítið eitt prófi hæstaréttarlögmanna. Nú er það ákvæði í lögum, að próf hæstaréttarlögmanna er í því fólgið, að þeir flytja þrjú mál fyrir hæstarétti og sé eitt þeirra opinbert mál. í frv. er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að þeir, sem taka próf hæstaréttarlögmanna, þurfi ekki að flytja opinbert mál, heldur skipti ekki máli, þótt öll prófmálin séu einkamál. Ástæðan til þessarar breytingar er sú, að þegar breytt var lögum um ákæruvaldið og embætti saksóknara ríkisins var stofnað, þá var þar með ákveðið, að saksóknari ríkisins skyldi vera sækjandi í öllum opinberum hæstaréttarmálum. Af því leiðir það, að miklu meiri erfiðleikum verður bundið fyrir lögmenn að fá opinber mál sem prófmál, og það þykir ekki skipta það miklu máli, að ástæða sé til að halda því við, og er því lagt til, að ákvæði um, að eitt mál skuli vera opinbert mál, verði fellt niður.

Þriðja breytingin, sem felst í þessu frv., fjallar um búsetu hæstaréttarlögmanna. Nú eru lagaákvæði þannig, að hæstaréttarlögmenn skulu hafa opna skrifstofu í Reykjavík. Þetta ákvæði hefur á sínum tíma verið eðlilegt og sjálfsagt, þegar samgöngur voru ekki jafngóðar og nú eru, en þykir ekki lengur eiga rétt á sér. Hins vegar hefur það hingað til ekki komið mikið að sök, vegna þess að hæstaréttarlögmenn hafa, að ég ætla allir, allt fram að síðustu tímum verið búsettir í Reykjavík eða í grennd við Reykjavík. Nú er hins vegar a.m.k. einn hæstaréttarlögmaður nýbúinn að taka próf, sem búsettur er úti á landi, og fær hann ekki réttindi samkv. gildandi lögum nema hafa opna skrifstofu í Reykjavík, en ekki þykir ástæða til að viðhalda því ákvæði lengur sökum þess, hve samgöngur eru orðnar greiðari og auðveldari en áður var.

Allshn. hefur fjallað um þetta frv., og hún hefur rætt um það við tvo stjórnendur úr Lögmannafélaginu. Það kom í ljós, að efni frv. var í samræmi við óskir, sem Lögmannafélagið hafði borið fram við hæstv. dómsmrh. um breytingar á lögum um málflytjendur, og höfðu því þessir stjórnarmenn ekkert við þetta frv. að athuga og voru því fullkomlega samþykkir. Allshn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, en einn nm., hv. 9. þm. Reykv., var fjarstaddur, þegar nefndin fjallaði um frv. og afgreiddi það.