16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

35. mál, atvinnubótasjóður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 5. þm. Austf. og þá alveg sérstaklega út af því, hve mikið fé er ætlað í þessu frv. til þeirrar starfsemi, sem frv. gerir ráð fyrir. Eins og segir í grg. fyrir frv., hafa verið veittar á undanförnum ellefu árum, frá árinu 1951–1961 að báðum árum meðtöldum, rétt um 100 millj. kr. til þessarar starfsemi. Og það varð niðurstaðan, að að því var horfið, þegar frv. var samið, að halda sig við þá meðaltalstölu a.m.k. til að byrja með. Það er alveg rétt, að þessi upphæð er nokkru lægri en framlagið úr ríkissjóði var sum árin, en aftur á móti líka talsvert hærri en framlagið var á öðrum árum. Á það vil ég líka benda í þessu sambandi, að í frv. er gert ráð fyrir að herða á innheimtu þessara lána frá þeim mönnum, sem ætla má að geti borgað af sinni starfsemi, af sínum rekstri, því að það er engin ástæða til þess að gefa þeim fé, sem ekki þurfa á því að halda. Það á að vera eitt af hlutverkum hinnar nýju stjórnar þessa sjóðs að fara mjög rækilega í gegnum lánin, sem eru, eins og ég sagði áðan, komin á annað hundrað millj. kr., og freista þess að innheimta nokkuð af því fé, bæði í vexti og afborganir af lánunum, þannig að vel mætti fara svo, að sú upphæð, sem væri til ráðstöfunar á ári hverju, yrði nokkru hærri og það mjög verulega hærri en gert er ráð fyrir í frv. að komi beint sem framlag frá ríkissjóði.

Hv. þm. sagði líka, að hlutfallið á milli þessa framlags og heildarupphæðar fjárl. hefði skekkzt, þannig að á meðan fjárl. voru ekki nema um það bil 800 millj., — held ég hann hafi sagt, — 800 millj. í heild, þá voru þessi framlög svipuð eða kannske eitthvað hærri en þau eru nú, og þetta taldi hann hafa þróazt öðruvísi en rétt væri. Ég vildi nú aðeins í þessu sambandi benda á, að það er ekki alveg rétt hjá hv. þm. að gera þennan samanburð á þennan hátt, því að heildarupphæðin var vissulega ekki sú, sem á fjárl. var, heldur var þar skotið undan upphæð, sem var, að ég ætla, u.þ.b. eins há og heildarfjárlagaupphæðin var og kölluð útflutningssjóður, þannig að ef bera á saman útgjöldin á fjárl. nú og á fjárl. þá, verður til þess að fá nokkuð sanngjarna útkomu að taka útflutningssjóðinn með, og það munar mjög verulega miklu.

Annars skal ég ekki fara frekar út í að ræða þetta frv. Mér þykir vænt um, að hv. þm. taldi það til bóta á vissan hátt, þótt það væri ekki nógu gott að hans dómi. En kannske verður þá hægt að betrumbæta það síðar, þegar Þessi mál eru komin í fastara og betra horf.