12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

Almennar stjórnmálaumræður

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eysteinn Jónsson, hv. 1. þm. Austf., sagði, að mikill hluti af tíma þingsins hefði gengið í að reyta af sjávarútveginum þann ávinning, sem hann hefði haft af gengislækkuninni. Þetta er dæmigerð frásögn af hálfu stjórnarandstöðunnar, því að litlu síðar í ræðu sinni sagði hann, að fyrir harða baráttu stjórnarandstöðunnar hefði verið ákveðið að láta þessi gjöld renna aftur beint til sjávarútvegsins. Þar með var viðurkennt óbeint, að hin fyrri fullyrðing var alröng, eins og raunar fjöldamargt fleira í ræðu þessa hv. þm., en hin síðari var líka röng, því að Þessi ráðstöfun var gerð áður en stjórnarandstaðan lét nokkuð í sér heyra um Þetta.

Annað dæmi um málflutning stjórnarandstöðunnar skal ég aðeins nefna úr ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 6. þm. Sunnl., Karls Guðjónssonar. Hann sagði, að verðlagsþróunin erlendis hefði verið okkur mjög hagstæð upp á síðkastið og verðlag á útflutningsvörum okkar stórhækkandi, á sama tíma sem t.d. síldarlýsið hefur fallið úr 58-59 pundum tonnið, sem það var í í fyrra, niður í ca. 40 pund, sem það er í dag. Þetta er líka dæmi upp á frásagnarmáta stjórnarandstöðunnar, og sannleikurinn er sá, að verðlag á útflutningsvörum okkar er enn allmiklu lægra en Það var 1959, Þegar það er tekið sem heild.

Eldhúsumr. hafa verið og eru til þess um hönd hafðar að gera upp sakirnar við ríkisstj., hvað hefur farið vel úr hendi og hvað miður, hvaða árangur hefur orðið af starfi hennar, hvað vangert eða vanefnt af því, sem hún hefur lofað, og hvaða ráðstafanir hennar hafa verið illa ráðnar eða orðið til óþurftar fyrir landslýð. Í raun hafa þessar umr. oftast ekki orðið eins og til þeirra hefur verið stofnað. Í fyrsta lagi hefur stjórnarandstaðan venjulega skotið undan því, sem vel hefur tekizt, og er kannske ekkert um það að sakast. En í öðru lagi hefur stjórnarandstaðan reynt að afflytja og gera tortryggilegt allt, sem hún hefur talið sig hafa nokkurn möguleika á að gera, og oft skotið þar mjög hátt yfir mark. Þó að þetta hafi oft áður viljað brenna við og hjá öllum eða flestum stjórnarandstöðuflokkum nokkuð, þá finnst mér, að hjá Þeirri stjórnarandstöðu, sem nú ber það nafn, hafi keyrt svo úr hófi, að lengra verði tæpast komizt, og er það frægasta dæmið og sem lengst verður í minnum haft, þegar núv. efnahagsástandi á Íslandi var jafnað til Móðuharðinda og lífskjör fólks nú borin saman við lífskjörin þá, þegar mikill hluti af búpeningi landsmanna féll, en við hann voru að heita mátti allir afkomumöguleikar fólksins bundnir þá. Mikill hluti fólksins féll þá úr hor, alveg eins og búpeningurinn gerði. Þetta er að skjóta myndarlega yfir markið, og allur almenningur finnur það. Og sannleikurinn er líka sá, að miðað við þá firna erfiðleika, sem við var að glíma, þegar vinstri stjórnin svokallaða skildi við í árslok 1958, þegar allt var að fara fram af hengiflugsbrúninni og holskefla verðbólgunnar að ríða yfir, eins og þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sjálfur orðaði það, og vitað var, að ekki mundi fást lagfæring á Þessu ástandi, sem nokkurt gagn væri í, nema með nokkrum fórnum, þá má heita að mínu viti, að afkoma alls almennings í landinu í dag sé sæmilega góð, þrátt fyrir þá miklu viðreisn, sem íslenzkt efnahagskerfi hefur fengið á s.l. þrem árum rúmum.

