02.03.1962
Neðri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2537)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú sannast sagna ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., því að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að mínu viti ekki þannig vaxið, að með því verði ráðin mikil bót á vandkvæðum þeirra, sem hús byggja í þessu landi, nema því aðeins að því fylgi jafnframt mikil framlög úr ríkissjóði til þess að jafna metin og meiri en slegið verði föstum, a.m.k. að svo stöddu. Ég skal svo ekki fara frekar út í að ræða það.

Það, sem kom mér til að segja hér nokkur orð, var það, sem hv. 4. þm. Reykn. (JSk) beindi til mín í sinni ræðu og hafði eftir mér í umr. um svipað efni í hv. Ed. Hann sagðist hafa lesið það í blöðum, að ég hefði haldið því þar fram, að byggingarkostnaðaraukningin væri ekki nálægt því eins mikil og menn vildu vera láta, og sömuleiðis, að fækkun nýbygginga væri minni en haldið hefði verið fram. Það rétta í þessu máli er það, að ég lét í ljós í hv. Ed. við umr. um frv., sem ríkisstj. hefur lagt þar fram svipaðs eðlis eða til lagfæringar á þessum málum, þá skoðun, að ég teldi vafa á því, að þetta hvort tveggja, byggingarkostnaðarhækkunin og nýbyggingafækkunin, væri eins mikið og haldið hefði verið fram.

Hv. 4. þm. Reykn. sagði hér áðan, að byggingarkostnaðarhækkunin hefði orðið á tilteknu tímabili, sem hann nefndi, 32.5%, að ég ætla. Og kann að vera, að það megi með því að taka eitthvert sérstakt tímabit fá þessa tölu út. En ef tekin er hækkun byggingarkostnaðarvísitölu frá október 1958, sem mér finnst ekki óeðlilegt, það er síðasta talan, sem verður til í tíð hv. vinstri stjórnar, sem þá vék frá störfum rétt á eftir, og til október 1961, þá hefur hækkunin á byggingarkostnaði orðið úr 134 vísitölustigum og upp í 168 stig samkv. upplýsingum í síðasta hefti Fjármálatíðinda, sem lagt hefur verið á borðin hér hjá okkur þm. fyrir 2–3 dögum. Þannig hefur byggingarkostnaðarhækkunin eða vísitöluhækkunin orðið á þessu tímabili, á þessum þremur árum, frá október 1958 til október 1961, 34 vísitölustig, eða rétt um 25%, en ekki 32.3%, eins og hv. þm. sagði. Þetta er frá okt. 1958 til okt. 1961 samkv. uppgjöf tímaritsins, og það ætla ég að verði ekki vefengt, þannig að byggingarkostnaðurinn hefur samkv. þessu hækkað á þriggja ára tímabili um 34 vísitölustig eða 25%. Það veltur þess vegna á öllu, hvaða stærð íbúðar eða hve dýra íbúð menn taka til þess að miða hækkunina við. Ef hún er yfir 400 þús. kr., þá verður byggingarkostnaðarhækkunin yfir 100 þús., ef hún er undir 400 þús. kr., þá verður hækkunin lægri.

En nú finnst mér, að það sé ekkert óeðlilegt að athuga þá um leið, hvort þetta sé óþekkt fyrirbrigði, að byggingarkostnaður hafi hækkað. Ef við lítum á vísitölu byggingarkostnaðar í ársbyrjun 1957 og vísitölur byggingarkostnaðar í árslok 1958, þá sýnir það sig, að vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað á þessu tveggja ára tímabili, árunum 1957 og 1958, úr 113 stigum og upp í 134 stig, um 21 stig eða um 19%. Hún er 113 stig í ársbyrjun 1957, og hún er 134 stig í árslok 1958, þannig að hækkunin hefur orðið, eins og ég segi, 21 vísitölustig eða 19%. Í tíð vinstri stjórnarinnar hefur byggingarkostnaðurinn hækkað á tveimur árum um 19%, en á þremur næstu árunum á eftir, í tíð stjórnar Alþfl. og þeirrar stjórnar, sem nú situr, hefur byggingarkostnaðarvísitalan hækkað um 25% eða 34 stig, þ.e.a.s. meðalkostnaðarhækkunin á s. l. þrem árum er minni en á þeim tveim árum, sem vinstri stjórnin sat við völd. Hún er minni. Og hvað hafðist hæstv. stjórn að 1957 og 1958 til þess að bæta úr þessu? Vildi hún lækka vexti? Nei, það bar ekki á því. Áhuginn verður fyrst fyrir hendi nú, þegar þeir eru komnir út úr stjórninni, þó að byggingarkostnaðarhækkunin á þessum síðustu þremur árum hafi verið minni en á tveim árum vinstri stjórnarinnar samkvæmt óvefengjanlegum tölum, sem hér liggja fyrir í Fjármálatíðindum. Ég sé þess vegna ekki, að það sé mikið um að sakast það, sem nú gerist, samanborið við það, sem var 1957 og 1958.

