10.10.1961
Sameinað þing: 0. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í B-deild Alþingistíðinda. (11)

Drengskaparheit unnið

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði aths. hér á fundinum í gær um stjórn fundarins. Og ég vil leyfa mér að ítreka þá aths. Ég tel, að þar sem Jón Pálmason hefur tekið sæti á Alþ. sem 2. þm. Norðurl. v. og hann er elztur þeirra manna, sem nú sitja á þingi, þá eigi hann að stýra fundi og láta fram fara kosningu forseta. Ég get að sjálfsögðu fallizt á það með hæstv. forseta, að það hafi verið eðlilegt, að herra forseti Íslands tilnefndi Gísla Jónsson, hv. 1. þm. Vestf., til þess að stýra fundi, þar sem þá lá ekki fyrir bréf Gunnars Gíslasonar, hv. 2. þm. Norðurl. v., um, að hann gæti ekki mætt á þinginu, og ósk hans um það, að varamaður tæki sæti. En eftir að það bréf kom fram og Jón Pálmason tók hér sæti sem 2. þm. Norðurl. v., tel ég alveg tvímælalaust, að hann hafi þegar átt að taka við starfi aldursforseta og stýra fundi.

Það er algild regla, að þegar varaforseti tekur við stjórn fundar í þingi um hríð, vegna þess að aðalforseti er ekki viðstaddur til að gegna því starfi, þá víkur varaforseti úr stóli, þegar aðalforseti mætir síðar á fundi og er tilbúinn að taka við fundarstjórn. Á sama hátt á fyrrv. aldursforseti að víkja úr forsetastóli á þingsetningarfundi, þegar annar maður honum eldri tekur sæti á þinginu, og þá á hann að taka við stjórn fundarins. Ég sé ekki, að um þetta geti orðið deilt. Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta, að hann víki úr fundarstjórasæti og feli aldursforseta þingsins, Jóni Pálmasyni, að taka við stjórn fundarins og stýra kosningu aðalforseta. Fari svo mót von minni, að hv. 1. þm. Vestf., sem nú er í forsetastóli, vilji ekki verða við þessum tilmælum, þá vil ég bera fram til vara þau tilmæli til hans, að hann láti Alþingi skera úr um þetta mál, til þess að þm. gefist kostur á að koma í veg fyrir, að ákvæði þingskapa séu brotin. Reglur þeirra ber að virða og eftir þeim að fara.