12.02.1962
Efri deild: 45. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Þjóðin hefur tvímælalaust mikla þörf fyrir heiðarlega skattalöggjöf, sem byggist annars vegar á sanngjörnum skattaálögum og hins vegar á traustu eftirliti með skattframtölum og sem öruggustum vörnum gegn skattsvikum. Frv. það til skattalaga, sem hér er til umr., er án efa stórt skref í þessa átt. Óhóflega þungar skattaálögur leiða alltaf til almennra skattsvika. Því hlýtur skattalöggjöf, sem reist er á slíkum grunni, að vera pappírsgagn eitt að meira eða minna leyti. En þannig hefur þessu verið farið um skattalöggjöf okkar um langa hríð. Beinir skattar eiga að mínum dómi að grundvallast á réttlátri skiptingu byrðanna eftir tekjum og efnahag gjaldenda. En þeir mega aldrei vera svo háir, að þeir ýmist hvetji menn almennt til að svíkja fé undan skatti ellegar þeir á hinn bóginn dragi úr vilja einstaklinga og atvinnufyrirtækja til að vinna og framleiða og afla sér tekna.

Umbætur þær á tekju- og eignarskatti, sem núv. ríkisstj. berst fyrir, eru framkvæmdar í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn var hin mikla lækkun á tekjuskatti einstaklinga, er samþ. var á Alþ. árið 1960. Síðari áfanginn er frv. það, sem hér liggur fyrir. í frv. felst lækkun á tekjuskatti atvinnufyrirtækja, hvort sem um hlutafélög eða samvinnufélög er að ræða, um 1/3 hluta. Auk þess eru í frv. ýmsar ívilnanir til einstaklinga, svo sem aukinn fiskimannafrádráttur, frádráttur vegna námsskulda, frádráttur vegna kaupa á vísindaritum o.fl. Þessi auknu hlunnindi mundu þó hafa víðtækara gildi en gagnvart tekjuskattinum einum, því að einstaklingar munu væntanlega einnig njóta þeirra við álagningu útsvara.

Þau nýmæli frv., sem ég tel einna þýðingarmest, eru hinar nýju reglur um framkvæmdaskipan skattamálanna. Skattanefndir og yfirskattanefndir eru lagðar niður og landinu öllu skipt í fá, en stór skattstjóraumdæmi, sem eru sniðin eftir kjördæmaskipaninni. Gerðar eru sérstakar kröfur til skattstjóranna um menntun og hæfni til að komast hjá því, sem áður tíðkaðist allmikið, að menn, sem hvorki höfðu þekkingu né reynslu í skattamálum, væru skipaðir skattstjórar. Sett er á stofn embætti ríkisskattstjóra til að hafa eftirlit með störfum skattstjóranna og vera þeim til leiðbeiningar, jafnframt því sem ríkisskattstjóri skal sjá um, að sem bezt samræmi sé í skattaákvörðun hvarvetna á landinu. Ríkisskattstjóri skal fá í sínar hendur öll framtöl og allar skattskrár, og hann getur af sjálfsdáðum rannsakað hvert það atriði, sem framkvæmd l. varðar, breytt ákvörðunum skattstjóra og lagt málið fyrir ríkisskattanefnd. Allt Þetta á að tryggja betur en áður réttlæti og festu í framkvæmd skattaálagningar, betri framtöl og minni skattsvik, og þessara atriða verða sveitarfélögin einnig aðnjótandi í sambandi við álagningu og niðurjöfnun útsvara.

Þá tel ég rétt að velja athygli sérstaklega á ákvæðum 42. gr. frv., en þar eru þau nýmæli, að skattþegnum sé heimilt að flytja mál sín fyrir ríkisskattanefnd og að úrskurðir ríkisskattanefndarinnar skuli vera rökstuddir. Í þessu er fólgin mikil trygging fyrir skattgjaldendur.

