23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að láta það koma fram við þessa umr., að ég tel miður farið, að hv. nefnd hefur ekki tekið til greina tvær tillögur til breytinga á frv., sem koma fram í því bréfi, sem henni hefur borizt frá stjórn Félags íslenzkra fræða.

Önnur þessi till. fjallar um það, hvernig stjórn stofnunarinnar skuli skipuð. Samkv. frv. eiga sæti í stjórn stofnunarinnar þrír prófessorar við Háskóla Íslands, kosnir af háskólaráði til fjögurra ára í senn, landsbókavörður, þjóðskjalavörður, þjóðminjavörður og forstöðumaður stofnunarinnar, eða sjö embættismenn. Stjórn Félags íslenzkra fræða leggur til, að til viðbótar verði skipaður í stjórnina fulltrúi frá því félagi. Ég held, að þessi tili. sé á fullum rökum byggð, vegna þess að hún mundi tryggja fleiri aðilum aðild að stjórninni og hér einmitt þeim aðila, sem e.t.v. væri líklegastur til að leggja eitthvað nýtt af mörkum. Það vill nú verða svo, að í stjórnum félaga eða stofnana, sem eru bundnar við embættismenn, starfi lengi sömu mennirnir og það geti þess vegna skapazt eins konar kyrrstaða hjá slíkri stjórn. Mér finnst meiri trygging fyrir því, að svo verði ekki, ef félag fræðimanna, þar sem ætla má að ungir menn láti alltaf meira og minna til sín taka, fær fulltrúa í stjórnina. Slíkur félagsskapur væri líklegur til að tilnefna í stjórn stofnunarinnar menn, sem gætu að einhverju leyti komið þar inn með lífgandi sjónarmið. Ég tel þess vegna, að það væri heppilegt, að Þessi till. frá Félagi íslenzkra fræða væri tekin til greina, og vil nú vænta þess, að hv. nefnd íhugi þetta betur fyrir 3. umr. málsins hér í deildinni.

Annað atriðið í bréfi Félags íslenzkra fræða, sem mér finnst miður að hv. nefnd hefur ekki tekið til greina, er tillagan um nafn stofnunarinnar. Félag íslenzkra fræða leggur til, að nafni stofnunarinnar verði breytt, þannig að hún verði kölluð Stofnun Jóns Sigurðssonar í stað Þess að vera kölluð Handritastofnun Íslands. Undir þessa tillögu um breytingu á nafni stofnunarinnar hefur heimspekideild háskólans, sem þetta mál snertir alveg sérstaklega, tekið og leggur einnig til, að nafninu verði breytt, þannig að stofnunin verði kölluð Stofnun Jóns Sigurðssonar. Þannig eru bæði heimspekideild háskólans og Félag íslenzkra fræða sammála um þessa nafnbreytingu. Þriðji aðilinn, sem um þetta hefur verið spurður, háskólaráð, tekur hins vegar fram í bréfi, sem það hefur sent nefndinni, að það telji heiti stofnunarinnar ekki vera neitt aðalatriði, og virðist þar af leiðandi ekki leggja neina sérstaka áherzlu á, að þessu nafni, Handritastofnun Íslands, verði haldið.

Ástæðurnar til þess, að ég kann betur við þetta nafn, sem Félag íslenzkra fræða bendir á, eru þær sömu og fram koma í bréfi félagsins, sem fylgir nál., að mér finnst nafnið Handritastofnun Íslands vera of þröngt. Mér finnst það fyrst og fremst benda á, að hér sé um að ræða stofnun, sem hafi handritageymslu og þjóðminjavörzlu með höndum, þetta sé fyrst og fremst safnstofnun. En það, sem ég tel að eigi að vera aðalverkefni þessarar stofnunar, eru vísindalegar rannsóknir, og ég er sammála Félagi íslenzkra fræða um það, að ef við viljum vekja athygli með nafni stofnunarinnar á þessu sérstaka verkefni hennar, að fást við vísindalegar rannsóknir, þá verður það ekki gert betur á annan hátt en láta stofnunina bera nafn Jóns Sigurðssonar, því að eins og fram kemur í bréfi Félags íslenzkra fræða, þá er hann án efa einn allra mesti vísindamaður, sem Þjóðin hefur átt á þessu sviði. Þar við bætist, að í þeirri merku stjórnmálabaráttu, sem hann háði, sótti hann ekki sízt rökin til hinnar miklu sögulegu þekkingar sinnar. Ekki sízt af þeim ástæðum finnst mér rétt að halda nafni hans uppi með því að tengja það við þessa stofnun.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar að sinni. Ég hef ekki borið fram neinar brtt. enn í þessa átt, en ég vil hins vegar vænta þess, að hv. nefnd taki þessi atriði til frekari athugunar fyrir 3. umr., og vænti þá, að nánari athugun hennar á þessu leiði til þess, að hún fallist á þessar breytingar, sem Félag Íslenzkra fræða hefur lagt til að gerðar verði á frv.

Í sambandi við það, sem hér hefur verið rætt um fjárráð stofnunarinnar, þá vil ég taka undir það, að ég álít, að henni sé allt of þröngur stakkur skorinn með þeirri fjárveitingu, sem nú er veitt til hennar á fjárlögum, en ég sætti mig hins vegar einnig við þá yfirlýsingu frá hæstv. menntmrh., að þetta mál verði tekið til nánari athugunar, þegar búið er að skipa stjórn stofnunarinnar.