16.10.1961
Efri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. lauk sínu máli á því, að ríkisstj. yrði nú að viðurkenna, að varðandi 8% innflutningssöluskattinn hefði annaðhvort verið um meiri háttar reikningsskekkju að ræða eða uppi hafðar hreinar blekkingar. Hvor tveggja þessi fullyrðing hv. þm. er jafnstaðlaus. Hér var hvorki um að ræða nokkra reikningsskekkju né heldur hafðar í frammi nokkrar blekkingar. Ég skal í fáum orðum svara og þó í styttra máli en hv. þm. hafði hér örfáum meginatriðum hans máls.

Þess er þá fyrst að geta, að hann segir, að í grg. fjárlagafrv. fyrir 1960 hafi staðið þessi orð: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi“ — og því hafi það verið brigðmæli af hendi stjórnarinnar að flytja síðar á því þingi frv. um 8% viðbótarsöluskatt af innflutningi. Þetta mál liggur þannig fyrir, að þegar fjárlagafrv. var samið um áramót og í byrjun janúar, þá var ætlunin að afla þeirra tekna, sem þá var sýnt að á skorti, með söluskatti á smásölu, sem síðan var ákveðinn 3% söluskattur. Fyrir því standa þessi orð í grg., sem samin var um áramótin eða í byrjun janúar: „Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi“ — og það er rétt, að það var ekki áformað þá.

Þegar nokkrar vikur voru liðnar frá þeim tíma, að fjárlagafrv. var samið, og undirbúningur að frv. um söluskatt var vel á veg kominn, þá kom í ljós, að með smásöluskattinum einum væri ekki hægt að afla þeirra tekna, sem þurfti. Ástæðurnar hafa verið margraktar á þingi, m.a. í þessari hv. d., en þær voru í meginatriðum þrjár. Í fyrsta lagi var ákveðið að undanþiggja miklu meira þessum smásöluskatti en í öndverðu hafði verið ráðgert, og má segja, að langstærsti flokkurinn þar hafi verið öll mannvirkjagerð í landi hér. Það var ákveðið af ýmsum ástæðum að undanþiggja hana þessum skatti. Í annan stað var ekki unnt að láta þennan skatt, smásöluskattinn, ganga í gildi fyrr en þrír mánuðir voru liðnir af árinu, en fjárlagafrv. var samið og grg., eins og ég gat um, um áramót. Í þriðja lagi var ljóst, að smásöluskatturinn þyrfti að vera nokkru hærri en 3%, vafalaust 4–5%, ef ætti að ná þessari upphæð inn. Að athuguðum þessum þrem meginatriðum var ákveðið að bæta upp það, sem á skorti, með þessum 8% innflutningssöluskatti. Þetta er gangur málsins, sem hv. þm. þekkir ákaflega vel, því að hann hefur svo oft verið rakinn hér í þingi. Og það er ekkert rangt í því, sem segir í grg. fjárlagafrv. frá því í byrjun janúar, að þá var ekki áformað að leggja á þennan söluskatt. En við undirbúning og nánari athugun smásöluskattsins kemur það í ljós, að hann muni ekki nægja.

Í öðru lagi fullyrðir hv. þm., — og ég verð að segja, að ég er undrandi á þeirri fullyrðingu, — hann fullyrðir, að við umr. um söluskattsfrv. hafi ríkisstj. gefið eindregið fyrirheit um að framlengja ekki þennan 8% innflutningssöluskatt fram yfir árið 1960 eða lengur en til ársloka 1960. Mér er óskiljanlegt, hvernig hv. þm. leyfir sér að slá fram svona fullyrðingu, því að hún er með öllu ósönn. Þvert á móti, í umr. um það mál og margsinnis tók ég það skýrt og skorinort fram, að þó að nú væri aðeins ákveðið um gildi þessa innflutningssöluskatts fyrir árið 1960, þá lægi í því ekki neitt minnsta fyrirheit um það, að hann yrði ekki framlengdur, það mál þyrfti að skoða um haustið, þegar fjárlög yrðu samin, og það væri ekkert um það hægt að fullyrða fyrr en í sambandi við afgreiðslu fjárlaga þá í árslokin, hvort það væri rétt eða óhjákvæmilegt að framlengja þennan innflutningssöluskatt eða ekki. Ég minnist þess vel, og þessi ummæli og önnur slík standa víðar en á einum stað í umr. á þingi, því að ég einmitt tók þetta skýrt fram hvað eftir annað, bæði í sameinuðu þingi og hv. Nd. og þessari hv. deild.

