09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

35. mál, atvinnubótasjóður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mikið, en mig langaði aðeins til að segja nokkur orð um þetta mál, einkum með hliðsjón af því, að það hefur viljað svo til. að ég hef haft af því nokkur afskipti undanfarin ár: í fyrsta lagi með því að flytja allmörg þing frv. um það, að lögfest verði sem fastur sjóður það fé, sem hefur verið veitt í fjárl. um allmörg undanfarin ár, og svo í öðru lagi, þar eð það hefur lent í minn hlut að veita forstöðu n. síðustu árin, sem úthlutað hefur þessu fé. Ég vil þá fyrst og fremst láta í ljós ánægju yfir því, að svo langt er þó komið þessu máli eftir alllangt þref um margra ára bil, að sjá má nú fyrir endalok þess á þann veg, sem telja má við una, að lögfest verði stofnun sérstaks sjóðs, er hafi með þessi atvinnuaukningarmál að gera. Þetta hefur alveg sérstaka þýðingu af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi það, að með því er þó fengið lögfest um alllangt árabil, að fé skuli veitt til þessara þarfa, og í öðru lagi og eigi síður sökum þess, að með því að stofnsetja fastan sjóð eða fasta stofnun, sem hafi með þessi atvinnuaukningarmál að gera, þá er hægt að vinna að þessum málum á allt annan veg en verið hefur.

Þó að þetta fé hafi vissulega komið viða að mjög miklum notum á undanförnum árum, þá er því ekki að leyna, að notin hafa ekki orðið eins og þau hefðu getað orðið, ef hefði verið fært að vinna kerfisbundið að uppbyggingu atvinnufyrirtækja á ýmsum stöðum. Það hefur ekki verið auðið t.d. að vinna með nokkurra ára prógram í huga, þ.e.a.s. þannig, að hægt hafi verið að leggja grundvöll að uppbyggingu atvinnulífs eftir áætlun á þann veg, að það hafi verið hægt að veita fé um nokkurra ára bil til þess að byggja upp atvinnulíf á tilteknum stöðum. Þetta hefur mjög háð starfsemi sjóðsins. og þar sem þetta hefur verið svo laust í reipum og ekki vitað frá ári til árs, hvort eða þá hvað mikið fé yrði til ráðstöfunar, þá hefur það eðlilega orðið þess valdandi, að ekki hefur verið unnið jafnkerfisbundið og ella hefði verið gert. Af þessum sökum tel ég, að það hafi mjög veigamikla þýðingu fyrir alla framtíð þessarar mikilvægu aðstoðar, að málinu sé komið í það kerfi, sem hér er um að ræða. Og það er mjög gleðilegt, að um það hefur orðið samkomulag milli allra flokka á Alþ. að styðja þetta mál og koma því heilu í höfn. Þetta tel ég að sé það, sem meginmáli skiptir, og ég tel, að frv. sé þannig úr garði gert, að eftir því sé hægt að vinna með eðlilegum hætti og að það uppfylli þær kröfur, sem nauðsynlegt var að gera, til þess að unnt væri á skipulegan hátt að sinna þessum málum í framtíðinni.

Það eru tvö atriði, sem valdið hafa ágreiningi í sambandi við þetta mál. Annað atriðið var auðvitað eðlilegt að mundi valda ágreiningi, og það er upphæð þess fjár, sem lagt er fram af hálfu ríkisins til sjóðsins. Það hlaut að fara svo, að um það yrðu skiptar skoðanir, og a.m.k. ekki óeðlilegt, að hv. stjórnarandstæðingar mundu leggja til, að þetta fé yrði hærra. Það vill nú einu sinni verða svo, að það þykir oftast af hálfu stjórnarandstöðunnar — ekki fremur í þessu máli en öðrum — hægt að hafa fjárveitingar hærri en í frv. ríkisstj. er lagt til á hverjum tíma, og er það ekkert sérstakt um þetta mál. Vissulega væri ánægjulegt að geta haft þessa fjárveitingu hærri, en það hefur ekki tekizt að fá þá fjárveitingu hærri sem stofnfé þessa sjóðs, og ég held, að enda þótt sú breyt. yrði gerð á frv., sem lögð er til af þeim tveim hv. þm., sem hér hafa flutt brtt., þá muni það ekki ráða öllu um framtíð þessarar starfsemi.