Vissulega er það illt, að byggingarvísitalan þurfi að hækka. En til þess lágu í fyrsta lagi þær ástæður nú, að það var ekki hægt að koma peningakerfi landsins á heilbrigðan grundvöll nema með því að breyta um gengi, og gengisbreytingin er það, sem að verulegu leyti hefur valdið þeirri hækkun, sem orðið hefur á s.l. 3 árum, auk þess sem svo kauphækkun í fyrra hefur valdið þar áreiðanlega nokkru um einnig, því að vinnulaunakostnaðurinn við húsbyggingar er meiri en efniskostnaðurinn.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta, en ég vil bara undirstrika, að það er svo sem ekkert einsdæmi, að byggingarkostnaðurinn breytist frá ári til árs, og jafnvel var það svo í hinni ágætu vinstri stjórn, sem hugsaði mikið um hag almennings og allt, sem þar til heyrir, að byggingarkostnaðarhækkunin hjá henni varð á ári meiri en hún hefur orðið nú síðustu 3 árin. Þetta vildi ég að kæmi fram, til þess að menn gerðu sér grein fyrir því, hvernig þessi mál hafa þróazt, og ekki aðeins miðað við tvö síðustu árin.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykn., að fækkun hefði orðið mjög veruleg í nýbyggingum, þ.e.a.s., það hefði verið hafizt handa nú upp á síðkastið um miklu færri nýbyggingar en áður, og er það sjálfsagt rétt. En þessi fækkun er ekki nýbyrjuð. Eftir þeim tölum, sem hann gaf sjálfur og ég heyrði ekki vel að vísu, en tók þó þannig eftir, að það hefði verið byrjað á 1775 íbúðum á árinu 1936 og það hafði verið komið niður í 14 hundruð og eitthvað árið 1958, — því miður tók ég ekki eftir 14 hundruð og hvað, kannske hv. þm. geti lesið það upp síðar aftur fyrir mig. (Gripið fram í.) 1462, þá þýðir það, að á þessum tveimur árum hefur íbúðafjöldinn, sem byrjað hefur verið á, lækkað um rúmlega 300, einmitt á stjórnartímabili vinstri stjórnarinnar, sem allt vildi fyrir þessi mál gera. Það, sem skeður svo aftur nú, er, að þessi fækkun hefur haldið áfram, eftir því sem hv. þm. segir, niður í 1000 og eitthvað íbúðir árið 1960. Árið 1961 er ekki endanlega uppgert, og ég vit alls ekki taka þá tölu með, því að hún liggur ekki fyrir. En ef miðað er við töluna 1960, þá er bilið á milli þess, sem byrjað var á 1958 og 1960, litið meira en bilið á milli 1956 og 1958. Það er nú svo einkennilegt. Og þó er þar við að bæta einu meginatriði. Fyrir gengisbreytinguna í ársbyrjun 1960 voru menn hvergi nærri óhultir um sína peninga og töldu, að þeim væri bezt varið og fjármunirnir tryggast geymdir með því að stofna til íbúðarhúsabygginga, þó að þeir hefðu alls ekki not fyrir það. Ég veit fjöldamörg dæmi þess, að menn hafa á þeim árum stofnað til íbúðabygginga, sem þeir strangt tekið sjálfir þurftu ekki á að halda, af því að þeir töldu, að peningaeignin væri sú versta eign, sem þeir ættu, og ótryggasta. Ég held þess vegna, að nokkur hlutinn í þeirri fækkun, sem síðar hefur orðið, eigi rót sína að rekja til þess, að menn hafi talið það nú fullt eins gott að eiga peningana á sæmilegum vöxtum í banka eins og að byggja hús fyrir þá, sem þeir kannske þurftu ekki strangt tekið á að halda. Ég held þess vegna, að það megi finna ýmsar aðrar orsakir til þess, að þessi starfsemi hefur eitthvað dregizt saman upp á síðkastið, heldur en þær, sem eru afleiðingar viðreisnarinnar, eins og hv. þm. hafa orðað það.