En árangurinn, sem náðst hefur, er í örstuttu máli þessi:

Í fyrsta lagi: gjaldeyrisstaðan við útlönd hefur batnað mjög verulega. Í febrúarlok s.l. áttu gjaldeyrisbankarnir til ráðstöfunar 703 millj. kr. rúmar. Og þó að þetta sé ekki nægilegur gjaldeyrisforði, er mikill munur á því að eiga þessa upphæð heldur en að eiga ekki neitt eða skulda og eiga ekkert upp á að hlaupa, hvað sem skeður. Mestur hluti þessarar upphæðar hefur safnazt á s.l. ári og því sem af er þessu ári. Frá febrúarlokum 1961 og til febrúarloka 1962 hefur gjaldeyriseignin vaxið úr 123.5 millj. í þessar 703.5 millj. kr., sem ég nefndi, eða um réttar 580 millj. kr. á einu ári. Og þessi árangur hefur ekki náðst með því að ganga á birgðir útflutningsafurða á þessu tímabili, því að þær uxu um 145 millj. kr. á sama tíma, ekki heldur hefur þessi árangur náðst með því að auka stutt erlend vörukaupalán, sem oft er minnzt á, því að þau hafa lækkað um 56 millj. kr. á sama tíma.

Í öðru lagi vildi ég nefna, að sparifjársöfnunin hefur stóraukizt. Sparifjármyndunin er ein höfuðstoðin undir heilbrigðu efnahagslífi. Trúin á gildi hennar var þó stöðugt að minnka hjá almenningi með hinni stöðugt vaxandi verðbólgu í tíð vinstri stjórnarinnar, þannig að menn vildu frekar allt annað eiga en peninga og keyptu oft hluti, sem þeir þurftu ekki með, og stofnuðu til fjárfestingar, sem vægast sagt hefði mátt biða. Þetta hefur gjörbreytzt. Sparifjáraukningin hefur t.d. orðið síðustu 12 mánuðina — til febrúarloka 1962 — 622 millj. kr. og þar af 90 millj. kr. á fyrstu tveim mánuðum þessa árs. Á sama tíma varð aukning veltuinnlána í bönkunum 328 millj. kr. Þessar upphæðir eru geysiháar á okkar mælikvarða og sýna alveg ótvírætt, að trú manna á gildi peninga hefur gjörbreytzt, samtímis því sem skotið hefur verið styrkum stoðum undir útlánastarfsemi á heilbrigðum grundvelli til atvinnuveganna og annars.

Eitt höfuðskilyrði fyrir heilbrigðri efnahagsþróun er, að bankarnir í landinu láni ekki út óvarlega, en það hefur því miður ósjaldan verið gert. Nú hefur þetta færzt í það horf, að sparifjáraukningin og föst lán til langs tíma hafa getað staðið undir útlánastarfseminni og sparifjáraukningin ein undir útlánum viðskiptabanka og sparisjóða. Þetta er mikil breyting frá því, sem var, og einn styrkasti þátturinn í aðgerðum þeim, sem uppi hafa verið hafðar til stöðvunar verðbólgunni. Til þess að ná þessum árangri, bæta gjaldeyrisstöðuna við útlönd, endurvekja trúna á gildi peninganna og þar með sparifjársöfnunina, koma útlánastarfseminni í heilbrigðar skorður og koma í veg fyrir áframhaldandi verðbólguþróun þurfti allharðhentar aðgerðir: Í fyrsta lagi rétta skráningu gengisins, í öðru lagi hækkun vaxta, í þriðja lagi takmörkun útlána og bindingu nokkurs hluta sparifjárins og í fjórða lagi hallalausan ríkisbúskap, svo að nokkuð sé nefnt. Þetta nefndi stjórnarandstaðan „samdráttarstefnu“ til aðgreiningar frá sinni stefnu, sem þeir kölluðu „byggðastefnu“ og „umbótastefnu“, og spáðu illa fyrir stefnu ríkisstj. Atvinnuvegirnir mundu dragast saman, sögðu þeir, atvinnuleysi myndast og afkoma manna versna úr hófi. En hvað sýnir reynslan? Hún sýnir, að samtímis Því, að efnahagskerfið hefur verið treyst, eins og ég hef áður lýst, og þeim árangri náð, sem til var stofnað, þá hefur atvinnulíf landsmanna eflzt og framleiðsla vaxið, eftirspurnin eftir vinnuafli víða verið meiri en hægt hefur verið að fullnægja og atvinnuleysi að heita má óþekkt, eins og bezt má marka af því, að bótagreiðslur atvinnuleysistryggingasjóðs urðu árið 1960, en það er síðasta árið, sem skýrslur liggja fyrir um, — bótagreiðslurnar urðu á því ári 800 þús. kr., en nettó-tekjur atvinnuleysistryggingasjóðsins 66.7 millj. Og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um árið 1961, má ætla, að bótagreiðslurnar hafi orðið mjög svipaðar fyrir það ár. Hitt er svo aftur rétt, að gengisbreytingin hlaut að hafa í för með sér hækkun á erlendum vörum, sem gengisbreytingunni nam. Sú vöruverðshækkun átti þó að geta gengið hjá og jafnvægi að nást aftur að nokkrum tíma liðnum. Enda varð það svo, að að um það bil einu ári liðnu frá því að gengisbreytingin var gerð, var vísitala fyrir vörur, þjónustu og húsnæði að vísu komin upp í 114 stig, en vegna hliðarráðstafana ríkisstj., sérstaklega með hækkuðum bótagreiðslum almannatrygginganna, sem bættu upp verulegan hluta hækkunarinnar, varð raunveruleg hækkun framfærsluvísitölu 4 stig.