Þegar meta skal, hvað beinir skattar á atvinnufyrirtæki skuli vera háir, er vissulega úr vöndu að ráða og skoðanir manna á því ærið skiptar. En með beinum sköttum á ég hér við tekjuskatt og útsvör, þar með talin veltuútsvör. Ég veit ekki til, að athugun hafi farið fram á því, hve mikill hluti af skattskyldum tekjum atvinnufyrirtækja í landinu sé tekinn af þeim í beinum sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Auðvitað er þessi hluti mjög misjafn hjá hinum einstöku atvinnufyrirtækjum, og veldur því fyrst og fremst veltuútsvarið, að það kemur misjafnlega niður. Af lauslegri athugun þykir mér sennilegt, að af atvinnufyrirtækjunum sé að meðaltali tekið nálægt því 75% í beina skatta af skattskyldum tekjum þeirra. En þetta er þó lausleg athugun, vil ég taka fram, enda þarf ekki í báðum tilfellum að vera um alveg sambærilega tekjustofna eða sömu skattskyldar tekjur að ræða, þannig að þetta getur aldrei orðið mjög nákvæmt. En svona miklar skattaálögur, 75%, tel ég að allir sanngjarnir menn álíti hvort tveggja í senn vera óskynsamlegar og of þungar. Samþykkt þessa frv. þýðir, að hlutfallið mundi lækka úr 75% í 70%, svo að enginn getur haldið því fram, að hér sé um stórfellda lækkun að ræða. Meginákvörðun um, hvert þetta hlutfall skuli vera á næstu árum, hlýtur fyrst og fremst að verða tekin við afgreiðslu frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem væntanlega verður lagt fyrir Alþ. á næstunni. Í sambandi við þá lækkun, skattalækkun, beinu lækkun, sem felst í þessu frv., ber einnig að hafa í huga hinar nýju fyrningarreglur. Þær koma til með að lækka skattskyldu tekjurnar eitthvað.

Þau atriði frv., sem ég vildi gera nokkrar aths. við, eru sérstaklega 38. gr. frv. og kaflinn um refsiákvæði. Ég álít, að það væri farsælt að koma á þeirri reglu, að menn bæru ábyrgð á sínum skattframtölum, en ekki eins og verið hefur og er lítið breytt í þessu frv., að menn geta talið ónákvæmlega fram, tortryggilega eða rangt og án þess í raun og veru að eiga neitt á hættu. Ef upp kemst og þeir eru kallaðir fyrir á skattstofu til þess að gefa upplýsingar eða skýringar og þeir játa þar á sig, að það vanti eitthvað á framtalið, þá mun það vera í mörgum tilfellum svo, að þessu er bætt inn þegjandi og hljóðalaust, án þess að um nokkur viðurlög sé að ræða og þá stundum í hæsta lagi 25% skattauka á þann hluta, sem dreginn var undan.

Ég álít líka, að það sé óheppilegt að hafa víðtækar heimildir til að áætla mönnum skatt. Þeir, sem telja ekki fram skilmerkilega, eiga að geta átt yfir höfði sér, að skattframtal þeirra og bókhald, ef því er að skipta, verði sett í rannsókn. Þess vegna tel ég, að ákvæði 38. gr. um þessi atriði séu ekki nægilega örugg. Það væri æskilegra, að þau væru eitthvað á þá leið, að þegar skattþegn hefur annaðhvort ekki gefið fullnægjandi skýringar eða neitað að gefa þær upp, þá skuli mál hans tvímælalaust fara í rannsókn, en ekki þannig, að honum sé áætlaður einhver og einhver skattur. Þó að lögin ætlist ekki til þess, að gjaldandi græði á því, að skattur hans sé áætlaður, þá mun það nú oft verða þannig í raunveruleikanum.

Þá fyndist mér líka, að refsiákvæðin þyrftu nokkurra breytinga við. Ég er að vísu ekki svo vel kunnugur því, en ég efast um það, að hjá nokkrum þjóðum, a.m.k. nágrannaþjóðum okkar, séu viðurlög við skattsvikum raunverulega jafnvæg og hér, þ.e.a.s. mál út af skattsvikum fer yfirleitt ekki til dómstóla. Að vísu getur fjmrh. vísað málinu þangað eða skattþegn, ef hann óskar þess, en mun yfirleitt heyra til algerra undantekninga, og ég man nú ekki eftir neinu tilfelli í þá átt. Mér fyndist það ekkert óeðlilegt, þó að sett væri í þessi refsiákvæði eitt nýtt ákvæði, eitthvað á þá leið, að þeir, sem yrðu uppvísir að stórfelldum og endurteknum skattsvikum, gætu auk skattsekta orðið að sæta varðhaldi í nokkra mánuði eða jafnvel nokkur ár. Og ég hygg að það muni svo vera með öðrum þjóðum, að mjög alvarleg skattsvik sæti varðhalds- og fangelsisvist.

