26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

155. mál, verkamannabústaðir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Haustið 1960 var sett á laggirnar nefnd fimm manna til að endurskoða lög um húsnæðismálastofnun, lög um verkamannabústaði og fleiri lög varðandi húsnæðismál. í nefndina voru þessir menn skipaðir: Eggert G. Þorsteinsson alþm., formaður, Jóhann Hafstein bankastjóri, Ragnar Lárusson forstjóri, Tómas Vigfússon húsasmíðameistari og Þorvaldur Garðar Kristjánsson lögfræðingur. Síðan var svo bætt í nefndina fulltrúa frá veðdeild Landsbanka Íslands, Hauki Vigfússyni bankafulltrúa, sem hefur starfað í nefndinni síðan.

Nefndin hefur nú fyrir skömmu skilað þessu frv., sem hér liggur fyrir, frv. til laga um verkamannabústaði, sem áður fyrr tilheyrði lögunum um húsnæðismálastjórn o.fl. og leggur til. að það verði flutt sem sérstakt frv. Sömuleiðis hefur n. skilað bráðabirgðaáliti um húsnæðismálastjórnarlögin, sem hér verður tekið fyrir næst á eftir.

Þessu frv. nefndarinnar um verkamannabústaði fylgir mjög ýtarleg grg., sem raunverulega hefur inni að halda upplýsingar um öll meginatriði og efnisatriði málsins, og ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að fara út í þau nema að tiltölulega litlu leyti. Enn fremur fylgja frá n. skýrslur ýmsar, sem eru prentaðar á fylgiskjölum I–IX á eftir grg., og hafa þær skýrslur og töflur inni að halda upplýsingar um: í fyrsta lagi á fskj. í framlög bæjar- og sveitarfélaga til byggingarsjóðs, í öðru lagi á fskj. II inn- og útborganir byggingarsjóðs, á fskj. III skiptingu lána byggingarsjóðs verkamanna eftir tíma og fskj. IV, sem er skipting lánveitinga byggingarsjóðs verkamanna eftir stöðum, á fskj. V efnahagur hinna ýmsu deilda byggingarsjóðsins og á fskj. VI efnahagur aðalsjóðsins, á fskj. VII skýrsla yfir starfsemina í Reykjavík, á fskj. VIII um tekjuskiptingu landsmanna, og á fskj. IX er athugun á tekjum kvæntra karla árið 1959 og fjölskyldustærð þeirra í árslok 1959. Sem sagt, með þessu frv. fylgja, að ég ætla, þær ýtarlegustu upplýsingar, sem hægt er að fá um þessi mál.

Upphaflega stefnan eða meiningin með hinni upphaflegu lagasetningu var sú að gera verkalýð bæjanna kleift að fá hollar og góðar íbúðir með þægindum nútímans, eins og segir í grg. fyrsta frv. um verkamannabústaði frá árinu 1929. Þetta hefur svo verið það meginsjónarmið, sem fylgt hefur verið, bæði í framkvæmd laganna og við þær breytingar, sem á lögunum hafa verið gerðar síðar, en þær eru mjög margar. Til þess að takast mætti að gera þessum efnaminni eða efnaminnsta hluta landsmanna kleift að eignast þak yfir höfuðið, var auðséð, að einhvers staðar frá þurfti að koma styrkur nokkur. Þessi styrkur var látinn í té frá upphafi þannig og raunar til þessa dags, að bæjarsjóðir, þar sem byggingarfélög verkamanna hafa verið stofnuð, hafa lagt fram nokkra upphæð og ríkissjóður hefur lagt fram aðra upphæð á móti, jafnháa. Þessi upphæð var til að byrja með, að ég ætla, ein króna á hvern íbúa, en var fljótt hækkuð upp í 2 kr., síðan 4 kr. og hefur verið að hækka allar götur fram til ársins 1957, að framlagið var ákveðið sem lágmark 24 kr. á íbúa og sem hámark 36 kr. Og ríkissjóður hefur síðan lagt fram jafna upphæð á móti.

Upphaflega mun hafa verið ætlað, að þessi framlög bæjarfélaganna og ríkissjóðs yrðu a.m.k. að einhverju leyti notuð til þess að bæta sjóðnum þann vaxtamismun, sem hugsað var að yrði á veittum lánum og lánum, sem sjóðurinn yrði að taka, en þá var gert ráð fyrir því, að vextir af þeim lánum, sem byggingarfélögunum yrðu veitt, væru að verulegu leyti lægri en af þeim lánum, sem aðalbyggingarsjóðurinn tæki. Nú hefur þetta í framkvæmdinni orðið þannig, að sjóðurinn, hefur unnið með tiltölulega lítið lánsfé, eins og sést á fskj. II, þar sem greint er frá inn- og útborgunum sjóðsins.