Hér var verulegum árangri náð. Efnahagskerfið hafði verið rétt við og framfærsluvísitöluhækkunin takmörkuð við 4 stig. Þessa hækkun var unnt að bæta og raunar meira, ef kauphækkununum hefði verið haldið innan þeirra takmarka, sem atvinnureksturinn gat borið. En allir vita, hvernig það fór. Í stað 6% hækkunar strax og 4% til viðbótar eftir ár, sem sáttasemjari gerði till. um, varð ekki staðnæmzt fyrr en við 13–18% hækkun, sem þýddi rúml. 500 millj. kr. launahækkun samtals í einu stökki. Afleiðingin af þessu hlaut óumflýjanlega að verða sú, að meginhluti þessarar hækkunar hlaut að hverfa, annaðhvort með bótagreiðslum til atvinnuveganna eða gengislækkun á nýjan leik, sem varð ofan á sem hið skárra af tvennu illu. Að sitja hjá og horfa á og bíða eftir, að atvinnureksturinn stöðvaðist eða drægist saman af þessum sökum, var áhugsandi. Það hefði verið versta hugsanlega lausnin.

Því hefur verið haldið fram af stjórnarandstöðunni, að allar aðgerðir í þessa átt hafi verið óþarfar, raunar hefndarráðstöfun, eins og það hefur verið orðað. En hversu fjarstætt þetta er, sést bezt á því, að hér var um rúml. 500 millj. kr. hækkun að ræða, sem algerlega var útilokað að launagreiðendur gætu lumað á og hrist fram úr erminni aðstoðarlaust. Enda höfðu þeir, sem fyrstir gengu til þessara samninga, en það voru samvinnusamtökin í landinu, stuttu áður lýst því yfir, að fyrirhuguð hækkun á kvennakaupi í landinu samkv. jafnlaunafrv., ca. 4%, væri meira en atvinnurekstur þeirra gæti borið. En hin pólitísku öfl í samtökunum réðu, og til samninganna var gengið á óraunhæfum grundvelli.

Þær aðgerðir, sem ríkisstj. neyddist til að gera af þessu tilefni, eru ekki nýmæli, sem fundin voru upp af henni. Nákvæmlega það sama var gert í tíð vinstri stjórnarinnar, þegar atvinnurekendum voru bættar oftar en einu sinni kauphækkanir með því að hækka gjöld af innfluttum vörum, sem verkaði nákvæmlega eins á vöruverðið og gengislækkun.

Árangurinn af starfi ríkisstj. og þeim aðgerðum, sem hún hefur beitt til viðreisnar efnanagskerfi þjóðarinnar, hefur því, að ég tel, orðið sá, sem að var stefnt. Það, sem enn skortir á, að fullur árangur náist, er aðeins, að stjórnaranastaðan og þeir úr þeirri sveit, sem enn teljast í forsvari fyrir verkalýðssamtökin, geri sér grein fyrir því, að það eru takmörk fyrir því, hversu lengi þeir geta haft hagsmuni umbjóðenda sinna að leiksoppi vegna ímyndaðra pólitískra hagsmuna. Ég tel það víst, að vinnandi fólk, þ.e. launþegar í landinu, muni fyrr eða síðar gera sér ljóst, að það er ekki leiðin til bættrar afkomu að gera svo háar kröfur, að það sé útilokað, að atvinnureksturinn geti borið þær einn og óstuddur. Stuðningurinn og bæturnar verða þá óumflýjanlega á einhvern hátt frá launpegunum tekin aftur. Hitt verður farsælla og til raunverulegra hagsbóta, að taka hækkanirnar í smærri stökkum og halda því, sem náðst hefur. Þá leið hafa launþegar í nágrannalöndum okkar farið og með góðum árangri.

