03.04.1962
Efri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið hingað til hv. Ed. frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ., og skal ég leyfa mér að gera lítils háttar grein fyrir því.

Eins og kunnugt er og öllum hv. þdm. a.m.k. er kunnugt, hafa togveiðar íslenzkra togara verið um langt skeið ein aðaluppistaða sjávarútvegs íslendinga. Þessar veiðar hófust á fyrsta tug aldarinnar og gengu yfirleitt mjög vel í upphafi og lengi fram eftir, þannig að togveiðarnar urðu á vissan hátt undirstaða undir efnahagsþróun í landinu og gáfu bæði eigendum togaranna og öllum almenningi, sem atvinnu hafði í sambandi við þá, mjög góðar tekjur. Þetta hefur breytzt á síðustu árum. Það breyttist verulega á kreppuárunum á fjórða tug aldarinnar, þegar afurðaverðmætið féll svo í verði, að það var mjög erfitt fyrir togarana að halda starfsemi sinni áfram aðstoðarlaust, eins og þá var og með því afurðaverði, sem þá almennt var. Á styrjaldarárunum breyttist þetta aftur, og togaraeigendur högnuðust þá vel á þessum atvinnurekstri. En síðan hefur sigið á ógæfuhlið, má segja, og alveg keyrt um þverbak nú síðustu árin.

Versnandi afkoma síðustu ára er að langsamlega mestu leyti, vil ég fullyrða, vegna þess, hve afli skipanna hefur rýrnað. Að vísu er ekki allt sagt með því að geta heildarafla togaranna, en þó gefur það veigamikla vísbendingu um, hvert stefnir, og skal ég þess vegna leyfa mér að rekja hér, hvernig heildarafli togaraflotans hefur breytzt frá 1958, sem að vísu var metár í sögu togaranna, vegna nýrra, fjarlægra miða, ágætra, sem þá voru tekin í notkun, og til þessa dags. 1958 var afli togaranna hátt í 200 eða rétt um 200 þús. tonn. 1959 er hann kominn niður í 156 þús. tonn, 1960 niður í 113 þús. tonn, og á árinu 1961 hefur hann orðið rúmlega 70 þús. tonn, eða rétt rúmur þriðjungur af Því, sem hann var 1958.

Það er náttúrlega ýmislegt fleira, sem kemur til greina, sem athuga þarf, þegar bera á saman aflabrögðin, heldur en heildaraflinn, eins og t.d. úthaldsdagar og hvers konar veiðar stundaðar eru, hvort þær eru stundaðar fyrir heimamarkað eða siglt með aflann til útlanda, og verður að taka nokkurt tillit til þess, þegar heildarsamanburður er gerður. En þessar brúttótölur um aflamagnið segja þó sína sögu. Það er enginn vafi á því, að síðan fiskveiðimörkin voru færð út, eins og gert hefur verið og alveg sérstaklega á árinu 1958, hefur það haft mjög mikil áhrif á aflabrögðin, þannig að togaraskipstjórar fullyrða, að þeir hafi með útfærslu markanna misst mörg af sínum beztu veiðisvæðum og það hafi fyrst og fremst orðið orsök til þess, að veiðimagnið hefur minnkað eins og raun er á. En það þarf líka að bæta því við, að í nál., sem n. ein gaf frá sér á árinu sem leið, sem sett var til að athuga rekstur og afkomu togaranna, var talið, að togararnir mundu geta bjargazt styrkjalítið eða styrkjalaust í framtíðinni, ef þeim væru gefin aftur svæðin, sem af þeim voru tekin með útfærslu fiskveiðimarkanna.

En fleira kemur til, sem hefur orðið til Þess, að afkoma togaranna hefur orðið upp á síðkastið eins léleg og raun ber vitni. Ég vil þá fyrst telja til það, að togurunum var strax 1951 og 1952 og allar götur fram til 1958 skammtað minna verð fyrir sinn fisk en öðrum skipum, og hefur sá verðmismunur, sem togararnir urðu að búa við á sínum fiski og bátafiskinum, verið metinn til margra milljóna króna á skip. Ég hef í þessu sambandi heyrt nefndar 5.6 millj. kr., en skal ekki fullyrða, hvort sú tala er nákvæm, en allnærri lagi mun hún þó vera, að ég ætla. Gefur að skilja, að þetta hefur orðið til þess að draga mjög úr möguleikum þessa atvinnuvegar til að standa undir Þeim áföllum, sem hann nú verður fyrir. í öðru lagi hefur togaraútgerðin verið útilokuð frá einum sínum bezta markaði um langt bil, þ.e.a.s. brezka markaðinum, vegna þess að löndunarbann hefur verið á íslenzkum fiski í Bretlandi á árunum frá 1952 og fram til 1956 og aftur nú síðar, eftir að síðari útfærslan fór fram.