Ég veit ekki, hvort hv. þm. vill ganga svo langt að túlka það, að þegar skattur er kallaður bráðabirgðaskattur og gildi hans miðað við eitt ár, felist í því loforð um að framlengja ekki skattinn. Ef þessi er skilningur hv. þm., þá fer að verða litið úr orðheldni formanns þingflokks hans, hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, því að enginn maður hefur oftar og lengur lagt fram frumvörp hér á Alþ. ár eftir ár um bráðabirgðaskatta, sem eru bundnir við eitt ár og koma svo á næsta ári og eru framlengdir þá. Ef hv. þm. vill viðhafa þennan skilning, sem ég skal ekkert fullyrða um, þá hittir það fyrst og fremst fyrir aðra en núv. ríkisstj.

En loks kem ég að því, sem hv. þm. gerði að einu meginatriði sinnar ræðu. Hann segir: Þar sem hér liggur fyrir frv., sem lagt hefur verið fram ár eftir ár, um bráðabirgðabreytingu og framlengingu ýmissa gjalda og gjaldaviðauka, og fyrst söluskatturinn er nú settur inn í þetta frv., þá þýðir það, að með því er verið að ákveða varanlegt frambúðargildi hans. — Ég hefði nú ætlað, að ef ætti að ákveða þessum innflutningssöluskatti varanlegt frambúðargildi, væri eðlilegast að flytja frv. um, að hann skuli gilda áfram ótiltekinn tíma, án tímamarks. En ég verð að segja, að mér finnst sú ályktun harla skringileg, að þegar sett er inn ákvæði um, að hann skuli gilda árið 1962, og það er sett inn í frv. um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga til eins árs, að hér sé verið að ákveða honum varanlegt frambúðargildi. Þetta held ég að sé ákaflega mikill misskilningur. Ég vil einnig taka það fram, að því fer fjarri, að þessum innflutningssöluskatti sé ætlað varanlegt frambúðargildi. Ég hef margsinnis lýst því yfir hér á Alþingi og minntist á það hér í frumræðu minni, að að því er stefnt að sameina öll aðflutningsgjöld helzt í eitt gjald eða sem allra fæst í einni tollskrá. Nú eru þessi aðflutningsgjöld mjög mörg og flókin og undanfarinn áratug á flestum þingum verið samþykkt einhver ný aðflutningsgjöld með einhverju heiti eða viðaukar. Við höfum vörumagnstoll, við höfum verðtoll, við höfum verðtollsviðauka, við höfum innflutningsgjald, við höfum innflutningssöluskatt, við höfum viðauka á hin og þessi gjöld, við höfum tollstöðvagjald og svona mætti lengi telja. Að því er unnið með samningu hinnar nýju tollskrár að sameina þessi gjöld í eitt, og innflutningssöluskattur sá, sem nú er í gildi, verður auðvitað tekinn þar með. Von mín er sú, að þegar hin nýja tollskrá kemur, geti hin samanlögðu aðflutningsgjöld lækkað og lækkað verulega frá því, sem þau eru nú.

Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði úr þessu sögulega yfirliti hv. þm., sem ég þarf að gera að umtalsefni. En ég vænti þess, að með þessum orðum hafi það komið skýrt fram í fyrsta lagi, að því fer fjarri, að fyrirheit hafi verið gefið um að framlengja ekki þennan skatt. Þvert á móti, ég hef margsinnis á Alþingi tekið það fram, að svo væri ekki, um það yrði að ákveða í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Og í annan stað er ætlunin sú í sambandi við endurskoðun tollskrárinnar að sameina þar í eitt öll þau gjöld, sem nú eru á innflutningi til landsins, og vonir standa til, enda full nauðsyn á því að lækka þau frá því, sem nú er, því að Ísland býr nú við hærri aðflutningsgjöld en nokkurt annað land í Vestur-Evrópu.