Hin önnur tvö atriði, sem ég nefndi að ríkisstj. hefði þurft að grípa til til viðreisnar í efnahagsmálum, takmörkun útlána og vaxtahækkun, hafa einnig sætt óbilgjarnri gagnrýni frá hálfu stjórnarandstöðunnar. En hvorar tveggja aðgerðirnar voru nauðsynlegar, ef æskilegur árangur átti að nást. Fátt er hættulegra heilbrigðu efnahagslífi en útlán, sem ekkert raunverulegt stendur á bak við, hvorki innstæður né raunveruleg og söluhæf verðmæti, og sú falska kaupgeta, sem af slíkri útlánastarisemi leiðir, og hvorar tveggja aðgerðirnar miða að því að koma í veg fyrir slíka þróun. Vissulega getur þetta skapað þeim, sem á lánum þurfa að halda, tímabundna erfiðleika og kostnað. En með aukinni sparifjársöfnun og betri stöðu peningastofnana er hægt að draga úr þessum áhrifum og verður gert. T.d. hafa vextirnir nú þegar verið lækkaðir aftur um helminginn af því, sem hækkunin nam, og von til, að frekari lækkun geti enn farið fram innan skamms. Á hinn bóginn var hér um að ræða nokkrar bætur til sparifjáreigenda, sem hvað mest hafa orðið fyrir barðinu á verðbólguþróun undanfarinna ára, og vissulega voru þeir vel að þessum bótum komnir, því að engir hafa misst jafnmikið í verðbólguhítina og þeir.

Niðurstaðan af þessum hugleiðingum mínum um þróun efnahagsmála í tíð núv. stjórnar, sem hefur verið hennar stærsta viðfangsefni, er þá sú, að vissulega hafa aðgerðir ríkisstj. ekkí verið alveg sársaukalausar, en þær hafa borið verulegan árangur. Og vissulega situr það sízt á þeim að gagnrýna þær, sem hafa valdið því, að til þessara ráðstafana þurfti að grípa. Og að lokum það, sem mikilvægast er: Þessar aðgerðir og sá árangur, sem náðst hefur, eiga að geta myndað heilbrigðan grundvöll undir bætta afkomu þjóðarinnar allrar.

Þó að efnahagsmálin hafi verið langstærsta viðfangsefni ríkisstj. hingað til, og þess vegna hef ég varið mestu af tíma mínum til að ræða þau, þá hefur mikill fjöldi annarra mála verið tekinn til meðferðar, sumt leyst og annað undirbúið á þeim rúmum tveim árum, sem stjórnin hefur starfað. Ég skal þá fyrst leyfa mér að nefna landhelgismálið. Sú farsæla lausn, sem á því vandasama máli fékkst, er nú ekki lengur gagnrýnd af neinum, sem með alvöru og skynsemi hugsar um það mál. En einn dilk hefur það þó dregið á eftir sér, og það er aflaleysi íslenzku togaranna, sem misstu nokkur af sinum fengsælustu fiskimiðum við útfærslu landhelginnar eða fiskveiðitakmarkanna. Við þetta hefur afkoma þeirra versnað mjög, svo að sumir hafa gefizt upp, en aðrir haldið við stöðvun. Þetta erfiða og vandasama mál er ríkisstj. nú að leitast við að leysa með lögum um aflatryggingasjóð, þar sem gert er ráð fyrir að greiða togurunum bætur, þegar aflinn fer niður fyrir visst magn, og verður sú aðstoð þeim væntanlega til mikillar styrktar.

En það mál, sem hvað mestur tími hefur farið í að undirbúa og hvað mest veitur á að takist að leysa á viðunandi hátt hjá ríkisstj., er þátttaka Íslands í Efnahagsbandalagi Evrópu. Án þess að ræða það mái nokkuð efnislega, því að til þess er enginn tími hér og nú, þá vildi ég aðeins segja, að ríkisstj. hefur eytt í það miklum tíma og mikilli vinnu að kynna sér og láta kynna sér skilyrði og möguleika til þátttöku. Á því veltur óendanlega mikið, að íslenzk þjóð útilokist ekki frá þátttöku í viðskiptum við Vestur-Evrópuþjóðirnar og að þau tengsl, sem við erum þegar bundnir þessum þjóðum, rofni ekki, heldur styrkist. Kommúnistar hafa þegar tekið upp harða andstöðu gegn þátttöku í bandalaginu, og hefur það farið sem oftar, að annarleg sjónarmið hafa verið tekin fram yfir Íslenzkar þarfir og Íslenzka hagsmuni. Ríkisstj. hefur enn enga afstöðu tekið til málsins, heldur lagt á það höfuðáherzlu að kynna sér málið til hlítar og að kynna þátttökuþjóðunum sérstöðu Íslands og vandamál í þessu sambandi og leitast við að afla skilnings á þessari sérstöðu. Málið kemur væntanlega til kasta Alþingis í haust, þegar undirbúningsathugunum og viðræðum er lokið, og gefst þá væntanlega tækifæri til að ræða það frekar.

