01.03.1962
Neðri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

35. mál, atvinnubótasjóður

Frsm. (Gísli Jónsson):

Háttv. forseti. Frv. það um atvinnubótasjóð á þskj. 38, sem hér er til umr., mun, ef að lögum verður, verða talið eitt hið merkasta mál, er fram líða stundir. Þykir mér því rétt að fara nokkrum orðum um frv. og þann undirbúning, sem málið hefur fengið áður.

Hinn 4. febr. 1953 var samþ. á Alþ. þáltill. um undirbúning heildaráætlunar í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Þáv. hæstv. atvmrh. fól tveimur alþm. að vinna að undirbúningi þessara mála. Söfnuðu þeir margvíslegum skýrslum og upplýsingum frá öllum hreppum landsins, svo og till. frá forráðamönnum í héruðunum. Er í þeim skýrslum að finna mikinn fróðleik um þessi mál öll.

Hinn 11. maí 1955 samþ. Alþ. þáltill. um ráðstafanir til atvinnuaukningar. Þar sem sú þáltill. fjallaði um hliðstætt efni, var sömu þm. falið einnig að vinna að undirbúningi þeirra mála.

Árið 1955 höfðu hinir kjörnu alþm. lokið þessu starfi sínu og sendu þáv. hæstv. ríkisstj. uppkast að frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Var frv. borið fram af þáv. hæstv. ríkisstj. sem stjfrv. Var í því frv. lagt til, að stofnaður yrði jafnvægissjóður, er hefði það verkefni með höndum að veita lán til framkvæmda, sem að dómi sjóðsstjórnarinnar væru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum, svo sem skipum og vélum o. fi. Skyldi ríkissjóður leggja fram árlega 5 millj. kr. til jafnvægissjóðs, en auk þess skyldu honum afhent ákveðin verðbréf, er eigi hefðu verið greidd ríkissjóði á tilsettum gjalddögum. Frv. þetta náði ekki fram að ganga á þinginu 1955–56, eins og þó hafði verið til ætlazt. Á hverju þingi síðan hefur frv. verið endurflutt, að vísu nokkuð breytt, en að meginefni til í samræmi við frv. frá 1955, en jafnan hefur málið dagað uppi og ekki fengið afgreiðslu.

Á s.l. Alþ. var samþ. þáltill. um þetta mál, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til l. um ráðstafanir til framleiðsluaukningar og jafnvægi í byggð landsins, m.a. með stofnun jafnvægissjóðs, ásamt ákvæðum um framlög í því skyni og úthlutun þess fjár. Skal tilgangur þessarar löggjafar fyrst og fremst vera sá að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu.“

Á grundvelli þessarar ályktunar hefur hæstv. ríkisstj. látið semja frv. það, sem hér liggur fyrir, og síðan borið það fram í því formi, sem það er á þskj. 38. Fjhn. ræddi málið á nokkrum fundum. Hefur frv. verið borið saman við ákvæði fyrri frv. um sama mál og einnig þáltill. frá 29. marz 1961, er ég þegar hef lesið, og sýnast öll meginatriðin vera tekin upp í frv.

Komu fram um það óskir í n. að taka upp í frv. skýrari ákvæði um aðalhlutverk sjóðsins en par er gert, einkum hvað snertir það verkefni, sem lýtur að því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Miðar brtt. sú, sem n. ber fram á þskj. 320 og er sammála um að samþykkt verði, að því að mæta bessum óskum nm.

Þá komu einnig fram í n. óskir um það að hækka hið árlega framlag ríkissjóðs, en um þá till. varð ekki samkomulag, og þess vegna er ekki borin fram nein sérstök till. um það at n. hálfu.

Skal ég fara hér nokkrum orðum um frv. og greinar þess.

Skv. 1. gr. frv. skal stofna atvinnubótasjóð, er verði eign ríkisins. Hlutverk sjóðsins skal vera að veita lán eða styrk til að auka framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust, og stuðla þannig að aukinni atvinnu og jafnvægi í byggð landsins — sbr. þó brtt. á þskj. 320 — og að veita lán til að stuðla að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Að jafnaði skulu lán eða styrkir, sem veittir eru úr sjóðnum til þess að auka framleiðslu í landinu, þar sem þörfin er mest, og stuðla þannig að jafnvægi í byggð landsins, ganga fyrir lánum til annarra framkvæmda, svo skulu og lán eða styrkir til atvinnuaukningar á stöðum, sem við atvinnuleysi búa, ganga fyrir lánum eða styrkjum til þeirra staða, sem að þessu leyti eru betur settir.

