02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

124. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. var lagt fram af þáv. heilbrmrh., Jóhanni Hafstein, fyrir jólin, þó að það komi nú í minn hlut að tala fyrir því.

Eins og kunnugt er, hafa alllengi verið vandræði út af því, hversu erfitt hefur verið að fá lækna til þess að gegna héraðslæknisstörfum sums staðar úti á landi, og hafa þeir erfiðleikar farið vaxandi, þrátt fyrir það þótt heilbrigðisstjórnin og einkanlega landlæknir hafi ætíð reynt að gera það, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að fá lækna til að gegna þessum mikilvægu störfum.

Á síðasta þingi var svo samþ. þáltill. um ráðstafanir vegna læknaskorts, og varð Það til þess, að landlækni var falið að taka Þetta mál enn upp til nýrrar íhugunar og athugunar á því, hvað fært væri að gera, eða e.t.v. réttar sagt að halda áfram þeim stöðugu athugunum og íhugunum, sem hann í þessu efni hefur leitazt við að hafa uppi.

Það frv., sem hér er lagt fram, er í samræmi við skýrslu, sem landlæknir sendi ráðuneytinu og er dagsett hinn 30. sept. s.l., þar sem hann gerir grein fyrir héraðslæknaskortinum og þeim helztu úrræðum, sem hann telur að séu til lausnar vandanum, og þar sem hann raunar einnig víkur að þeim úrræðum, sem á var drepið í þeirri þáltill., sem ég nefndi áðan.

Í skýrslunni kemur fram, að þá hafi enginn umsækjandi fengizt um 14 læknishéruð, og segir, að 11 þeirra sé gegnt til bráðabirgða, aðallega af læknakandídötum, en 3 af nágrannahéraðslæknum.

Landlæknir tjáði mér í morgun, að Það mundi vera svipað ástand nú og þegar skýrslan var gefin. Hann hafði ekki alveg nákvæmar tölur, en taldi, að þetta væri í mjög svipuðu horfi og verið hefði í haust, og er það mun lakara en var á s.l. þingi, þegar þáltill., sem um var getið, var til meðferðar og hlaut samþykki.

Í þessari skýrslu landlæknis, sem er prentuð sem fskj. með því frv., sem hér liggur fyrir, gerir landlæknir grein fyrir þeim úrræðum, sem hann einkanlega telur koma til greina og vera líkleg til árangurs.

Það eru þá í fyrsta lagi tillögur um breytingar á launakjörum héraðslækna, og fjallar þetta frv. um annan Þátt tillagna landlæknis í því efni.

Eins og nú til háttar, má segja, að laun héraðslækna séu hugsuð þannig, að í þeim felist í senn greiðsla fyrir hin föstu embættisstörf og a.m.k. að nokkru leyti greiðsla fyrir þá læknisþjónustu, sem héraðslæknir innir af hendi fyrir þá sjúklinga, sem til hans leita. í frv. er gerð sú meginbreyting, að lagt er til, að embættislaun héraðslækna skuli greidd fyrir embættisstörfin, og er í 1. tölul. 1. gr. nánar tilgreint, hver þessi embættisstörf skuli vera, og má segja, að Það sé fyrst og fremst sú skylda, að héraðslæknir sé ætíð reiðubúinn til þess að gegna kvaðningu, — eins og segir í frumvarpsgreininni: „samfelld gegningarskylda læknis í héraði“ — og svo önnur þau störf, sem upp eru talin, þ.e. öll tilskilin skýrslugerð, sóttvarnir, ónæmisaðgerðir, berklapróf, almennt heilbrigðiseftirlit, svo sem með vatnsbólum, frárennsli, á húsakynnum, Þrifnaði, matvælum, aðbúnaði í verksmiðjum og öðrum vinnustöðum og ýmislegt fleira, er fellur undir starfssvið heilbrigðisnefnda eða tekið er fram í erindisbréfi héraðslækna. Það fer auðvitað mjög eftir atvikum, hversu umfangsmikil þessi embættisstörf eru. Væntanlega eru þau tiltölulega lítil í minnstu héruðunum, en þangað er einmitt erfiðast að fá læknana.

Nú má segja, að það sé kannske ofrausn að greiða lækni full embættislaun fyrir það að vera einungis reiðubúinn til kvaðningar. En pá er á það að líta, að þróunin hefur hin síðari ár, t.d. á spítölum bæði hér í bæ og annars staðar, mjög gengið í þá átt, að greiða hefur orðið læknum sérstakt kaup fyrir að vera á vöktum, eins og kallað er, að vera reiðubúnir til að gegna kvaðningu án tillits til þess, hvort til þeirra er kallað eða ekki, enda verður að játa, að mennirnir eru auðvitað bundnir, þeir geta ekki ráðstafað sínum tíma, er ekki mögulegt að fara frá, geta ekki tekið að sér önnur störf, sem verði bindandi, úr því að þessi kvöð hvílir á þeim.