Annað mál, mjög þýðingarmikið, sem einnig er á undirbúningsstigi, vildi ég aðeins nefna, en það er framkvæmdaáætlunin, sem var í undirbúningi mikinn hluta s.l. árs og væntanlega verður gengið frá á þessu ári. En það er skipuleg áætlunargerð um fjárfestingu næstu 5 árin. Að henni hafa unnið hinir færustu erlendu sérfræðingar með aðstoð hérlendra, hinna kunnugustu og færustu manna. Enginn vafi er á því, að áætlunargerð eins og þessi á að geta orðið styrk stoð undir heilbrigt efnahagslíf, ef vel og skynsamlega er á haldið. Þetta er eitt af þeim atriðum, sem samið var um við stjórnarmyndunina, og það síðasta stóra, sem tekið hefur verið til meðferðar. Ef allt gengur vel með undirbúninginn, ætti þessi áætlun að geta komið til framkvæmda í ársbyrjun 1963.

Eitt af því, sem fyrst kemur til greina til aukningar íslenzku atvinnulífi og til aukinnar fjötbreytni á því sviði, er hagnýting hinna íslenzku orkulinda. Þessar orkulindir, fallvötnin, hverirnir og heita vatnið, eru þau náttúruauðæfi, sem íslenzka þjóðin getur vænzt mest af í viðleitni sinni til að skapa íbúum landsins betri lífskjör. Hvarvetna í heiminum hafa menn horft til þessara náttúruauðlinda sem undirstöðu undir verklegar framkvæmdir og bætta afkomu.

Ríkisstj. hefur því beitt sér fyrir því, að undirbúningsathuganir á þessu sviði væru framkvæmdar með stórvirkjanir fyrir augum. Athuganir þessar hafa farið fram á ýmsum álitlegum virkjunarstöðum, og er ákveðið að verja til þeirra enn tugum milljóna króna, þ.e.a.s. til undirbúnings og áætlana aðeins. En þeir staðir, sem athugaðir hafa verið, eru aðallega þessir: Þjórsá, Hvítá, Jökulsá á Fjöllum og hverasvæðin í Hveragerði, við Mývatn og í Krýsuvík. Hafa undirbúningsathuganir þessar verið við það miðaðar fyrst og fremst að fullnægja orkuþörf stóriðjuvera, ef reist yrðu í sambandi við þessar virkjanir, alúminíumverksmiðju og kísilgúrverksmiðju. Hafa undirbúningsviðræður farið fram um stofnun slíkra verksmiðja, og eins og sakir standa nú, virðast möguleikar á því, að þessar viðræður geti innan tíðar borið árangur og iðjuver þessi og orkuver orðið að veruleika, áður en langt um liður. Ég tel engan vafa á því, að hagnýting orkulinda okkar á þennan hátt eða annan svipaðan geti orðið atvinnulífi okkar og efnahagslífi styrk stoð og aukið þá fjölbreytni í íslenzku athafnalífi, sem okkur hefur svo stórlega vantað, með fiskveiðar og landbúnað að undirstöðu. Er enginn vafi á því, að aðgerðir ríkisstj. til að þoka þessum málum áfram eru hinar þýðingarmestu.

Á sviði félagsmála hefur einnig mikið áunnizt á síðustu tveim árum. Ber þar fyrst að nefna almannatryggingalögin, er samþykkt voru 1960 með stórauknum bótagreiðslum á öllum sviðum trygginganna. Eftir þá breytingu eru íslenzku almannatryggingalögin komin nokkurn veginn upp að því bezta á því sviði, sem þekkist á Norðurlöndum, en þau eru, eins og kunnugt er, forgangsþjóðir hvað almannatryggingar snertir. Þá hefur verið ákveðið að setja mþn. í að betrumbæta þessi lög enn á ný, og hefur sú nefnd nú starfað um nokkra hríð og skilar væntanlega áliti bráðlega.