Þetta er meginverkefni atvinnubótasjóðs. Vil ég í þessu sambandi leyfa mér að benda á, að hér er um svo skýr ákvæði að ræða, að ekki sýnist þörf á því að skilgreina það nánar. Með því sýnast öll ákvæði í fyrri frv. og í þáltill. frá síðasta Alþ. vera tekin upp í frv. í meginatriðum. Stjórn sjóðsins, sem sett hefur verið á stofn til þess að sinna jafnvíðtækum verkefnum, verður að sjálfsögðu að hafa nokkuð frjálsar hendur um það, hvaða verkefni hún vill eða telur vera mesta þörf á að leysa á hverjum tíma til þess að bæta hag þeirra byggða, sem við erfiðasta aðstöðu búa, og má ekki sníða henni of þröngan stakk í því efni, enda munu þeir menn, sem til þess verða kjörnir af Alþ., skjótt fá á því fullan skilning, hvar skórinn kreppir mest að, er þeir hafa fengið tækifæri til þess að kynna sér málið, eins og það blasir við á hverjum tíma. Gefst þeim þá og tími til þess að óska breytinga á lögunum, ef það sýnir sig, að þess sé þörf til umbóta, til þess að ná þeim megintilgangi að auka framleiðslu í þeim landshlutum, þar sem atvinnuleysi er mest, og viðhalda þannig jafnvægi í byggð landsins, en það hvort tveggja er höfuðverkefni sjóðsins.

Eins og sést af grg. frv. hefur rúml. hundrað millj. kr. verið varið til atvinnuaukningar í landinu á árunum 1951–61. Mest af þessum upphæðum hefur verið veitt sem lán, og um sum þeirra hefur tæplega verið svo bundið, að telja megi, að þau séu gulltryggð. Jafnvel hefur sú skoðun skotið upp kolli, að þessi lán ætti ekki og þyrfti ekki að endurgreiða. Slíka hugsun þarf og á að kveða niður. Þessar kröfur allar er ætlazt til að sjóðurinn fái framseldar. Er það framlag ríkissjóðs til hans auk þeirra 10 millj., sem honum eru ætlaðar í fjárlögum árlega í næstu 10 ár.

Það verður engu um það spáð, hve mikið af þessum upphæðum má reikna með að fáist endurgreitt, og verður sjálfsagt eitt af fyrstu verkefnum sjóðsstjórnarinnar að kanna það og semja um öruggar endurgreiðslur við viðkomandi skuldunauta, eftir að lögin öðlast gildi. En þegar það er haft í huga, að þetta fé allt á að nota á ný og verður notað á ný, jafnóðum og það er innheimt, til þess að bæta úr atvinnuleysinu og auka framleiðsluna í landinu og bæta þar með kjör fólksins, má gera ráð fyrir því, að skoðun manna breytist almennt um endurgreiðsluskyldu á þessu fé frá því, sem nú er. Tekjur sjóðsins árlega ættu því að verða verulega meiri en þær 10 millj. kr., sem fram skal leggja til sjóðsins árlega úr ríkissjóði, og hann þá jafnframt hafa möguleika til þess að auka lán og aðstoð meira en verið hefur, þegar fram líða stundir.

Ég skal ekki ræða hér sérstaklega aðrar greinar frv., þær skýra sig að mestu leyti sjálfar. Hins vegar vil ég, áður en ég lýk máli mínu, benda á eftirfarandi staðreyndir: Íslendingar eru síður en svo eina þjóðin, sem á við þann vanda að stríða, sem samfara er flótta frá strjálbýlli byggðum til fjölbýlisins. Það er vandamál flestra þjóða og fer vaxandi. Í vaxandi mæli eru tugþúsundir ha. af ræktuðum löndum teknir undir byggingar ýmissa mannvirkja í allri Evrópu og það í svo ríkum mæli, að mörg lönd, sem áður lifðu að mestu á landbúnaði og landbúnaðarframleiðslu, hverfa nú meira og meira frá þeim atvinnuvegi vegna minnkandi ræktunarskilyrða og yfir í stóriðju. Eru öll merki þess á lofti, að þessi lönd kalli í vaxandi mæli á landbúnaðarvörur frá öðrum löndum, sem enn eiga nóg svæði óræktuð og nóg svæði í óbyggðum. Með þeim samgöngubótum, sem orðið hafa á milli landa, og samvinnu um skipulagningu á framleiðslu til fæðu hins vaxandi fólksfjölda, skyldu þjóðirnar ekki loka augunum fyrir því og þeim framtíðarmöguleikum, sem felast í íslenzkri mold í þeim byggðum, sem auðnin enn þá ógnar. Sú stund er ef til vill ekki svo langt undan, að þangað verður leitað til þess að fullnægja eftirspurn eftir afurðum frá nágrannaþjóðum vorum. Þótt flótti frá afurðaframleiðslunni sé jafnan þjóðarböl, þá skapar þó flóttinn til þéttbýlisins engu minni vandræði, einkum ef hann er óeðlilega ör.