Þessu til viðbótar má svo bæta því, sem upplýst var í hv. Ed. á dögunum, þegar þessi mál voru til umr. þar, að í janúarmánuði hafa borizt til húsnæðismálastjórnar fleiri umsóknir um lán en nokkurn tíma í sögunni. Að vísu er eins og alltaf nokkur hluti þessara lánbeiðna fram kominn vegna þess, að það er beðið um viðbótarlán, og sjálfsagt er einhver hlutinn í þessum umsóknafjölda þannig til kominn. En því verður þó ekki neitað, að þetta hefur líka verið áður þannig, verulegur hluti af umsóknunum hefur verið um viðbótarlán. Þrátt fyrir þetta varð því umsóknafjöldinn um lán úr húsnæðismálasjóði meiri í næstliðnum janúarmánuði en hann hefur verið nokkurn tíma áður. Ég held þess vegna,að þrátt fyrir allt sé áhugi manna á því að byggja talsvert mikill enn í dag. En það, sem háir þeim fyrst og fremst, er það, hvað lánin eru lág.

Þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru sett, var sett það hámark í lögin, að lánin mættu ekki fara yfir 100 þús. kr. En hvað kom á daginn? Mjög fljótlega, eftir að þessi lagasetning var staðfest á Alþingi, varð hún í framkvæmd þannig, að mjög fáir — ef nokkur — fengu hærri lán en 70 þús. kr. Þeir fjármunir, sem fyrir hendi voru, voru ekki meiri en það, að það nægði ekki til þess að láta út á hverja íbúð hærri upphæð en 70 þús. kr. Að vísu var þessu breytt, um leið og hækkanirnar urðu í sambandi við gengisfellinguna, þá var þessi upphæð aftur hækkuð upp í 100 þús. kr., þannig að segja má, að ef frv. ríkisstj., sem lagt hefur verið fram í hv. Ed., nær fram að ganga, þá sé sú raunverulega hækkun, sem í því felst fram yfir það, sem var fyrir 1960, hækkun, sem nemur um 80 þús. kr., þ.e.a.s. hækkun úr 70 þús. kr. raunverulegu láni upp í 150 þús. kr., eins og nú er heimilað. En ég vil halda líka, að þessi 80 þús. kr. hækkun á íbúð sé um það bil eða nálægt því eins og byggingarkostnaðaraukningin hefur orðið á minni íbúðum, sérstaklega hjá þeim, sem að einhverju leyti hafa getað hjálpað sér sjálfir með því að vinna nokkurn eða verulegan hluta af byggingarframkvæmdunum. Ég held þess vegna, að með þeim úrbótum, sem nást með hækkuninni úr 70 þús. kr., eins og lánveitingarnar raunverulega voru fyrir 1960, og upp í 150 þús. kr., eins og ákveðið er með frv., sem lagt hefur verið fram í hv. Ed., þá sé ráðin veruleg bót á lánsupphæðinni og henni komið í svipað og þó betra horf hlutfallslega en áður var, þannig að hlutfallslega meiri hluti af byggingarkostnaðinum fáist þá lánaður en var fyrir 1960.