Allt þetta hefur orðið til þess, að afkoma þessa atvinnuvegar hefur orðið hin síðustu ár mjög rýr, og tapið á árunum 1960 og 1961, sem sérstaklega hefur verið skoðað, nemur á báðum þessum árum á milli 3 og 4 millj. kr. á skip, eftir því sem upplýst hefur verið, eftir að afkoma og reikningar togarafélaganna ýmissa hefur verið athugað.

Það er því alveg sýnilegt, að það þarf eitthvað að gera, til Þess að atvinnureksturinn geti haldið áfram, ef Það á ekki að hverfa að því að leggja hann niður. Mönnum hefur orðið að hugsa, Þegar togaraútgerðin hefur verið rekin með slíku tapi, sem ég hef nú skýrt frá, hvort ekki væri þá tími til kominn að segja alveg skilið við þessa veiðiaðferð og reyna að venda sínu kvæði í kross og hugsa aðeins um veiði á bátum. En það hafa allir, held ég, sem um þessi mál hafa hugsað, kveinkað sér við að hugsa þá hugsun til enda, að togararnir yrðu varanlega afskrifaðir úr íslenzkum atvinnurekstri, til þess hafa þeir flutt of mikla björg í bú. Og þó að tímabundið aflaleysi hafi þjáð þá að undanförnu, þá er engin ástæða til að ætla, að það verði varanlegt. Þess vegna hafa allir, sem um þessi mál hafa fjallað, gert ráð fyrir því, að þessum atvinnuvegi yrði haldið áfram og að honum yrði þá veittur nokkur stuðningur til þess að mæta þeim töpum, sem hann hefur orðið fyrir, eða réttara sagt hluta af þeim töpum.

Það hefur að vísu frá togaraeigendum sjálfum borizt sú ósk, að þeir fengju á ný aðgang að þeim veiðisvæðum, sem voru af þeim tekin með útfærslu fiskveiðimarkanna. En sú hugsun hefur ekki fengið hljómgrunn, hvorki hjá almenningi né ríkisstj., og ríkisstj. hefur ekki á prjónunum neina ráðagerð um Það, að sá háttur verði tekinn upp að nýju. Togaraeigendur hafa að vísu það til málsbóta fyrir þessari ósk sinni, að fiskifræðingar okkar hafa látið í ljós þá skoðun, að það þyrfti ekki að valda neinu úrslitatjóni, þó að togurunum yrði hleypt inn fyrir núverandi fiskveiðimörk. En sem sagt, sú leið hefur verið afskrifuð, a.m.k. í bili, og þá er ekki um annað að ræða en reyna að bæta þeim Það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir.

Þetta er ekki einsdæmi hjá okkur. Aðrar fiskveiðiþjóðir, sem gera út togara, hafa farið sömu leið, t.d. veita Bretar nú talsvert mikinn styrk til þeirra togara, sem gerðir eru út á fjarlæg mið til þess að bæta þeim upp það, sem þeir hafa misst við útfærslu fiskveiðimarkanna. Þessi uppbót Breta nemur, að mér er tjáð, 17 sterlingspundum á hvern úthaldsdag, og Það er allmikil fjárfúlga á hvert skip. Þýzkir togaraeigendur hafa farið fram á það við sína ríkisstj., að hún styrkti líka togaraútgerð þeirra, og án Þess að ég viti, hver niðurstaðan hefur orðið, þá virðist mér fastlega mega gera ráð fyrir því, að þýzka ríkisstj. muni einnig veita sínum togurum einhverja aðstoð, svipaða því, sem Bretar þurfa að gera.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til. að þessi aðstoð við togarana verði veitt á þann hátt, að þeim verði veitt aðild að hinum gamla hlutatryggingasjóði sjávarútvegsins, breytt nafni á honum og hann kallaður aflatryggingasjóður, og þar með, að nokkrum öðrum ákvæðum í gömlu hlutatryggingasjóðslögunum verði breytt, og lögin endurskoðuð af þessu tilefni, en þó ekki meira en svo, að segja má, að sú endurskoðun sé sjálfsagt ekki fullnægjandi, heldur verði þar síðar reynt að betrumbæta. En hlutatryggingasjóðurinn, sem stofnaður var fyrir 12 eða 13 árum með lögum hér á Alþ., hefur á undanförnum árum getað veitt Þeim bátum, sem tryggðir eru í honum, mjög verulega aðstoð, þegar aflaskortur hefur orðið hjá þeim, og forðað þeim frá því að lenda í vandræðum af þeim sökum. En aðalhugsunin í gömlu hlutatryggingasjóðslögunum var sú, að þegar meðalveiði á einhverjum stað eða einhverju veiðisvæði færi niður fyrir 75% af meðalveiði nokkurra ára, þá kæmi til aðstoð frá honum, og þeim mun meiri, eftir því sem aflinn yrði minni hjá hinum ýmsu bátum á svæðinu.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að togurunum verði bætt við og að ný deild, jöfnunardeild, verði einnig stofnuð. Í gömlu hlutatryggingasjóðslögunum er gert ráð fyrir tveim deildum, síldveiðideild og hinni almennu deild, sem hafa starfað nokkuð sjálfstætt, þó þannig, að önnur deildin hefur jafnan aðstoðað hina, þegar hún hefur lent í kröggum og ekki getað staðið við sínar skuldbindingar. Þá hefur sú deildin, sem betur mátti, veitt hinni lán, til þess að hún gæti staðið við skuldbindingar sínar, og síðan hefur það verið endurgreitt, þegar sú deild, sem á aðstoðinni þurfti að halda, hefur orðið þess megnug.

