30.10.1961
Neðri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af þeirri ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) flutti hér áðan í sambandi við þetta frv. Aths. sú, sem hann hafði að gera, var raunar aðeins ein, þ.e.a.s. sú, að fjárframlag úr ríkissjóði væri hér áætlað allt of lítið og raunar væri hér um afturför að ræða frá því, sem áður hefði verið. Ég vil nú segja það, að við samningu frumvarps eins og þessa getur það jafnan orkað tvímælis, hverju gera skuli ráð fyrir í framlögum, hvort sem um er að ræða í þeim tilgangi, sem hér er ætlað, eða til annars, sem ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um, hvað þörfin sé mikil. Það er oft og tíðum erfitt að gera sér grein fyrir Því, hvað mikið Þá eigi að áætla. Ég held nú, að ef ætti að gera eitthvað verulega stórt fyrir þetta fé, þá væri alveg sama, hvort það væru nefndar 10 eða 20 millj., það er augsýnilega algert aukaatriði, því að ef með þessum sjóði ætti að fullnægja þörfunum, þá væri hvort tveggja langt of lítið. Þessi sjóður, skilst mér að sé til uppfyllingar og aðstoðar við aðra möguleika, sem hljóta að vera til og verða notaðir til uppbyggingar úti á landsbyggðinni, bæði til þess að hagnýta framleiðslumöguleika, sem þar eru fyrir hendi og ekki hafa verið nýttir, og til aðstoðar í atvinnuaukningarskyni. Og þó vildi ég segja, að þar sem féð er kannske ekki fullnægjandi, eins og ég skal vel ganga inn á að sé ekki í þessu frv., ef stórt á að gera, þá væri náttúrlega helzta hlutverk Þessa frv. eða þeirra laga. sem sett yrðu í framhaldi af þessu frv., að hjálpa til á þeim stöðum, þar sem um atvinnuleysi væri að ræða, og gæti það náttúrlega orðið nokkur styrkur.

Hins vegar verð ég að segja það, að þegar hv. þm. talaði um, að hér væri um afturför að ræða, Þá er það nú ekki, þegar litið er til þeirra talna, sem liggja fyrir um árin 1951–1961, vegna þess að meðaltal þeirra ára er innan við 10 milljónirnar, sem lagt er til að hér verði veittar. En þar við er svo því að bæta, að í frv. er gert ráð fyrir, að endurgreiðsla fáist á þeim upphæðum, sem veittar eru sem lán og áreiðanlega er nokkur upphæð, sem einnig gengur til sjóðsins, þannig að ég ætla, að ef þessi lán verða innheimt eins og önnur lán, sem veitt eru, þá muni koma til sjóðsins samtals á ári talsvert hærri upphæð en sú hæsta, sem veitt hefur verið á undanförnum árum, þ.e.a.s. hærri en 15 milljónirnar, sem veittar voru árið 1957. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að tala hér um afturför, heldur miklu frekar hið gagnstæða, því að upphæðin, sem þarna á að geta orðið til ráðstöfunar, á fyrst og fremst að geta orðið hærri en hún var hæst, — eitt ár komst hún upp í 15 millj., — og svo hitt, að með því að slá því föstu í eitt skipti fyrir öll, að veittar skuli 100 millj. í þessu skyni, sem greiðist með jöfnum greiðslum á 10 árum, þá er ekki hægt að fara með þetta atvinnuaukningarframlag á fjárlögum upp og niður, það verður að halda því, eins og lögin gera ráð fyrir. Það er m.ö.o. búið að slá því föstu, að þessi fjárhæð skuli greidd og þetta há, en ekki 2 millj. eitt árið eða 15 millj. hitt, eins og komið hefur fyrir á þessum s.l. áratugum, svo að ég tel, að í því felist einnig nokkurt öryggi um framtíð sjóðsins og um möguleikana til þess að ná þeim tilgangi, sem frv. stefnir að. Hitt skal ég manna fúsastur játa, að sjálfsagt hefði verið æskilegt, að þessi upphæð hefði orðið hærri — og þá raunverulega miklu hærri, ef hún hefði átt að vera grundvöllur undir einhverjar stórfelldar framfarir úti um landsbyggðina. Það er ekki það, sem þessum sjóði er ætlað að gera, heldur eru Það frekar smáar framkvæmdir, sem eru kannske lítt viðráðanlegar fyrir þá einstaklinga, sem í þeim standa, nema með aðstoð, en ekki til hinna stóru átaka, því að stór átök þurfa áreiðanlega að afla sér fjár á annan hátt og koma ekki til með að njóta þeirrar aðstoðar, sem hér er gert ráð fyrir. Enda hefur það verið svo, og mér hefur verið vel kunnugt um það í úthlutunarstarfi síðastliðinna ára, því að ég hef átt sæti í þeirri nefnd, sem úthlutað hefur þessum atvinnuaukningarfjármunum, að það hefur verið stefnan að hjálpa mörgum smáum um tiltölulega smáar upphæðir, heldur en að leggja grundvöllinn að nokkru stóru, því að þá þyrftu upphæðirnar að vera svo miklu, miklu hærri. Og eins og ég sagði áðan, hvort þarna eru nefndar 10 eða 20 millj. á ári, það sker í mínum augum ekki úr, heldur hitt, að þarna sé föst upphæð, sem hægt sé að grípa til. Báðar eru ónógar, ef um stór átök er að ræða, en báðar geta komið til hjálpar — og náttúrlega réttilega því meir sem upphæðin er stærri, það skal viðurkennt, einnig þegar um smærri hluti er að ræða.

Hv. þm. minntist á Noreg og varð tíðrætt um það, sem frændur vorir Norðmenn hefðu veitt í þessu skyni, og ég skal sízt andmæla því. Það hefur verið gert þar myndarlegt átak til uppbyggingar N.- Noregs og veitt í það miklum fjármunum. En ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á þann mikla mun, sem er á okkur og N.- Noregi Þau s.l. 10 ár, sem hv. þm. minntist á, Noregur var í styrjöld, og megnið af öllum mannvirkjum í N.- Noregi hafði verið eyðilagt í styrjöldinni, þannig að þetta var eiginlega uppbygging á því, sem eyðilagt hafði þá verið, fyrst og fremst og varð að byggja frá grunni. Hjá okkur er sem betur fer þannig komið, að við eigum víða úti um land orðið talsvert mikil atvinnutæki, sem geta verið góður stofn undir framtíðarþróun. Ég held þess vegna, að ástandið hjá okkur og ástandið í N.- Noregi eftir styrjöldina sé mjög ósambærilegt og sé ekki rétt að bera það saman.

Það var ekki annað í ræðu hv. þm., sem ég hef aths. að gera við eða ræði frekar.