Ég er nokkurn veginn sannfærður um, að þegar þessi sjóður er á legg kominn og ef það sýnir sig, að hann geti ekki leyst sitt verkefni með því fé, sem til hans er varið skv. Þessu frv., þá verði æðimiklu auðveldara um vik að afla viðbótarfjár til sjóðsins, eftir að þessi stofnun er þó á komin, heldur en ella hefði verið. Ég tel því ekki ástæðu til þess að bera kviðboga fyrir því. Það er jafnframt alveg rétt, sem sagt hefur verið, að atvinnuástand í landinu er auðvitað mjög á annan veg í langflestum strjálbýlishéruðum landsins heldur en hefur verið til skamms tíma eða þegar hafið var að veita þetta fé og raunar lengi fram eftir árum. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, að þegar þessi starfsemi var hafin, þá var við að stríða alvarlegt atvinnuleysi viða um land í sjávarplássum, og það var mörg ár, eftir að þessari starfsemi var ýtt úr vör. Það hefur hins vegar komið í ljós síðustu árin, sem betur fer, og vonandi horfir svo áfram, að við úthlutun þessa fjár hefur ekki þurft að mæta þeim vanda nema að mjög litlu leyti að koma á laggirnar einhvers konar starfsemi til þess að bæta úr atvinnuleysi á viðkomandi stöðum, heldur hefur fénu verið varið til þess að létta undir með ýmsar framkvæmdir víðs vegar um landið, sem að sjálfsögðu hafa sína miklu þýðingu til að tryggja það, að ekki þurfi til atvinnuleysis aftur að koma. En hvað sem þeim málum öllum líður, þá er það alveg rétt, við þarfirnar fyrir þetta fé sem beint atvinnubótafé í gamalli merkingu þess orðs eða til þess beinlínis að skapa atvinnulausu fólki atvinnu, það viðfangsefni er ekki, sem betur fer, mjög knýjandi nú í dag.

Ég held því, að enda þótt ekki sé um hærri fjárhæð að ræða en hér er, sem er þó tryggð um tíu ára bil, 10 millj. á ári, þá muni það teljast mjög viðhlítandi, ef ekki koma til einhverjir sérstakir erfiðleikar. Og því er ekki heldur að leyna, að það hefur auðvitað haft stórmikil áhrif í sambandi við þessi mál, að atvinnuleysistryggingasjóðurinn hefur komið til og lán úr honum hafa farið vaxandi ár frá ári, og sá sjóður hefur að sjálfsögðu mjög svipuðu hlutverki að gegna og þessi sjóður hér, því að það er að sjálfsögðu hlutverk þess sjóðs fyrst og fremst að koma í veg fyrir það, að atvinnuleysi verði, og vonandi þarf ekki að nota sjóðinn nema að hverfandi litlu leyti í framtíðinni til þess að borga út atvinnuleysisstyrki. Með samhjálp þessara tveggja sjóða ætti að vera hægt að stuðla að því að hagnýta góð framleiðsluskilyrði í landinu og koma í veg fyrir það, að byggð þurfi að dragast saman, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. réttilega sagði að hefði mikla þýðingu og hefur í rauninni verið grundvallarsjónarmiðið með atvinnubótasjóðnum. Má segja, að að því leyti til sé hlutverk hans nokkuð annað en atvinnuleysistryggingasjóðsins, því að það er ekki unnið eins eftir reglum hans á þeim grundvelli að láta fyrst og fremst sitja fyrir þau svæði, þar sem hætt er við, að fólk kunni að flytja burt, ef ekki er bætt úr atvinnu- og framleiðsluskilyrðum. Þessir sjóðir hafa því mikilvægu hlutverki að sinna, og ég er ekki í vafa um, að það er öllum þeim, sem Þurfa við málefni strjálbýlisins að fást, mikið gleðiefni, að þessu máli virðist nú vera að verða komið í höfn á sæmilega viðunandi hátt.

Ég tel mér því ekki fært að styðja þessa breytingu með hliðsjón af því, eins og öllum hv. þdm. er auðvitað kunnugt, að orðið hefur samkomulag við flutning þessa máls og einmitt frv. hefur fengizt fram á grundvelli þess samkomulags, að fjárhæð úr ríkissjóði yrði sem hér greinir. Og ég tel málið allt of mikilvægt til þess að tefla því á nokkurn hátt í hættu á grundvelli deilna um það atriði, og tel ég mér því ekki fært að styðja till. þeirra tveggja hv. þdm., þótt ég að öðru leyti mundi gleðjast yfir því að fá það fjármagn til ráðstöfunar og raunar miklu meira fé.