Ef vel tekst til með skipulag og framkvæmdir í skattamálum samkv. þessu frv., þá tel ég vafasamt, hvort ríkissjóður verður fyrir nokkrum tekjumissi, þó að tekjuskattur á atvinnufyrirtæki eigi að lækka úr 25% í 20%. Þessi 5% ættu að mestu leyti að geta unnizt upp með réttari framtölum og minni skattsvikum. En úr þessu verður þó reynslan fyrst og fremst að skera.

Það er mín skoðun, að skattalækkun sú, sem felst í þessu frv., sé ekki minna hagsmunamál fyrir launþegana heldur en atvinnurekendur. Lægri skattar veita atvinnufyrirtækjum betra færi á að endurbæta rekstur sinn, afla sér nýrra tækja og færa út kvíarnar. Lægri skattar auka aðstreymi fjármagns að fyrirtækjunum og draga úr rekstrarfjárskorti þeirra, en bættur hagur atvinnufyrirtækjanna hlýtur að gera þeim fært að greiða starfsmönnum sínum hærri laun en áður. Lækkaðir skattar á atvinnureksturinn ættu því, þegar frá líður, að geta orðið traustur grundvöllur undir kjarabætur launþegunum til handa.

Ég vil svo að lokum koma lítillega inn á ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. og þá sérstaklega, þar sem hann beindi máli sínu til Alþfl. Í raun og veru tel ég mig þegar hafa svarað ýmsu af því, sem hann sagði þar, en hann vitnaði til fundar, sem haldinn var í fulltrúaráði Alþfl. á s.l. hausti og skýrt er frá í Alþýðublaðinu, á þá leið, að margir fundarmanna hafi verið andvígir því að lækka skatta á atvinnufyrirtækjum og að þetta sýndi, að Alþfl. væri hálfnauðugt að fylgja þessu frv. Þegar lokið var að semja þetta frv. í fyrravor, að mig minnir, að hafi verið, þá var Alþfl. mjög fljótur til að ræða þetta mál og taka afstöðu til þess, því að það var boðað til almenns fundar Alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík í fyrravor um málið, — ég man nú ekki núna, í hvaða mánuði það var, það kann að hafa verið í apríl eða maí, — þar sem ég hafði einmitt framsögu um skattamálin og gerði grein fyrir þessum breyt., sem í vændum væru og liggja hér frammi í þessu frv. Þessar breyt. á skattalögunum, sem ég ræddi þar, fengu góðar undirtektir fundarmanna. Síðar var ég svo beðinn að tala aftur um skattamálin á fámennum fundi, sem fulltrúaráð Alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík hélt, og þar kom fram nokkurt andóf gegn þessu. Nú hlýtur það að verða svo, og það er a.m.k. svo í Alþfl., að þegar er tekin afstaða til mála, þá eru skoðanir manna oft mjög skiptar og menn rökræða þetta fram og aftur með og móti. Og ég tel það ekkert veikleikamerki hjá Alþfl., þó að hann í sínum málgögnum skýri frá því, þó að það komi fram ágreiningur á fundi um afstöðu til tiltekinna mála. Þetta mun að vísu ekki vera siður hjá þeim Alþb.- mönnum, en þeir mættu gjarnan taka hann upp. Hitt má svo benda á, að flokkur þessa hv. þm. á auðvitað miklu erfiðara um vík en Alþfl. að ræða þetta á almennum fundi hér í höfuðstaðnum, vegna þess að það er ekki til neitt Alþýðubandalagsfélag hér í Reykjavík og líklega engar horfur á, að það verði stofnað, þannig að þeir eiga ákaflega óhægt um vik að ræða svona mál á almennum fundum hér. En ég get fullvissað þennan hv. þm. um það, að þetta frv. er eindregið stutt af Alþfl., þó að í þessu máli, eins og reyndar í afstöðu til allra mála, kunni auðvitað að vera einstaka flokksmenn, sem hafa aðrar skoðanir en meiri hluti flokksins hefur á hverjum tíma, og það tel ég síður en svo nokkuð óheilbrigt og enga undantekningu varðandi þetta mál.