Nú er bætt við Þriðju deildinni, Þ.e.a.s. togaradeildinni, og einnig jöfnunardeild, sem á að vera til aðstoðar, þegar einhver hinna deildanna á í erfiðleikum, og getur hún veitt sina fyrirgreiðslu bæði sem lán og styrk. Annars er hugsað, að aðstoðin til togaranna komi til framkvæmda, þegar heildarveiðin fer niður fyrir 85% af meðalveiði undanfarinna ára, og er það nokkru hærri prósenta en hefur verið í gildi fyrir bátana. Nokkrum hluta af gjaldinu til aflatryggingasjóðs er þess vegna ráðstafað til jöfnunarsjóðsins, en nokkrum hluta til hinna ýmsu deilda.

Gjaldið til hlutatryggingasjóðs áður var 1/2% af útflutningsverðmæti sjávarafurða, nema síldarafurða, þar var gjaldið 3/4%, vegna þess að tekjuþörf síldveiðideildar óx meira en hinnar almennu deildar, Þar sem aflatregða undanfarinna margra ára á síldveiðum hefur orðið það mikil, að síldveiðideildin hefur orðið að leita á náðir hinnar almennu deildar til þess að geta staðið við sínar skuldbindingar. Þessi gjöld hafa nú verið hækkuð upp 11/4% og framlag ríkissjóðs hækkað upp í helminginn af þeirri upphæð. Með 2800 millj. kr. útflutningsverðmæti má gera ráð fyrir því, að 1/4% gefi í árlegar tekjur 35 millj. kr. í sjóðinn og ríkissjóður þurfi þá að leggja á móti helming þeirrar upphæðar, eða 17.5 millj. kr., sem þýðir um 9 millj. kr. hækkun frá því, sem hann nú leggur fram.

Þegar þetta gjald var fyrst ákveðið í brbl. um ráðstafanir vegna gengisbreyt. á árinu sem leið, var ekki gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs hækkaði frá því, sem það var í kr. En við meðferð málsins hefur verið á það fallizt, að framlag ríkissjóðs verði hækkað upp í helminginn af 11/4% útflutningsgjaldinu, eða 171/2 millj. kr., sem áætlað er að það muni verða, sem þýðir 9 millj. kr. hækkun á ári úr ríkissjóði.

Skv. þessu á að veita bætur til togaranna fyrir árið 1961. En til þess að bjarga árinu 1960 er í frv. lagt til, að ríkissjóður leggi fram sem óafturkræft framlag til togaradeildarinnar um 30 millj. kr., sem greiðast á allmörgum árum, og verður þá ríkissjóður væntanlega að leggja fram sem svarar vöxtum af þeirri upphæð, sem hann skuldar af því framlagi á hverjum tíma. Þetta er stofnfé togaradeildar og verður grundvöllurinn fyrir starfsemi hennar.

Auk þess kemur svo árið 1961 og framlag þess árs, sem verður úthlutað eftir venjulegum reglum sjóðsins. En úthlutunin fyrir árið 1960 er lögð á vald sjóðsstjórnarinnar og ríkisstj., og getur hún þá eða þær ákveðið, hvaða háttur verður hafður á um þá skiptingu.