Húsbyggingamálin eru og hafa lengi verið ofarlega á baugi. Á þessu þingi, sem nú er að ljúka störfum, hafa verið samþykkt ný lög um verkamannabústaði, þar sem framlög til byggingarsjóðsins hafa verið aukin um 662/3% og lánahámarkið aukið. Enn fremur hefur farið fram bráðabirgðaendurskoðun á lögunum um húsnæðismálastjórn og lögunum breytt í samræmi við þá endurskoðun nú á þessu þingi, þar sem m.a. hefur verið hækkuð sú upphæð, sem lána má út á hverja íbúð. Um þetta skal ég þó ekki fjölyrða, þar sem annar ræðumaður Alþfl, mun gera því máli fyllri skil. En á það vil ég aðeins benda, að fyrirgreiðsla á sviði húsnæðismála er ein hin þarfasta fyrir allan almenning og þýðingarmikið, að aukið fé sé útvegað til þeirra mála, en að því mun núv. ríkisstj. stefna og hefur með áðurnefndri lagasetningu skapað nokkur skilyrði fyrir því, að svo megi verða.

Þá hefur ríkisstj. enn á einu sviði félagsmála leitazt við að koma þeim til hjálpar, sem erfiðast eiga, en það eru annars vegar öryrkjar, en hins vegar vangefnir og fávitar. Ríkisstj. hefur staðið að lagasetningu á þessu þingi, sem veitir þessum hópum þjóðfélagsþegnanna báðum nokkur framlög til starfsemi þeirrar, sem höfð er uppi til aðstoðar þessu fólki, þ.e. til vistheimilabyggingar fyrir vangefna og til vinnuheimilabygginga fyrir öryrkja, og einnig til æfingastarfsemi og lækninga fyrir lamaða og fatlaða. Þetta fólk hefur verið sjálfu sér ónógt og til byrði fyrir aðstandendurna en með þessum fjárframlögum, sem fyrir er séð nú og nema allt að milljónatug á ári, á að vera hægt að gera hvort tveggja í senn að losa heimilin við þunga byrði, vekja öryrkjunum nýja trú á sjálfa sig og tilveruna og gera þá að nýtum þjóðfélagsþegnum. Er hér áreiðanlega um að ræða mjög þýðingarmikið mál, sem ríkisstj. hefur gert rétt í að styrkja.

Aðaláhugamál Alþfl. hafa jafnan verið frá öndverðu félagsmál og atvinnumál. Ég tel, að á báðum þessum sviðum hafi í núv. stjórnarsamstarfi náðst merkilegur árangur. Þó að stefnumið Alþfl. og Sjálfstfl. séu í grundvallaratriðum ólík, hafa þeir þó í núverandi stjórnarsamstarfi getað komið sér saman um lausn þýðingarmikilla og aðkallandi mála á báðum þessum sviðum, sem ég er viss um að fela í sér bætt afkomuskilyrði fyrir allan almenning í landinu og þá ekki hvað sízt fyrir þá, sem erfiðast eiga uppdráttar.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sagði hér áðan, að nú væri það nauðsynlegast af öllu, að núv. stjórnarflokkar fengju ekki við næstu kosningar nægilegan þingmeirihluta til að standa að stjórnarmyndun. Hins vegar væri bráðnauðsynlegt, að fylgi Framsfl, væri aukið. Og hann gaf raunar með þessu fyllilega í skyn, að hann ætlaði sér að mynda þá stjórn með kommúnistum. Ég skal nú ekki um það dæma, hvort heppilegra væri, að þeir flokkar næðu saman völdum, en ég efast um, að þeir í sameiningu gætu komið fram fleiri hagsmunamálum fyrir íslenzka alþýðu heldur en Sjálfstfl. og Alþfl. hefur þó tekizt

Ég hef í þessum umr. meira dvalizt við það jákvæða í stefnu og starfi ríkisstj. heldur en að elta ólar við hinar neikvæðu fullyrðingar og steingeldu afstöðu stjórnarandstöðunnar. Ég tel mig vita, að almenningur og þjóðin í heild vilji fyrst og fremst óska, að stjórnin beiti sér af alhug og einlægni fyrir lausn aðkallandi vandamála, heldur en að taka þátt í pólitísku þrátefli, þar sem hver reynir að níða hinn niður. Þjóðin mun að síðustu dæma hina pólitísku flokka eftir verkum þeirra, og það er líka það, sem þeir flokkar, sem standa að núv. ríkisstj., óska eftir að þjóðin geri. — Góða nótt.