Fyrir hverja fimm manna fjölskyldu, sem yfirgefur jarðir og hús, sem þá oft verða verðlítil eða verðlaus, verður að byggja upp og fjárfesta í fjölbýlinu fyrir 1 millj. kr. með núverandi verðlagi. Það eitt er nægilegt til umhugsunar fyrir þá menn, sem með þessi mál fara, ef ekki er hægt að hafa eðlilegar hömlur á tilflutningi fólksins og gera því kleift að vinna og dvelja við mannskemmandi kjör, þar sem það oft — og miklu oftar — kýs sér að starfa og eyða ævi sinni, ef því væri það mögulegt. Um ýmsan annan vanda, sem skapast við röskun jafnvægis í byggð landsins, er öllum ljóst, bæði hvað snertir félagsmál, lögreglumál og geðvernd, og skal það ekki rakið hér, þótt um þau atriði mætti segja margt.

Eitt af þeim verkefnum, sem stjórn atvinnubótasjóðsins fær að sinna, er að kynna sér gaumgæfilega þá staði í landinu, sem fólkið flýr frá, en hafa þó öll skilyrði til þess að búa því ákjósanlegust lífskjör, ef nauðsynlegar umbætur eru látnar í té.

Ég hef af eigin raun kynnzt því á ferðum mínum um Vestfjarðakjördæmi, að víða hafa menn þar á síðustu árum haft meðaltekjur á ári frá 90–130 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu, og þó ógnar sú hætta þessu fólki að verða að flýja hérað sitt og leita í þéttbýlið, þar sem tekjurnar eru ekki hærri, en þægindi og öryggi meira. Slíkt verður að stöðva, og það á að vera verkefni atvinnubótasjóðs að vinna að því með skipulögðum aðferðum. En ég hef auk þess séð marga aðra staði, sem bjóða upp á frá náttúrunnar hendi engu lakari aðstöðu, þar sem skapa má hin æskilegustu skilyrði ágætrar afkomu, en auðnin ein ógnar Þeim, ef ekkert er að gert. Fyrir þessu má ekki heldur loka augum. Ég hef ekki minnzt á þessa staði fyrir það eitt, að ég er hér á Alþ. fulltrúi þess fólks, sem þar býr, heldur vegna hins, að ég er þar kunnugastur staðháttum og kunnugri þar staðháttum en í öðrum héruðum. En ég veit með vissu, að sama má segja um marga aðra staði á landinu og þó einkum á Norður- og Austurlandi. Mér er það fyllilega ljóst, að allir íbúar landsins gætu flutzt til þéttbýlli héraðanna og lifað þar við ágæt kjör. En mundi svipur lands og þjóðar verða heilsteyptari og betri, ef horfið yrði að því ráði? Ég fullyrði, að þá mundum við á skömmum tíma sakna sárt margs af því bezta, sem lifir með þjóð vorri og er meginþáttur í menningu hennar.

Vil ég mega vænta þess, að hv. þm. fallist á að samþykkja frv. með þeirri breytingu, sem nefndin leggur til á þskj. 320, og það verði síðan lögfest þannig á þessu þingi. Ég vil leyfa mér að benda á, að nauðsynlegt verður, að hv. fjhn. athugi nokkuð frv. fyrir 3. umr. Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess að fresta þessari umr. af þeim ástæðum, því að það mun vera óhjákvæmilegt að setja inn í frv. ákvæði til bráðabirgða eitthvað á þessa leið: „Við gildistöku laga þessara skal í fyrsta sinn kjósa stjórn atvinnubótasjóðs. Kjörtímabil hennar er þar til ný stjórn er kjörin á fyrsta þingi eftir næstu almennar kosningar.“ Veit ég, að hv. form. mun taka það til athugunar, áður en málið fer héðan úr deildinni.

Ég skal ekki á þessu stigi ræða þær brtt., sem fram hafa komið. Þær eru í fullu samræmi við þær óskir, sem bornar voru fram við umr. í d. Mér þætti ekki óeðlilegt, að þeir, sem mæla fyrir þeim og flytja þær, taki þær aftur til 3. umr., ef nefndin vildi líta á þær. Annars er það mín skoðun, að flest það, sem kemur fram í brtt., sé tryggt í frv., eins og það er núna, eins og ég hef þegar skýrt frá.