Varðandi svo hitt atriðið, um breyt. á nafni sjóðsins, þá verð ég að segja það, að ég er eiginlega dálítið hissa á því, að hv. 1. þm. Norðurl. e. skuli ekki hafa haft til að bera meiri hugkvæmni um val á nafni á sjóð heldur en það nafn, sem hann leggur til hér að taka upp, því að eins og við öll vitum, þá er hann orðhagur maður, og hefði ég satt að segja búizt við, að það mundi koma heppilegra nafn frá honum, ef hann á annað borð gerði um það till. Það má vafalaust finna að nafninu á þessum sjóði, en ég tek það þó skýrt fram, að ég legg það ekki að jöfnu, að ég vil þó heldur halda því nafni, sem á honum er, heldur en taka upp heitið jafnvægis- og framleiðsluaukningarsjóður, sem er vægast sagt mjög klúðurslegt nafn. Og auðvitað mætti lengi halda áfram að bæta um nöfn sjóða, ef þau ættu endilega að bera í sér að meginhluta til tilgang sinn, eins og mér skilst að þessi nafngift eigi að tákna. Ég hefði gjarnan haft tilhneigingu til, ef fram hefði komið betra nafn en atvinnubótasjóður, að vilja styðja það. En mér sýnist, að þetta nafn verði til þess að gera heiti sjóðsins enn þá verra og engin von til þess, að nokkur maður í rauninni kunni að fara með það rétt, þegar svona langt og viðamikið nafn er um að ræða. Og það er ósköp leiðinlegt, ef fæstir, sem með mál einhvers sjóðs hafa að gera eða þurfa til hans að sækja, kunna rétt nafn á sjóðnum. Ég held yfirleitt, að allir sjóðir, sem hér eru starfandi, heiti einu nafni, fábreyttu nafni og eins einföldu og hægt er að koma við, þó að megi um þau heiti deila, eins og t.d. það heiti, sem er ósköp klúðurslegt, heitið atvinnuleysistryggingasjóður, sem virðist nánast eiga að tryggja atvinnuleysi, því að sá sjóður ætti á miklu eðlilegri hátt að heita atvinnutryggingasjóður. En sleppum því. Það eru til auðvitað, eins og þetta dæmi sýnir, óheppileg nöfn á ýmsum þessara sjóða, sem starfandi eru. En meginreglan hefur þó verið sú, og í þeim anda er nafnið á þessum sjóði, að hafa þetta einfalt nafn og þjált í munni, og auðvitað hefði komið til álita að láta sjóðinn kannske heita atvinnuaukningarsjóð. En það er heldur klúðurslegt heiti, sem ég býst við að hv. 1. þm. Norðurl. e. sé mér sammála um, og ekki sérlega skemmtilegt, þannig að ég held nú, að þegar allt kemur til alls, þá sé þó skást að halda þessu nafni á sjóðnum. Og við verðum að vonast til þess, að starf sjóðsins og framkvæmd þess verkefnis, sem honum er fengið, ef einhverjir kunna að hafa þá tilfinningu, að hér sé um leiðinlegt heiti að ræða vegna fortíðarskilnings þess nafns, þá afsanni verk sjóðsins það og gefi nafninu það eðlilega innihald, sem það hefur, þar sem vissulega er ekkert athugavert við að tala um atvinnubætur í sambandi við fyrirhuguð verkefni þessa sjóðs.

Ég skal svo aðeins að lokum drepa á, að það hefur auðvitað veigamikla þýðingu fyrir fjárhag sjóðsins, að gert er ráð fyrir að afhenda honum skuldabréf fyrir öllum þeim lánum, sem veitt hafa verið af atvinnuaukningarfé til þessa. Samtals hafa verið veittar af þessu fé, af atvinnuaukningarfé, rúmar 100 millj. kr. Og þó að það muni auðvitað verða æðimikil afföll af því, enda ekki gert ráð fyrir, að innheimt verði aftur Það fé, sem veitt hefur verið sem styrkir, þá er það engum efa bundið, að þetta mun bæta mjög aðstöðu sjóðsins. Og ég tel alveg sjálfsagt og hef alltaf talið, að það ætti að innheimta þetta fé, t.d. þegar atvinnuástand hefur batnað svo í byggðarlögum eða hjá fyrirtækjum, sem þess hafa notið, og afkoma þeirra, að þeim sé auðið að greiða þetta fé, þá sé ómóralskt með öllu að haga því þannig, — og það er gamla atvinnubótasjónarmiðið, — að vera að gefa peninga, þegar hægt er að auka notin af þeim margfalt með því að innheimta þá með skaplegum hætti og nota þá síðan til að endurlána til frekari uppbyggingar. Þetta tel ég sjálfsagt að gera. Veðskuldabréf hafa yfirleitt verið tekin fyrir öllu því fé, sem veitt hefur verið sem lán. Og þó að það kunni að verða erfitt að innheimta það og megi auðvitað ekki að því ganga með neinni ósæmilegri hörku, þá verður það að teljast eðlilegt, þegar þessi sjóður er á laggirnar kominn, að þá verði hafizt handa um það, eins og gert er ráð fyrir í frv., að reyna að innheimta þetta fé, og þá að öðru leyti strika út það, sem óinnheimtanlegt reynist. En smám saman ætti þessi sjóður með jafnmiklu framlagi árlegu og hér er gert ráð fyrir og með þessum stofni til viðbótar að geta orðið allstór og allvoldug stofnun og geta í auknum mæli unnið að því merkilega verkefni, sem honum er fengið skv. þessu frv.