Fyrir önnur störf, sem læknar inna af hendi, — og þá er fyrst og fremst miðað við læknisstörf fyrir einstaklinga, fyrir þá sjúklinga, sem til þeirra leita, — er ráðgert, að þeir fái sérstaka greiðslu. Þeir hafa að vísu átt rétt á slíkri greiðslu hingað til, en hún hefur ekki verið fullkomin eða nokkuð til jafns við það, sem þeir læknar hafa hlotið, sem gegna ekki embættisstörfum. Þeir hafa í þeim efnum orðið að fara eftir gjaldskrá, sem sett var þó nokkru fyrir seinni heimsstyrjöldina og að vísu hefur verið hækkuð síðan, eitthvað sexfölduð, en var lág, miðað við það, sem aðrir læknar fengu, þegar hún var sett, og hefur auðvitað ekki, eins og sú tala sýnir, sem ég nefndi, hækkað neitt sambærilega við það, sem önnur laun hafa hækkað í landinu á sama tíma.

Nú er ráðgert, að þessi þóknun verði ákveðin með samkomulagi milli samtaka lækna annars vegar og sjúkrasamlaga eða Tryggingastofnunar hins vegar, nema Þeir gegni störfum fyrir þá, sem ekki eru í tryggingu, eða fyrir utanhéraðsmenn, þá er ætlazt til þess, að þeir geti tekið greiðslu samkvæmt taxta, er stéttarfélög lækna hafi sett og birt almenningi. Ef slíkar reglur hafa ekki verið settar, má ekki krefjast hærri greiðslu en þeirrar, sem almannatryggingar mundu þurfa að greiða, ef Þær ættu hlut að máli.

Ef samkomulag næst ekki milli þeirra aðila, sem ég hef getið um, þá er ráðgert, að landlæknir setji héraðslæknum gjaldskrá fyrir læknisverk, er síðan hljóti staðfestingu ráðh.

Í stuttu máli er sú meginbreyting í Þessu frv., að læknar, sem gegna héraðslæknisstörfum, eigi fyrir sín einstöku læknisverk að fá samsvarandi greiðslur og embættislausir læknar. Ótvírætt er, að Þetta mundi bæta verulega kjör héraðslækna og þar með gera fýsilegra fyrir menn að sækja eftir að komast í þá stöðu.

Landlæknir telur hins vegar, að þetta eitt muni ekki nægja til þess að fá menn í Þau héruð, sem minnst eru eftirsótt, og segir Þess vegna í skýrslu sinni, að hann telji óhjákvæmilegt að taka upp staðaruppbót í nokkrum héruðum. í minnstu héruðunum á hún að verða slík, að nemi 50% fastra launa, en í öðrum á staðaruppbótin að nema 331/3% fastra launa.

Í skýrslunni gerir landlæknir grein fyrir, hver þessi læknishéruð séu, sem hann telur þörf á að taka staðaruppbót upp í. En ríkisstj. hefur ekki enn tekið ákvörðun um, hvort hún fellst á Þessa till. landlæknis. Það mál er enn í athugun. Okkur hefur sýnzt, að læknar mundu fá svo verulega launahækkun eða tekjuhækkun með frv., eins og Það liggur fyrir, að betur þurfi að skoða, hvort menn telji fært og hvort þörf sé á að lögfesta staðaruppbótina til viðbótar. Verður þó að játa, að Þetta frv. kemur auðvitað Þeim læknum að minnstu haldi, sem í fámennustu héruðunum eru, og er Það meginástæðan til þess, að ekki er hægt fyrir fram að fordæma staðaruppbótina, heldur er það mál, sem Þarf að skoða betur. Það verða töluverð útgjöld fyrir ríkissjóð samfara slíkri staðaruppbót. Er það þó sök sér, ef menn gætu Þá verið vissir um, að með því yrði ekki talið skapað fordæmi, hvort aðrir héraðslæknar og aðrir embættismenn teldu með slíkri staðaruppbót ekki skapað fordæmi, sem yrði til þess að ýta undir almenna kröfugerð um launahækkun. Það er í raun og veru það meginatriði, sem íhuga þarf, áður en tekin er afstaða til Þess, hvort menn geta fallizt á staðaruppbótina, eins og landlæknir leggur til, eða ekki. A.m.k. er ljóst, að með Þessu frv. eru kjörin verulega bætt frá því, sem verið hefur, og því ekki óeðlilegt, að reynt sé á, hvort það hrökkvi til.