Það kemur í ljós, að af 124 millj., sem sjóðurinn hefur fengið innborgaðar á þessu tímabili, nema lán, sem sjóðurinn hefur tekið, aðeins 12.4 millj. eða réttum 10%. Það þýðir, að sjóðurinn hefur að mestu leyti unnið með eigin fé og þar af leiðandi getað sparað sér þann vaxtamun, sem upphaflega var gert ráð fyrir. En þetta þýðir líka, að framkvæmdir sjóðsins hafa verið miklu takmarkaðri og minni en æskilegt hefði verið. Og þetta hefur komið alveg sérstaklega í ljós upp á síðkastið, þegar kostnaðurinn við íbúðabyggingar þessar hefur vaxið mjög mikið frá því, sem verið hafði í upphafi eða fyrstu árin, sem sjóðurinn starfaði. Þessi mismunur stafar af tvennu. Hann stafar í fyrsta lagi af því, að byggingarkostnaður hefur aukizt gífurlega á þessu tímabili, en hann stafar líka af því, að íbúðir verkamannabústaðanna hafa yfirleitt stækkað frá því, sem þær voru í upphafi. Upphaflega mun hafa verið venjan, að það var sjaldgæft, að íbúð væri þá stærri en 60 fermetrar og jafnvel undir því. En nú mun vera ekki óalgengt, að íbúðastærðin sé 90 fermetrar eða þar um bil. Þetta hefur orðið til þess, að byggingarkostnaðurinn fyrir hverja íbúð í Reykjavík t.d. hefur komizt í 10. flokki upp í 380 þús. kr., og enn gert ráð fyrir, að 11. byggingarflokkur verði allt að 15% dýrari. En af þessum 380 þús. kr., sem 10. flokkur íbúðanna kostaði, hefur ekki verið unnt að veita sem lán úr byggingarsjóðnum nema 160 þús. kr. eða talsvert innan við helming byggingarkostnaðar, þó að gert væri ráð fyrir því í upphafi, að framlag byggingarsjóðs eða lán af hans hálfu næmi allt upp í 85% af kostnaði.

Þetta hefur orðið til þess, að þeir, sem raunverulega áttu rétt til þess að njóta aðstoðar laganna, þ.e.a.s. þeir, sem höfðu tekjur og eignir fyrir neðan visst mark, hafa tæpast getað notfært sér þau lán, sem í boði voru frá sjóðnum, vegna þess að þeir gátu ekki útvegað sér þau lán eða Þá upphæð, sem vantaði á byggingarkostnaðinn að frádregnum framlögum sjóðsins, og eins hitt, að þegar þessa fjár var aflað á Þann hátt, þá varð vaxtabyrðin og afborganir af lánunum meiri en þeir gátu staðið undir.

Í núgildandi l. um þetta efni segir, að skilyrði til þess að fá lán úr byggingarsjóði eða vera meðlimur í byggingarfélagi sé, að viðkomandi hafi aðeins 50 þús. kr. tekjur á ári og megi ekki eiga meiri eignir en 50 þús. kr. En það sér hver og einn, að þeir, sem við þann efnahag eiga að búa, geta tæpast staðið undir íbúðarverði, sem nemur í kringum 400 þús. kr., og sérstaklega þegar helmingurinn eða meira en helmingurinn af þeirri upphæð er fenginn með lánum með óhagstæðum kjörum. Eitt meginatriðið í endurskoðun þessara l. hefur því verið það að reyna að koma á samræmi á milti þess, sem sjóðurinn lætur af hendi, og þess, sem viðkomandi launþegi hefur í tekjur eða á sem eignir, þannig að nokkurn veginn öruggar líkur séu fyrir því, að hann geti staðið undir þessum byggingarkostnaði með þeim tekjum, sein hann hefur, og með þeim eignum, sem hann á.

Á fskj. VIII er skrá yfir tekjuskiptingu launþeganna í kaupstöðum og kauptúnum á árinu 1959 og enn fremur um ómagafjölda þeirra í árslok 1959. Þessa skýrslu lét n. gera til þess að gera sér grein fyrir því, hversu mikill hluti af íbúum kaupstaða og kauptúna hefði lægri tekjur en svo, að ætla mætti, að þeir gætu byggt yfir sig af eigin rammleik. Og samkv. þessari tekjuskiptingarskýrslu, sem gerð hefur verið, eða samkv. því úrtaki, sem myndar undirstöðuna undir hana, kemur í tjós, að þeir, sem hafa minni tekjur en 50 þús. kr. á ári þetta ár, nema 9,3% af launþegunum á þessum stöðum. Í flokknum á milli 51 og 75 þús. eru svo 41,3%, frá 76 til 100 þús. eru 34,6% og yfir 100 þús. 14.8% launþega. Samkv. þessu hefur verið hugsað að reyna að koma til móts við þarfir þessara 9,3%, sem hafa undir 50 þús. kr. tekjur á ári.

