15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég ætlaði að segja hér út af ummælum hv. 11. landsk. Þm., frsm. minni hl. allshn., þar sem hann lét liggja að því, að meðferð þessa máls fyrir allshn. hefði ekki verið að öllu leyti þingleg og flýtt meira en góðu hófi gegndi. Ég skal nú með örfáum orðum skýra frá, hvernig afgreiðslu þessa máls bar að.

Ég held, að það hafi verið fyrir eitthvað viku, rúmlega þó líklega, sem þessu máli var vísað til allshn., og liðu því nokkrir dagar og þar á meðal ein helgi þannig, að málið var ekki tekið fyrir í nefndinni, og má vænta þess, að nefndarmönnum hefði á þeim tíma átt að gefast kostur á að athuga þetta frv. Á þriðjudaginn var boðaði ég svo til fundar í allshn. Þá bað hv. 11. landsk. mig um að fresta fundinum þangað til daginn eftir, og ég féllst orðalaust á það, vegna þess að hv. 11. landsk. sagði, að hann ætti eftir að kynna sér frv. Svo á áður ákveðnum tíma á miðvikudaginn var þessi fundur haldinn, og þar gerði hv. 11. landsk. Þann ágreining í nefndinni, sem hann hefur nú gert grein fyrir.

Hv. 11. landsk. sagði einnig, að við afgreiðslu málsins í Ed. hefði ekki verið haft samstarf eða samráð við þá aðila, sem þetta mál varðar, og það hefði ekki verið sent til umsagnar neins þeirra. Það er alveg rétt, að málið mun ekki hafa verið sent til umsagnar neins aðila eða samtaka, en hins vegar stendur í fundargerðabók allshn. Ed., að nefndin hafi haft samráð við forstöðumenn borgardómara- og borgarfógetaembættisins, sem þetta frv. náttúrlega varðar fyrst og fremst. Hins vegar get ég ekki séð í fljótu bragði, að þetta frv. varði Lögmannafélag Íslands sérstaklega, frekar en mörg önnur mál, sem fyrir Alþingi koma. Og málið var ekki heldur sent til umsagnar þess félagsskapar, heldur sendi Lögmannafélagið álit sitt um það alveg óbeðið, sem var auðvitað ekkert út á að setja út af fyrir sig.

Mér þykir það líka leitt, að það virðist hafa farið fram hjá hv. 11. landsk. og einnig hv. 3. þm. Reykv., sem ég lagði talsverða áherzlu á í framsögu minni hér rétt áðan, að meiri hl. allshn. telur, hvað sem um það má segja, hvort eigi að banna dómarafulltrúum að taka að sér lögfræðistörf fyrir borgun eða ekki, að við töldum, að það bann ætti ekki heima í þessu frv., heldur miklu fremur í öðru frv., sem er hér til meðferðar á þessu sama þingi, og það er frv. til laga um meðferð einkamála í héraði.

Út af kostnaðinum við fjölgun borgarfógeta og borgardómara hefur hæstv. dómsmrh. sagt sitt álit um það. Ég man eftir því, að hv. 11. landsk. vék að því á þessum fundi í allshn., þar sem málið var til meðferðar, hvort ekki mundi verða útgjaldaaukning við þá fjölgun borgardómara og borgarfógeta, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég man það greinilega, að ég sagði, að sjálfsagt mundi einhver útgjaldaaukning verða, en gat þess um leið, að ég teldi ekki rétt að horfa í það í slíkum tilfellum, þar sem stefnt væri að frekara réttaröryggi, eins og ég tel vera gert með því frv., sem hér er til umr. Og ég verð að taka undir það með hæstv. dómsmrh., að það er stundum, en ekki alltaf, sem hv. 11. landsk. og hans flokksbræður eru einhverjir sérstakir sparnaðarpostular.