05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2517 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

192. mál, skólakostnaður

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Út af ummælum hv. 3. þm. Vesturl., þá er það rétt, að ég hefði átt að haga mínum orðum þannig að segja, að ég hefði gert ráðstafanir til, að það yrði haft samband við alla þá hv. þm., sem þetta mál snertir. Hv. 4. þm. Sunnl. tók að sér að ræða málið við hv. þm. Framsfl. Það er því rétt að ég hef sjálfur ekki rætt þetta við alla hv. þm. Tjáði hv. þm. mér, að málið hafi verið rætt á flokksfundi Framsfl. og hv. þm. hans því kunnugt um það, og einnig er mér tjáð að þeir hafi verið sammála því, eins og hv. 3. þm. Vesturl. raunverulega viðurkenndi, að þessi breyting yrði gerð á frv. Ég skal svo ekki ræða það atriði meira.

Mér þykir rétt að svara hv. 4. landsk. um það, sem hann spurði um hér í sambandi við þetta mál.

Eins og hv. þm. er kunnugt og tekið hefur verið fram hér, þá hefur verið barizt fyrir því á mörgum undanförnum þingum að fá þessum málum breytt þannig, að ríkissjóður greiddi a.m.k. 90% af byggingar- og rekstrarkostnaði þessara skóla. Um frv., sem Sigurður Bjarnason flutti á þinginu 1960 og fór í þessa átt, var leitað umsagna fjármálaráðunautar ríkisins. Gaf hann út mjög ýtarlega skýrslu um málið, sem lá fyrir hv. menntmn. þessarar hv. d. í fyrra. Þessi ýtarlega skýrsla sýndi, að það væri sáralítill munur á því, hvort ríkið tæki að sér að greiða 90% af rekstrarkostnaðinum eða hvort það tæki að sér að fullu reksturinn, en þá réði það sjálft yfir þeim tekjum, sem kæmu inn, ef hægt væri að hafa tekjur af skólunum. Lágu öll þessi gögn fyrir n. á s.l. ári og voru athuguð þar mjög gaumgæfilega. Í sambandi við það bar ég þá fram till., að vísu ekki hér í þinginu, en við hæstv. menntmrh., um að leysa málið á þann hátt, sem nú er lagt til í till. þeirri, sem hér er til umræðu. Hæstv. fjmrh. féllst á, að það yrði gert, og var fyrir sitt leyti samþykkur því að leggja fram þá fjárhæð, sem hér þyrfti og væri sáralítil, en hæstv. menntmrh. óskaði þá eftir að athuga málið betur. Hann hefur svo haft þetta mál til athugunar og hefur margsinnis, eins og hv. 4. þm. Sunnl. er kunnugt, tjáð okkur, að þetta þing skyldi ekki líða svo, að málið yrði ekki afgr. í viðunandi formi.

Þetta er saga málsins og þess vegna sé ég enga ástæðu til þess að láta málið fara til hv. menntmn. á ný, vegna þess að hún hefur þegar sagt álit sitt um það og lagt einróma til að afgreiða það á þann hátt, sem hér er lagt til. Fyrir liggja þar öll gögn í þessu máli, bæði um hvað það kostar ríkissjóð að bera 90% af kostnaðinum og hvað það kostar, að ríkissjóður beri allan kostnaðinn. Allur þessi samanburður liggur í gögnum hjá n. Hafði hún kynnt sér þau mjög gaumgæfilega, áður en hún gaf út nál. Ég vil því vænta þess, að hv. þm. taki aftur þá till. að vísa málinu til n., sem áður hefur afgr. málið.

Hv. 6. þm. Sunnl. ræddi hér um málið áðan og sagði, að honum þætti eðlilegt, að farið væri inn á víðtækari grundvöll. Er það náttúrlega allt annað mál. En það lokar ekki þeim möguleika, ef byggja skal nýja skóla. Aðeins þarf þá að ræða um það á Alþingi, hvort þeir skuli njóta sömu réttinda. En ég vildi mjög óska þess, að því máli yrði ekki blandað inn í þetta atriði, því að þetta frv. er eingöngu bundið við þá skóla, sem nú eru, og viðkomandi héruð hafa ekkert fjárhagslegt magn til að standa undir rekstri þeirra. Hann hélt því einnig fram, að svo mjög hefði frv. verið breytt, að segja mætti, að hér væri raunverulega um nýtt þingmál að ræða. Ég veit ekki, hvort nokkur annar þm. þykir formfastari á því sviði en ég, og þess vegna var það fyrsta, sem ég gerði, áður en ég setti brtt. fram, að grennslast eftir því hjá skrifstofustjóra, hvort frv. þannig breytt mundi verða talið nýtt mál, og kvað hann það ekki vera sitt álit. Hann taldi, að það mundi ekki vera ástæða til að krefjast þess, að málinu væri vísað frá á þeim grundvelli, því þó að málið væri raunverulega gerbreytt, þá væri það um sama efni og þess vegna væri ekki ástæða til þess, hvorki að taka það til n. né vísa því frá af þeim ástæðum. Þetta þykir mér rétt að láta koma fram.

Málið hefur verið rætt á öllum stigum við fjármálaeftirlit skóla, þ.e. við Aðalstein Eiríksson, og síðast í dag var rætt við hann um þessa breytingu, sem nú er til umr. hér, og lýsti hann ánægju sinni yfir því, að málið væri nú komið í þetta horf, og telur það miklu betra. Eins og allir aðrir, sem um málið hafa rætt og eru því fylgjandi, lýsti hann því yfir, að hann væri mjög ánægður með, að málið fengi afgreiðslu í því formi, sem það nú er í.

Annað held ég, að ég hafi ekki þurft að taka fram í sambandi við þetta mál.