Um önnur atriði, sem þessi hv. þm. kom inn á, skal ég ekki ræða mikið, þó að hann gæfi að vísu tilefni til að segja ýmislegt, af því að margt af því, sem hann talaði þar um, var þessu frv., sem hér er til umr., að mestu óviðkomandi. Hann var mjög að ræða um skerðingu lífskjaranna, sem hefði átt sér stað í tíð núv. ríkisstj., og miðaði þar við, eins og þeir gera ævinlega, hann og hans flokksbræður, þeir miða við ársbyrjun 1959 eða mánuðina des. 1958 og jan. 1959, en þá var kaup miklu hærra en það var næstu mánuði á undan og varð næstu mánuði á eftir. Það vita allir, af hverju þetta kaup var svona hátt. Það var komin óðaverðbólga í lok stjórnartímabils vinstri stjórnarinnar, sem hún réð ekki við, og það var ósk forustumanna í vinstri stjórninni að lækka þetta kaup, vegna þess að ef kaupið yrði ekki lækkað, þá leiddi það óhjákvæmilega til þess, að það yrði að stórhækka vöruverð og veita atvinnurekendum heimild til þess að hækka vöru sína og þjónustu, vegna þess að kaupið hafði hækkað vegna gífurlegrar vísitöluhækkunar 1. des. 1958. Þannig eru þeir alltaf að bera saman, — þegar þeir eru að ámæla núv. ríkisstj., — þá eru þessir menn alltaf að bera saman við það kaupgjald, sem sú ríkisstj., sem þeir sjálfir stóðu að, treysti sér ekki til þess að standa undir, þannig að þessi samanburður er alltaf að meira eða minna leyti falskur. Auk þess er til vísitala, bæði framfærslukostnaðar og vísitala kaupmáttar, sem liggur fyrir, og á þess vegna ekki að þurfa að deila svo mjög um þessa hluti, en þeir gefa sér nú gjarnan ýmsar tölur, eins og þessi 30%, og rökræða svo málin út frá því.

En þessi hv. þm. mætti gjarnan hafa það í huga, þegar hann er að tala um launakjör hinna lægst launuðu, og þá er hann alltaf að bera saman tímakaup lægst launaða verkamannsins og þá yfirleitt Dagsbrúnarverkamannsins, þess, sem er á almennu kaupi, hefur lægsta taxtann og vinnur tímavinnu. Nú er það svo, að ýmsir flokksbræður hans, sem stjórna þessu verkalýðsfélagi, leggja alltaf höfuðáherzluna á það, að þær kjarabætur, sem lægst launaði verkamaðurinn fær, komi ekki fram á dagkaupinu, heldur þá á eftirvinnu og ýmsum öðrum atriðum. Og auðvitað verður að taka þetta með í reikninginn, ef á að gera réttan samanburð, að þá er ekki eingöngu nóg að segja, hvað kaupið í tímavinnu á daglaunataxta hefur breytzt, heldur verður að taka allar aðrar kjarabætur, — auk þess, sem þeir flokksbræður hans passa nú ævinlega, þegar þeir semja fyrir Dagsbrún, þó að ég vilji nú ekki eyða miklum tíma í að fara út í það hér, þeir gæta þess ævinlega vandlega, að verkamaðurinn, sem er á lægsta taxtanum, almenna taxtanum, fái alltaf minnstu kjarabæturnar. Hins vegar mánaðarkaupsmenn og menn, sem eru á sértöxtum, þeir passa alltaf miklu betur upp á þá, og það er að sumu leyti skiljanlegt út frá þeirra pólitík. Þeir vilja alltaf geta bent á það, að lægst launaði verkamaðurinn sé illa launaður.