Í grg. er líka greint frá því, að íbúðabyggingar landsmanna í heild á árunum 1930–1959, eða nálega s.l. 30 ár, hafa numið 16000 íbúðum í bæjum og kauptúnum. En íbúðir, sem byggðar hafa verið á vegum byggingarfélaga verkamanna og með aðstoð byggingarsjóðsins, hafa verið 1108 á sama tíma af þessum 16000, sem nemur í kringum 7% af heildaríbúðabyggingum. Það fer því ekki mjög fjarri, að tekizt hafi á þessu tímabili að aðstoða svipaðan hóp hlutfallslega og úrtakið á fskj. VIII sýnir að hafi nú undir 50 þús. kr. launatekjum.

Þar sem skórinn hefur kreppt fastast að nú upp á síðkastið, er í fyrsta lagi, að lánsupphæðin úr sjóðnum til byggingarfélaganna hefur numið miklu lægri hundraðshluta af byggingarkostnaðinum heldur en gert var ráð fyrir í upphafi, eða nú undir 50% í staðinn fyrir að áður hafði verið miðað við, að hún væri 85%. Og í öðru lagi, að tekju- og eignamarkið í þessum lögum er í lægra lagi, miðað við a.m.k. þessa aðstoð byggingarsjóðsins. Nú má hins vegar gera ráð fyrir því, að ef tekst, eins og lagt er til í Þessu frv., að hækka hluta byggingarsjóðs í byggingarkostnaðinum, þá mætti hugsa sér, að maður með þessi laun, 50 þús. kr. á ári, eins og nú er í lögunum, gæti kannske komizt af. En þá þarf að gera tvennt í einu, rýmka lánsheimild sjóðsins, og það er gert með því að færa hana nú upp í 90% af byggingarkostnaðinum, þó ekki yfir 300 þús. kr., og í öðru lagi með því að útvega sjóðnum meira fé til útlána en hann hefur haft á milli handa, eða réttara sagt taka upp þá breyttu stefnu að vinna ekki eingöngu með eigin fé eða svo að segja eingöngu með eigið fé, eins og hann hefur gert til þessa, heldur verði reynt að útvega sjóðnum lán og auka með því möguleika hans til að hækka lánin. Að þessu verður unnið, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Endurskoðun laganna hefur, eins og ég sagði, verið miðuð við það, að ákveðið tekju- og eignahámark þeirra, sem fyrirgreiðslu geta notið samkv. lögunum, væri tekið til meðferðar, í öðru lagi við lánsupphæðir og lánskjör byggingarsjóðsins og í þriðja lagi tekjuöflun sjóðsins.

Ég skal aðeins fara nokkrum orðum fyrst um síðasta liðinn, tekjuöflun sjóðsins, að því leyti sem þetta frv. tekur til þess máls. Það er gert ráð fyrir því í frv., að framlög bæjar- og sveitarfélaga verði hækkuð úr 24–36 kr. á mann, eins og nú er, upp í 40–60 kr. — 40 sem lágmark og 60 sem hámark, og að ríkissjóður leggi tilsvarandi á móti. Ef miðað er við hámarkið, Þá verður, eins og ljóst er af þessum einingartölum, um mjög mikla hækkun að ræða frá því, sem er, sem ætti að gera sjóðnum mögulegt að auka lánastarfsemi sína verulega. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að sjóðnum verði aflað tekna með frekari lántökum en verið hefur að undanförnu, til þess að hann á þann hátt geti enn aukið starfsemina. Lánsupphæðina, sem var komin niður fyrir 50% af byggingarkostnaði, er gert ráð fyrir að hækka upp í allt að 90%, sem þó takmarkist við 300 þús. á íbúð. Og loks eru svo ákvæði um tekju- og eignahámark þeirra, sem fyrirgreiðslu geta notið eða fá að vera meðlimir í byggingarfélögunum. Þeim er breytt þannig, að skilyrði til þátttöku er miðað við 60 þús. kr., í staðinn fyrir 50 þús. áður, og 5 þús. kr. fyrir hvert barn, sem er óbreytt eins og áður var. En hins vegar er eignamarkið, sem var 50 þús. kr., hækkað upp í 150 þús. kr.

Ég held, að með þessu sé greint frá mestum hluta þeirra breyt., sem í frv. felast. Það eru nokkrar minni háttar breytingar, eins og hv. þdm. hafa sjálfsagt áttað sig á, en ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þær hverja fyrir sig, þær eru flestar minni háttar, en hitt aðalbreytingarnar, sem ég nefndi. Ég er ekki í vafa um það, að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá eykur það möguleika byggingarsjóðs verkamanna til þess að aðstoða einmitt þennan hóp manna, sem lægstar hefur tekjurnar og minnstar eignirnar, til þess að eignast þak yfir höfuðið. Og það er vissulega það, sem frv. stefnir að.