Það hefur komið fram nokkur gagnrýni á því að upp skyldi vera tekinn sami háttur á greiðslum til togaranna fyrir árið 1961 og nú gildir fyrir bátaflotann, þ.e.a.s. að þeir fái mesta aðstoðina, sem minnst hafa aflað. Það hefur verið talið, að þetta gæti dregið úr áhuga manna á að stunda veiðarnar á venjulegan hátt í trausti þess, að þeir mundu fá það bætt, sem þá vantaði. En í fyrsta lagi er nú það að segja, að þeir fá langt í frá bætt að fullu það, sem þá vantar, þó að þeir fái nokkuð upp í það, og svo eins hitt, að ég held, að engum íslenzkum sjómanni detti í hug að draga sig í hlé, þó að hann eigi von í því að fá eitthvað meiri uppbætur, eftir því sem hans veiði er minni. Veiðiskapur er nú einu sinni svo, að það getur verið af ýmsum orsökum, sem hann verður mismunandi. Og engum efa er það undirorpið, að þeim, sem minnst bera úr býtum af sínum veiðiskap, hlýtur náttúrlega að vera þörf á mestri aðstoð.

Hins vegar hefur það verið látið vera opið, hvernig haga skuli skiptingu aðstoðarinnar fyrir árið 1960, og var með þessum hætti reynt að fara bil beggja.

Heildarupphæð aðstoðarinnar verður með þessu móti 30 millj. kr. fyrir árið 1960, hreint og klárt úr ríkissjóði, og önnur upphæð fyrir árið 1961, sem að dómi þeirra, sem frv. hafa samið og bezt þekkja til þessara mála, er talið að muni nema svipaðri upphæð, miðað við aflabrögðin á því ári.

Það hefur verið gagnrýnt líka, að með þessum hætti væru lagðar nokkrar byrðar á bátaútveginn. Það er að vísu rétt, að eins og nú árar, þá lítur út fyrir, að jöfnunarsjóður hljóti að koma til þess að jafna metin. En ég vil í því sambandi benda á, að framlag ríkissjóðsins hefur verið hækkað mjög verulega, eða eins og ég sagði áðan um 9 millj. kr. á ári, og ætti það að geta borið uppi ásamt með framlögum togaraflotans mjög verulegan hluta af þeim kostnaði, sem jöfnunarsjóðurinn verður að hafa af togaradeildinni, á meðan fjárhagsástand togaraútvegsins og aflabrögð eru slík eins og þau hafa verið að undanförnu.

Yfirleitt ber mönnum saman um, að það sé nauðsynlegt að aðstoða togarana, veita þeim einhverja fjárhagslega aðstoð til þess að geta haldið sínum rekstri áfram. En síðan hefur leiðir skilið og ýmsir haldið því fram, að þetta ætti ekki að gerast að neinu leyti á kostnað bátaflotans, heldur væri verkefni ríkissjóðs eins að standa undir þeirri fjárhagsaðstoð, sem togurunum væri veitt. Ég held hins vegar, að þegar uppbygging þessa aðstoðarkerfis eða tryggingakerfis, sem ég vil frekar kalla það, er slík eins og hún er í frv., þá sé ekki ósanngjarnt, að einn styðji annan, — þegar erfiðleika ber að höndum, þá greiði bátaútvegurinn einhvern lítinn hlut af því, sem togararnir þurfa á að halda. Sá tími kann að koma í framtíðinni, að þetta snúist við og togaraútvegurinn verði þess megnugur að greiða aðstoð til bátanna, ef þeir kynnu að þurfa á því að halda. Um þetta er aldrei hægt að segja, og þess vegna finnst mér, að sá, sem betur stendur að vígi, megi gjarnan rétta hinum veikari hjálparhönd, ef hann á í erfiðleikum í bili, í þeirri von og veru, að sá, sem nú er veikari, kynni kannske eftir nokkur ár að verða sterkari.

