02.02.1962
Neðri deild: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

124. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem hv. síðasti ræðumaður tók fram og liggur í augum uppi, hefur það aldrei verið ætlun stjórnarinnar eða ímyndun, að þetta vandamál væri leyst með Þessu frv. einu, og einmitt vegna þess, að málið er margþættara, þá er skýrsla landlæknis prentuð hér sem heild, en ekki einungis sá hluti hennar, sem er grg. fyrir efni þessa frv. En ég vil þó vekja athygli á, að með afgreiðslu fjárlaga fyrir 1962 er, eins og fram hefur verið tekið, gengið til móts við óskir eða ráðleggingar landlæknis varðandi aukinn hraða á byggingu læknisbústaða, enda er það mál, sem var í höndum þingsins og ekki stjórnarinnar einnar. Eins er nú þegar byrjuð framkvæmd á þeirri tillögu um útvegun lækningatækja, lyfjaforða og einföldustu húsgagna í fámennustu héruðunum. Frá þessu skýrði ég áðan, svo að því fer fjarri, að ekkert hafi verið gert í þeim öðrum tillögum landlæknis heldur en þeirri, sem þetta frv. fjallar um. Hitt er svo rétt, að eftir er að gera sér grein fyrir, hvort menn telja sér fært að taka upp staðaruppbót og hvort menn telja ástæðu til og fært að breyta héraðslæknaskipuninni. En mér skildist á hv. 4. þm. Austf., að hann teldi ástæðu til þess og þá væntanlega að stækka læknishéruðin frá því, sem verið hefur. Ef þetta er almennur þingvilji, er auðvitað mun minni ástæða til þess að taka upp staðaruppbætur heldur en ella. Þá virðist ekki muni Þurfa á þeim að halda. Þess vegna er nauðsynlegt, að nefndin og ríkisstj. kynni sér, hvort það er í raun og veru möguleiki til að fá það samþykkt að stækka læknishéruð og leggja þau minnstu þeirra niður. Ég er sammála landlækni um það, að þó að ýmis rök hnígi í þá átt, þá verður vafalaust erfitt að fá samkomulag og jafnvel meiri hluta á Alþingi fyrir ákvörðunum í þá átt. En það er nauðsynlegt, að þetta sé athugað nú, meðan málið er til meðferðar í þinginu, vegna þess, eins og ég segi, að ákvörðunin um staðaruppbót er nátengd þessu atriði.

Hitt er mjög eðlilegt, að menn bendi á, að þetta frv. leysi ekki allan vandann, því að það er alveg rétt og óumdeilanlegt, að Það gerir það ekki. Það þarf aðrar og frekari ráðstafanir til, og vafasamt meira að segja, að nokkrar ráðstafanir verði fundnar, sem leysi þennan vanda til hlítar, vegna þess að hér er ýmislegt fleira óviðráðanlegt, sem kemur til greina, eins og ég vék lítillega að í orðum mínum áðan.

Bending hv. 3. þm. Norðurl. e. um, að héraðslæknar þyrftu að fá frí svipað og aðrir menn nú á dögum flestir fá, er vissulega mjög athyglisverð. En rétt er að skýra frá því, að það hefur mjög farið vaxandi, að héraðslæknar hafi fengið slík leyfi frá störfum, og heilbrmrn. hefur gert það, sem í þess valdi hefur staðið, til Þess að þeir gætu fengið a.m.k. mánaðarleyfi, og reynt að útvega menn út í héruðin á þann veg, að ríkissjóður greiddi þeirra laun þann tíma, sem læknarnir hafa verið í leyfi. Þetta hefur að nokkru leyti til þessa strandað á því, að menn hafa ekki fengizt til þess að gegna Þessu, en eftir því er stöðugt leitað að verða læknunum að liði í þessum efnum, því að það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. tók fram, að það er mjög eðlilegt, að þessir menn eins og aðrir þurfi öðru hvoru að létta af sér þeim skyldum, sem á þeim hvíla.

Ég vona, að hv. n. taki allar þær leiðbeiningar til athugunar, sem hér koma fram, og einmitt athugi málið á sem breiðustum grundvelli, hafi samráð við ríkisstj. um það, hvort hún telur ráðlegt eða ráðlegra að greiða staðaruppbót eða breyta læknaskipuninni. Er nauðsynlegt, að það atriði sé sérstaklega íhugað, en fyrr en menn kanna nokkuð betur hugi þm., er ástæðulaust að flytja frv. í aðra hvora áttina, en það mál er til athugunar nú þegar hjá stjórninni.