Þá leggur landlæknir enn fremur til, að hraðað verði byggingu læknisbústaða, og gerir grein fyrir, hvar hann telji mesta Þörf á nýjum byggingum. í þeim tölum, sem hann Þar tilfærir, miðar hann við fjárlögin 1961. Í fjárl. 1962 hefur þessi tala þegar verið hækkuð, að vísu ekki sundurgreint þar sérstaklega, hvað eigi að fara til læknisbústaða, eins og landlæknir leggur til. En þó er ljóst, að hin rýmkaða fjárhæð gerir einnig mögulegt að verja nokkru meira fé til læknisbústaða en verið hefur, svo að segja má, að varðandi þann lið sé þegar nokkuð komið til móts við tillögur landlæknis.

Enn leggur landlæknir til, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir um útvegun lækningatækja, lyfjaforða og einföldustu húsgagna í fámennustu héruðin. Landlæknir hugsar sér, að það séu fyrst og fremst héruðin sjálf, sem taki á sig þessa fyrirgreiðslu, og atbeini ríkisins verði ekki annar en sá annaðhvort að gefa eftir toll af nauðsynlegum lækningatækjum eða greiða styrk, sem samsvari Þeim tollum, er á Þessi lækningatæki er lagður. Ég hef ekki aflað mér upplýsinga um, hversu háar fjárhæðir hér sé um að ræða, en þetta er vissulega til athugunar. En landlæknir skýrði mér frá því í morgun, að nokkur héruð, að vísu ekki mörg, væru nú þegar byrjuð á að framkvæma þessa till. hans, að því leyti sem til þeirra tekur, og er það, svo langt sem það nær, í rétta átt.

Þá leggur landlæknir loks til, að lögunum um læknaskipun verði breytt, og þó ekki meir en svo, að Flateyjarhérað á Breiðafirði verði lagt niður og skipt á milli nágrannalæknisumdæmanna og nokkur breyting verði gerð á Austurlandi, þó ekki lagt niður hérað, að Því er mér skilst, heldur um annan aðsetursstað. En á þessu stigi hefur ekki þótt rétt að flytja till. til breyt. á læknishéraðaskipuninni, vegna þess að það mál er mjög háð því, hvað verður um staðaruppbótina. Ef staðaruppbót verður greidd, er ekkert því til fyrirstöðu að leggja niður a.m.k. Flateyjarhérað. En ef hún verður ekki greidd, má segja, að eins og nú háttar til séu læknislaunin fyrir Flateyjarhérað eins konar staðaruppbót a.m.k. til héraðslæknisins á Reykhólum, svo að Það er greinilegt, að Þetta tvennt er í nánu samhengi hvort við annað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meir um frv. að svo stöddu. Hér er um mikið vandamál að ræða. Það er vandamál, sem ekki er bundið við Ísland eitt. Ég sá Það á dögunum, þegar ég var staddur í Danmörku, að þar var verið að skrifa greinar um það, að danskir læknar þyrptust, svo að til vandræða horfði, yfir til Svíþjóðar, svipað og íslenzkir læknar hafa raunar einnig gert. í ensku blaði, sem ég fékk um hádegisbilið, var greinargerð um það, að læknar frá Írlandi og Stóra-Bretlandi sjálfu færu til Norður-Ameríku meira að segja í svo stórum stíl, að því er þar var fullyrt, að einn þriðji hluti þeirra, sem lykju læknaprófi í Stóra-Bretlandi, hyrfi úr landi til Norður-Ameríku og kæmi ekki aftur. Úr þessu er nokkuð bætt þar, vegna þess að menn koma víðs vegar að til Englands til náms og dveljast þar nokkurt árabil, og þess vegna eru vandræðin ekki eins mögnuð og hér. En ég vik að þessu vegna þess, að hér er um eins konar alþjóðleg vandamál að ræða og í sjálfu sér skiljanlegt, að okkur með okkar launakerfi, til a.m.k. hinna svokölluðu hærri launaflokka miklu lægra en þekkist í öllum öðrum löndum, — það er eðlilegt, að okkur reynist erfitt að halda í þessa menn, sem miklu hafa kostað til síns náms, þegar stórþjóð eins og Bretar og jafnefnuð þjóð og Danir eiga fullt í fangi með að halda sínum mönnum.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.