Það hefur líka verið bent á í þessu sambandi, að togaraútgerðin hefur vissulega lagt af mörkum mjög mikið fé til bátaútvegsins með framlagi sínu í fiskveiðasjóð á undanförnum árum. Togararnir hafa greitt af útfluttum sjávarafurðum á undanförnum árum 2% af andvirði útfluttra sjávarafurða, sem runnið hafa í fiskveiðasjóð, en hins vegar hafa togararnir litið sem ekkert notið fyrirgreiðslu af hálfu sjóðsins, þannig að segja má, að hér hafi togararnir lagt sitt lóð í vogarskálina fyrir bátana og veitt þá aðstoð við starfsemi fiskveiðasjóðsins, sem hefur komið bátaútveginum að mjög góðum notum. Það kom fram í nál. meiri hl. í hv. Nd. eða ræðu frsm. meiri hl., að þessi upphæð, sem togaraflotinn hefði frá upphafi lagt í fiskveiðasjóðinn án þess að fá neitt verulegt í staðinn, mundi nú nema um eða yfir 100 millj. kr., þannig að Það er vissulega engin smáupphæð, sem togaraflotinn hefur lagt fram til aðstoðar við bátana, og mætti því sýnast, að m.a. af Þeim orsökum ætti ekki að vera goðgá, þó að lítils háttar kæmi úr jöfnunarsjóði til togaraútgerðarinnar.

Þetta frv. um breyt. á hlutatryggingasjóðslögunum er fyrst og fremst og ég vil segja aðallega borið fram vegna togaraaðstoðarinnar. Það hefur áður verið á það minnzt, að hlutatryggingasjóðslögin þyrftu endurskoðunar við, og það hefur verið gert lítils háttar í sambandi við samningu þessa frv. En það má e.t.v. segja, eins og ég held að ég hafi orðað áður, að þessa endurskoðun þyrfti að betrumbæta með hliðsjón af þeim umkvörtunum, sem um hlutatryggingalögin almennt höfðu borizt áður. En þó skal ég segja það, að um samningu þessa frv. hafa fjallað þeir menn, starfsmenn Fiskifélags Íslands, sem með afgreiðslu hlutatryggingasjóðs hafa haft að gera og þekkja þess vegna bezt allra manna til þessara mála. Með þessari fyrirgreiðslu til togaranna er ætlað, að veittar verði bæði úr ríkissjóði, úr togaradeild og úr jöfnunardeild samtals fyrir bæði árin 1960 og 1961 í kringum 60 millj. kr. Þar við bætist svo sú aðstoð, sem togararnir hafa fengið á þann hátt, að af útflutningsgjaldinu er nú greitt vátryggingariðgjald þeirra, sem hefur verið talið munu nema svipaðri upphæð, þannig að allt í allt munu til togaranna renna sem bætur fyrir Þessi tvö ár, 1960 og 1961, um Það bil 3 millj. kr. á hvern togara, sem út hefur verið gerður.

Ég tel, að með þessu sé mjög veigamiklum stoðum skotið undir þennan rekstur og að Þeirra aðstaða verði að mun betri en hún var áður með þessu, enda kom það fram í nál. n. þeirrar, sem athugaði hag og rekstur togaranna á s.l. ári, að þeir áætluðu, að á hvern togara þyrfti í kringum 3 millj. kr. fyrir Það, sem liðið er, og síðan bætur fyrir það aflatjón, sem þeir kynnu að verða fyrir á næstu árum.

Það hefur nokkuð í hv. Nd. blandazt inn í þetta mál lausn þeirrar deilu, sem nú stendur yfir milli togaraeigenda og sjómannasamtakanna. Slík deila eins og þessi getur náttúrlega alltaf skotið upp kollinum og tekið sinn tíma að ná endunum þar saman. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er á engan hátt miðað við lausn þeirrar deilu, heldur eingöngu miðað við að bæta togurunum það aflatjón, sem þeir hafa orðið fyrir á árunum 1960 og 1961. Ég var spurður að því þar, hvort þessi fyrirgreiðsla til togaranna mundi nægja, til þess að samningar gætu tekizt á milli aðila og rekstur togaranna hafizt á ný. Um það get ég vitanlega ekkert fullyrt, vegna þess að mér er á þessu stigi málsins algerlega ókunnugt, um hvað samningar muni geta tekizt og hvað muni til þess þurfa. Sérstaklega er erfitt um þetta að segja vegna þess, að ég veit ekki neinn atvinnurekanda nú um langt árabil, sem hefur átt eins erfitt með að mæta óskum um hækkuð laun og einmitt togaraeigendur vegna þeirra áfalla, sem þeir hafa orðið fyrir á liðnum árum, og vegna hins sýnilega áframhaldandi rekstrarhalla, ef ekki rætist úr með aflann. Ég get þess vegna á þessu stigi á engan hátt sagt um það, hvernig um lausn þessarar vinnudeilu muni fara, enda er þetta frv. samið áður en til hennar kom og miðað við að leysa allt annan vanda en þann.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að fara um þetta mál fleiri orðum. Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að málinu yrði að umr. lokinni vísað til hv. sjútvn. og meðferð málsins í n. hraðað, eftir því sem föng eru á.