Þá er eftir sá hlutinn, sem snýr að vöxtunum. Ég hef enga trú á því, að það dugi, eins og segir í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að lækka A-lánin eða vextina af þeim með einu pennastriki niður í 4%. Það er miklu flóknara mál en hægt sé að gera það svona. Sjálfsagt er það rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að vextirnir eru svo sem ekkert friðhelgir, og það hefur oft verið breytt vöxtum í þessu landi. En hitt er annað mál, að ég ætla, að það sé ófrávíkjanleg regla, að þegar menn hafa keypt skuldabréf með ákveðnum vöxtum, þá sé það skoðað sem samningur við viðkomandi aðila, sem skuldabréfið gefur út, og því slegið föstu, að meðan vaxtabréfið er ógreitt upp, þá skuli vextirnir vera eins og í skuldabréfinu segir. Það séu beinlínis brigð eða svik af hálfu annars samningsaðilans, ef vöxtunum er breytt. Og það þykir aldrei góð regla í viðskiptum, þegar annar aðilinn leitast við að svíkja hinn þrátt fyrir gerða samninga. (Gripið fram í.) Ja, jafnvel þótt svik séu force majeure, þá eru þau samt ekki góð. En ég vildi líka segja í þessu sambandi: Hvernig skyldu menn líta á það á eftir að kaupa skuldabréf eins og þessi, ef það hefði verið beitt þeirri aðferð að lækka vextina á samningstímabilinu svo og svo? Ég hygg, að menn mundu verða tortryggnir og leita heldur inn í einhverja aðra farvegi með sína fjármuni, sem þeir vildu geyma og ávaxta, heldur en kaupa bréf, þar sem vextirnir hefðu verið sviknir fyrir stuttu, svo að ég held, að það sé hreinlega um ekkert annað að gera en það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan, að ef vöxtunum verður breytt, þá verður ríkissjóður að gera svo vel að hlaupa í skarðið og borga mismuninn. Og það er miklu stærra fyrirtæki en menn kannske gera sér grein fyrir og um hærri upphæðir að ræða en ríkissjóður hefur möguleika til þess að taka á sig, nema með því að afla verulega mikilla tekna á móti.

Út af vöxtunum vil ég líka segja það, að sú vaxtahækkun, sem ákveðin var í sambandi við gengislækkunina í ársbyrjun 1960, var tímabundin, eða réttara sagt, hún var ekki hugsuð sem varanleg. Hún var hugsuð sem einn liður í því kerfi, sem verið var að reyna að byggja upp til þess að koma fjármálum þjóðarinnar á viðunandi grundvöll, og það var gengið út frá því strax í upphafi, að þegar aðstæður væru orðnar slíkar, að mögulegt væri að lækka vextina, þá yrði það gert. Og það var líka gert í ársbyrjun 1961. Þá voru vextirnir lækkaðir nokkuð eða í flestum tilfellum um helming þess, sem hækkunin nam. Og þannig voru hjá húsnæðismálastjórn, sem hafði hækkað sína vexti úr 7% upp í 9%, vextir lækkaðir úr 9 og niður í 8 og með þeim bakþanka að halda áfram lækkuninni, þegar tækifæri gæfist til. Og ég vildi ætla, að með þeim árangri, sem náðst hefur, þá sé sá dagur ekki mjög langt undan, að frekari vaxtalækkun verði möguleg.

Ég held þess vegna, að ef einhver skynsamlegur árangur á að nást af þessu starfi og hægt á að vera að greiða fyrir húsbyggjendum eins og mögulegt er, þá verði að fara aðrar leiðir en gert er ráð fyrir í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Enn fremur vildi ég undirstrika það, að það er svo sem ekkert einsdæmi, að byggingarkostnaður hafi hækkað. Hann hefur vissulega hækkað meira á árunum 1957 og 1958 en á hinum þrem síðustu, eins og ég hef leitt rök að, og það var ekki talið, að heimurinn væri að farast þá, þó að þessi hækkun ætti sér stað, og ekki hlaupið til að gera neinar sérstakar ráðstafanir, eða ég minnist þess ekki. Og í þriðja lagi vil ég halda því fram, að það geti verið sérstakar ástæður til þess, að nokkur samdráttur hefur orðið á nýbyggingum. Menn telja sig ekki eins nauðbeygða til að festa fé sitt nú eins og áður, vegna þess að það er talið tryggara og fullt eins góð ávöxtun og húsbyggingar að leggja það í banka. — Ég var, eins og ég sagði í upphafi, ekki undir það búinn sérstaklega að ræða þetta mál og mundi ekki hafa gert það nema að gefnu tilefni.